Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hlutlaus fræðsla og óumburðarlyndisfasismi

Bjarni Harðarson hefur farið mikinn í greinum í 24 stundum þar sem helstu andstæðingar eru ímyndaðir einstaklingar sem hann uppnefnir umburðarlyndisfasista. Hingað til hefur það reyndar talist höfuðeinkenni á fasistum að þeir eru ekki umburðarlyndir en Framsóknarmenn og aðrir óumburðarlyndisfasistar virðast samt ætla að rembast við að nota það.

Hættuleg blanda trúar og stjórnmála

Þingmaðurinn virðist óttast að aflagning ríkiskirkjunnar muni leiða til þess að trúarlíf Íslendinga muni allt í einu verð líkt og í Bandaríkjunum. Þarna ber á nokkurri fáfræði. Almennt eru trúaröfgar í Bandaríkjunum ýktar til muna. Það er þó rétt að full fáir Bandaríkjamenn þekkja til þróunarkenningarinnar. Lausnin á því er þó væntanlega helst fólgin í betri náttúrufræðikennslu.

Í strandríkjunum býr fólk sem er almennt hófsamt í trúmálum. Í fjölmiðlum sjáum við hins vegar mikið af pólitíkusum sem vilja höfða til þeirra sem búa í Biblíubeltinu og þora því ekki annað en að lofsyngja Jesú. Aðskilnaður ríkis og trúar hefur lengi ekki verið annað en orðin tóm í Bandaríkjunum og það er vegna þessara stjórnmálamanna.

Það er hættulegt að blanda saman stjórnmálum og trú. Á Íslandi er einn flokkur einmitt byrjaður að róa á þessi mið í atkvæðisleit og það er Framsóknarflokkur Bjarna Harðarssonar. Sem betur fer hefur þetta ekkert gengið hjá þeim sem bendir til að Íslendingar séu of skynsamir til að blanda saman stjórnmálum og trú.

Umburðarlyndi utan ríkiskirkjunnar

Bjarni segir að ríkiskirkjan íslenska hafi "ekki staðið að árásum á fólk af öðrum trúarbrögðum". Þetta er náttúrulega bara rangt. Karl Sigurbjörnsson hefur í ræðu varað við því að Íslam muni taka yfir Evrópu. Hann hefur líka talað "sálardeyðandi og mannskemmandi" guðleysi sem "ógnar mannlegu samfélagi". Þegar fríkirkjuprestur opnaði kirkju sína fyrir giftingu trúlausra húmanista þá sauð á prestum ríkiskirkjunnar sem fordæmdu athæfið.

Umburðarlyndi fríkirkjunnar sem vill fá að gifta samkynhneigða er einmitt í hrópandi ósamræmi við ríkiskirkjuna sem hefur í rúman áratug hamlað réttindabaráttu þessa hóps. En kannski er fríkirkjupresturinn bara einn af þessum ógurlegu umburðarlyndisfasistum sem Bjarni er svo hræddur við.

Kristniboð og meint þöggun

Bjarni talar um að margir telji að þögnin eigi að ríkja í sambandi við ýmislegt sem tengist þjóðmenningu okkar og trú. Það er bara ekki satt. Ég veit ekki til þess að nokkur sé til dæmis að berjast gegn fræðslu um kristni eða þá álfa-, drauga- og tröllatrú Íslendinga í gegnum tíðina. Á sama tíma á að sjálfssögðu að fræða börn um önnur trúarbrögð og lífsskoðanir. Kennarar eru flestir vel færir um þetta án þess að vera um leið að innræta börnum trú (eða trúleysi).

Það sem vekur ugg í fólki er að prestar eru í sífellt meira mæli farnir að sækja inn í leikskóla og yngri bekki grunnskóla með það sem þeir sjálfir kalla kristniboð. Þetta er einfaldlega ólöglegt og því þarf að linna. Ég hef bent Bjarna á þetta en samt talar hann um heimsóknir presta í skóla eins og þetta sé hluti af trúarbragðafræðslu. Svo er ekki.

Í skólastarfi er nauðsynlegt að friður ríki. Til þess er rétt að hlutleysi ríki í bæði stjórnmálum og trúmálum, fræðsla en ekki áróður. Kristið fólk sem sér að tillitsemin er kjarni gullnu reglunnar áttar sig væntanlega vel á þessu. Við þurfum að treysta kennarastéttinni til að sjá um þessi mál svo að sátt sé um það í þjóðfélaginu.


Greinin birtist í 24 stundum í dag

Óli Gneisti Sóleyjarson 17.06.2008
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Björn Ómarsson - 17/06/08 16:13 #

Fín gagnrýni á furðulega grein.

Ég tók líka eftir því að Bjarni talar um að Starf presta í skólum, sjúkrahúsum og fangeslum hafi verið liðið "hingað til". Er virkilega hægt að bera fanga og sjúklinga við börn? Er ekki augljóst að fangar/sjúklingar geta ekki, eðli málsins samkvæmt, sótt messur eða aðra trúarlega þjónustu í sinni heimasókn? Þetta á ekki við um börn, foreldrar þeira geta augljóslega farið börn sín í kirkjur ef þeim sýnist. Fangar/sjúklingar eru líka (oftast) fullorðnir einstaklingar sem geta sagt nei við þjónustu presta. Þetta geta börn ekki, eins og þið Vantrúarmenn hafið bent margoft á. Getur einhver sagt mér afhverju starf presta í skólum er sambærilegt starfi presta á sjúkrahúsum, hvað þá í fangelsum?

Það sem mér fannst sérstaklega athyglisvert við þessa grein var að í öllum þessum orðaflaum var ekki minnst einu orði á rökin fyrir skólatrúboðinu, heldur lætur sér nægja að líkja þeim sem eru ósammála honum við Tító! S.s. tilfinningar, ekki hugsun. Þetta hljómar vel saman við tilgátu Óla Gneista, um að framsóknarflokkurinn sé að fiska eftir trúaratkvæðum: Bjarni Harðar, hinn íslenski Mike Huckabee.

Og ég er ekki fasisti.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.