Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þórdís Helgadóttir fjallar um trúleysi - fyrsti pistill

Heimspekingurinn Þórdís Helgadóttir flutti nýverið þrjá pistla um trúleysi í þættinum Víðsjá á Rás 1.

Þórdís veitti okkur góðfúslegt leyfi til að birta pistlana og hér fyrir neðan er hægt að hlusta á upplestur Þórdísar og lesa pistilinn.

Í þessum fyrsta pistli fjallar Þórdís meðal annars um fullyrðinguna að trúleysi sé trú og hvort trúmenn hafi góða ástæðu til að ætla að Gvuð sé til.

Seinni tveir pistlar Þórdísar eru einnig komnir á Vantrú:


Smellið á play til að hlusta.

Austur i löndum var nýlega gerð stóruppgötvun varðandi álit guðs almáttugs á skepnu sem nefnist gíraffi. Dýr þetta mun nefnilega vera í lagi að éta, athugasemdalaust af guðs hálfu, eins og strangvísindaleg úttekt á því hvernig gíraffamjólk kekkjast hefur leitt í ljós. Hún kekkjast semsé í samræmi við smekk guðs.

Gíraffar halda að vísu ró sinni enn sem komið er, enda víðast hvar friðaðir, en það kæmi ekki á óvart þótt efasemdablik hafi speglast í svörtu auga einhvers staðar á afrískri sléttu þegar fréttin barst þangað.

En annars staðar í heiminum, þar sem framtíð hans er kannski ráðin, hlusta nágrannar mínir andaktugir. Sá sem heldur vestur um haf til að eltast við menntagyðjurnar skyldi nefnilega ekki láta það koma sér á óvart þótt hann ranki við sér í smábæ þar sem allt hefur verið sniðið að matarsmekk goðmagnsins: í miðjum bænum standa veitingastaðirnir Jerusalem Pizza og Kosher Chinese hlið við hlið - og alvarlegir menn hafa reiknað það út hvaða réttir úr matarmenningu Kínverja og Ítala fái grænt ljós frá guði.

Þarna i fjölmenningarálfunni er nú einmitt um þessar mundir hart tekist á um atriði sem ég hef lengi haldið að væru jafn augljós og það að ég standi á jörðinni. Ágætlega gefnir menn hafast út i það að rekja, óteljandi sinnum, mótmæli við röksemdum sem löngu hafa verið hraktar, ef ekki af Russell þá af Hume, nú eða aftur á miðöldum. Stundum er engu líkara en þjóðarsálin hafi steingleymt upplýsingunni eða hreinlega ekki séð dagblöðin daginn sem það fréttist að þetta rifrildi er löngu búið.

Maður reynir því eftir fremsta megni að beina kröftum sínum að verðugri verkefnum - svo sem áríðandi vandamálum í frumspeki - og bíðum þar til moldviðrinu slotar. Látum það eiga sig í bili þótt orðræða bandarískra stjórnmála sé reyndar helst til trúarskotin. Látum það vera þótt moldspilltir ofsatrúklerkar hafi áhrif á stefnumótun valdhafa. Látum það vera þótt það fáist ekki neyðarpilla í heilu sýslunum vegna trúarskoðana apótekara. Og látum það vera þótt það þurfi virkilega að halda réttarhöld til að fá úr því skorið hvort eitthvað sé athugavert við að kenna frekar fornar alþýðukenningar í líffræði og jarðfræði en best gögnum studdu vísindakenningar samtímans. Skítt með allt það.

Nei sinnuleysið rjátlast ekki af manni fyrr en maður hefur dvalið í samfélagi hinna trúuðu, í bæjarfélagi þar sem allir brölta um klæddir síðpilsum og með lítinn hatt pikkfastan við kollinn, bara fyrir guð. (Því allir menningarheimar sammælast um það að ef það er til goðmagn þá fari það svo sannarlega í manngreiningarálit eftir klæðaburði.) Allt umkringis bæjarmörkin hefur verið strengt band - sérstakt snarheilagt og yfirnáttúrulegt hvítt bómullarband sem hefur þau töfraáhrif á eðli bæjarfélagsins að á laugardögum breytist allur bærinn í heimili manns - og það er þar af leiðandi mögulegt að ganga með smáhluti eins og veski á milli húsa án þess að tryggja sér pláss í helvíti. Í stórmarkaðinum svigna svo hillurnar undan mat sem merktur er guðdómlegum gæðastimpli.

