Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vantrúin fimm ára

Hún kom eins og geisli í grafarhúm kalt,
og glóandi birtuna lagði yfir allt-
og aldirnar gegnum mér glóa hún virtist,
sem gegnsæ þýðing mér heimurinn birtist.

Fæstir átta sig á að nafnið á þessu vefriti, og félaginu sem varð til í kjölfarið, er komið frá þessu ljóði Stephans G. Stephanssonar - Vantrúin. Þetta er ákaflega rómantískt viðhorf til trúleysis sem þarna birtist. Ekki svartsýni og ömurleiki sem trúaðir reyna almennt að klína á þessa lífsskoðun okkar.

Fyrir fimm árum voru nokkrir trúleysingjar búnir að vera að tjá sig hér og þar á netinu. Á spjallborðum og bloggum sérstaklega. Birgir Baldursson fékk þá stórgóðu hugmynd að stofna vefrit þar sem sjónarmið trúleysingja væru í fyrirrúmi. Í upphaflega hópnum voru Matthías Ásgeirsson, sem er nú formaður félagsins, og Óli Gneisti Sóleyjarson, seinna ritstjóri, ásamt tveimur sem tjáðu sig undir dulnefnum, Frelsarinn og Aiwaz.

Internetið var helsti samkomustaður okkar. Birgir Baldursson var á þessum tíma í útlegð á Kanaríeyjum að selja Íslendingum raftæki. Allt félagið gat haldið fundi á MSN Messenger. Þegar stofnendur hittumst síðan fjórir á kaffihúsi með nýliðanum Hjalta Rúnari Ómarssyni þá var það frábær mæting. Ef við hefðum hlutfallslega jafn góða mætingar á hittinga í dag þá þyrftum við nokkuð stóran sal. Hinir gömlu eru í skrýtinni en jafnframt öfundsverðri stöðu. Þeir hafa fengið að sjá félagið stækka og dafna þannig að þeir gætu í raun allir hætt eða horfið en félagið myndi samt rúlla áfram.

Við vitum ekki alveg hvað við héldum þegar við fórum af stað. Það voru vefrit út um allt og því ekkert óeðlilegt að stofna eitt enn. Flest vefritin sem mest fór fyrir á þeim tíma hafa síðan dáið en við trukkum áfram. Hver eru markmið okkar? Hafa einhver þeirra náðst? Okkar helsta markmið var að koma af stað umræðu og vekja fólk til umhugsunar um öll þessi mál. Við vildum líka að umræðan um trúmál yrði gagnrýnni en áður. Við vildum líka að þessi gagnrýni mætti vera harkalegri en áður var talið eðlilegt. Eitthvað af þessu hefur tekist en augljóslega er þetta eilífðarverkefni.

Þjóðkirkjan hefur undanfarin ár verið dugleg að sjá okkur fyrir efnivið. Henni er líka stjórnað af manni sem hefur, á íslenskan mælikvarða, ákaflega gamaldags trúarskoðanir. En það er þó aðallega kreppa þjóðkirkjunnar sem hefur valdið árekstrum. Þegar trúin dvínar verður kirkjan eins og hvert annað kapítalískt fyrirtæki að leita að nýjum mörkuðum. Innrás kirkjunnar inn í skóla hefur verið okkar aðaláhyggjuefni. Það hefur líka á sama tíma verið það baráttumál okkar sem hefur orðið hvað vinsælast meðal almennings. Sú barátta hefur raunar verið þögul á yfirborðinu síðustu mánuði en það er margt að gerast á bak við tjöldin. Við teljum að við munum að lokum losna við trúboð úr skólum og að íslensk börn fái hlutlausa fræðslu um þessi mál eins og eðlilegt er.

En við höfum líka tekið fyrir gervivísindi, flökkusögur, nýöld og margt fleira sem grasserar í samfélaginu vegna skorts á gagnrýnni umfjöllun. Sannleikurinn er þarna úti en staðreyndir virðast sjaldnast komast að þegar þessi málefni komast til dæmis í fjölmiðla. Þessi hlið Vantrúar hefur kannski ekki verið jafn áberandi en er samt sem áður jafn mikilvæg. Sérstaklega á þetta við þegar kemur að óhefðbundnum lækningum því þær geta og hafa ógnað lífi þeirra sem falla fyrir þessum gervifræðum.

Það er líka margt á döfunni. Samstarf íslenskra trúleysingja í bókaútgáfu er bráðlega að fara af stað. Þar er tækifæri fyrir okkur. En aðallega munum við þó bara reyna að halda áfram því sem við höfum gert svona vel síðustu fimm árin og það er að gagnrýna ruglið sem við sjáum allt í kring.

Á þessum tímamótum er þó sérstaklega gleðilegt að geta óskað færeyskum guðleysingjum til hamingju með að hafa stofnað formlegan félagskap. Færeyingar þurfa vissulega á slíkum félagskap að halda. Við sendum hamingjuóskir frá félaginu Vantrú til félagsins Gudloysi og vonum að við getum starfað saman í framtíðinni.

En við skulum ljúka þessum afmælispistli á seinni erindum ljóðsins sem ljáði okkar félagi nafn sitt.

Og gryfjan mín sýndist mér veraldarvíð,
og verðandi stór eins og eilífðartíð -
við ljós hennar bjarta hver skíma varð skærri,
en skuggarnir ljótari, grettari, stærri.

Og verðmætin breyttust. Sumt gullið varð gróm,
og gjaldeyrir svikinn og fjárhirzla tóm.
En hitt var þó meira, að skúmið í skotum
og skarnið var alsett með gimsteina brotum.

En eitt var þó berast: Í sjálfum mér sá
ég sams konar gróm og í kringum mig lá -
svo glitti þar líka í gimsteina brotin,
sem glóðu þar líka um rykugu skotin.

Hún kom eins og geisli í grafarhúm kalt
og glóandi birtuna lagði um allt -
hún brá fyrir, kvísluð, sem kveldleiftur glampa,
en kveikinn minn snart hún og tendraði lampa.

Ritstjórn 24.08.2008
Flokkað undir: ( Tilkynning )

Viðbrögð


baldur mcqueen - 24/08/08 21:38 #

Hjartanlega til hamingju með afmælið. Undra mig dálítið á að hafa ekkert heyrt af þessum áfanga í fjölmiðlum.
Kannski engin stórfrétt, en þó gæti ég talið nokkra tugi frétta, ómerkari, sem birst hafa í dag.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/08/08 22:57 #

Það er okkur að kenna, við sendum fjölmiðlum enga fréttatilkynningu. En reyndar trúi ég ekki öðru en að allir fjölmiðlar fylgist með Vantrú :-P


Svanur Sigurbjörnsson - 25/08/08 01:16 #

Til hamingju með 5 árin! Vantrú hefur velt þungu hlassi þrátt fyrir ungan aldur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.