Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Geir Jón undir fullu tungli

Geir Jón í tunglinu
Yfirlögregluþjónninn á Höfuðborgarsvæðinu segir frá því í Fréttablaðinu í dag að lögreglan spari stórfé á því að Menningarnótt sé ekki haldin undir fullu tungli.

„Það sparar mér mikla fjármuni að það verði ekki fullt tungl á menningarnótt,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. Hann segist lengi hafa haldið því fram að meira álag sé hjá lögreglunni þegar tunglið er fullt og því hafi hann fjölmennari vaktir þær helgar þegar svo ber undir. „Þetta sést til dæmis á því að í fyrra var menningarnótt ekki á slíkum degi og þá fór hún sérlega vel fram en árið þar áður var hún þegar það var fullt tungl og þá höfðum við í nógu að snúast.“ #

Svo virðist sem þetta sé algert kjaftæði. Athuganir sem gerðar hafa verið á tíðni umferðarslysa, barnsfæðinga og ofbeldis styðja ekki þessar fullyrðingar eins og við höfum áður fjallað um hér á Vantrú. Það er alvörumál ef yfirmaður lögreglunnar hagar skipulagi eftir svona bábiljum. Fjölmiðlamenn ættu auðvitað að krefja hann um gögn máli sínu til stuðnings. Ef þessi hefð hefur verið lengi við lýði er hins vegar tómt mál að sannreyna fullyrðingar um fullt tungl út frá málaskrá lögreglunnar. Minni mannskapur þýðir auðvitað að lögreglan sinnir færri útköllum.

Eins og við er að búast hefur skemmtanahald á menningarnótt verið með ýmsu móti, óháð stöðu himintunglanna. Frá því að menningarnótt var fyrst haldin 1997 hefur fullt tungl einungis einu sinni borið upp á menningarnótt en það var árið 2005 þegar allt fór í háaloft. Menningarnótt 2001 var jafnvel enn verri en 2005 en þá var nýtt tungl. Hvað segir Geir Jón um það?

Sverrir Guðmundsson 11.08.2008
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/08/08 15:26 #

Bjarni Baldursson bloggar um þetta mál í dag og vísar á nokkrar rannsóknir.

Á sínum tíma kom áhugaverð athugasemd sem þessu tengist við greinina um staðfestingartilhneigingu:

Á námsárum mínum starfaði ég sem sumarafleysingamaður í lögreglunni. Höfðu menn þar á orði að erfiðustu vaktirnar væru þegar tungl væri fullt. "Fólk hreinlega brjálast þegar tunglið er fullt", sögðu gamlir jaxlar við okkur nýju mennina. Og viti menn, á næsta fullu tungli var ég á vakt og allt varð hreinlega vitlaust í bænum! Ég fór að trúa þessu og styrktist í þeirri trú í hvert skipti þegar þetta gerðist (og leiddi algerlega hjá mér þau skipti þegar ekkert gerðist og allt var með rólegasta móti!). Þessi trú á krafta hins mikla mána virðist enn vera nokkuð lífseig innan lögreglunnar, man ekki betur en að Geir Jón Þórissson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík hafi minnst á þetta í viðtali nýlega. Grunsemdir um að "trú" mín væri ekki á rökum reist fóru að vakna með mér með tíð og tíma og fékk leyfi varðstjóra til að gera könnun á þessu. Fór yfir dagbækur lögreglunnar á ákv. tímabili og bar saman fjölda útkalla við gang tunglsins. Viðurkenni að ekki var um vísindalega rannsókn að ræða en ég gat ekki fundið neitt samhengi á milli fjölda útkalla og þess að tungl væri fullt. Já, valkvæm hugsun getur leitt bestu menn í ógöngur! #


Siggi - 12/08/08 00:26 #

Hvernig væri að það væri gert eitthvað í þessu, ef valdamikill maður er svona veruleikafyrtur getur það vel verið góð ástæða fyrir því að heimta að hann segji af sér.


