Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Menningarhúsið í Mosfellsbæ

Á síðasta ári fréttum við af því að byggja ætti Menningarhús í Mosfellsbæ. Það vakti athygli okkar að kirkjan átti að koma að þessu húsi, hluti þess á að fara undir starfssemi hennar. Það kemur eflaust ekki á óvart að okkur þykir það gagnrýnivert af ýmsum ástæðum. Við gerðum þó ráð fyrir að ríkiskirkjufólk væri ánægt með þetta fyrirkomulag.

Séra Kristján Valur Ingólfsson getur ekki hugsað sér að deila húsnæði með öðrum. Honum finnst hugmyndin satt að segja út í hött. Sjálfum finnst mér algjörlega óþarft að troða trúfélögum í menningarmiðstöð en ef eitt trúfélag á að fá aðstöðu finnst mér eðlilegt að öll lífsskoðunarfélög fái aðstöðu.

Það liggur fyrir tillaga um að ekki skuli byggð venjuleg kirkja í Mosfellsbæ heldur menningarhús í samvinnu bæjarfélagsins og safnaðarins. Það er eins konar fjölnotahús. Það er næstum því eins og að ætla sér að byggja helgidóm fyrir ýmisskonar trúarbrögð, eins og hugmyndin var með endurgerð Fossvogskapellu sem þarf að mæta þörfum hinna ólíku trúarbragða við andlát og útför. Það gengur samt misvel að þóknast þeim.

Margir hafa líka séð þess konar kapellur á stórum alþjóðaflugvöllum. Þar hefur þá verið tekin sú ákvörðun að taka skuli tillit til þess í svo stóru samhengi að mjög margir flugfarþegar eru bæði flughræddir og trúaðir, en tilheyra mismunandi trúarbrögðum. Þess vegna þarf að finna þeim stað til tilbeiðslu. Einn stað fyrir alla.

Hver er niðurstaðan: Þangað leitar varla nokkur maður, vegna þess að trúaður maður á auðveldara með að biðjast fyrir í einrúmi án nokkurs sérstaks rýmis heldur en í alrými allra trúarbragða, Það gefur svona álíka mikinn frið í sálina eins og að vera ástfanginn í öllum konum í einu.

Nei, Kristján Valur getur ekki hugsað sér að biðja bænirnar sínar í rými sem ekki er sérstaklega frátekið fyrir kristna. Kristilegt umburðarlyndi er merkilegt fyrirbæri.

Vantrú mælir með því að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hlusti á séra Kristján Val og úthýsi kirkjunni úr menningarhúsinu væntanlega. Slíkt hús á að vera fyrir alla óháð trúarskoðunum, ekki bara kristnar frekjudollur.

Matthías Ásgeirsson 05.01.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Kristján Hrannar Pálsson - 05/01/09 23:18 #

Þetta minnir mig alltaf á rifrildi trúarleiðtoganna í Sögunni af Pí, þar sem Pí tekur Múhameðstrú, kristni og hindúasið (að mig minnir), og enginn þeirra gat samþykkt að Pí gæti farið eftir boðskap bæði Jesú, Múhameðs og Hindú-guða heldur þyrfti að einskorða sig við einn sið. Svipaða frekju má sjá hjá nafna mínum.

(Annars er að mínu mati ein áhugaverðustu rökin fyrir tilvist æðri máttar eða trúarbragða að finna í þeirri bók. Er á dagskrá Vantrúar að skrifa grein um þá bók? Mér fyndist slík grein vera þarft innlegg í trúarumræðu hér á landi, ekki síst sakir vinsælda bókarinnar.)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/01/09 23:29 #

Ég veit ekki hvort það er á dagskrá Vantrúar, má ekki bjóða þér að skrifa grein um hana? :-)

Ég bloggaði um bókina eftir að ég las hana.


Kristján Hrannar Pálsson - 05/01/09 23:36 #

Það kæmi vel til greina fyrir minn part að skrifa gagnrýni um þá bók. (Nú má sjálfsagt síðustjóri hér færa þessa umræðu á spjallið, ég leyfi mér þó að skrifa þessa athugasemd hér.) Enn fremur gæti ég hugsað mér að fjalla um rökin sem hníga að samsetningu alheimsins og þau örlitlu frávik sem þyrfti til að okkar náttúrulögmál gengju engan veginn upp, einkum og sér hvað kviknun lífs varðar. Hvort tveggja finnst mér bestu rökin fyrir e-s konar æðri mætti.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 06/01/09 07:31 #

Eru þessi viðbrögð ekki bara eðlileg og í samræmi við kristna trú? Ástin og fyrirgefningin nær aðeins til með-krysslinga, hinir munu jú brenna í helvíti til eilífðar. Af hverju að eyða plássi og tíma með tilvonandi steikarpinnum?

Matti, gagnrýni þín á Pí bókinni var góð, ég las hana fyrir margt löngu og komst að sömu niðurstöðu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.