Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sunnudagsbréf

I

Nú er sumarið byrjað og þá styttist í það að Vantrú fari í hálfgert sumarfrí, sem mun hefjast 15. júní og einsog gefur að skilja verða greinaskrif og uppfærslur eitthvað stopul fram að 15. ágúst en þá mun eðlileg dagskrá hefjast á ný.

Einsog máske dyggir og daglegir lesendur tóku eftir þá var ekkert rætt um vísindaspekikirkjuna einsog ég lofaði í síðasta Sunnudagsbréfi. Ástæðan er einna helst sú að það voru vissar umræður á þingi á svipuðum tíma og sú þemavika átti að vera sem snerti sameiginlega taug meðlima Vantrúar, og auðvitað fleiri í þjóðfélaginu, er varðar starfshætti grunnskólans, sem nú eiga að byggja m.a. á kristinni arfleifð.

Eina opinbera stofnunin, að undanskildum grunnskólum landins, sem byggir starfshætti sína á kristinni arfleið, svo ég viti til, er ríkiskirkjan. Af hverju var verið að klína þessari fáránlegri klausu inní ansi hófsama og almenna breytingartillögu Þorgerðar Katrínar?

Efalaust munu hinir kristnu prestar úr ríkisstyrktu trúarmafíunni nota kúbein á þessa glufu til að lauma sér inní skólana einsog þjófar að nóttu og ef þeir verða nappaðir við eitthvað ósiðlegt, ósæmilegt og óþolandi s.s. trúarítroðslu og óviðeigandi kirkjuferðir, munu þeir einfaldlega vísa í þessi afar loðnu lög og verða stikkfrí. Og mannvitsbrekkur einsog Kristinn H. Gunnarsson, Guðni Ágústsson og Árni Johnsen munu telja það fallegt og heilbrigt. Enda er vit þeirra ekki meira en guð gaf.

II

Áreitni og mismunum vegna trúarbragða er áhyggjumál í þessu þjóðfélagi sem öðrum. Hin umburðarlynda ríkiskirkja og kærleiksríka fólkið sem starfar í þeim ranni er mjög ötult við að níðast á þeim sem leita réttar síns. Reynir Harðarson, sem kannast mjög vel við þetta vandamál, nefnir nokkur dæmi, svo sem að:

Skólastjórinn sakar þig opinberlega um frekju og ofstæki og segir þér persónulega að þig skorti umburðarlyndi og víðsýni.

Og fleiri taka í sama streng, s.s. kennarar, ónefndur biskup, ellihrumur biskupsfaðir, prestar, fáráðlingar og ritsjórinn hjá DV. Í niðurlaginu spyr Reynir:

Áreitni er að skapa ógnandi, óvinveitt, niðurlægjandi eða særandi andrúmsloft. Ætli biskup kalli það ekki hlýjan vorþey trúarinnar og kristilegs siðgæðis?

Brynjólfur Þorvarðarson svarar pistli Sigurjóns Ara Sigurjónssonar sem birtist í 24 stundum þann 19. apríl með greininni Krossar vinsamlegast afþakkaðir, er fékkst birt í sama blaði þann 3. maí. En þar afþakkar Brynjólfur pent að vera samsekur í einhverjum skítlegum skrípaleik er varðar fyrirgefningu og syndaaflausn í skiptum fyrir krossfestingu á barni, auk þess að reka ofaní Sigurjón að mannréttindi, varðveisla íslenskunnar og fleira eru ekki rassgat kristni að þakka, langt í fokking frá.

Sigurjón svarar svo þessari grein Brynjólfs þann 27. maí í 24 stundum með þeim orðhengilshætti sem aðeins heittrúaðir kristsdólgar kunna best. En í einskærri góðmennsku finnur Brynjólfur sig knúinn til að svara kjaftæðinu með Hið evrópska Íslam þar sem hann gleðst yfir “þeirri nýstárlegu aðferð að beita hvorki rökum né skynsemi í málflutningi.”

