Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Séra Vigfús fer með fleipur

Nú í morgun var viðtal við séra Vigfús Þór Árnason, prest í Grafarvogi í þættinum Í bítið á Bylgjunni. Presturinn vék nokkrum orðum að nýlegum greinaskrifum á vantrúarvefnum en því miður átti hann erfitt með að feta veg sannleikans í þessu máli.

Aðspurður um laun presta sagði hann að þau væru "í svipuðum launaflokki og framhaldsskólakennarar, nær ekki alveg launum skólastjóra." Á vefsíðu KÍ er sameiginleg launatafla fyrir FF og FS (Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda framhaldsskóla), taflan byrjar í 230.216 og nær hæst í 597.662. Skólastjórar fá ekki greidda yfirvinnu, en kennarar geta fengið yfirvinnu þá mánuði á ári sem skólar starfa.

Prestar eru í launatöflu kjararáðs 502 (xls), launaflokki 124 sem gefur 473.549 kr. á mánuði. Síðan fá þeir minnst 15 og mest 24 einingar en hver eining er 6.171 krónur. Föstu launin eru því á bilinu 566 - 603 þúsund krónur. Að auki eru greiðslur fyrir embættisverk, þó ekki liggi fyrir beinar tölur um það þá má gera ráð fyrir um 40 milljónum fyrir fermingar á landsvísu og annað eins fyrir skírnir, giftingar og jarðarfarir. Prestar eru 138 og fá því að jafnaði um 600.000 á ári fyrir embættisverk, eða um 50.000 á mánuði. Loks fá prestar niðurgreitt húsnæði.

Hæst launuðu framhaldsskólakennarar og skólastjórar ná kannski grunnlaunum presta, en að segja að þeir séu í "svipuðum launaflokki og framhaldsskólakennarar" er einfaldlega ósannindi.

Annars vil ég taka fram að ég er í sjálfu sér ekki að segja að þessi laun presta séu of há. Það er útúrsnúningur sem virðist henta í þessari umræðu. Það sem ég er að benda á er að þessi mjög svo góðu laun eru ekki greidd af vinnuveitenda prestanna, Þjóðkirkjunni, heldur af skattborgurum. Um þetta má lesa í nýlegri grein minni.

Séra Vigfús sagði einnig í viðtalinu að 97% Íslendinga tilheyrðu hinni kristnu kirkju. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni eru slétt 90% skráð í alla kristna söfnuði á Íslandi. Enn ein rangfærslan! Svo má auðvitað benda á að samkvæmt skoðanakönnunum sem Þjóðkirkjan hefur sjálf látið gera telur aðeins rétt um helmingur Íslendinga sig vera kristna.

Séra Vigfús talaði um stöðu Þjóðkirkjunnar og þá lægð sem Þjóðkirkjan sé í hlutfallslega sé vegna þess að hingað hafi flust svo margir útlendingar. Þetta er að hluta rétt hjá honum, en skýrir langt í frá þá þróun sem er að eiga sér stað. Á síðasta ári fjölgaði í Þjóðkirkjunni um 227 einstaklinga! Úrsagnir úr þjóðkirkjunni eru að meðaltali fimm á dag allan ársins hring, samtals 1685 á síðasta ári. Meðal barna 15 ára og yngri eru aðeins 83% skráð í Þjóðkirkjuna og meðal barna á fyrsta ári er hlutfallið komið undir 77%.

Ef þróunin er skoðuð frá árinu 1994 þá ætti hlutfall Íslendinga skráðir í Þjóðkirkjuna á síðasta ári að vera um 83 - 84%, en var tæplega 81%. Þennan tveggja prósentustiga mun má skýra með stórauknum innflutningi fólks frá því um 2003. Núna yfirgefa þeir okkur aftur, margir þessara útlendinga, og þá getum við sjálfsagt búist við að sjá hlutfallstöluna nálgast langtímaþróun sína aftur, segjum eftir tvö ár verði hún komin á rétt ról aftur - í 81%.

Þetta er jú málið. Þjóðkirkjan er ekki kirkja þjóðarinnar. En prestarnir fá laun frá þjóðinni. Þeir eru ríkisstarfsmenn sem vinna ekki fyrir þjóðina - einu slíku ríkisstarfsmennirnir sem til eru! Enda réttlæta þeir ekki laun sín út frá því að þeir séu að veita þjóðinni þjónustu. Á vefsíðu Biskupsstofu og í allri umræðu hefur margsinnis verið bent á að launin séu einhvers konar arður af kirkjujörðunum sem kirkjan afhenti ríkinu. Þessi rök ganga ekki upp eins og ég hef bent á í áðurnefndri grein.

Loks má geta þess að samkvæmt viðtalinu virðist séra Vigfús ekki hafa heyrt um grísku rétttrúnaðarkirkjuna né þá rússnesku – og hann virðist halda að Pólverjar og Rússar séu í einhverri grísk-kaþólskri kirkju! Hið rétta er auðvitað að Pólverjar eru flestir í rómversk-kaþólsku kirkjunni en Rússar í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Ef presturinn veit ekki meira um sitt eigið sérfag en þarna kemur í ljós, fyrir hvað þiggur hann þá laun?

