Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tækifærin í kreppunni

Í leit okkar að sökudólgi fyrir því ástandi sem hefur verið að afhjúpast síðustu viku hafa margir verið tilnefndir og því erfitt að vita hverjum er treystandi til þess að koma okkur á réttan kjöl á ný. En mér verður hugsað til ákveðinnar stofnunar í þessu ástandi, ekki til að tilnefna sem sökudólg, heldur þvert á móti vegna þeirrar staðreyndar að hún er blásaklaus af því að eiga aðild að þessum hörmungum. Ríkiskirkjan er tengd hinni mjög svo ádeildu ríkisstjórn, t.d. í gegnum stjórnskipulag og þar sem bæði biskup og prestar eru ríkisstarfsmenn á ofurlaunum ákvörðuðum af kjararáði (líkt og t.d. laun forseta Íslands, alþingismanna, dómara og ráðherra). Þó ég hafi oft horn í síðu ríkiskirkjunnar þá er það ljóst að þeir eru líklega alsaklausir af núverandi ástandi. En hvað er ég þá nú að fara að hnýta í þá enn og aftur úr því að svo er?

Mig langar til að koma með áskorun á hendur ríkiskirkjunni:

Við þessar aðstæður skapast kjörlendi fyrir hræðsluáróður ríkiskirkjunnar. Tækifæri til sóknar hjá forréttindafyrirtæki sem þrífst best í kreppu en missir spón úr aski sínum hvern dag sem við búum við velmegun og öryggi.

Fótunum er kippt undan fólki í atburðarrás sem er svo flókin að það er ekki einu sinni á færi færustu fjármálasnillinga að spá því hvað gerist næst. Við það er auðvelt fyrir meinta siðapostula (með tryggar 600.000-1.000.000 kr. á mánuði innheimtar í gegnum ríkissjóð og svo tryggðar áfram með sjálfskráningu nýfæddra og ómálga barna), að bjóða björgun frá þeirri óreiðu sem nú ríkir. Í hinu óbreytanlega og örugga orði. "Öflugustu andstæðingar græðginnar eru þakklætið og trúin", "Við þurfum að endurmeta lífsstíl ágengni og sóunar og temja okkur lífsstíl hófsemi og hógværðar", "þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn."

Það verður að segjast eins og er að það er ekkert endilega erfitt að falla fyrir fagurgala sjálfskipaðra siðapostula sem bjóðast til að leiða mann út úr vonleysi og örvæntingu og framvísa vottorði um yfirburði sína til þess arna, undirskrifuðu af öllum fyrri ríkisstjórnum. Ég myndi ekki dæma nokkurn mann fyrir það í þessu árferði. Væntanlega eru þeir í kjararáði umfram t.d. sálfræðinga landsins vegna yfirburða sinna í því að veita fólki sálgæslu. Er það ekki alveg örugglega? Því var fleygt fram í það minnsta á hinu háa alþingi nýlega að það væri ekkert siðferði annað en kristið siðferði. Það hlýtur annað hvort að vera ástæðan eða sú staðreynd að það hlyti að vera frekar pínlegt og seinunnið fyrir þá að fara í kjarabaráttu og krefjast þeirra launa sem þeir eru að fá í dag á sama tíma og þeir predika hófsemi og nægjusemi yfir hinum synduga almúga.

Í anda pistils Péturs Tyrfingssonar (sem má kannski taka fram að er einmitt sálfræðingur), "Hvers konar áfallahjálp" vil ég hins vegar eindregið benda þessari forréttindastétt á að það er ræfildómur að ætla sér aðeins að hjálpa fólki sem hefur verið brotið á eða kúgað með því einu að klappa á bágtið eða kenna því að kyngja misréttinu án þess að kafna á því. Það er að segja fyrir þá sem hafa tök á öðru. Allra fyrsta hjálp ætti að vera að taka á ranglætinu, tryggja öryggi fólks og heilsu, tryggja því tækifæri til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni á mannsæmandi hátt, tryggja áfram góða menntun fyrir komandi kynslóðir sem býður ærið verkefni þegar þær fá þennan syndaklafa okkar í hausinn. Og þar með væri mun minni þörf fyrir bæði sálgæslu eða áfallahjálp. Pétur er því í raun að grafa undan þeirri gósentíð sem gæti beðið hans næstu misseri og sýnir það vel þá vönduðu menntun sem Pétur hefur augljóslega hlotið.