Umburðarlyndi? Heyr á endemi! Vésteinn Valgarðsson er hvumsa yfir þeirri heimtingu klerks, sem hann ræddi við, að við í Vantrú eigum að “sýna svolítið umburðarlyndi.” Vésteinn spyr nokkurra spurninga:

Eigum við að sýna umburðarlyndi fyrir misrétti? Eigum við að umbera að trúlausir og aðrir sem ekki eru lútherstrúar séu annars flokks þjóðfélagsþegnar? Eigum við að umbera að einni hjátrú sé leyft að vaða uppi í opinberu menntakerfinu? Eigum við að umbera að nálægt annað hundrað manns sé á launum hjá ríkinu við að boða okkur hjátrú?

Gunnlaugur Snær Ólafsson bendir á þá vitfirru í athugasemdakerfinu að ástæðan “fyrir því að ríkið fjármagnar rekstur Þjóðkirkjunar er að ríkið er að greiða niður skuldir” og segir svo að það er ekki “hægt að skilja ríki og kirkju fyrr en ríkið hefur greitt skuldir sínar.” Svo slengir snillingurinn fram einhverri 1000 milljarða krónutölu er hann virðist hafa fundið í rassgatinu á sér sem ríkið skuldar ríkiskirkjunni fyrir jarðir sem kirkjan sölsaði undir sig með ofbeldi og hótunum þær aldir sem hún stjórnaði lífi og limum mölbúa.

Fagráð ríkiskirkjunnar um meðferð kynferðisbrota er umtalsefni Reynis í greininni Fagmennska Þjóðkirkjunnar. En þetta fagráð hefur líklegast spillt fyrir rannsókn á hugsanlegum kynferðisafbrotum prests á Selfossi gagnvart tveim unglingstúlkum með því einfaldlega að skipta sér af því í stað þess vísa þessu beint til lögreglu og barnaverndaryfirvalda.

Aukinheldur gerðust tvær mikilvægar stofnanir í svona málum óhæfar til að koma nálægt þessari rannsókn; Fyrir það fyrsta var það Barnahús þar sem formaður þess var í þessu fagráði (en sagði sig úr því skömmu eftir þennan skandall) og einnig starfsmaður hjá ríkissaksóknara. Svona nefndir einsog ríkiskirkjan starfrækir bjóða uppá úrkynjun, og því miður minnir þetta fagráð um of á vafasama starfsemi Vatíkansins. En þessi sirkus allur skemmti biskupsskrattanum enda veit hann vel að margir prestar telja sig hafna yfir lög.

Teitur Atlason las heldur óhugnalega skýrslu um kynferðisafbrot kaþólskra presta í Bandaríkjunum og dró saman það helsta. Skýrslan er byggð á rúmlega þriggja ára rannsóknarvinnu. Teitur bendir á að:

[v]ið lestur skýrslunnar ber að hafa í huga að skýrsluhöfundar eru ekki á neinn hátt andstæðingar skipulagðra trúarbragða, heldur blandaður hópur fólks með ólíkan bakgrunn. Þarna eru m.a nokkrir katólikkar.

Upptalninginn er vægast sagt hryllileg og ekki fyrir viðkvæma. En yfirhylming katólsku kirkjunnar er með ólíkindum.

Látinn er í Ameríku hinn nafnkunni mælskumaður og vantrúarpostuli Robert Ingersoll, tæplega sextugur.

Flökkusaga er birtist fyrir langa löngu í Morgunblaðinu um vantrúarpostulan Robert Ingersoll og góðvin hans prédikarinn Henry Ward Beecher er efniðviður Óla Gneista Sóleyjarsson í pistlinum Ingersoll og hækjan.

Ekki sama Jón og séra Jesús segir Hjalti Rúnar Ómarsson og vísar í þrennskonar kraftaverkasögur: L. Ron Hubbard sem bjó yfir minningum fyrri lífs, Jésús Jósefsson sem gat læknað blinda með því að hrækja í augun á þeim og svo Vespasíanus sem gat gert slíkt hið sama. Málið með þessar kraftaverkasögur er að þær eru allar skrifaðar rúmlega fjörutíu árum eftir meinta atburði og er uppspuni og hugarburður trútarda.

