Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugleiðing trúleysingja

Ef tal berst að trúmálum og viðkomandi segist trúa á yfirnáttúrulega veru sem býr allsstaðar og hvergi, hefur öll ráð í hendi sér og stjórnar öllu lífi og dauða og hægt sé að hafa áhrif á ákvarðanir hennar með bænum og skrúði þykir það eðlilegasti hlutur og ekkert þarf að rökstyðja það frekar eða svara fleiru um það. Ef viðkomandi segist trúa á álfa og huldufólk eða hvað annað þykir það eðlilegt og því þarf ekki að ræða það frekar.

En ef maður segist hins vegar ekki trúa á guði og yfirnáttúrulega hluti kemur oft hik á viðmælandann, svo spurningar-, vandlætingar- og óttasvipur. Að endingu þarf að rökstyðja all ítarlega hvers vegna og hvenær og viðmælandi ber í brjósti sér ótta um að úti sé um greyið sem nú hljóti að vera orðin siðlaus stjórnleysingi.

Ég tilheyri þeim hópi sem er trúlaus. Það er að segja ég trúi ekki á yfirnáttúruleg fyrirbrigði eins og fljúgandi alvitra guði, guði almennt eða aðra hjátrú og hindurvitni. Sem skírður og fermdur drengur og alinn upp á hefðarkristnu heimili var þetta samt ekki sjálfsögð uppgötvun hvað þá sjálfsögð ákvörðun.

Þetta var hins vegar frekar einföld ákvörðun eftir því sem ég eltist. Ég aflaði mér meiri upplýsinga og velti betur fyrir mér stórum spurningum um lífið og tilveruna. Eftir því sem ég las meira um heimspeki, einstaka trúarbrögð, trúarbrögð almennt og sögu þeirra varð mér æ betur ljóst að það væri algjörlega útilokað að þetta væri annað en tilbúningur mannanna. Áköf leit fjörugs ímyndunarafls að skýringum á hlutum sem fólk skildi ekki og tilbúnar skýringar á þeim sem svo þróuðust og urðu einnig hentugt mannstjórnunartæki valdaafla yfir fjöldanum sem fremur kynti undir ruglið en hitt.

Mér finnst það ákaflega skrítið árið 2009, á þessum tímum upplýsinga, þekkingar og vísinda að þurfa að rökstyðja sérstaklega trúleysi mitt meðan hverskonar trú þykir “eðlileg”. Jafnvel þó aðeins um 45% þjóðarinnar séu kristnir - en stærsti hlutinn sennilega blanda af hefðarkristnum trúlitlum spíritistum - þá sé það frekar fréttnæmt ef maður segist trúlaus á yfirnáttúruleg fyrirbrigði en hitt að maður trúi á hvað sem er.

Það virðist með öðrum orðum eðlilegt norm að trúa á Íslandi, skiptir engu máli á hvað. Inngróið af aldainnrætingu og hefðum. Guð, guði, stokka og steina, álfa og huldufólk, spákonur og kuklara en um leið og maður setur spurningarmerki við það allt og vill fá sannanir eða haldbær rök þá er maður ekki bara trúleysingi heldur líka varhugaverður og öfgasinnaður!

Já það er margt skrítið í þessari veröld.

Sigurður Ólafsson 18.01.2009
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


jakob - 19/01/09 23:49 #

Áhugaverðar pælingar. Mér finnst skondið að ég þurfi yfirleitt að verja trú mína fyrir þeim sem ekki trúa. Ætli þetta fari ekki eftir því hverja maður umgengst eða hversu óhræddur maður er að tala um sínar eigin skoðanir. Umburðarlyndi er auðvitað lykillinn að því að komast yfir svona viðbrögð.

Það skiptir mig litlu máli hvort fólk sé trúlaust eða ekki. Hinsvegar fer það dálítið í taugarnar á mér þegar trúlausir í skrifum sínum tala eins og allir trúaðir hugsi eins. Til dæmis get ég sagt að þessi guð sem þú trúir ekki á trúi ég ekki heldur á, enda frekar barnaleg lýsing á Guði (með fullri virðingu :).

Mér finnst að einstaklingur sem lítur á sjálfan sig sem svona uppljómaðan ætti að reyna að meta trúaða sem einstaklinga með mismunandi sýn á heiminn heldur en sem blinda hjörð sem ekki kann að hugsa, þrátt fyrir þá reynslu sem hann kann að hafa upplifað.

bestu kveðjur


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 20/01/09 01:12 #

Hvaða guð trúir þú á, Jakob?

Trúir þú ekki á almáttuga, alltumlykjandi, yfirnáttúrulega veru sem hægt er að hafa áhrif á með bænum?

Ef ekki, þá trúir þú væntanlega ekki á guð biblíunnar.