Því ætla ég að biðla til ríkiskirkjunnar "okkar allra" að sjá að sér á þessum tímum, að starfsfólk hennar fái sér heiðarlega vinnu til tilbreytingar og að kirkjan veiti í þess stað þessum rúmu 5 milljörðum, sem fara í að halda uppi aðeins rúmlega 100 manna fyrirtæki, inn í ríkissjóð á ný. Hvað getum við borgað mörgum kennurum laun fyrir 20 milljónir á dag? Hvað getum við tryggt óskert lífeyrisréttindi margra á þessum tímum fyrir 20 milljónir á dag? Hvaða heilbrigðisþjónustu getum við sleppt að skerða fyrir 20 milljónir á dag?

Hvað myndi Jesú gera? Þiggja ofurlaun á krepputíma til að hugga fólk sem hugsanlega þyrfti ekki á sömu huggun að halda ef þessum sömu forréttindalaunum yrði veitt í aðra þjónustu. Akkúrat þá grunnþjónustu sem skapar skilyrði fyrir fólk til að vera sjálfbjarga í því að skapa sjálfum sér og fjölskyldum sínum áhyggjulítið líf.

Hér ætti kirkjan í raun að lenda í töluverðri tilvistarkrísu. Hlutverk kirkjunnar er boðun, að kristna alla menn með sínu meinta sáluhjálpandi "fagnaðarerindi". Allt í einu fá þeir upp í fangið kjöraðstæður sem trúarbrögð þrífast hvað best í. Fólk er reitt, ráðvillt og skortir svör, það skortir skjól. Hvað munu þeir gera? Nýta tækifærið til að maka krókinn? Taka fólk í sinn huggunarríka en fokdýra faðm í þeirri von að snúa við flóttamönnum og sóknargjöldum þeirra og með því líka sjálfkrafa barna þeirra. Nýta það svo til þess að halda áfram þeirri rökvillu fram að fjöldi skráðra í ríkiskirkjuna réttlæti yfirgang þeirra og mannréttindabrot á þeim sem kjósa að tilheyra öðrum trúfélögum eða standa algerlega utan þeirra.

Ef svo stórfenglega vildi til að þeir tækju mig á orðinu,af því göfuglyndi sem þeir predika svo fallega um, og tækju áskorun minni, þá þyrftu þeir að kveðja með öllu það forréttindalíf sem þessi stétt hefur vanist og hlaðið utan á sífellt meir og meir með vaxandi velmegun þjóðarinnar.

Engin myndi banna þeim að halda úti sínu starfi áfram, en krafan yrði þó augljóslega sú að þeir þyrftu að gera það í einkaframtaki. Þeir myndu gera skýrt samkomulag um það að þeir eftirlétu ríkisstjórninni þessa fjármuni aftur nú gegn því að þeir yrðu eyrnamerktir um ókomin ár þjónustu sem hefur ekki notið sannmælis en telst þó óvéfengjanlega til grunnþjónustu fyrir heilbrigð samfélög til að byggja upp sterka og heila einstaklinga. Sem þurfa svo í framhaldinu síður á sálgæslu að halda. Getum við ekki örugglega verið sammála um það að við viljum frekar hafa litla þörf fyrir sálgæslu frekar en að sitja aðgerðarlaus hjá á krepputímum því við sjáum í því atvinnutækifæri til að tryggja fámennri stétt næg verkefni við slíka sálgæslu á dúndurlaunum.

Góðu fréttirnar væru þó þær að þetta yrði stærsta, dásamlegasta og djarfasta markaðsherferð sem sögur færu af og ætti að afla þeim töluverðra fylgismanna. Fylgismanna sem greiða þeim sóknargjöld af því að það er algerlega frjálst val þeirra en ekki bara af því að þeir þurfa að borga sóknargjöld, hvort sem þeir eru í trúfélagi eða ekki, eins og nú er. Þeir sem ekki hefðu efni á sóknargjöldunum myndu hins vegar vonandi njóta í það minnsta göfuglyndis kristinnar íslenskrar kirkju í gegnum þá þjónustu sem hún hefði af stórmennsku sinni styrkt til handa öllum, en sem um leið varð til þess að draga úr þörfinni á sálgæslunni. Ég er alveg viss um að fyrir vikið ættu þeir vísan stað fyrir Jesú í hjarta sínu þó aurinn ættu þeir ekki fyrir kirkjuna og meira er varla hægt að fara fram á. Yrði þá ekki takmarki kirkjunnar náð?

Hvort er mikilvægara á svona erfiðum tímum? Jesú í hjartanu, eða fullir vasar fjár þeirra sem munu predika yfir okkur af ákefð um hófsemi og nægjusemi næstu misseri?