Birgir Baldursson bendir á þá nettu staðreynd er getur orðið vandamál þegar eðlilegar manneskjur finna sér viss átórítet. Þetta eru manneskjur sem alltaf segja satt og aldrei má efast um sannleiksgildi orða þeirra, hvort sem þetta eru Charles Manson eða Karl Sigurbjörnsson eða leita til einhverja lélegra höfunda ömurlegra sjálfshjálparbóka einsog The Secret eða Shut Up, Stop Whining & Get a Life.

Sú hætta sem fylgir því að setja svona fólk uppá óskeikullan stall er að manneskjur fari að fylgja orðum og gjörðum þessara manna blint og gagnrýnislaust, t.a.m. sagt eitthvað svo heimskulegt að fólkið kring getur blöskrað vitleysan eða framið einhver óhæfuverk í nafni hennar.

Ef við hættum öll þessari hegðun gætum við skapað grundvöll fyrir mun betri veröld til að byggja.

Brynjólfur Þorvarðarsson skoðar kristilegt siðferði í ljósi þroskasálfræðinnar í fróðlegum pistli. Hann hefur til hliðsjónar kenningar Jean Piaget og skilgreiningar hans á stigskiptum vitsmunaþroska barna og rannsóknir á siðferðisþroska. Einnig tekur hann fyrir kenningar Lawrence Kohlberg um siðferðisþroska.

Um jólin fór Karl Gunnarsson á sálnaveiðar á Andkristnihátíð síðustu jól, þetta var kannski ekkert safarí, en eflaust nokkuð gefandi upplifun. En á Andkristnihátíð mætir fólk sem hlustar aðallega á metal. Biskupsdruslan sagði einu sinni að þessi hátíð hafi verið stofnuð til “höfuðs kristinni trú” og þar er biskupinn með höfuðið uppí rassgatinu á sér að vanda. Þessi frekar ódýra þungarokkshátíð, Andkristnihátíðin, var stofnuð til höfuðs fokdýra húllúmhæjinu og trúarrúnkinu sem var Kristnihátíðinn árið 2000. Það er þó ekki beinlínis efni hugvekjunar hans Karls, heldur það verulega misræmi milli fjölda þeirra sem eru skráðir í ríkiskirkjuna og þeir sem teljast til kristinnar trúar.

Mannréttindi eiga að vera sjálfsögð, að sjálfsögðu. En við vitum nú flest öll hver er helsta hraðahindrunin er kemur að sjálfsögðum mannréttindum hér. Hin kristna kirkja, auðvitað, sem vitaskuld vill enn hafa einhverja putta í bólförum manna og er helsti skaðvaldurinn er kemur að félagslegri brennimerkingu samkynhneigðra sem er “ekki af öðrum sökum en aldagömlum skrifum öfgafullra manna, þröngsýni og afturhaldssemi þeirra sem skrifin túlka og leggja til við fjöldann sem hina réttu breytni” segir Sigurður Ólafsson.

Hver var Jesús? Einföld spurning frá Steindóri J. Erlingssyni. Einfalt svar? Onei.

Jesús var frjálslyndur farísei, hann var samkynhneigður galdramaður (sbr. grein Illuga Jökulssonar í maíhefti Skakka turnsins), hann var rabbíni sem kenndi fylgjendum sínum hina sönnu merkingu lögmáls Móses, hann var femínisti sem boðaði jafnrétti, hann var byltingarsinni sem boðaði uppreisn gegn Róm, hann var róttæklingur sem boðaði upplausn hefðbundinna samfélagsgilda og hann var heimsendaspámaður (sem líklega er vinsælasta túlkun fræðimanna).

En það er hægt að gera þetta Jesú-vandamál sæmilega einfalt fyrir þá sem eru með Jesú á heilanum. Lesið Hann er ekki hér, hann er þjóðsaga og byrjið svo að lifa lífinu.

