Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Boðun trúar í skólum

Undanfarin misseri hefur átt sér stað veruleg viðhorfsbreyting í garð samkrulls skóla og kirkju. Nú sjá flestir að trúboð á ekkert erindi inn í leik- og grunnskóla en menn greinir á um hvað er trúboð og hvað ekki.

Menntasvið Reykjavíkur hefur tekið forystu í faglegum vinnubrögðum og markað skýra stefnu í þessum málum. Samkvæmt henni bera kennarar ábyrgð á kennslu og fræðslu barna um trúarbrögð en í skólum er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúfélaga blandað saman. Nemendum skal ekki mismunað vegna trúarskoðunar þeirra eða foreldra þeirra og forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúarskoðunum þeirra.

Æ fleiri leikskólar hafa nú tekið fyrir heimsóknir presta sem og ferðir nemenda í messur Þjóðkirkjunnar. Biskupinn túlkar fagleg vinnubrögð þeirra skólastjórnenda sem taugaveiklun vegna fámenns hóps gagnrýnenda, en þó átti fulltrúi hans sæti í starfshópnum sem mótaði stefnuna.

Enn er það þó „yfirlýst markmið kirkjunnar að sem flestir leikskólar þiggi reglulega heimsókn frá kirkjunni“. Og kirkjan hefur gert ítarlega áætlun um samkrull sitt við skólana þar sem ekkert tillit er tekið til stefnu Menntasviðs, enda nær hún aðeins til Reykjavíkur.

Kirkjunnar menn skáka jafnan í því skjóli að þeir bjóði aðeins „þjónustu“ sína og ábyrgðin sé því alfarið á skólunum þegar ekki er tekið tillit til mismunandi trúarskoðana eða nemendum mismunað vegna þeirra. Og kirkjunnar menn hika ekki við að sverja af sér boðun sinnar trúar, þótt slagorð kirkjunnar sé að hún sé boðandi kirkja.

Allir prestar hafa þó upp á vasann vígslubréf frá biskupi þar sem segir að þeim „beri að boða Guðs orð rétt og hreint samkvæmt heilagri ritningu og í anda evengelísk-lúterskrar kirkju. Um anda evangelískrar-lúterskrar kirkju segir í stefnumótun Lúterska heimssambandsins: „Boðun er hið eiginlega eðli kirkjunnar. Boðun er ekki valkostur kirkjunnar. Boðun er grundvöllur veru hennar sem „ein, heilög, almenn og postulleg“ kirkja (Níkeujátningin).“Í siðareglum presta segir að þeim beri að „boða Krist og útbreiða ríki hans“. Um boðun kirkjunnar segir biskupinn: „Orðið mission er margrætt og hlaðið. Í kirkjulegu samhengi er það gjarna þýtt kristniboð.“ „Kirkjan er send með boðskap. Það er hlutverk hennar og verkefni hennar öll eru með einum eða öðrum hætti liður í þeirri sendiför.“

Mismunun nemenda vegna trúarbragða er klárlega bönnuð í leik- og grunnskólalögum og menntamálaráðherra hefur lýst sig andvígan trúboði í skólum. Því vildi foreldri láta á það reyna hvort prestur hefði ekki gerst sekur um siðferðis eða agabrot innan kirkjunnar með því að messa yfir nemendum í kirkju sinni, án þess að foreldrum hefði gefist kostur á að taka börn sín út úr hópnum. Foreldrið var ósátt við að barn hans tók þátt í trúarathöfn sem samræmist ekki trúarskoðunum þess. Presturinn sá auðvitað ekkert athugavert við hegðun sína (skólinn ber ábyrgðina). Foreldrið ákvað því að vísa málinu til „úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar“.

Biskup tilnefnir einn fulltrúa í nefndina, Kirkjuþing annan og Prestastefna þann þriðja. Þessir nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu að óánægja með samstarf kirkju og skóla sé ekki ágreiningur á kirkjulegum vettvangi og geti hvorki talist varða kirkjulegt starf né starfsemi á vegum þjóðkirkjunnar.

Hlutverk kirkjunnar og verkefni öll eru liður í boðun. Boðun er hið eiginlega eðli kirkjunnar, ekki valkostur heldur grundvöllur veru hennar. Skylda presta og köllun er að boða trú sína en um leið og kemur að samstarfi við skóla gufar það allt upp. Auk þess er starf kirkju hvorki kirkjulegt starf né starfsemi á vegum kirkjunnar, sé starfið unnið í samstarfi við skóla.

Þegar menn grípa til svona hundalógíkur hlýtur maður að spyrja hvort því ráði slæm samviska, fáfræði eða óhreint mjöl í pokahorninu.

Reynir Harðarson 15.08.2008
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.