Tommi - 12/08/08 18:12 #

Sá þátt um daginn á Discovery þar sem þetta var tekið fyrir. Það var talað um að segulsviðið frá fullu tungli gæti valdið þessu stundarbrjálaði sem fullt tungl er talið hafa. Það eru engar sannanir sem benda til þess að tunglið hafi þessi áhrif á okkur mannfólkið. Segulsviðið er í algjöru lágmarki og gæti þar með ekki haft árhrif á okkur. En ég hef alltaf tekið eftir breyttri hegðun í mannfólkinu á fullu tungli. Afhverju skildi það vera?


Kristján Hrannar Pálsson - 12/08/08 18:44 #

Hefurðu gert nákvæma úttekt á því? Ertu viss um að ekki sé um valkvæma hugsun að ræða?


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 12/08/08 19:54 #

Tommi, tunglið hefur nánast ekkert hnattrænt segulsvið en þess í stað afar veikt staðbundið segulsvið. Þar að auki er þetta staðbundna segulsvið sterkara á fjærhliðinni en nærhliðinni. Þar fyrir utan myndi þetta svið svo veikt að það myndi aldrei verja geimfara á tunglinu fyrir skaðlegri geislun.


Svíi - 12/08/08 20:57 #

Nu er þjóðtrúin um fullt tungl þekkt og kannski þessvegna lætur fólk illa þegar það er fullt tungl, vegna þess að það telur sig hafa einhverja afsökun?


Einar - 12/08/08 21:23 #

Hvers vegna sem það er þá hefur Geir Jón mikið til síns máls varðandi fullt tungl og það vita allir sem koma að viðbrgaðsþjónustu ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Og það sem þið byðjið menn að sleppa ærumeiðingum hér (sem er gott) þá væri kannski við hæfi að þið umsjónarmennirnir og sá sem skrifaði hérna fyrstur byðji hann afsökunar á að væna hann um hindurvitni þar sem að þetta eru ekki hindurvitni heldur gerist þetta hverju svo sem um er að kenna ef nokkru er um að kenna það er að segja.


jogus - 12/08/08 21:31 #

En af hverju styður þá tölfræðin ekki þessar skoðanir Geirs Jóns?


Jón Frímann - 13/08/08 00:41 #

Hérna eru tvær greinar sem fjalla um þetta mál.

http://www.skepdic.com/fullmoon.html http://www.menstuff.org/issues/byissue/fullmoon.html


ónefndur - 13/08/08 00:55 #

Ég er meðlimur í AA samtökunum... og ég var með heimadeild í 1 ár sem var á sunnudögum klukkan 9 um kvöld. Þegar fullt tungl var þá var áberandi meira á fundunum heldur en vanalega og þetta var fólk sammála mér um... Það sagði mér þetta einginn heldur tók ég eftir þessu sjálfur með tímanum.

Ég er ekki með neinar sannannir því ég hef ekki skoðað tölfræðina. En ég ætla að reyna að komast í hana því mér finnst þetta áhugavert.

Vinsamlegast má ég vera ónenfndur því það er í tilmælum AA samtakana að fjalla ekki um þau á opinberum vetfangi undir nafni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/08/08 02:27 #

Það sagði mér þetta einginn heldur tók ég eftir þessu sjálfur með tímanum.

Staðfestingartilhneiging?


Guðmuindur Gjarnason - 13/08/08 05:02 #

Yfirlögregluþjónninn á Höfuðborgarsvæðinu hefur rétt fyrir sér. Það er margt annað sem spilar þarna inní td. veður, árstími og þá með tilliti til skólahalds og einnig útborgunardagar. Það sem veldur mestu er þjóðtrúin en sagt er að frjósemi manna sé mest á þessum tíma. Það er kannski vantrú en samt er það svona. Mér finnst margt vitlausara en að setja ólæti í samband við tunglið. Við megum ekki blindast svo af trú að veð getum ekki sett hlutina fram á góðlátlegan hátt.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 13/08/08 09:03 #

Það dugar ekki að segja sögur. Þetta er eitthvað sem er ákaflega auðvelt að sanna og sýna fram á með gögnum. Það væri til að mynda auðvelt að safna gögnum um morð og sjá hvort að þau séu almennt fleiri á fullu tungli eða ekki. Ástæðan fyrir að velja morð er augljóslega að við höfum yfirleitt á hreinu nærri því nákvæmlega hvenær þau eru framin. En já, þetta hefur verið gert og það var engin fylgni.