Dagurinn sem ég ákvað að hafa skoðun á málinu var kannski einmitt sami dagur og ég keypti mér - rétt eins og vanalega - kolsýrt vatn af ódýrustu gerð, og utan á flöskuna hafði verið prentuð sérstök tilkynning: Kosher for passover, sumsé sódavatni tappað á flöskur eftir matreiðsluleiðbeiningum heilags anda. Innihaldslýsing: vatn, kolsýra.

Ég hef þess vegna fulla samúð með hlustendum sem ranghvolfa í sér augunum þegar þeir heyra að nú þurfi þeir að þola enn eina langlokuna um trúleysi. Ef það er nokkur huggun ætla ég að hlífa ykkur við minni skoðun á því hvernig beri að svara leikskólabarni sem spyr hvar langamma sé núna eða á því hversu smart það hafi verið hjá Svarthöfða að bjóða sjálfum sér á prestastefnu. Mig langar að freista þess að fiska örlítið dýpra og eyða nokkrum orðum á réttlætinguna fyrir trúarviðhorfum almennt - og nokkur tengd atriði.

Þeir sem verða fyrir svörum gegn gagnrýni guðleysingja opinbera stundum þá skoðun að úr því að ekki hafi fengist endanleg sönnun fyrir eða gegn tilvist guðs, geti ekki verið verri forsendur fyrir þeirri skoðun að guð sé til en hinni, að hann sé það ekki. Þetta er það sem hlýtur að felast í slagorðinu Trúleysi er líka trú, ef það ber að túlka það öðruvísi en svo að það sé augljóslega ósatt. Að vísu myndi þessi röksemd, ef hún stæðist, gera okkur að efamönnum eða agnostikerum en við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því, þar sem þetta viðhorf er hvort eð er alls ekki verjandi þegar betur er að gáð, heldur byggir á tiltekinni villu.

Það er dagsatt að enginn getur sannað að guð sé ekki til. Það er meira að segja staðhæfing af því tagi sem almennt séð er ekki mögulegt að sanna, nefnilega neikvæð tilvistarfullyrðing. Þetta verður stundum tilefni til að væna trúleysingja um þá hræsni og ósanngirni að gera strangari sönnunarkröfu á guðsmenn en sjálfa sig, þegar bæði lið séu í raun á sama báti.

En það er mesti misskilningur að málið snúist um sannanir yfirleitt. Það er að vísu rétt að ef öðrum hvorum deiluaðila tækist að leggja fram óumdeilanlega sönnun væri málið dautt. En það er ekki þar með sagt að óumdeilanleg sönnun sé nauðsynleg til að taka afstöðu til þess hvorir hafi rétt fyrir sér. Það er nú einu sinni þannig að nánast engin fullyrðing á himni eða jörðu hefur verið sönnuð á óyggjandi og óumdeilanlegan hátt. Það eru helst stærðfræðilegar og rökfræðilegar setningar sem eiga nokkurt tilkall til þess að vera, í strangasta skilningi, sannaðar. Flokk hins ósannaða fyllir flest annað: þróunarkenningin og afstæðiskenningin, frjálshyggja og freudismi, sú kenning að annað fólk sé ekki vélmenni eða uppvakningar og sú kenning að umheimurinn sé í raun og veru til.

En engum heilvita manni dettur í hug að þar sem það sé hvorki fullsannað að líkami minn sé gerður úr öreindum né að hann sé gerður úr ótal litlum nashyrningum, sé engin ástæða til að leggja trúnað á aðra kenninguna fram yfir hina. Að sjálfsögðu getum við greint þarna á milli og að sjálfsögðu höfum við góða ástæðu til að leggja trúnað á einstakar ósannaðar skoðanir - eins og sést best af því að við skulum komast lifandi frá daglegu lífi.

