Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bréf til Gunnars Jóhannessonar

Í gær sendi ég ríkiskirkjuprestinum Gunnari Jóhannessyni tölvupóst. Ég á ekki von á því að hann svari mér, hann hefur ekki gert það hingað til. Hérna er pósturinn:

Sæll Gunnar Jóhannesson

Ég rakst rétt áðan á ummæli í grein [1] sem þú skrifaðir í Morgunblaðinu fyrir um það bil ári síðan. Þar segirðu að „um eða yfir 90% [Íslendinga] aðhyllist kristna trú“. Mér fannst þetta afskaplega undarlegt þar sem þú sagðir þetta í einni predikun þinni: „Ef við gerum það, ef við sviptum Jesú guðdómi sínum, þá fyrirgerum við einnig rétti okkar til að kalla okkur kristin.“[2]

Nú hafa verið gerðar kannanir á trúarhugmyndum Íslendinga. Í tveimur vönduðum rannsóknum sem guðfræðideild Háskóla Íslands sá um var einmitt spurt út í „guðdóm“ Jesú. Í báðum könnununum sögðust rétt undir 45% að Jesús væri „sonur guðs og frelsari“ [3].

Væri þá ekki réttara að segja að um 45% Íslendinga aðhyllist kristna trú?

bestu kveðjur, Hjalti Rúnar Ómarsson

[1] Umburðarlyndi og jafnrétti – til hvers og fyrir hvern? Mogginn 22.01.2008

[2] Hann er upprisinn

[3] Pétur Pétursson og Björn Björnsson, Ritröð guðfræðistofnunar 3. Trúarlíf Íslendinga 1990. Sambærileg könnun var framkvæmd árið 2004

Gunnar hefur svarað í tölvupósti og viðurkennt að það sé mótsögn í málflutningi hans, en í póstinum er tekið fram að hann vilji ekki að vitnað verði í hann. Því hvet ég hann til þess að koma hingað og gera athugasemdir við bréfið svo allir geti séð það.

Hjalti Rúnar Ómarsson 02.01.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 02/01/09 16:08 #

Hérna er svarbréfið mitt til Gunnars, vonandi kemur hann hingað og tekur þátt í opnum umræðum. Hann er einmitt sá prestur Þjóðkirkjunnar sem hefur mest rætt um trúmál núna nýlega:

Sæll aftur Gunnar Jóhannesson

Gleðilegt ár.

Ég er sammála því að skráning utan trúfélaga eða í Þjóðkirkjuna segir okkur ekki hvort viðkomandi sé kristinnar trúar eða ekki.

En ertu ekki sammála því að ef könnunin sem guðfræðideild HÍ framkvæmdi er marktæk, að hér er rétt að tala um ~45% Íslendinga sem kristinnar trúar?

Annars var ég hvattur til að birta bréfið mitt á Vantrú og ef þú vilt ræða þetta mál í "dagsljósi" þá hvet ég þig til þess að koma með athugasemdir þar.

Svo nenni ég ekki að lesa þessa grein, enda hefur þú hingað til ekki svarað þeim greinum mínum þar sem ég svara þér. Ef þú svaraðir þeim, þá væri ég alveg til í að ræða hvaða grein sem er:

Séra Gunnar Jóhannesson í svaðinu Hlýðið foringjanum Helvítis boðskapur kirkjunnar

bestu kveðjur, Hjalti Rúnar Ómarsson


Gísli Gunnarsson - 04/01/09 03:34 #

Séra Gunnar Jóhannesson (f. 1977) að Hofsósi er nýorðinn faðir; það er í þriðja sinn. Auk þess eru þetta mestu annatímar presta og í Skagafirði eru nú miklir prestafundir um endurskipulagningu prestumdæma. Reiknaðu því ekki með svari frá Gunnari í bráð.

Gísli Gunnarsson


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/01/09 15:54 #

"Séra Gunnar Jóhannesson (f. 1977) að Hofsósi" hefur nú þegar svarað öðrum tölvupóstinum. Síðan þarf nú ekki margar mínútur til þess að skrifa: "Já, samkvæmt þessum ummælum mínum og trúarlífskönnununum er rétt að segja að ~45% Íslendinga séu kristnir."


Jón Valur Jensson - 09/01/09 04:10 #

Vitaskuld er það mjög athyglisvert, að á þeim "frjálslyndis-" og upplausnartímum í andlegum efnum, sem við höfum upplifað síðasta aldarfjórðung og lengur, skuli eindregin kristin játning eins og: "Jesús er sonur Guðs og frelsari“ njóta fylgis 45% landsmanna. Sumir hafa aðra trú en kristna, fáeinir er meðvitaðir og eindregnir vantrúarmenn, mjög margir eru ýmist óvissir hvað Guð eða guði varðar, efahyggjumenn (skeptíkerar) eða eivitahyggjumenn (agnostíkerar), en til viðbótar þessum 45% hygg ég að séu allmargir sem telji sjálfa sig kristna með einhverjum hætti, enda man ég ekki betur en ýmsir valkostir hafi verið gefnir, þegar spurt var í þessum könnunum um trúarafstöðu manna, og til eru aðrar jákvæðar "játningar" um Krist, sem sumir telja kannski betur eiga við um sínar áherzlur, þannig að það mætti segja mér, að þeir, sem meðvitað telja sig kristna hér á landi (þ.m.t. sumir sem teldust slappir í trúarjátningunni), séu naumast færri en um 55–60% landsmanna. Það mætti þá kallast furðugott eftir allar áherzlur fjölmiðla og afþreyingarstöðva á allt annað en kristna lífssýn. Vitaskuld blæðir ykkur þetta Vantrúarmönnum! Gangi ykkur og lesendum öllum vel á hugsana- og endurmatsbrautinni á nýju ári.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/01/09 14:20 #

þannig að það mætti segja mér, að þeir, sem meðvitað telja sig kristna hér á landi (þ.m.t. sumir sem teldust slappir í trúarjátningunni), séu naumast færri en um 55–60% landsmanna. Það mætti þá kallast furðugott eftir allar áherzlur fjölmiðla og afþreyingarstöðva á allt annað en kristna lífssýn. Vitaskuld blæðir ykkur þetta Vantrúarmönnum!

Jón Valur, ef 40% landsmanna eru ekki kristnir fagna ég því. Af hverju í ósköpunum ættum við að vera fúlir útaf því? Vanalega tala stjórnmálamenn og prestar um að 95% íslendinga séu kristnir og því megi ríkiskirkjan vaða yfir allt og alla. Ég hef hingað til talað um að a.m.k. 20% þjóðarinnar séu trúleysingjar (eindregnir vantrúarmenn, eivitahyggjumenn og efahyggjumennu)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/01/09 00:44 #

Ég held að Jón Valur haldi að við höldum að málstaður okkar verði sterkari ef við værum með meirihlutaskoðun. Slíkt væri bara vitleysa. Það er hins vegar óþolandi þegar reynt er að ljúga fjölda okkar niður til að réttlæta að við sem hópur séu hunsuð. En varðandi prinsip og mannréttindi skiptir fjöldinn náttúrulega engu máli. Af fyrri samskiptum mínum við Jón Val grunar mig að hann skilji það ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.