arnar - 13/08/08 13:42 #

það má vel vera að þær rannsóknir sem gerðar hafi verið hafi ekki sýnt fram á markverðan mun. en maðurinn er einhver 70% vatn eða vökvi og tunglið hefur áhrif á flóð og fjöru. Var dyravörður í nokkur ár og starfaði á geðdeildum í sex ár og það var einfaldlega miklu meira um rugl á fólki við fullt tungl. Strákar urðu aggressívir og lítið þurfti til að læti yrðu. Iðulega kom lögreglan með fólk í ruglástandi á geðdeildir, ekki síst um nætur, þegar fullt tungl var. Ekki styð ég Geir Jón í sínum hugmyndum um trúboð í miðbænum en þarna er ég honum sammála og þetta er ekkert djók.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/08/08 13:46 #

Var dyravörður í nokkur ár og starfaði á geðdeildum í sex ár og það var einfaldlega miklu meira um rugl á fólki við fullt tungl.

Er ekki haldin einhver skrá um atvik á geðdeildum, t.d. innlagnir? Ef svo ætti að vera einfalt að staðfesta þetta.

Ekki er hægt að útiloka fyrirfram að eitthvað geðveikt fólk sé haldið þeirri ranghugmynd að fullt tungl hafi áhrif á sálarlíf þess - sem aftur valdi því að fullt tungl hafi þar með þau áhrif.

Slíkar vangaveltur eru reyndar algjörlega óþarfar fyrr en sýnt hefur verið fram á að einhver tengsl séu í gangi.


Haukur (meðlimur í Vantrú) - 13/08/08 14:44 #

En eins og með allt annað þá erum við meira en tilbúnir að skipta um skoðun um leið og þetta er "sannað" með vísindalegum aðferðum. Ef verulegur tölfræðilegur munur væri á fjölda atvika sem um ræðir í fullu tungli þá myndum við íhuga þetta. En þar sem allar (flestar) rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu benda ekki til neinnar tengingar þá getum við ekki annað en kallað þetta hindurvitni.


Legopanda (meðlimur í Vantrú) - 13/08/08 16:51 #

,,maðurinn er einhver 70% vatn eða vökvi og tunglið hefur áhrif á flóð og fjöru."

Tunglið hefur áhrif á jörðina með þyngdarsviði sínu, það togar jafnt í kletta, tré og fleka jarðskorpunnar eins og sjóinn. Flekarnir haldast bara betur saman, þess vegna tökum við mest eftir því að tunglið togar í sjóinn. Tunglið togar líka örlítið í okkur mannfólkið, en mér finnst ólíklegt að það hafi þau áhrif á uppbyggingu heilans að fólk verði árásargjarnara.

Tókstu eftir einhverju sérstöku þegar tunglið var nýtt? Ef þú vilt meina að þessi áhrif komi fram vegna þyngdarsviðs tunglsins ætti að vera eins mikið rugl þegar nýtt tungl er og þegar það er fullt. Það hversu mikið sólarljós endurvarpast frá tunglinu niður á landið okkar tengist ekki flóði eða fjöru.

Hvað annað gæti verið í gangi? Hugsar fólk um varúlfa þegar það sér fullt tungl, og samsamar sig einhvern vegin í undirmeðvitundinni við þá sem veldur því að það verður árásargjarnara? Þá ættu þessi áhrif einungis að þekkjast í þeim löndum og samfélögum þar sem varúlfagoðsagnir eru vel þekktar.

Hefur þróun mótað okkur þannig að við förum í meiri veiðimannaham þegar fullt tungl er og sléttur og skógar betur upplýstir?

Eða er þetta einfaldlega staðfestingartilhneiging? Fólk athugar hvort það er fullt tungl ef það er mikið að gera, og ef það reynist vera þá man það þetta kvöld betur en þegar mikið var að gera og ekki fullt tungl. Ef lítið er að gera dettur fólki ekki einu sinni í hug að athuga hvort fullt tungl sé, og missir þá kannski af kvöldum sem myndu veikja þessa hugmynd.

