Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hefðbundin jól

Jólatré á AusturvelliÞar sem ég er bæði fæddur og uppalinn á kristnu íslensku heimili hélt ég mín jólahátíðarhöld samkvæmt kristinni venju fyrstu átján ár ævi minnar eða þar til ég flutti úr foreldrahúsum og fór að halda mín eigin jól sem ég hef gert síðan. Í helstu atriðum var það þannig að fram að jólum stunduðu bæði foreldrar og börn vinnu og nám, skreyttu eins og siður var og undirbjuggu með bakstri og þrifum.

Á aðfangadag voru svo borin út jólakort og gjafir og stússast í mat meðan við bræður og síðar systur nutum barnaefnisins í sjónvarpinu sem voru fátíð fríðindi á árum þegar sjónvarpið var í fríi á fimmtudögum og á sumrin og barnaefni einkenndist aðalega af Húsinu á sléttunni og Stundinni okkar á sunnudögum seinnipart.

Svo var sest að hátíðaborði klukkan sex, borðaður gómsætur matur sem mikið hafði verið nostrað við og lagt í og var venjulega tekin óvenjulega langur tími borðhaldið sem einkenndist af afslöppun, ánægju og þakklæti fyrir að deila því með þeim sem maður unni mest og voru manni næstir.

Undir borðahaldinu var svo venjulega útvarpsmessan látin hljóma í bakgrunni en ekki lögð áhersla á að hlusta á hana eða boðskap hennar heldur var hún einfaldlega hluti af hefðinnni.Eftir mat og möndlugraut var svo gengið frá í eldhúsi, allt gert hreint og fínt svo ekki byði vinna þar seinna kvölds og að því loknu var loksins farið í að taka upp gjafir.

Restin af kvöldinu var svo notaður í spjall og rólegheit með fjölskyldunni, oft kíktu ættingjar í heimsókn og svo var endað á kvöldsnarli og lestri langt fram á nótt. Næstu dagar einkenndust svo af rólegheitum og samveru fjölskyldunnar, lestur, spjall, spil, heimsóknir og önnur vellíðan en ekki meira minnst á kirkjur eða messur.

Þegar fór að líða að unglingsárum fór svo mamma að syngja með kirkjukórnum og riðlaðist þá jólahaldið aðeins. Foreldrar og systur fóru þá að fara í sexmessu á aðfangadag en við bræður harðneituðum að fara til kirkju svo við vorum þá í staðinn settir í að klára sallatið, leggja á borðið, halda sósunni heitri, blanda malt og appelsín og gera það sem þurfti svo flest væri klárt til matar þegar heimilisfólk kæmi úr messu.

Þá tók við hin sama venja og áður var lýst nema nú var messan búinn og tók ég fljótt eftir að ég saknaði þess ekki að borða án hennar.Annað var eins og áður utan þess að mamma hvarf alltaf ca. klukkutíma á jóladag til að fara “einhvert” að syngja sem er það skemmtilegasta sem hún gerir.

Þegar ég svo keypti mér íbúð og flutti að heiman gátum ég og unnusta mín ekki gert upp á milli fólksins okkar svo við ákváðum að halda okkar eigin aðfangadag saman. Eftir skoðun var jólahald hjá okkar fjöskyldum mjög svipað og við tókum það sem okkur fannst best frá hvoru heimil og sköpuðum okkar aðfangadagskvöld sem varð svolítið einmanalegt í fyrstu en bætti fljótlega úr með börnum.Frá fermingu hafði ég þróast nokkuð örugglega frá kristinni trú í átt til trúleysis og var mín heittelskaða á svipaðri skoðun.

Þegar við höfðum komið okkur saman um okkar jólahald og þróað það í nokkur ár fór ég að hugsa um að fyrst ég væri orðin sannfærður trúleysingi þá héldi ég jólin í raun eingöngu sem þá sólstöðuhátíð sem jólin hefðu verið áður en kristnin "rændi" þeim. Þannig nyti ég þeirra helst sem fjölskyldugleðihátíðar sem ætti ekkert skylt við trúarbrögð. Ég varð þá að gera þær breytingar sem þyrftu til að mín jól gætu ekki á neinn hátt talist kristin eða trúarleg hátíð. Og hvað þurfti ég að gera til þess?

Þegar ég fór að spá í hlutunum þá þurfti ég í raun ekki að breyta nokkrum einasta hlut frá mínu æskuheimili. Messan var löngu farin og komin falleg og róleg almenn tónlist í staðinn. Hvergi nokkur staðar merki um kristni í skreytingum, undirbúningi, táknum eða framkvæmd jólanna og jafnvel Jésúmyndin sem hékk vanalega á ganginum á mínu æskuheimili var tekin niður í desember til að rýma til fyrir hlutlausu jólaskrauti.

Þegar allt kom til alls voru kristnu jólin á mínu æskuheimili nánast algjörlega hlutlaus sólstöðuhátíð sem einkenndust fyrst og fremst af því að fjölskyldan kom saman og naut samveru í nokkra daga með góðum mat og ýmis konar félagslegri afþreyingu sem hafði ekkert með trúmál að gera. Aðeins mörg þúsund ára hefð, að gera sér glaðan dag þegar skammdegið nær hámarki, daginn tekur að lengja aftur og hið flókna samspil náttúrunnar fer í rólegheitum að vakna úr dái til sumars að ný.

Gleðileg Jól.

