Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Við upphaf skólaárs

Nýsamþykkt grunnskóla- og leikskólalög gera nýjar kröfur til kennara og skólastjórnenda og ekki er víst að allir hafi gert sér fulla grein fyrir því hvað í þeim felst. Eins og flestir sjálfsagt muna er tekið fram í annarri grein laganna að “starfshættir grunn[- og leik]skóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.”

Hér eru lagðar skýrar línur um starfshætti skólanna, reglur bundnar í landslög. Skólar eru opinberar stofnanir og sem slíkar geta þeir ekki starfað utan þess sem lögin heimila. Því getur skóli, við mótun starfshátta sinna, ekki tekið mið af frelsishugsjón eða ættjarðarást, réttlætiskennd eða náttúruverndarhugsjónum svo dæmi séu tekin.

Stærstu breytingar í skólastarfi verða væntanlega vegna klausunnar um hina kristnu arfleifð íslenskrar menningar. Íslensk menning er víðfeðm, fjölbreytt og síbreytileg en hér er mjög skýrt kveðið á um að einungis hinn kristni hluti hennar getur legið til grundvallar þegar móta skal starfshætti grunnskóla.

Kennsluefni í íslensku og bókmenntagreinum á eftir að taka miklum breytingum. Nemendur eiga eflaust eftir að fagna því að Egla, Njála og Laxdæla séu ekki lengur á dagskrá enda hundheiðnar. Byskupasögur verða kannski ekki vinsælar en eru þó í samræmi við laganna fyrirmæli. Rómantísku skáldin okkar verða auðvitað að víkja fyrir Passíusálmunum og innbundnar stólræður Sigurbjörns Einarssonar gætu leyst Einar Kárason af hólmi. Tónlistarkennsla getur sem best tekið mið af sálmahefð okkar og myndlistarkennsla verður leikur einn á trúarlegu nótunum.

Þjóðsögurnar okkar, álfarnir og tröllin, galdrar, draugar og forynjur, verður að halda frá börnunum og vissast að hafa slíkar bækur einungis í læstum deildum bókasafna. Þeir Laxness, Gunnar og Þórbergur verða að fara sömu leið, ásamt nánast öllum íslenskum skáldsagnahöfundum fyrr og síðar.

Jólahald er ávallt stór liður í skólastarfi vetrarins, einkum meðal yngri barnanna. Jólasveinarnir eru auðvitað úr sögunni sem og jólatréð. Margir skólar hafa reyndar þegar kastað þessum þáttum jólahalds í náinni samvinnu við Þjóðkirkjuna og tekið upp þá nýjung að flytja helgileiki á litlu-jólum í stað hefðbundinna íslenskra jóla.

Það skal ítrekað, kennurum og öðru starfsfólki skóla til glöggvunar, að skólar eru opinberar stofnanir og mega ekki starfa utan ramma laganna. Með því að tiltaka sérstaklega einn þátt íslenskrar menningar sem skólastarf skuli mótast af eru aðrir þættir sjálfkrafa útilokaðir samkvæmt hefðbundnum lagaskilningi. Námskrár og kennsluskrár eru tækin sem notuð eru við mótun skólastarfs og það er því beinlínis lögbrot að notast við aðra menningarþætti en hina kristnu arfleifð við námskrárgerð og val námsefnis.

Undirritaður bíður spenntur eftir nýjum námskrám enda hafa sjálfsagt aldrei verið eins miklar breytingar gerðar á forsendum skólahalds á Íslandi í rúma öld.

Brynjólfur Þorvarðarson 31.08.2008
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


anna benkovic - 01/09/08 22:57 #

Ég get ekki séð að þetta breyti neinu?...kristni kemur ekki til Íslands fyrr en árið 1000?...arfleiðin er heiðin og landnámsmennirnir!

Það breytist ekki með lögum?

Kær kveðja


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 01/09/08 23:41 #

Sæl Anna

Það er rétt hjá þér að lög breyta ekki íslenskri menningu - og svo má heldur ekki taka greinina hjá mér alveg bókstaflega.

En ef lögunum væri fylgt þá mætti bara nota menningartengt efni úr þeim hluta íslenskrar menningar sem er hin kristna arfleifð. Það er að segja, ákveðnir þættir íslenskrar menningar eru komnir úr kristni - því er ekki hægt að neita - og þeir mynda hina kristnu arfleifð íslenskrar menningar. Lögin segja að skólastarf eigi að mótast af þessum hluta íslenskrar menningar.

Opinberir aðilar mega bara starfa innan laganna - þeir mega bara gera það sem er leyft skv. lögum (öfugt við einkaaðila sem mega gera allt sem ekki er bannað). Svo lengi sem skólalög segja ekkert um menningu má gera ráð fyrir því að lögin hafi enga skoðun á menningu - og þar sem skóli og menning eru skyld hugtök er leyfilegt að líta svo á að skólinn taki mið af allri íslenskri menningu.

En um leið og skólalög segja eitthvað um menningu þá er löggjafinn búinn að lýsa yfir skoðun á því hvaða þættir menningar eigi að nota - og um leið, óbeint, hvað megi nota og hvað megi ekki nota. Lög um stofnanir þurfa ekki að telja upp það sem er bannað að gera, aðeins að taka fram það sem er leyft að gera - allt annað er bannað.

Þetta er auðvitað allt mjög langsótt, tilgangurinn með greininni er fyrst og fremst sá að sýna hversu fáránleg þessi klausa öll er, tómt klúður sem er tilkomið vegna íhaldssemi og trúarofstækis kristinna afla í þjóðfélaginu.


anna benkovic - 02/09/08 15:59 #

Takk fyrir greinargott svar. Ég er alls ekki að sjá tilganginn með þessu? ...nema ef vera skyldi að friða trúarofstækisfólk? Það finnst mér slæmur málstaður! kv.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 02/09/08 23:18 #

Já, við skiljum flest að þetta er nánast allveg merkingarlaus frasi, en hann er líklega forsenda sem kirkjan getur nýtt sér til yfirgangs.


danskurinn - 03/09/08 07:33 #

Frasinn stangast á við stjórnarskrána, ákvæði ísl. laga um gildi jafnræðisreglu, sáttmála Sameinuþjóðanna um mannréttindi og dómsniðurstöðu frá Strassburg. Hann er því með öllu marklaus þó hann geti hugsanlega vakið upp einhverja drauga úr þjóðkirkjunni og öðrum sértrúarhópum.

Með frekari einkavæðingu skólakerfisins gætum við þó séð kristilega skóla stofnaða og starfa samkvæmt túlkun á þessu ákvæði.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 03/09/08 10:39 #

Einkareknir skólar þurfa ekki að fylgja þessu er það?


Erik Olaf - 03/09/08 16:43 #

Einkareknir skólar þurfa ekki að fylgja þessu er það?

Einkareknir skólar þurfa að fylgja grunnskólalögum ef þeir þiggja einhverja peninga frá íslenska ríkinu annars ekki.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 03/09/08 22:14 #

Einkareknir skólar þurfa að fylgja grunnskólalögum - það eru engar undanþágur. Einkareknir skólar starfa skv. samkomulagi við Menntamálaráðuneytið og fá greitt per nemanda eins og ríkisreknir skólar.

Öll börn heyra undir grunnskólalög og þar af leiðandi allir skólar.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 04/09/08 07:32 #

þá er þetta enn alvarlegra en ég hélt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.