Hljómar það ekki bara sennilega?


Siggi - 13/08/08 22:16 #

Haha, þetta minnir mig á þegar ég las í eitthverju feministablaðinu, vikan eða eitthvað, "tunglið hefur mikil áhrif á vatn og veldur flóði eða fjöru, þar sem 70% af mannslíkamanum er vatn er það aðeins rökrétt að það hafi einnig áhrif á okkur", og síðan fylgdi grein um hvaða stöður tunglsins myndu valda hvaða skapi. Maður vissi ekki hvort ætti að hlæja eða gráta.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 14/08/08 02:00 #

Siggi, það eru einmitt viðbrögðin mín þegar ég rekst á eitthvað svipað þessu... maður bara á ekki orð :S


Baldur - 14/08/08 23:20 #

Vááá hvað þið eruð svakalega pirruð öll eithvað. Slappiði af gæinn er búin að standa sig ágætlega sem yfirlögregluþjónn og þetta er hans tilfinning fyrir sínu starfi. Hann þekkir það líklega betur en þið. Shitt, teljið uppá tíu eða eithvað maður. Þetta er smámál! haha fólk að hrópa um biðja að hann segi af sér? eru þið öll á einhverjum efnum? Þetta er augljóslega ekki eithvað sem á að vera tekið bókstaflega og spunnið úr öllu samhengi! Vá hvað þið eruð vandræðaleg!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/08/08 00:08 #

Baldur:

Þetta er augljóslega ekki eithvað sem á að vera tekið bókstaflega og spunnið úr öllu samhengi!

Í fréttinni stendur:

Hann segist lengi hafa haldið því fram að meira álag sé hjá lögreglunni þegar tunglið er fullt og því hafi hann fjölmennari vaktir þær helgar þegar svo ber undir.

Á ekki að taka þetta bókstaflega? Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að Geir Jón taki þetta bókstaflega.

Sýnist Baldur vera pirraðasti einstaklingurinn á svæðinu.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 15/08/08 01:04 #

Baldur, ekki láta okkur pirra þig svona mikið :P

Nei, þetta snýst auðvitað ekki einungis um yfirlögregluþjóninn, heldur líka hversu algeng þessi mýta er.

En þegar maðurinn hagar vinnunni sinni eftir svona grillu, þá spyr maður sig hvort fleiri hlutar hennar ákvarðist af gervivísindum.


vigdis agustsdottir - 16/08/08 16:06 #

hef reynsluna sjálf, tungl hefur áhrif á allt lífríki jarðar og við erum bara hluti af því. A.m.k. hafa stórir straumar áhrif á mig það er alveg á hreinu. Held að þeir sem eru á móti, fatti ekki ennþá að þeir eru líka hluti af lífríkinu, hvort sem þeim líkar betur eða verr


Jón Frímann - 16/08/08 17:31 #

Á morgun (eftir miðnætti) er fullt tungl og líka tunglmyrkvi (hlutamyrkvi). Tilvalið tækifæri til þess að skoða fullyrðingu Geir Jóns um vaxandi ofbeldi á fullu tungli.


Siggi - 16/08/08 19:38 #

Það er varla hægt að taka eina helgi, auðvitað þarf þetta að vera nokkra ára tímabil og tekið meðaltal, það heitir vísindi, það er til þess að eyða breytunum.

Vigdís, hefurðu eitthver gögn á bakvið þetta? Og hvernig stendur á því að tölfræðin sé ekki sammála þér?

Hvaða straumar hafa hvaða áhrif á þig og hvernig gera þessir "straumar" það?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/08/08 13:59 #

Á baksíðu Morgunblaðsins er umfjöllun um vakt lögreglunnar í miðbæ Reykjavíkur og rætt við Stefán Eiríksson lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu sem stóð vaktina aðfararnótt laugardags. Þar segir meðal annars:

Spurður hvort fleiri hafi áhrif á hegðun fólks frá einni helgi til annarrar svarar hann: "Það er ekki gangur himintunglanna, svo mikið er víst. Það sem skiptir máli m.a. er fjöldinn í bænum og nú voru frekar fáir á ferli"

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.