Brynjólfur Þorvarðarson 28.10.2008
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 28/10/08 17:42 #

Prestar veigra sér ekki við að hagræða sannleikanum. Sannleikurinn gerir menn nefnilega frjálsa og frelsi þýðir sjálfstæði.

Það er miklu betra að liggja á ríkisspenanum og ljúga sig út úr vandræðum hverju sinni. Velta sér upp úr helsinu gagnvart ríkinu og Mammón. Hvað gerir smáhræsni til þegar maður hefur atvinnu af því að boða stærstu lygina sem menn hafa látið glepjast af, tröllasöguna um guðinn máttuga á himnum?

Almenningur virðist kæra sig kollóttan hvort sem er. Lengi má stóla á sinnuleysið, en ekki endalaust.


Örninn - 28/10/08 22:14 #

Ok ok, nú er ég kennari og var að spá í einu. Ég skal sætta mig við 474þúsund í grunnlaun fyrir mitt starf. Svo fæ ég einingu fyrir hvern nemanda í mínum umsjónarbekk og er ég því með um 600 þúsund á mánuði. Svo þegar bý til próf, fer yfir próf eða verkefni þá fæ ég aukalega greitt fyrir það. Svo ég einnig aukalega greitt fyrir foreldrafundi og þegar ég útskrifa nemendur úr bekknum mínum. Tja, mig grunar að ég gæti náð allt að 800 þúsund í laun á mánuði.

Er það ekki bara sanngjarnt? Á ég það ekki frekar skilið en prestar?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/10/08 22:26 #

Algerlega. Þú ert enda að miðla börnunum þekkingu en ekki hindurvitnum.


Örninn - 28/10/08 22:39 #

Þú mátt alveg trúa því Birgir að ég sem kennari hef verið óhræddur að segja nemendum mínum frá afstöðu minni til handa guvða, miðla, drauga og hverskyns hindurvitan sem um ræðir. Ég segi alltaf: Sannanir takk, þá skal ég kannski trúa.

Nú kenni ég t.d. samfélagsfræði. Þar kom m.a. fram að jörðin sé um 4,6 milljarða ára gömul. Þá heyrðist í einum nemanda mínum: HA? Kristinfræði sagði jörðina 6þúsund ára gamla. Ég svaraði: Hvort finnst þér nú líklegra? Nemandinn svaraði um hæl: Nú auðvitað er jörðin mun eldri en 6þúsund ára, ég trúi samfélagsfræðinni. Þessu samsinntu flestir nemendur í bekknum. Þetta vakti hjá mér mikilli gleði. Enginn áróður af minni hálfu, aðeins miðlaði ég úr kennslubókinni og spurði álits á málefni er nemandinn hóf máls á.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/10/08 23:41 #

Auðvitað þarf að innræta börnunum að meta veruleikann út frá sönnunargögnum og engu öðru.

Það er náttúrlega ekkert annað en sturlun að til skuli vera stétt manna á fljúgandi launum frá ríkinu við að boða rakalaust kjaftæði og rugl eins og ekkert sé sjálfsagðara. Og svo verða þessir kónar móðgaðir þegar maður bendir á geðbilunina í þessu.

Eins og þeir hafi eitthvert efni á því.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 29/10/08 12:10 #

Björgunarsveitarmenn eru líka til þjónustu reiðubúnir allan sólarhringinn, allan ársins hring, en fá ekkert greitt fyrir.

Þeir gera það af góðvildinni einni saman.

Aldrei hef ég séð prest fara út í fárviðri eða grafa fólk úr snjóflóði, enda ekki hlutverk þeirra svo sem og sem betur fer, ég myndi frekar treysta á björgunarsveitarmann en prest til að aðstoða mig ef ég þyrfti á að halda.

Tekjur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar árið 2007 umfram gjöld námu aðeins 3 milljónum króna (770 milljónir í tekjur - 767 milljónir í gjöld). Á sama tíma fékk ríkiskirkjan 5000 milljónir til að gera ekki neitt.

Ég leyfi mér að fullyrða að við höfum meiri þörf fyrir björgunarsveitarmenn heldur en ríkiskirkjuklerka á alltof háum launum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/10/08 14:19 #

En þú mátt ekki gleyma því, Sævar, að prestarnir bjarga sálum, meðan björgunarsveitarmenn bjarga bara heimskum líkömum. ;)


Örninn - 29/10/08 16:44 #

.. er ekki nóg að prestarnir biðji bara fyrir fólkinu sem fast er í snjóflóðinu? Sem og biðji fyrir björgunarsveitinni. Málin reddast eflaust þannig.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 29/10/08 16:49 #

Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að laun Jesú á sínum tíma hafi verið, miðað við gengi dagsins í dag, ca. 600 þúsund kr. á mánuði (fyrir utan náttúrulega öll fríðindin maður!).