Ég hef til dæmis góða ástæðu til að ætla að ég geti ekki flogið, enda reyni ég ekki að fljúga. Ég hef góða ástæðu til að ætla að andrúmsloftið verði ekki skyndilega banvænt um leið og ég depla augunum og í ljósi þess dreg ég róleg áfram andann. Það skiptir ekki máli að þessar skoðanir séu ekkert fremur endanlega sannaðar en hinar öndverðu skoðanir. Ef ekkert minna en sönnun dygði til að hafa ástæðu til að trúa einhverju um það hvernig heimurinn er værum við í stuttu mali öll löngu dauð.

Og einmitt það sama gildir um fullyrðinguna guð er til. Við gætum haft allt eins góða ástæðu til að halda að hún sé ósönn - eða sönn - og við höfum fyrir fyrsta lögmáli varmafræðinnar og því að við höfum nákvæmlega tvær hendur - þótt við höfum enga sönnun.

Þessi tiltekna deila ætti því að snúast um það hvort við höfum eða höfum ekki góða ástæðu til að trúa því að guð sé til - í þeirri hversdagslegu merkingu sagnarinnar að trúa að telja að fullyrðing sé sönn. Og það vill svo til að við höfum nokkuð góða hugmynd um hvað þarf að einkenna skoðun eða fullyrðingu til þess að við höfum tilefni til að trúa henni umfram aðrar. Þessi einkenni eru fyrst og fremst rökstuðningur og gögn sem okkur áskotnast með reynslu og athugunum. Hvort tveggja hafa guðstrúarmenn alla tíð reynt að færa fram - og það með réttu. Að vísu hafa flestar rökfærslur sem samtímamenn tefla fram fyrir tilvist guðs verið hraktar fyrir löngu og rannsóknir á heiminum benda á yfirgnæfandi hátt til þess að ekkert persónulegt goðmagn sé til. Hvorugt þarf sérstaklega að tíunda hér.

Einhver gæti mótmælt og bent á að það eru til rök og vísindalegar athuganir sem má skilja sem svo að þau bendi til tilvistar guðs. Þetta dreg ég ekki í efa, en það skiptir satt að segja litlu máli - á meðan hin gagnstæða skoðun, að guð sé ekki til, er miklu betur rökum og gögnum studd, höfum við enn sem komið er ástæðu til að trúa henni.

Þórdís Helgadóttir 16.07.2008
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Efahyggja )

Viðbrögð


Valtýr Kári Finnsson - 16/07/08 20:47 #

Vá! Og hvenær kemur næsti pistill?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/07/08 22:12 #

Næsti pistill birtist á föstudaginn og sá þriðji kemur á vefinn á mánudag.


Guðjón - 17/07/08 10:14 #

Helsti styrkur vantrúarsíðunar eru tilvísanir af þessu tagi


Guðjón - 17/07/08 10:31 #

Þórdís má skamma sín fyrir þennan pistil. Það að Þórdís skuli kjósa að stilla sér upp við hliðina á vantrúarmönnum og tala mjög í anda þeirra verður einungis skýrt með tilvísun til þeirra miklu fordóma og skilningsleysis á trúarbrögðum sem eru landlæg í háskólum. Það þykir ekki fínt að vera fordómafullur gagnvart svertingum, samkynheiðum eða íbúum þriðja heimsins. En fordómar og þekkingarleysi á trúarbrögðum þykja í góðu lagi.

Þegar á hefur reynt hefur nútíma heimspeki ekki reyst vera mikils virði- fjölmargir heimspekingar hafa gengið öfgahreyfingum eins og kommúnisma og nazisma á hönd. Heimspekin hefur líka fallið á því prófi að veita vísindunum nauðsynlegt aðhald.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/07/08 10:51 #

Hahaha!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/07/08 10:59 #

Guðjón, ef þú ætlar að gagnrýna þennan pistil væri gott ef þú myndir gera það með því að vísa í innihald hans. Hvað er það nákvæmlega sem þér finnst fordómafullt?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/07/08 12:07 #

Eru þetta ekki nokkuð standard-viðbrögð hjá Guðjóni? Með víðsýni hans verður þröngsýni okkar augljós.