III

Blaðamaðurinn Ásgeir Ingvarsson skrifaði ljósvakapistil í Morgunblaðinu í kjölfar Hvítasunnutónleika í ríkisjónvarpinu. Þar benti hann á og spurði:

Dagskrá Ríkisútvarpsins hefst alla daga á kristinni bæn og lýkur með kristilegri prédikun. Alla sunnudaga er svo sent beint út frá messu í einhverri af kristnum kirkjum landsins. Er nema von að maður spyrji: er RÚV veraldleg stofnun eða trúarleg? Er stofnun í eigu ríkisins stætt á að stunda svona trúboð?

Rætt var um þennan pistill í Í bítið á Bylgjunni þar sem málsstað Vantrúar og Siðmenntar var snúið á hvolf og gamlar lygar og rangfærslur endurteknar sem áður höfðu verið leiðréttar. Svo hélt maður. Matthías Ásgeirsson skrifaði um þessa umræðu um Hvítasunnutónleikana sem hann heyrði í Í bítið og skiljanlega var hann dálítið pirraður á þessu samtali þáttastjórnenda, vildi leiðrétta bullið sem þeir fóru með og kom með þá afar hógværu kröfu að fjölmiðlafólk vandi sig betur í málflutningi sínum.

Í kjölfar pistilsins var Matti fenginn í símaviðtal hjá þeim Kollu og Heimi til að ræða um efni pistilsins, þar sem hann benti m.a. á trúarviðhorf Íslendinga. Matti mætti svo aftur til þeirra morgunin eftir. Mæli með að fólk hlusti á þessar upptökur, sérstaklega eina konu sem hringir inn og er dónaskapurinn, umburðarleysið og leiðindin rúllað saman í eina kristilega kvoðu.

Reynir Harðarson gerir ágæta samantekt á kynferðislegri misnotkun Guðmundar í Byrginu sem hægt er að lesa í Kristilegt siðgæði í Praxís?. Danskurinn reynir að vera sniðugur:

Það væri fróðlegt að sjá svipaða samantekt hjá Reyni um háskólaprófessora og grófa kynferðislega misnotkun þeirra á smábörnum, gjarnan sínum eigin börnum. "Akademískt siðgæði í praxís" gæti verið heiti samantektarinnar.

En Reynir gerist mjög sniðugur:

Aðeins háskólaprófessor í guðfræði gæti nýtt sér sín "fræði" til slíkra óhæfuverka, vísað í ósýnilega yfirnáttúrulega veru, sem hann teldi sig vera í sérstöku sambandi við, vita vilja hennar o.s.frv. Hættan er innbyggð í kristnina.

Eða sér einhver prófessor í jarðeðlisfræði sannfæra nemanda sinn um að þeim beri að samrekkja vegna spennu í mötlinum undir Grímsfjöllum?

Má til með að benda á eina frásögn sem Jens Guð setti á vefsíðu sína frá einu fórnarlambi Guðmundar.

Það sem gerir kynlífshneyksli hjá kristilegum deildum merkilegt að ýmsu leyti og að algjörri hneisu er sú staðreynd að fjöldinn allur af kristnu fólki telur sig siðferðislega betra en aðrir. Að gömul skítaskrudda skrifuð af fólki í fornöld sem væri talið alvarlega veikt á geði ef það væri uppi í dag og að meintur sonur ósýnilegs bleiks einhyrnings sem býr í sykurpúðakastala í skýjunum gefi sumu fólki meira siðferðislegt þrek en það fólk sem aðhyllist eitthvað annað eða ekki neitt. Greyin mín, hættið þessu rugli. Þið eruð ekkert skárri en öll hin og í sumum tilfellum eruð þið ívið verri útaf hræsninni sem lekur af ykkur einsog þið hafið verið miðpunkturinn í einhverju hóprúnki eða bukakke.

IV

Fólk sem á það sameiginlegt að verja heldur ónýtan málsstað á einnig við alvarleg og sérkennileg sálræn vandamál að stríða. Þetta andlega mein er að gera andstæðingum sínum upp skoðanir sí og æ, trekk í trekk, aftur og aftur án þess að kunna að skammast sín. Varðandi umræðuna um hina kristnu arfleifð í grunnskólalögum þá eru aðallega tveir nokk vinsælir strámenn sem hafa dúkkað upp:

1. Úthýsa fræðslu um kristni úr grunnskólum. Rangt!