Sigurður Ólafsson 15.12.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja , Jólin )

Viðbrögð


Kristinn Theódórsson - 15/12/08 11:21 #

Þetta er ágætur pistill.

Það örlar vart fyrir kristni í jólhaldi neinna sem ég þekki. Það er helst að eitthvert kirkjugaul ómi í útvarpi, sem mér þykir allt í lagi, hátíðlegt og afslappað.

Ég veit ekki hvað við erum að kalla okkur kristna þjóð. Kristni er álíka mikil trú þjóðarnnar og glíma er íþrótt hennar. Þetta er innantómt og merkingarlaust hjal.

Við erum sú þjóð heimsins sem gengur lengst í að hafna sköpunarsögu trúarbragða. Vitaskuld þarf fólk ekki að vera bókstafstrúar til að kalla sig kristið, en þetta sýnir nú samt hvað þetta er mikið aukaatriði fyrir okkur.

Ég vildi óska þess að jólahátíðamenningin hér heima snérist meira um samveru og huggulegheit en öfgadýrar jólaggjafir, hreinlæti og Innlit/útlit mont.

Það er verst að krstnin er búin að stela nafninu jól, en jól er nafnið á sólstöðuhátíðinni eftir því sem mér skilst og því ættu menn ekki að þurfa að aðgreina sig með því að nota orðið sólstöðuhátíð í stað jóla ef fólk væri almennt upplýst um hræsnina sem felst í þeirri nafngift.

Það skipti þó engu máli, höfum það bara kósý um jólin og leyfum hindurvitnunum að vera það sem þau eru.

mbk,


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/12/08 12:02 #

Kristni hefur mistekist að stela jólunum. Orðið sjálft er hundheiðið án nokkurrar vísunar í himnadraugana. Grein Sigurðar sýnir þetta best.

Friðrik Ó. Schram, prestur "Kristskirkju", skrifaði ágæta grein um uppruna jólanna og þar segir m.a.:

Rómversk kaþólska kirkjan helgaði smám saman nánast hvern einasta dag ársins minningu einhvers af hinum svokölluðum dýrlingum. Eins var heiðið hátíðarhald á heiðnum trúarlegum hátíðisdögum afnumið og sömu dagar notaðir til að minnast einhvers merkisatburðar í lífi og starfi Krists. Jólin eru skýrasta dæmi um þetta. Þannig hurfu hinar heiðnu hátíðir smám saman og minning þeirra þar með úr hugum fólks og þær féllu nánast í gleymsku. Þannig mótaði kristnin hugarheim fólks og daglegt líf þess æ meir. Þetta var í reynd góð aðferð til að "hertaka hverja hugsun til hlýðni við Krist" eins og segir í 2. Kor.10:5.

Ríkiskirkjuprestar eru ekki jafnheiðarlegir og Friðrik, þótt hann telji greinilega að tilgangurinn helgi meðalið.


FellowRanger - 15/12/08 12:03 #

Gleðileg heiðin jól. Engin kristin-messa hér. :D


Henni - 15/12/08 12:35 #

Ég held ekki upp á neinar hátíðir og er nánast strangtrúaður að því leytinu. Það eina óvenjulega sem ég geri núna í desember er að borða piparkökur með kaffinu eða drekka jólaöl. Ég mun ekki gera neitt sérstakt á aðfangadag né borða eitthvað spes. Kaupi ekki jólagjafir heldur enda ósiður hinn mesti að mér finnst.

En ég get svo sem skilið að veraldlega sinnað fólk vilji gera sér dagamun á þessum árstíma og ekki ætla ég að spilla því.


Jólamær - 15/12/08 13:49 #

Þetta er bara nákvæmlega lýsingin á mínum æskujólum fyrir utan það að mamma var aldrei í kirkjukór. Pabbi var reyndar meðhjálpari prestsins okkar á einhverju tímabili og því var farið til messu, þeir sem nenntu, stundum seint á aðfangadag eftir að gjafir höfðu verið opnaðar.

En þegar heim var komið þá fór eitthvað lítið fyrir hinum kristna boðskap. Eitt sem er algerlega órfjúfanleg hefð um jólin í huga minnar fjölskyldu var t.d. að spila frá sér allt vit, langt fram á nótt. En var það ekki eitthvað sem var syndsamlegt þetta kvöld samkvæmt kristninni?

Skemmtilegust er þó kannski sagan af systur minni sem var sami trúvillingurinn og ég, en eitthvert sinnið fór hún og faldi sig inni í fataskáp til að sleppa undan kirkjuferðinni. Hún var mjög ung að árum þegar þetta var en vissi samt strax þá að þetta átti ekki við hana. Þegar mamma fór svo að telja hausa í kirkjunni (en við vorum svolítið mörg systkinin) þá kom það í ljós að eitt barnið hafði orðið eftir heima!

Þegar ég áttaði mig á því að jólamessan sem foreldrar mínir spiluðu undir borðhaldi var ekki nauðsynleg fyrir jólastemmninguna þá hef ég notið miklu betri tónlistar í staðinn, algerlega að eigin vali og eftir eigin smekk.

Sú tónlist sem ég hlusta á nú verður því á einhvern hátt svo einstaklega tær og falleg því að hún er tákngervingur þess að ég er búin að losa mig endanlega við hina þrúgandi helgislepju stemmningu sem ég taldi of lengi að væri ekki hægt að skilja frá jólunum.

Nú eru jólin aðeins tími fyrir góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Ekkert meira og ekkert minna, enda eru það hin fullkomnu jól í mínum huga.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.