Ég mana ykkur, guðsmenn, til að sýna boðskap ykkar í verki nú þegar þörfin fyrir það er sem mest. Eru þið tilbúnir til að leggjast á þær siðgæðisárar sem liggja í fanginu á ykkur á þessari ögurstundu?

Kristín Kristjánsdóttir 13.10.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/10/08 10:25 #

Ertu í alvöru að leggja til að prestar fari eftir orðum Jesú, selji eigur sínar og gefi fátækum? Treysti á forsjá guðs eins og liljur vallarins og fuglar himinsins!

Óneitanlega væri virðingarvert ef þeir breyttu eins og þeir boða. Þá kæmi líka í ljós hversu öflugur sá í efra er. Ef eitthvað er að marka auglýsingaskrumið í kringum hann ætti honum ekki að verða skotaskuld úr því að sjá þessum hirðum sínum farborða án aðstoðar ríkissjóðs.

En líklega er lítil von til að við sjáum þetta rætast. Frumforsenda þess að prelátarnir fari að orðum meistarans er að þeir trúi þeim og treysti. Kjararáð og ríkiskassinn (heitir það ekki Mammón í þeirra munni) eru mun hollari húsbændur (og virðast ekki gera miklar kröfur).


Óskar - 13/10/08 20:37 #

Nú er tími nýrra tækifæra, tími til að byrja uppá nýtt. Þegar allt er orðið "ríkis" er rétt að skoða hvort ekki er hægt að bæta um betur og reka eins og 150 ríkisstarfsmenn í viðbót við þá 800-1000 sem talið er að missi vinnuna þessa dagana. Munurinn er sá á þessir 150 taka til sín 5,5 milljarða af skattfé sem betur færu annarstaðar. Segja upp þessum illa huxaða samning sem kostað hefur ótalda milljarða en hefur engu skilað til baka. Engin skildi ætla að hámenntaðir guðfræðingar og prestar geti ekki gengið í önnur vellaunuð störf. Hægt væri meira að segja að gefa þeim smá forskot á verslings viðskiptafræðingana og leyfa þeim að halda klúbbhúsunum sínum með því skilyrði að þeir héldu þeim sæmilega við.

Best væri að þeir finndu þetta upp hjá sjálfum sér... að vera rekinn lýtur svo illa út á CV-inu..


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 13/10/08 20:38 #

Mér finnst að þú ættir að fá þessa grein birta í einhverju dagblaðanna.


F - 13/10/08 21:16 #

Sammála! Senda þessa grein í heilu lagi í BLÖÐIN!!


Arnaldur - 13/10/08 23:05 #

Mjög vel skrifaður texti og væri frábært ef hann færi í blöðin svo fleiri myndu lesa hann!!

En annars ættu prestar auðvitað í fyrsta lagi að vera á lágmarkslaunum ríkisstarfsmanna, þá fyrst væri hægt að taka mark á þeim sem "verndurum" og talsmanna þeirra sem minna mega sín eins og þeir vilja sjálfir að þeir séu séðir.

Einnig hefði ég haldið að það eitt að fá þann heiður að vera talsmaður guðs á jarðríki ætti að vera nægjanleg umbun út af fyrir sig.


Svanur Sigurbjörnsson - 14/10/08 10:00 #

Flott grein Kristín Fyrir "Biskup Íslands" eins og hann var titlaður í RÚV á dögunum er auðveldara að kalla trúlaust fólk hatrammt en að gefa eftir af eigin auðæfum. Þetta er djörf áskorun hjá þér og áleitin spurning. Ætli prestar Þjóðkirkjunnar trúi nokkuð á meinlætalíf lengur? Þeir vilja eins og flestir aðrir lifa í vellystingum og njóta ríkisverndunar sinnar, jafnvel þó aðeins 8-10% þjóðarinnar trúi á upprisuna og himnavist eftir sinn dag. Þeir vilja leika litla sálfræðinga með guðlegu ívafi og komast upp með það.


Helgi - 16/10/08 14:10 #

Þjóðkirkjan brást skjótt við þessari grein!

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/16/kirkjan_krefur_rikid_um_milljonir/


Hlíf Sigurjóns. - 20/10/08 00:06 #

Mjög góð grein Kristín. Ég er sammála endilega senda hana í blöðin. Mér kemur í hug fólk sem segist vera frelsað en býr í dýrum einbýlishúsum og á jafnvel tvo dýra bíla og fer svona 4 til 5 sinnum í utanlandsferðir á ári. Ég spyr mig getur verið að þetta fólk gangi á guðsvegum og lifi eftir boðskap Jesú Krists. Hvað fellst í því að vera frelsaður hjá þessu fólki? Ekki boðskapur Jesú svo mikið er víst.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.