Lárus Viðar sagði fyrir rúmu ári síðan í grein sinni Trúboð í opinberum skólum m.a. þetta hér:

Svo að enginn misskilji mig þá er nauðsynlegt að kenna trúarbragðafræði í skólum en kristnifræðikennsla sem felur í sér trúboð ætti ekki að viðgangast.

Það stendur hvergi í þeim aragrúa greina sem birst hafa hér á þessu vefriti að við eða aðrir vilja úthýsa almennri fræðslu um trúarbrögð, en hverskyns trúboð og loðin lög sem geta beinlínis heimilað þann miðaldargjörning viljum við og aðrir burt úr skólum. Þetta er ekki flókin íslenska: Fræðsla um kristni og önnur trúarbrögð í grunnskólum. Já, flott, það geta allir sæst á það. Trúboð í grunnskólum. Nei, alls ekki flott, það geta ekki allir sæst á það.

2. Einhverskonar kúgun lítils félags. Rangt!

Foreldrasamtökin Heimili&skóli, Ásatrúarfélagið, Siðmennt, Samband ungra sjálfstæðismanna, Ungir jafnaðarmenn, Vinstri-grænir og Ung vinstri-grænir og gríðarlega stór hópur Íslendinga óháð þessum félagasamtökum, þetta fólk vill að almenn mannréttindi og hlutleysi einkenni skólastarf. Tel að maður þurfi að vera alveg gífurlega heimskur og vitlaus til að halda því fram að hér sé um einhvern fámennan hóp að ræða. Sá fámenni hópur sem virðist vilja kúga meirihlutann eru íslensku talibanarnir með ajatolla Karl Sigurbjörnsson í broddi fylkingar og sljóu skúrkarnir á alþingi sem halda á biblíuskruddunni á lofti er þeir standa bakvið ræðupontuna.

Auk þess má benda á að það vorum ekki við í Vantrú eða Siðmennt sem komum með þessa breytingartillögu. Það var hún Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sem vildi koma til móts við dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem dæmdi norska ríkinu í óhag útaf trúboði og trúarítroðslu sem átti sér stað í grunnskólum einmitt vegna vafasama lagasetningu skóla þar. Eða einsog segir í nefndaráliti menntamálanefndar:

Í þeirri umræðu sem átti sér stað í þjóðfélaginu var á tíðum vísað í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Folgerø og annarra gegn Noregi. Í því máli voru málavextir þeir að í norsku námskránni fyrir grunnskóla voru árið 1997 sameinaðar tvær námsgreinar, kristinfræði og lífsskoðanir, í kristindómsfræðslu með innsýn í trúarbrögð og lífsskoðanir. Samkvæmt norskum lögum var heimilt að fá undanþágu frá þessari grein hvað varðar þá þætti kennslunnar sem ekki samrýmdust trúarbrögðum og lífsskoðunum viðkomandi og gætu talist iðkun annarrar trúar. Kærendur í máli þessu voru meðlimir í félagi húmanista í Noregi og óskuðu þeir eftir því að börn sín fengju undanþágu frá allri kennslu í þessari nýju kennslugrein. Þeirri beiðni var hafnað. Töldu foreldrarnir að á sér væri brotið og vísuðu í 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi, 2. gr. samningsviðauka nr. 1 um rétt til menntunar, 8. gr. um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og 14. gr. samningsins um bann við mismunun.

Breytingartillaga Þorgerðar, sem hún lagði fram í nóvember í fyrra, var afar hófsöm:

Starfshættir leik- og grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Sjitt! Það mætti kannski bæta þarna við að kennarar verði að brenna kirkjur í frímínútum?

Þetta er engin niðurnjörvuð hugmyndafræði, þetta eru sammannleg, siðferðisleg viðmið sem við ættum öll að geta skrifað undir.