Gagnrýni á guðshugmyndina er sjálfkrafa fordómafull, engin dæmi nauðsynleg.

Komi gagnrýnin frá heimspekingi er bent á að heimspekin sé prump.

Ergo: Lifi guðfræðin og trúin.


Einar V. Bj. Maack - 17/07/08 12:30 #

klappklappklappklapp*

Snilldar pistill hjá Þórdísi.


Þórdís - 17/07/08 12:47 #

Guðjón ég skil ekki hvað vakir fyrir þér og ásakanir þínar eru úr lausu lofti gripnar.

1) Skoðanir mínar eru ekki mótaðar af skrifum félaga í Vantrú og það eru dónalegir hleypidómar og vanvirðing við mig að tala eins og ég sé einhver málpípa. Ennfremur er ég ekki að stilla mér upp með neinum, nema bara með því að heimila endurbirtingu á efni sem var skrifað fyrir og birtist á öðrum vettvangi.

2) Það er líka tilhæfulaust og móðgandi að láta að því liggja að skoðanir mínar séu ekki tilkomnar með gagnrýninni athugun heldur hafi ég étið þær upp af einhverjum almennum tíðaranda sem þú heldur að sé "landlægur í háskólum". Ég frábið mér slíkar ásakanir.

3) Í þriðja lagi tek ég það illa upp að þú sakir mig um fordóma og skilningsleysi á trúarbrögðum. Þetta er efni sem ég hef lengi hugsað um og kynnt mér og pistillinn gefur ekkert tilefni til að ætla annað. Mér dettur helst í hug að það fari fyrir brjóstið á þér að hann sé skrifaður í gamansömum tón, en ég bið þig vinsamlegast að rugla stílnum ekki saman við innihaldið.

4) Varðandi fullyrðingu þína um háskóla, þá veit ég ekki hvaða háskólar það eru sem þú hefur heimildir um, en ég á varla von á því að það séu þeir háskólar bandarískir sem ég hef numið við undanfarin ár. Í ofanálag er þetta órökstudd alhæfing um margar stórar stofnanir og þar af leiðandi lítils virði.

5) Gagnrýni er ekki fordómar. Það er alltaf í lagi að gagnrýna skoðanir fólks - reyndar var ég hérna aðallega að tala um forsendur fyrir skoðunum - svo fremi sem það sé gert málefnalega. Og trúarskoðanir eru skoðanir. Samkynhneigð, kynþáttur og uppruni eru ekki eiginleikar sem okkur eru í sjálfsvald settir og þess vegna er ekki hægt að gagnrýna fólk þeirra vegna. Skoðanir eru af allt öðrum toga. Þennan greinarmun skilja flest börn.

Auðvitað eru til fordómar gagnvart trúarhópum, til dæmis halda sumir að allir múslimar séu alveg klikk. En þú verður að sjá muninn á slíku og því að gagnrýna efnislega skoðanir múslima.

6) Ég dreg það hæversklega í efa að þú getir rökstutt alhæfingar þínar um heimspeki samtímans. En gagnsemi heimspekinnar almennt kemur þessu máli reyndar alls ekki við og ég veit ekki af hverju þú heldur að svo sé, nema vegna þess að þú heldur í einfeldni þinni að það gefi þér höggstað á mér.

Lýkur hér greinargerð fyrir því af hverju það er Guðjón sem ætti að skammast sín og ekki ég.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 17/07/08 13:19 #

Það má taka fram hér að við í Vantrú teljum að Guðjón sé troll. Hann hefur leikið þennan leik margoft og iðulega eru kommentin hans færð á spjallborðið þar sem þau fjalla ekki um efni greinarinnar eða eru í þessum dúr eins og hér að ofan (eintómar dylgjur og enginn rökstuðningur).


anna benkovic (meðlimur í Vantrú) - 17/07/08 17:42 #

ég er mjög hrifin af því að einhver taki umræðuna heimspekilegum tökum og hef beðið eftir því lengi.......takk Þórdís!!!