Sigurður Ólafsson (meðlimur í Vantrú) - 20/01/09 11:52 #

Sæll Jakob. Mig minnir að um þrjú þúsund guðum hafi verið lýst í gegn um tíðina og mér dettur ekki til hugar að allir sem á þá hafa trúað hugsi eins eða séu eins. Sá af þeim ca. þrjúþúsund sem ég tók dæmi af er sá guð sem fjallað er um í biblíu kristinna. Veit ekki betur en hann lúti ekki almennum lögmálum náttúrunar og sé því yfirnáttúrulegur. Einnig er það viðtekin skoðun þeirra sem á hann trúa að hann sé alltumlykjandi og allstaðar í einu, samanber til dæmis bænina vinsælu, “Vertu nú yfir og allt um kring…” Svo hefur mér skilist að hann hafi öll ráð í hendi sér og mögulegt sé að hafa áhrif á stjórnun hans með bænum. Allavega eru mjög víða glæsibyggingar sem ætlaðar eru meðal annars til bæna og tilbeiðslu á þennan sama guð og varla er öll sú fyrirhöfn nema í þeirri von og trú að hún skili árangri.

Varðandi það að sýn mín á þennan guð sé barnaleg finnst mér engin móðgun. Börn eru aldeilis hvorki vitlaus né heimsk. Þau hafa til að bera opinn huga, forvitni og brennandi áhuga á að læra og skilja. Það er ekki fyrr en seinna þegar búið er að taka frá þeim hæfileikann til að undrast, skilja og spyrja og í staðinn heilaþvo þau með ranghugmyndum og endanlegum svörum sem mörg hver verða „barnaleg“ í þeirri merkingu sem mér sýnist þú leggja í það orð, með fullri virðingu :)

Það er misskilningur ef þú heldur að með hugleiðingum mínum sé ég að ráðast á mismunandi sýn einstaklinga á heiminn eða trú á þennann guð umfram aðra guði eða álfa og tröll. Ég er aðeins að lýsa þeirri reynslu minni, sem mér finnst furðuleg, að í því upplýsta samfélagi sem við lifum í dag séu þeir sem segjast trúlausir litnir hornauga umfram aðra og frekar látnir rökstyðja lífsskoðanir sínar en hinir sem trúa á guði eða eitthvað annað og ég ber fulla virðingu og umburðarlyndi fyrir.

Um mig persónulega sem ljómandi einstakling þræti ég ekki enda umvafinn fullt af fólki, kunningjum, vinum, ættingjum og fjölskyldu sem ljóma ekki síður en ég og hafa víðtæka reynslu og upplifun af lífinu. Það er gríðarlega gott fólk sem ég lít upp til, trúað, trúlítið og einnig trúlaust.

Bestu kveðjur.


jakob - 07/02/09 02:53 #

Sælir aftur.

Takk fyrir gott svar Sigurður. Í greininni talar þú ekki mikið um Guð þannig að ég rauninni gerði ráð fyrir því að þú værir að lýsa sama Guði og líklega flestir trúleysingjar gera og jú margir kristnir líka. Það er þessi anhtro útgáfa af Guði sem skeggjuðum karli í skýjunum sem lætur tilfinningasveiflurnar fara með sig. Þú mátt leiðrétta mig ef þetta er rangt. Það að kalla þetta barnalegt snýst ekki um að gera lítið úr börnum eða þeirra hugsunarhætti en það er staðreynd að börn hugsa öðruvísi en fullorðnir. Þessi hugsun einkennist af beintúlkun á absract hugtökum og getur það verið mjög krúttlegt hjá börnum en hjá fullorðnum, eins og sagan sannar, getur það beinlínis orðið hættulegt.

Ég er hinsvegar algjörlega sammála því sem þú segir um börnin, þess vegna finnst mér ég líka mjög heppinn að fylgja trúarbrögðum þar sem eitt af lögum þess er sjálfstæð leit að sannleikanum og er beinlínis bannað að fylgja blint trúarskoðunum annarra. Og ef það er eitthvað sem ég hef ekki þá eru það endanleg svör, jah ekki fyrir aðra að minnsta kosti þeir verða að finna þau sjálf. Það sem ég hef hinsvegar er eitthvað sem ég elska og trúi á og býð þeim sem hafa áhuga að skoða, ef það hentar þeim ekki... þá það :)

Ég held að ég hafi kannski verið aðeins þreyttur þegar ég skrifaði síðustu athugasemd mína því það var nú ekki ætlunin að saka þig um að ráðast á trú eða neitt slíkt. Var mun fremur að viðra smá pirring yfir því að flestir trúlausir sem ég tala við eru yfirleitt búinn að ákveða hvað ég trúi á án þess nokkurn tímann að spyrja mig. Það finnst engum gott að láta leggja sér orð í munn og ætlaði ég ekki heldur að gera það við þig.

Ég er þó ekki alveg sammála að sá skilningur sem til dæmis sumir Kristnir leggja í Guð sé endilega sú sem Biblían sé að koma á framfæri en það er auðvitað bara mín skoðun.

Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í skilning minn á Guði hér einfaldlega vegna þess að ég er ekki viss hversu áhugasamir menn eru að heyra það en fyrst Baldvin spurði skal ég gera stutta grein fyrir mínum skilningi sem byggður er á ritum bahá'í trúarinnar.