Þetta sagði ég í greininni Trúarfrekja og væl. Þegar það kom í ljós að það ætti að troða "kristinni arfleifð íslenskrar menningar" inní þetta líkt og kokkur bætir við kamfílóbakteríu í dýrindis smorgelsbord fauk í þónokkra. Vantrú sendi alþingismönnum skilaboð þess varðandi og bentum við á að þessi óljósa breytingartillaga mun aðeins skapa fleiri vandamál. Sérstaklega fyrir ríkið þegar þetta lendir fyrir Mannréttindadómstól Evrópu eða Sameinuðu þjóðanna útaf glæpsamlegu athæfi ríkiskirkjumafíunar sem mun vafalaust nýta sér þetta á sinn smekklausa hátt.

Stefán Pálsson, heiðingji, finnst þessi kristna arfleifð einkennileg og vill fá að vita hvort að "til hinnar kristnu arfleiðar teljist bæði kaþólska og lútherska arfleiðin" og furðar sig á þessari klausu með einni spurningu:

Enn mætti spyrja hvers vegna menn séu að troða merkingarlausum slagorðum inn í lagatexta?

Frelsarinn birti opið bréf til Sigurðar Kára hér á Vantrú, en sá þingmaður er helsti forsprakki viðbótarinnar við starfshætti grunnskólalaga enda er hann formaður menntamálanefndar. Í þessu bréfi fer hann í gegnum sögu hinnar kristnu arfleifðar með tillitil til frelsisins, sem Sigurður Kári Kristjánsson ætti að vera í forsvari fyrir. Frelsari vor sagði:

Margskonar þjóðararfleifð eins og t.d. þjóðdansar, þjóðlög og samkomur voru bannaðar með tilheyrandi skaða á aldagamalli menningararfleifð landsins. Í staðinn fyrir raunverulega þjóðararfleifð eignuðust landsmenn Stalínískt listform með lofgjörðasöngvum og bænaþulum til að blíðka ríkisguðinn. Kirkjunnar menn dásama þetta listform enn þann dag í dag og kalla hana þjóðararf sem þeir svo troða við öll tækifæri upp á börn: “Ungum er það allra best, að óttast Guð, sinn herra” og fleiri þrælavísur kristindómsins.

Lygar, hræsni og heimska: Hin kristna arfleifð

Þegar 2. umræða um grunnskólalög fór fram á Alþingi tók einn trúlaus maður til máls er heitir Bjarni Harðarson. Hann gagnrýndi þessa trúleysingja sem rífa kjaft og bað þá pent um að halda kjafti, kannski ekki beint með þessum orðum. En samt.

Formaður Vantrúar óskaði eftir fund við Bjarna, sem hann fékk. En þrátt fyrir að hafa sitið með sæmilega viti bornum manni og rætt við hann í þaula í rúman klukkutíma í þeirri veiku von að leiðrétta þær rangfærslur sem Bjarni fór með á þingi þá líða varla tveir dagar áður en Bjarni endurtekur sömu fokking rulluna og heldur að með því að hafa þetta drasl í lögunum sé verið stilla trúarhitan í eitthvað hóflegt. Hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu er okkur hulin ráðgáta. Kannski föttum við ekki misskilninginn.

Snýst pólitík virkilega um það að ljúga þegar það hentar.

Já Matthías, það kallast pólitík, ef eitthvað er að marka orð og hegðun stór hluta stjórnmálamanna hér. Sátt? Nei, það er fyrir aumingja og kjeddlingar. Stjórnmál og heiðarleiki fer álíka vel saman og bláberjaskyr með sterku sinnepi.

Svo það var ekki furða þó að sauð eilítið uppúr.

Óli Gneisti minnir Bjarna Harðar á lágkúruna á Stokkseyri sem hann er stjórnarmaður í. Þ.e. draugasetrið sem ónefndur biskup var ekkert sérlega ánægður með að var komið á laggirnar enda er bara til tveir draugar og einn uppvakningur í huga Karls. Teitur Atlasson skefur ekkert af því og ásakar Bjarna um að vera lygari og bendir á til samanburðar bjórbannið fræga. Rökin fyrir þessari kristnu arfleifð eru að ef hún væri ekki þá yrði allt vaðandi í öfgafólki og trúarnötturum, einmitt. Rökin fyrir bjórbanninu voru einmitt að ef bjórinn yrði leyfður þá yrði allt vaðandi í ölkum og blindfullum börnum.

