Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Færum messu Krists

Nú eru einhverjir sniðugir stjörnufræðingar búnir að uppgötva að Jesús hafi fæðst þann 17. júní árið tvö fyrir krist. Þetta segjast þeir hafa fundið út vegna þess að einhver himintunglastaða beint yfir smábænum Betlehem hafi þennan dag rímað við helgisöguna í guðspjallinu.

Fyrir nú utan hvað þetta er fávíslegt, að ætla að vitringarnir hafi getað notað eina stjörnu til að finna út staðsetningu bæjarfélags, þá ber þetta merki um tiltrú á að goðsögnin um fæðingu frelsarans sé sönn, að þetta hafi allt saman gerst í raun og veru.

En látum það vera og segjum sem svo að þessi niðurstaða sé einhvers virði. Þá eru þetta gleðileg tíðindi.

Sannleikurinn er nefnilega sá að ég er hundleiður á að sjá kristna menn þröngva kristmessunni sinni upp á hin heiðnu jól sem ég sjálfur held. Ég myndi glaður vilja sjá hina kristnu færa þessa fæðingarhátíð hálfguðsins síns fram á sumar og losa mig við allt væmna og banala jesúbarnsvælið sem skyggir á gleði sólstöðuhátíðarinnar minnar. Þá get ég líka haft í friði og út af fyrir mig þau tilheyrandi jólatákn sem nú eru þyrnir í augum sumra heimsendaköltleiðtoga kristilegra, s.s. jólasveina og Grýlu. Að auki fengi ég að hafa önnur heiðin tákn í friði, jólatréð, stjörnur, hjörtu og jólaljós. Það hefur verið frekar brjóstumkennanlegt að sjá þetta fólk reyna að stela þessum fyrirbærum og kokka upp lygasögur sem færa þetta allt undir kristindóm. Nýjasti óskapnaðurinn sem ég heyrði um fjallar um að jólatréð sé kristið, því það líti út eins og signingin!

Já, færið þessa hundleiðinlegu kristmessu og losið mig við óviðeigandi jötubarn, englahyski, sálmagaul og önnur vemmilegheit, ásamt viðhangandi boðskap um syndabyrði og náð fyrir sjálfsniðurlægingu og kjökur. Þá geta jólin loksins orðið eins og þau eru dregin upp í ævintýri Dr. Seuss, um Trölla sem stal jólunum, gáskafull, friðsöm, skrautleg og björt jól sannrar gleði og vinarþels - hátíð ljóss og friðar.

Birgir Baldursson 17.12.2008
Flokkað undir: ( Jólin , Kristindómurinn )

Viðbrögð


gimbi - 18/12/08 22:07 #

Já, ég tek sannarlega undir þetta hjá Birgi. Endilega færið allan pakkann þannig að honum líði betur.

Nema hvað!?

Eða er eitthvað annað kjöt á beininu?


FellowRanger - 20/12/08 02:17 #

Finn ég fyrir vott af gremju?

Gott, ég er líka pirraður á þessu. Hlusta á prestinn gaula eitthvað um fæðingu frelsarans sem ekkert gerir og 'vitringana' þrjá sem hefðu betur mátt halda sig heima og koma í veg fyrir þessa vitleysu.

Hvernig lýtur annars signing út?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 20/12/08 12:47 #

Signing skiptist í fjóra parta eins og + og þeir eru: "Í nafni" (upp), "föður" (niður), "sonar" (vinstri) og "heilags anda" (hægri).

Hún skiptist í fernt því einn og ódeilanlegur guð skiptist í þrjá algjörlega aðskiljanlega guði.

Ef þú tekur efstu þrjá partana í + mynda þeir þríhyrning sem vísar hvorki til hægri né vinstri heldur beint upp til "Í nafni".

"It all makes perfect sense."


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/12/08 18:56 #

Séra Svavar Alfreð, sem nýlega gerðist sekur um siðferðisbrot, "svarar" þessari grein í bloggfærslu.


Árni Árnason - 21/12/08 22:19 #

Þetta með grenitréð og signinguna er náttúrulega enn ein perlan. Þetta uppfyllir hinar dæmigerðu forsendur kristinnar helgisagnar, sem eru: Því fjarstæðukenndara því betra.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.