Númer eitt er það að Guð er hafin ofar skilningi manna á sama hátt og smiður er hafin ofar skilningi t.d. borðsins sem hann smíðaði. Það er stigsmunur á þessu tvennu. Þess vegna getum við aldrei fullyrt neitt samkvæmt okkar eigin skilningi sem sannleika um Guð. Hinsvegar náum við ákveðnum skilningi á Guði gegnum boðbera sem hann sendir mönnunum. Þessir boðberar virka sem tærir speglar sem endurspegla dýrð Guðs. Maður gæti litið á spegilinn og sagt þetta er Sólin en þó jafnframt á sama tíma áttað sig á því að Sólin er ekki búin að stíga niður frá himni heldur er þetta endurspeglun. Guð er óháður sköpun sinni en við þurfum á Guði að halda. Þess vegna höfum við ekki ,,áhrif á Guð" með bænum okkar heldur svarar hann bænum af miskunn og ást. Margir eiga erfitt með því að tengja sig Guði vegna fyrirfram ákveðinna hugmynda um hann, svo sem að Guð sé reiður og stjórnsamur og þrái athygli okkar. Ef maður áttar sig á því að Guð er hafin ofar öllum efnislegum eigindum og eiginleikum þá sjáum við að það hlýtur að vera önnur ástæða fyrir því að Guð er birtur með þessum hætti í sumum trúarritum. Ég trúi því að það sé vegna þess að mönnum er kennt í samræmi við getu þeirra til að skilja, eins og börnum í öðrum og níunda bekk hafa ólíkar þarfir þá höfðu menn fyrir fjögur þúsund árum aðrar þarfir en þeir fyrir tvö þúsund og eins höfum við í dag enn aðrar þarfir. Afhverju er Guð að setja sig í sambandi við manninn? Guð er skaparinn og maðurinn er sköpunin, við vorum sköpuð í Guðs ímynd, þ.e. við erum andlegar verur með andlegar þarfir og eðli. En við höfum líka þennan efnislega líkama sem hefur efnislegar langanir og eðli og eins og börn þurfa aðgæslu og leiðbeiningu þarf maðurinn sömuleiðis reglulega á að halda andlega endurnýjun til þess að hann megi taka næsta skref í þroska sínum.

,,Allir menn hafa verið skapaðir til að stuðla að síframsækinni siðmenningu."

Það að trúa á Guð og tilbiðja snýst, fyrir mér, ekki um að fylgja blint orðum sem ég skil ekki heldur þvert öfugt að kanna allt, sjá með mínum eigin augum, að uppfylla tilgang lífs míns og öðlast hamingju í því að líf mitt sé varið í þjónust við Guð og menn, með því að gera það sem gerir mig hamingjusaman og jafnframt bætir kannski heiminn að einhverju marki. Atóm er atóm og til að breyta heiminum byrjar maður á smæstu einingunni, manni sjálfum.

Kærar kveðjur, Jakob


Þundur Freyr - 07/02/09 11:03 #

Jakob skrifar:

"Númer eitt er það að Guð er hafin ofar skilningi manna..."

"Þess vegna höfum við ekki ,,áhrif á Guð" með bænum okkar heldur svarar hann bænum af miskunn og ást."

Þú segir að guð sé órannsakanlegur, síðan gerir þú honum upp persónuleikaeinkenni eins og að hann sé miskunsamur.

Ef hann væri þessi loving guð sem þú heldur staðfastlega fram að hann sé, þá þyrfti fólk varla að vera að biðja hann um miskun daginn út og daginn inn.

Ebola er skrítin leið til þess að segja "æ lov jú"


jakob - 08/02/09 06:23 #

Sæll Freyr,

Eins og ég sagði þá ætlaði ég ekki að fara mjög djúpt í minn skilning á Guði. En þetta með að vera órannsakanlegur en jafnframt verið uppspretta þessarra eiginleika útskýrist aftur með líkingunni með sólina og geisla hennar. Við getum aldrei, hversu mikið sem við reyndum, komist í návígi við sólina. Við myndum einfaldlega brenna upp. Þetta er stigsmunurinn. Hinsvegar getum við fundið fyrir geislum sólarinnar á húð okkar og séð áhrif hennar á náttúruna. Sem sagt kjarni Guðs er órannsakanlegur en við "kynnumst" Guði í Gegnum geisla hans sem eru veittir með leiðsögn boðberanna.

Ef þér langar að skoða þessar pælingar betur mæli ég með bókinni Kitab-i-Aqdas þú getur halað henni frítt niður af bahai.is eða keypt hana á öldugötu 2 101 reykjavík. Sjálfstæð leit er best.


jakob - 08/02/09 06:35 #

Hæ sorrí mismælti mig. Þetta átti að vera Kitab-i-Íqan eða Bók fullvissunar á íslensku. Hún er ein af aðalbókum bahá'í trúarinnar og er ekki erfið lesningar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.