Svo reyndum við í Vantrú að koma með annað sjónarhorn á þessa umræðu með lygasögunni Þýsk stjórnvöld hafna ráðgjöf íslensk alþingismanns. Svo benti Gunnar J. Briem á hvernig fyrsta málsgrein áttundu greinar laga um þingsköp Alþingis hljóma ekki:

Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Hann skal sjá til þess að störf þingsins séu í samræmi við lýðræðislega arfleifð grískrar menningar, ákvæði stjórnarskrár, þingskapa og annarra laga.

Svanur Sigurbjörnsson skrifar tvo pistla á heimasíðu sinni varðandi þessa tilteknu uppákomu á Alþingi. Honum finnst tvennt verulega athyglisvert varðandi yfirlýsingu Ung vinstri-grænna í kjölfar þess að nokkrir þingmenn VG kusu með þessari nýju breytingartillögu og sú ákvörðun er gjörsamlega á skjön við ályktun um trúfrelsi á landsfundi Vinstri-grænna árið 2007 þar sem sagði m.a. "að fullt trúfrelsi og jöfn staða trúar- og lífsskoðunarfélaga sé grundvallaratriði" Eða einsog Svanur segir:

Hið sameiginlega, hið opinbera í lífi okkar þarf einfaldlega að virka og vera miðað að ákveðnum markmiðum og tilgangi óháð uppruna eða sögu

Árni Johnsen var með biblíuna í pontu þegar hann hélt sína ræðu. Pistill Svans er mjög fróðlegur. En orð Árna Johnsens er einnig afar fróðleg:

Þá er látið undan dekurrófum, trúleysingjum og stjórnleysingjum víða um heim, fólki sem hugsar mest um sjálft sig en síður um að sinna náunganum af kærleik og góðvild. Fólki sem hugsar ekki mikið um það að rækta lítillæti, þakklæti og auðmýkt, sem er nú grundvallaratriði í því að maður sé manns gaman án þess að nokkur skemmist.

Svona tala siðblindir tækifærissinnar og treggáfað lið einsog t.d. Guðni Ágústsson:

Það er ekki til neitt siðgæði í rauninni nema kristið siðgæði.

Eða fokking Kristinn H. Gunnarsson:

Trúfrelsi er eitt og það ber að virða, en að setja alla við sama borð án tillits til stöðu þeirra í þjóðfélaginu er fráleitt

Meðan loðin kristileg klausa rennur í gegn einsog ekkert sé þá er breytingartillaga Steingríms Joð, er hljómar svo:

Við 1. mgr. 29. gr. bætist þrír nýir málsliðir, er verði 4.–6. málsl., svohljóðandi: Í námskrá og starfi grunnskóla skal enn fremur tekið mið af aukinni fjölbreytni hvað varðar menningarlegan og trúarlegan bakgrunn nemenda. Hvers kyns trúarleg innræting er óheimil. Fræðsla um trúarlega arfleifð íslenskrar menningar og um mismunandi trúarbrögð skal virða rétt manna til trúfrelsis og trúleysis, með það að markmiði að auka þekkingu, umburðarlyndi, skilning og virðingu milli ólíkra trúar- og menningarheima.

Hún er felld.

Reynir Harðarson hittir beint í mark þegar hann talar um miðaldamyrkur á Alþingi:

Þessir menn setja okkur lög en vita greinilega ekki hvað þeir eru að gera.

Og hvað þá að þeir viti hvað þeir eru að segja.

Kannski útaf því að þessir menn eru fávitar.

Þórður Ingvarsson 01.06.2008
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


Kristjana - 02/06/08 21:58 #

Þið Vantrúarfólk eigið heiður skilinn fyrir að halda þessari umræðu vakandi. Hef verið dyggur lesandi ykkar í vetur og haft "gaman" af. Takk fyrir mig.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.