:-)

Er sjálf heimspekingur (ba) og hef saknað þess virkilega í umræðunni að heyra fra "heimspekinni", en hef ekki beitt mér, enda skráð í vantrú (að sjálfsögðu)....og undrast á hverjum degi yfir næstum því öllu!!

Takk Þórdís og ég bíð spennt eftir næsta þætti! Kær kveðja Anna 1811632409


Jón Valur Jensson - 17/07/08 23:56 #

Ég furða mig á því, hve Þórdís þessi talar lengi á alls óheimspekilegum nótum í fyrri hluta þessa erindis. Síðari hlutinn er skaplegri, þótt hann risti ekki djúpt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/08 01:12 #

Ég ítreka að þetta er fyrsti pistill af þremur. Sá næsti birtist í fyrramálið og þriðji á mánudag. Vonandi rista þeir nægilega djúpt fyrir JVJ.


gimbi - 18/07/08 01:23 #

Ég beið svoldið spenntur yfir viðbrögðum við þessari grein hjá Þórdísi. Og var svosem dáldið vonsvikinn, enda kom Guðjón bara inn, fullur trúarhita en einhvern veginn utan umræðunnar.

Og ég hugsaði með mér hæfilega bjartsýnn: kannski kemur Mofi inn. Með rétta hvíldardaginn sinn. Kannski...

En þá mætir sjálfur Jón Valur! Holdgervingur svo margs! Og úrskurður hans er að framan af hafi þetta brölt Þórdísar verið lítt áhugavert, en sótt nokkuð í sig veðrið þegar líða tók á pistilinn.

Án frekari útskýringa.

Svona eins og seinþreyttur klerkur, sem drattast að endingu upp frá lestri guðspjallanna, til þess eins að árétta enn og aftur rétta rýni sína í bíflífræðin.

Og von Jóns Vals og trú felst enn í að honum megi auðnast að upplifa endurkomu Jésúsar (var þetta rétt beygt Jón?)

Gamall kaþólskur karl með áráttu.

....

Að sjálfsögðu er þetta rétt hjá Þórdísi! Og það þarf enga aldraða vonsvikna kaþólikka til að skera úr um það. Guðshugmynd bíblíunnar er gjörónýt. Það þarf meira til en Mofa og Jón Vali til að umræðan fái á sig trúverðugan blæ.

En það jafngildir ekki hinu, að Þórdís hafi á nokkurn máta kveðið upp úr með það að æðri máttur geti ekki verið til. Það gerði hún ekki.

Kannski gerir hún það í næstu pistlum. Það verður spennandi.

Því sú vera sem hún sjálf er að kljást við, er horf gagnvart alheimi. Og á endanum þarf hún að standa skuldaskil gagnvart þeirri merkilegu staðreynd að hún rýnir í heiminn.

Ég vona að svar hennar verði ekki: "Bara tilviljun"


anna benkovic - 18/07/08 01:32 #

.....hvað eru heimspekilegarnótur að JV mati þínar nótur JV?

Svona er HEIMSPEKI iðkuð og var iðkuð fyrir 20 árum og vonandi verður áfram? JV segir "Ég furða mig á því, hve Þórdís þessi talar lengi á alls óheimspekilegum nótum í fyrri hluta þessa erindis. Síðari hlutinn er skaplegri, þótt hann risti ekki djúpt."...fyrri hlutinn er gott dæmi um heimspekilega hugsun JV,,,ef þú veist það ekki? Maður setur upp líklegt, en óvenjulegt dæmi...JV, þú ert allt of skólagenginn til að þekkja það ekki??...eða hvað? Alla vega er þetta klassisk hugsun (já..JV) og ég hlakka til að heyra meira.Takk


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 18/07/08 08:59 #

Hér er um örstutt útvarpserindi að ræða og spurning hversu djúpt það getur rist, ekki síst áheyrenda vegna.

