Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fölsun Guðna og Alþingis

Einhvern tímann hefur verið sagt að orð skuli standa. Í tilfelli formanns Framsóknarflokksins þá á þetta greinilega ekki við. Í umræðunum á Alþingi í vetur lét Guðni Ágústsson ærumeiðandi ummæli falla um þá sem aðhyllast aðrar trúarskoðanir en kristni en hefur nú látið þurrka þau út af vef Alþingis.

Á sínum tíma sagði Guðni: "það er ekki til neitt siðgæði í rauninni nema kristið siðgæði". Á vef Alþingis stendur nú að hann hafi sagt setningu sem er álíka vafasöm að sannleiksgildi: "Það er í rauninni ekki til neitt sem hefur bætt heiminn jafnmikið og kristið siðgæði." Þetta kallar Guðni umorðun. Svo er ekki, þetta er sögufölsun og það er alvarlegt að starfsmenn Alþingis taki þátt í slíku.

Það var á sínum tíma vitnað í orð Guðna í Morgunblaðinu og á ýmsum vefsíðum. Ef fölsun Guðna hefði ekki komist upp hefði enginn getað lesið þessi ummæli í sínu rétta samhengi. Þetta þýðir að heimildagildi uppskrifaðra þingumræðna er ekki neitt. Fjölmiðlamenn, sagnfræðingar og aðrir sem láta sig þessi mál varða verða að mótmæla því og að þingmenn mega ekki komast upp með svona falsanir.

En aftur að Guðna. Á sínum tíma dró Guðni ekkert úr ummælum sínum á opinberum vettvangi. Hann lét hins vegar breyta ummælum sínum eins og bloggari eyðir færslu í skjóli nætur. Ef enginn hefði tekið eftir þessu þá hefði hann væntanlega ekkert sagt. Núna játar Guðni að þessi ummæli hafi verið of öfgafull og særandi og tekur fram að hann "virði aðra trúarflokka." Kannski eru orðin óheppilega valin en hugsanlega er að hér sé Guðni að undirstrika að hann virði ekki trúleysingja.

Ef Guðni sá raunverulega eftir ummælum sínum þá hefði hann átt að biðjast afsökunar á þeim á sínum tíma. Að breyta ummælum sínum á þennan hátt bendir frekar til að honum hafi einfaldlega þótt þau óheppileg fyrir pólitískan frama sinn. Slíkt er ekki virðingarvert.

Óli Gneisti Sóleyjarson 27.08.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Hvíti Kristur - 27/08/08 12:49 #

Þetta er hrein og bein fölsun. Þetta þykir mér smánarlegt og ætti ekki að líða í íslenskri póli-tík.


J. Einar V. Bjarnason Maack - 27/08/08 14:01 #

Guðni hefur þar með framið glæp; fölsun á opinberum þingskjölum.

Ergo skal kæra hann og dæma.


Svanur Sigurbjörnsson - 28/08/08 09:38 #

Í kastljósi í lok nóv 07 svaraði Guðni spyrjandanum eftirfarandi þegar hann var spurður að því hvað væri kristið siðferði: "Það er að vernda Þjóðkirkjuna".


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 28/08/08 10:47 #

Undarlegt atarna. Þegar menn tjá sig er eitthvað sem þeir vilja segja, svo það sem þeir segja og að lokum hvað þeir halda eftir á að þeir hefðu átt að segja. Ég hélt að maður gæti treyst því að ræður á Alþingi væru skráðar eins og þær voru fluttar.

Guðni segir að hann hafi fullan rétt á því að breyta orðum sínum með þessum hætti. „Ég breyti ræðum mínum sjaldnast en ég viðurkenni það fyrir þér sem heiðarlegur maður að þarna breytti ég aðeins um orðalag. Ég held að ég hafi gengið aðeins of langt og lengra en ég vildi í blaðlausri ræðu."

Enn hreykir hann sér af yfirburðum sínum, hann er ekki bara kristinn (sem er best) heldur svona stálheiðarlegur líka. Þetta er bara enn eitt dæmið um hvað "kristið siðgæði" þýðir.


garðar - 29/08/08 08:06 #

Velkomin til ársins 1984


Valtýr Kári - 30/08/08 02:33 #

Bíddu, bíddu. Eru ekki einhver lög sem að banna svona breytingar? Flokkast skráning á ræðum sem fluttar eru á Alþingi ekki undir opinber gögn og ber að varðveita sem slík?

Ekki vil svo heppilega til að einhver hér hafi vit á þessu?


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 30/08/08 16:15 #

Guðni hefur gerst sekur um brot á þingsköpum með þessum fölsunum.

Sjá hér:

http://mitt.eigid.net/2008/08/30/thingraedum-breytt-eftira/


Gunnlaugur - 31/08/08 22:48 #

Ég setti út aðeins meira um þetta, byggt á handbók Alþingis fyrir nýja þingmenn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.