Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

SoS: Skráningastarfið

Rekið hefur verið sjálfboðaliðastarf á vegum félagsins Vantrú við að hjálpa fólki að leiðrétta trúfélagsskráningu sína. Á þremur árum höfum við aðstoðað 512 manns við að skrá sig utan trúfélaga og með þessu framtaki veitt Háskóla Íslands 8.609.304 krónur. Nokkuð svipuð upphæð mun falla til HÍ árlega hér eftir vegna íhaldsemi í skráningum. Hér mun verða sagt aðeins nánar frá því starfi.

Um starfið

Starfið felst aðallega í því að aðstoða þá sem ekki eru trúaðir að skrá sig utan trúfélaga. Þar með borgast samsvarandi gjald á við sóknargjald til HÍ. Við látum þó einnig fljóta með eyðublöð einstaklinga sem skipta milli trúfélaga þegar við erum á vappi, enda sakar ekki að trúfélagsskráningin endurspegli ögn meir lífskoðun landans. Við höfum því hjálpað 154 manns hingað til við að skipta milli trúfélaga. En lang oftast, eða í yfir 90% tilvika, er einvörðungu um einstaklinga sem skrá sig utan trúfélaga að ræða.

Starfið hófst um jólin 2005 og hefur verið unnið sem hugsjóna- og sjálfboðaliðastarf með pásum, hléum og hvenær sem félagsmenn hafa haft tíma og nennu til.

Með klemmuspjöldum, pennum og eyðublöðum að vopni höfum við hafist við þar sem margmenni safnast, svo sem á hátíðum eða tónleikum. Við gefum okkur á tal við fólk og spyrjum hvort það þurfi aðstoð við að leiðrétta trúfélagsskráningu sína; svo sem að breyta á milli trúfélaga eða skrá sig alveg utan allra trúfélaga, skyldi vera á slíku þörf. Sé svo, þá erum við með allt til alls og sjáum síðan um skil á eyðublöðunum. Einnig höfum við verið, en þó ekki jafn oft, með einskonar "heimsendingarþjónustu", og þá aðallega rétt fyrir 1. desember, svo fólk geti skráð sig samkvæmt sannfæringu áður en nýtt söfnunartímabil byrjar.

Hve mörgum er þörf á leiðréttingu?

Í gegnum skráningarstarfið hef ég tekið eftir að um 1/10 til 2/10 af þeim sem við spyrjum úti á götu og þiggja aðstoð, skrá sig utan trúfélaga. Þetta rímar býsna vel við skoðanakannanir og þá sérstaklega Trúarlíf Íslendinga frá því 2004. Þar kom fram að um 20% Íslendinga eru ekki trúaðir. En samt sem áður voru aðeins 2,44% skráð utan trúfélaga árið 2004.

Sem þýðir að 17,5% trúleysinga láta sóknargjöldin sín renna til trúfélaga í staðin fyrir HÍ. Sóknargjaldið 2004 nam 7.414 kr. og þjóðin var 293.291 manns. 17,5% þjóðarinnar gera þá um 50.000 manns, sem samsvarar um 370 milljónir kr. í sóknargjaldafé sem ríkið borgar. Það má segja að HÍ verði af þessari upphæð og svipuðum upphæðum ár eftir ár meðan flestir trúleysingjar eru skráðir í trúfélögum fremur en utan þeirra.

Hvað aftrar fólki frá því skrá sig utan trúfélaga?

Í stuttu máli er það eitthvað af þessu þrennu; ranghugmyndir, þekkingarleysi eða "leti". Flökkusagan um að sóknargjald fari beint í Guðfræðideild er ansi lífseig og vinsæl. Þó hún sé kolröng gerir hún það að verkum að fólk sleppir því oft að skrá sig utan trúfélaga.

Annað er að sjaldan þekkir fólk til ferlisins. Það veit t.d. ekki hvar á að skila, hvar maður fær eyðublöð eða við hvaða aldur maður öðlast fullt trúfélagafrelsi. Ég hef rekist á að sumir halda að það sé við 18 ára aldur þó það sé reyndar við 16 ára aldur. Svo eru aðrir sem vita, vilja og geta en setja einfaldlega á frest að skila inn af einhverjum ástæðum. Ég hef hitt fólki sem hefur verið með útfyllt eyðublað heima hjá sér svo árum skiptir. Skiljanlega er margt hjá fólki sem getur látið slíkan verknað falla aftarlega í forgangsröðinni, svosem hversdagslegt áreiti ýmiskonar eða önnur brýnni verkefni. En tilgangur starfsins er hinsvegar að brúa þetta bil að því leyti sem við getum og stuðla að skilum.

Kári Svan Rafnsson 05.10.2008
Flokkað undir: ( Spurt og svarað )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.