Ég las það meira að segja einhvers staðar að rangt væri haft eftir Jesú með upphafningu fátæktar og gildi lítillætisins. Hann var víst safnari - átti bæði Harley Davidson asna og Mercedes Benz úlfalda.


Sveinbjörn - 01/11/08 19:31 #

"Auðvitað þarf að innræta börnum..." Birgir ertu nú alveg viss um þetta. Heldurðu virkilega að börn þarfnist sannana? Þetta minnir mig á rit sem Skinner skrifaði einhverntíma Walden Pond 2, og mér fannst alltaf vera skrifað upp úr erfiðri martröð. Að mínu mati eru sannanir í hreinni mótsögn við bernskuna. Hvernig mætti annað vera þegar barnið kynnist þessu undri sem heimurinn er. Deyðum ekki þá undrun, það er nægur tími fyrir sannanir..og dauða guðs.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 01/11/08 21:49 #

Mikill misskilningur er að sannanir drepi undrun. Sveinbjörn, ég skora á þig að horfa á þetta myndband. Er þetta ekki stórkostlegra en nokkuð í eyðimerkurskræðunni? Þetta er aðeins eitt dæmi um þau undur sem þekking, ekki blekking, leiðir í ljós.

Að takmarka sýn barna á heiminn við tröllasögu getur haft hörmulegar afleiðingar og því glæpsamlegt að hafa her manna á ofurlaunum við að boða þá aumkunarverðu heimssýn.


Árni Árnason - 02/11/08 22:32 #

Ef sá sem titlar sig "Örninn" hér að ofan er í alvörunni kennari, er ég í miklum vafa hversu há laun væru sanngjörn fyrir hann, ég vildi í öllu falli ekki að hann kenndi mínum börnum.


Haukur - 03/11/08 11:20 #

Sveinbjörn á væntanlega við Walden Two. Skondin bók þótt hún sé ekki mikill skáldskapur og eflaust myndu ekki allir vilja búa í útópíu Skinners. Skemmtilega sérviskulegt margt - til dæmis fór svolítið púður í að rökstyðja hvers vegna hjón ættu ekki að sofa í sama rúmi.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 03/11/08 11:24 #

Árni, ertu að meina af því að Örninn segir satt? Eða viltu ekki þannig kennslu?


Sveinbjörn - 04/11/08 10:11 #

Þetta er heillandi myndband Reynir. en þú hlytur að misskilja mig. Ég er ekki að mæla fyrir því að takmarka hugsun barna á einn eða annan hátt.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/11/08 15:52 #

Sveinbjörn, eflaust skil ég þig ekki. Þú sagðir:

Að mínu mati eru sannanir í hreinni mótsögn við bernskuna.

Þetta finnst mér vanhugsað, rangt, og vonaði að myndbandið sýndi fram á að við getum undrast sem börn, yfir því sem "sannanir" leiða í ljós.

Þekking á raunheiminum er ævintýri, endalaust ævintýri. Þekking á Biblíunni lokar mann hins vegar inni í ámátlegum kassa - smáþekking á mannkynssögunni ætti að taka af allan vafa - og sjáðu bara hvað er að gerast í Bandaríkjunum.


Sveinbjörn - 08/11/08 00:39 #

Reynir, ég held mig við það að sannanir feli í sé mótsögn við bernskuna, börn leita ævintýra sem ganga blessunarlega á svig við sannaanir. Myndbandið góða sem þu vísaðir til lýsir stærsta ævintýrinu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/11/08 12:55 #

Gott og vel, Sveinbjörn. Þá erum við bara sammála um að vera ósammála.

Sannanir eru eflaust í mótsögn við bernsku sem mótast af trölla-, lygi- og Biblíusögum. Ef þeim er talin trú um að ævintýri séu sannleikur.

En bernskan þarf ekki að vera byggð á slíku. Það er undir foreldrum og samfélagi komið, ekki síst skólanum, hvernig bernskan er.

Hvernig varð heimurinn til, hvað eru stjörnur, af hverju er himinn blár, hvernig varð lífið til, hvað er snjór o.s.frv. Allar þessar spurningar hef ég fengnið frá börnum mínum og þau hafa fengið svör sem byggjast á staðreyndum, ekki ævintýrum. Svörin draga síst úr undrun þeirra og aðdáun.

Börnin mín hafa þó ekki farið varhluta af lygisögunum, en mér hefur tekist að kenna þeim að líta á þær sem slíkar, hvort sem um Biblíusögur, goðsögur, þjóðsögur eða ævintýri er að ræða. Sögurnar halda samt skemmtanagildi sínu.

Ég skal þó viðurkenna að hafa gerst sekur um að fara varlega í að afhjúpa jólasveininn. Tilvist hans hefur alltaf verið stórt spurningamerki á þessu heimili.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.