Ég skora á hvern sem er að bera þennan texta saman við þá froðu og velling sem lagður er á borð fyrir áheyrendur í útvarpsprédikunum.

Einkenni prédikana er oftar en ekki að þar stendur ekki steinn yfir steini sé lágmarksrökhugsun beitt á textann. Enda er þess vandlega gætt á tru.is að enginn geti gert athugasemd við þvætting prestanna.


Jón Valur Jensson - 18/07/08 14:21 #

Það þarf naumast að taka það fram, að jarmið í gimba var enn óheimspekilegra en skrif Þórdísar. Ég vonast til að við getum rætt þetta á fræðilegum nótum,þegar ég hef komizt til að kynna mér 2.grein hennar og þá þriðju.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 18/07/08 14:50 #

Gott að sjá Jón hérna tilbúinn til fræðilegrar umræðu. Vonandi verður einhvað ánægjulegt úr þessu.


gimbi - 18/07/08 16:47 #

Líkast til er Jón Valur hér að vísa til þess, hvernig við erum jú öll bara lömb guðs hvað mis-ámátlegt jarm okkar varðar.

Nema hvað hans jarm er ólíkt okkar hinna eftir kórbókinni.

Nú kvakar hann að Þórdís sé "óheimspekileg" og ég þó sýnu verri.

Jæja, bættur sé skaðinn.

Eitt er að færa fram þekkingarfræðilegar rökfærslur gegn tilvist guðs kristinna manna.

Annað er svo að siðfræðilegar forsendur beinlínis kveða á um að guð kristinna manna er hefnigjarnt illmenni sem mun láta menn brenna í helvíti til eilífðar, þar sem verður grátur og gnístran tanna. Eingöngu vegna svekkelsis með sköpunarverk sitt, sem er þó algerlega á hans ábyrgð.

Jón Valur veit sem er að hann er hólpinn. Hann er ekki viss um Mofa.

Við hin förum náttúrulega beinustu leið til helvítis.

En að þetta verði einhver áhugaverð ekki-"óheimspekileg" umræða af hans hálfu?

Tja, það má Guð vita.

Annars má vitna í niðurlag næsta lesturs Þórdísar: "Ef enn er vísað í gamla bók læt ég ykkur eftir að sjá hvert stefnir."


Guðjón - 18/07/08 17:23 #

Réttast er að bíða með frekari umræðu þar til allir pistlanir hafa birtst.


Ásgeir - 20/07/08 22:08 #

Ég vil bara þakka Þórdísi fyrir hreint ágætan pistil.


Ásgeir - 20/07/08 22:14 #

Ég vil reyndar bæta smávegis við umræðuna.

Jón Valur segir pistilinn óheimspekilegan, ef hann var virkilega að meina þetta, þá vil ég einfaldlega benda honum á það að ýmislegt hefur gerzt í heimspekinni síðan Tómas Akvínas var á dögum. JVJ ætti kannski að lesa aðeins nýrri höfunda?


gimbi - 21/07/08 00:07 #

Jón Valur er annarlegur maður.

Nýlegur pistill hans um hvernig einhver var dæmdur fyrir að rífa í sundur fimm-ára stúlkubarn með barnaníði sýnir bara að maðurinn á við gríðarmikla persónulega erfiðleika að stríða.

Að hann skuli síðan koma hérna inn veifandi gömlu skruddunni segir sína sögu.

Farið hefur fé betra...


Arngrímur Vídalín - 24/07/08 01:07 #

Ég er ekki hrifinn af þessu ad hominem eipi sem gengur hér á æ ofan í æ. Mér finnst talsvert skorta á málefnaleik beggja megin umræðunnar, nokkuð sem pistlahöfundar eiga ekki að líða fyrir. Það að Jón Valur hafi skrifað annan pistil á ótilgreindum tíma um efni óskylt pistlinum er t.d. algjörlega óþarft að benda á, enda hjálpar það umræðunni um þessa grein fjandakornið ekki neitt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/07/08 01:50 #

Mikið rétt. Nú þegar allir þrír pistlar Þórdísar eru komnir á Vantrú (pistill 2 og 3) er vonandi hægt að ræða efni þeirra málefnalega. Æskilegt væri að þeir sem vilja andmæla Þórdísi geri það með vísun í efni pistla hennar en ekki almennu tali um trú og trúleysi.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 29/07/08 19:30 #

Athyglisverður pistill. Mig langar að bera fram tvær spurningar:

..og rannsóknir á heiminum benda á yfirgnæfandi hátt til þess að ekkert persónulegt goðmagn sé til. Hvorugt þarf sérstaklega að tíunda hér.
  1. Telur greinarhöfundur að aðferðir raunvísindanna geti á einhvern hátt gefið vísbendingar eða haft forspárgildi um tilvist Guðs?

  2. Hvaða rannsóknir eru það sem benda á yfirgnæfandi hátt til þess að ekkert persónulegt goðmagn sé til?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/07/08 19:50 #

Svona á meðan við bíðum eftir höfundinum:

Telur greinarhöfundur að aðferðir raunvísindanna geti á einhvern hátt gefið vísbendingar eða haft forspárgildi um tilvist Guðs?

Raunvísindin kanna ekki tilvist guða eða setja fram tilgátur í þá veru. Þau skoða einungis heiminn eins og hann er og draga af þeim rannsóknum þær skynsamlegustu ályktanir sem hægt er að draga, alveg hlutlaus gagnvart fyrri hugmyndum. Af hverju ættu þau líka að vera eitthvað að reyna að skoða heiminn með þeim gleraugum að sjá hvort einhver forn hugmynd gangi upp? Hvað er unnið með því?

Þú verður að athuga að menn hafa skoðað guðshugmyndir manna og reynt að finna út hvaðan þær eru sprottnar. Það er allt annar hlutur en að reyna að skoða hina meintu guði sjálfa og reyna að finna ummerki eftir þá. Rannsóknir okkar segja okkur að hugmyndir manna um guð séu sprottnar út frá vilja grandalausra til að skilja náttúruna án nokkurrar vitrænnar aðferðar, goðmögnun náttúrufyrirbæra í praktísku skyni.

Og þar með sjáum við að tilurð guðahugmynda er ekki byggð á neinu haldbæru og óþarfi að kanna þann flokk neitt frekar, sér í lagi þegar hlutlausar rannsóknir benda í aðra átt og niðurstöður þeirra fullkomlega á skjön við þessar gömlu hugmyndir.

Hvaða rannsóknir eru það sem benda á yfirgnæfandi hátt til þess að ekkert persónulegt goðmagn sé til?

Uhh, allar. Enn hefur engin rannsóknarniðurstaða stutt þessar gömlu fornaldarhugmyndir um eðli og tilurð alheimsins. En ef það einhvern tíma gerist munum við öll endurskoða heimsmynd okkar í takt við þær nýju upplýsingar.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 29/07/08 21:41 #

Raunvísindin kanna ekki tilvist guða eða setja fram tilgátur í þá veru. Þau skoða einungis heiminn eins og hann er og draga af þeim rannsóknum þær skynsamlegustu ályktanir sem hægt er að draga, alveg hlutlaus..

Þetta er það sem ég hef haldið. Þess vegna skil ég ekki hvernig þau eiga að geta fært okkur vitneskju um tilvist eða ekki tilvist Guðs. Ég útiloka samt ekki að út frá aðferðafræði þeirra þá geti raunvísindin fundið eða ekki fundið vísbendingar um "fingraför Guðs á heiminum" ef hægt er að nota það hugtak þó ég geri alla mögulega fyrirvara við þannig rannsóknir og aðferðafræði þeirra. Nú er mér kunnugt um ýmsar rannsóknir á heilsu trúrækins fólks og því bíð ég spenntur eftir upplýsingum um þær rannsóknir sem benda á yfirgnæfandi hátt til þess að "ekkert persónulegt goðmagn sé til" svo notuð séu orð greinarhöfundar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.