Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúarfrekja og væl

Ég sagði í síðasta Sunnudagsbréfi að þemavika Vantrúar í maí mundi varða Vísindakirkjuna. En vegna uppákomu Alþingis í síðustu viku verður dagskránni snögglega breytt. Þemavika þessa mánaðar mun sérstaklega einblína á skólamál og opinberar stofnanir í ljósi þingumræðna um kristilegt siðgæði og arfleifð í opinberum skólum. Kristinfræðikennsla var af einhverjum undarlegum ástæðum dregin inní umræðuna, ég drep ögn á því síðar.

Það er merkilegt hvað þetta virðist vera mikið tilfinningamál hjá sumum pólítíkusum, sem of margir virðast gaspra hugsunarlaust um málefnið sem þeir hafa hvorki einu sinni sýnt sóma, reisn né virðingu til að kynna sér eins og ummæli sumra bera vitni um.

Tökum til að mynda kristinfræðikennslu sem dæmi. Hvað kemur námsefnið þessari umræðu við? Það er verið að tala um starfshætti grunnskóla, hvorki prestaskóla né klaustur. Og það er ekki heldur verið að ræða um kristinfræðikennslu heldur starfshætti grunnskóla. Starfshættir grunnskóla er það sem er til umræðu og hvernig þeir skulu mótast. Ég get endurtekið þetta í fjórða sinn en ég bind vonir mínar við að fólk átti sig á umræðuefninu, jafnvel þeir sem gera í því að vera hinir verstu og mestu moðhausar. Og það sem starfshættir opinberra grunnskóla fela meðal annars ekki í sér er að boða trú.

Sekúlar stofnanir

Mótast starf Alþingis og ríkistjórnarinnar af kristinni arfleifð? Er tekið mið af kristilegu siðgæði þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar á þingi? Mótast allur okkar lagabálkur af kristilegum arfi? Nei! Það gerir hann ekki. En af hverju er þá svona ægilega mikilvægt fyrir kristilega frjálslynt íhaldspakk, þingpresta og siðgæðispostula á borð við Árna Johnsen að orðið “kristni” fái að halda sér einhvern veginn og einhverstaðar innan grunnskólalaga?

Þetta er ekki bara útaf því að þessir hæstvirtu, illa upplýstu einstaklingar halda að þeir séu að lúffa undan einhverjum þrýstingi frá ýmsum félagasamtökum, sem þeir halda í einfeldni sinni að stafi einhver hætta af. Þetta er líka atvinnuskapandi, á afar ópraktískan hátt og á fleiri vegu en einn. Fyrir það fyrsta eru meðallaun meðaltöfralæknis um hálf milljón á meðan meðallaun kennara eru um þrjúhundruð þúsund.

Segjum sem svo að lög heilbrigðisþjónustunnar væru skrifuð með hliðsjón af því sem er að gerast með menntamál ungviðisins, framtíð landsins og allt það. Hvað ef fyrsta grein í lögum um heilbrigðisþjónustu væri svona:

Lög þessi taka til skipulags heilbrigðisþjónustu. Markmið þeirra er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, kristilegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði í samræmi við ákvæði laga þessara, lög um almannatryggingar, lög um réttindi sjúklinga, lög um kristna arfleið og önnur lög eftir því sem við á. (innskot höfundar) #

Hvað ef það væri hægt að neita manni um læknisþjónustu því hann er Búddisti? Segjum sem svo að ég mætti á heilsugæslustöð með vægan en krónískan höfuðverk og læknarnir settu mig á tveggja mánaða skammt af morfíni útaf því að ég er trúlaus. Hvað ef lögreglulög myndu sérstaklega koma til móts við hina hóflegu kristnu talibana, og segðu að “hlutverk lögreglu væri:”

a. að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni, kristilegt siðgæði og hvers konar lögmæta starfsemi,

b. að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna, ríkisins og hinnar lúthersk-evangelísku Þjóðkirkju Íslands. (innskot höfundar) #

Það yrði harðar tekið á bingóspilun. Pottþétt. Lögreglunni sigað á eitt og annað meðan skeggrætt væri hvað felist í kristnu siðgæði. Miðast starfshættir Alþingis við kristilegt siðgæði og arfleifð? Hmm. Þeir gera það ekki ef skoðuð eru lög um þingsköp. Kristur, Guð, Biblían eða kirkja kemur hvergi þar fyrir. En hvað ef 2. grein I. kafla er varðar þingsköp væri svona:

2. gr. Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, Guði almáttugum og Biblíunni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild skv. 47. gr. stjórnarskrárinnar (innskot höfundar) #

Það sér hver heilvita maður - sem ekki er smitaður af eldheitum bókstafstrúarvírus - að þessar örlitlu breytingar gerðu sumt rólegt, yfirvegað og skynsamt fólk tryllt af bræði. Ekki vegna þess að þeim er í nöp við kristna trú, heldur í nöp við að opinberar stofnanir skulu stjórnast útfrá einhverskonar trúarlegum forsendum, svona líkt og í Sádí-Arabíu, Afganistan, Íran og Vatíkaninu, með sínar siðferðislögreglur og fagráð. Þetta býður uppá úrkynjun.

Allar opinberar stofnanir (nema ríkiskirkjudeildin, auðvitað) og opinberir starfsmenn, sérstaklega á þingi – og það á ekki að skipta hvort viðkomandi sé trúaður eður ei - eiga einfaldlega ekki að blanda guði eða öðrum hindurvitnum í sína starfshætti og ákvarðanatökur. Það er firra af verstu sort, því það gefur stjórnmálamönnum færi á að varpa frá sér ábyrgðinni yfir á ósýnilega himnadrauga í stað þess að axla ábyrgð sjálfir. Að undanskildum ajatollum og páfum þá er nærtækast að taka Bush II forseti Bandaríkjana sem dæmi um stjórnmálamann sem notar trú sína til að þvo sér um hendurnar.

Vík burt úr þessum lögum Kristur!

Starfshættir leik- og grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þetta er engin niðurnjörvuð hugmyndafræði, þetta eru sammannleg, siðferðisleg viðmið sem við ættum öll að geta skrifað undir. Er þetta svona flókið? Það virðist vera. Starfshættir grunnskóla verða víst að mótast af kristinni arfleifð? Af hverju? Þetta gífurlega framboð af guðfræðingum er ekki í samræmi við eftirspurn svo lausnin felst að gera himnasjúka svartstakka að eðlilegum starfskröftum barnaskóla.

Frumvarp Þorgerðar Katrínar til leik- og grunnskólalaga átti að renna í gegn án nokkurra teljandi vandræða, en verjendur frelsis og trúar ætla sko aldeilis ekki að sleppa því litla, slitna og kristna haldreipi sem þeir hafa á skólum og skapa svo sannarlega píslarvott úr heilagri mykju sem þessi klausa er. Gera mál útaf nákvæmlega engu. Ekki er aðeins verið að berjast á móti vindmyllum, það er verið að berjast á móti ímynduðum, bleikum vindmyllum með páskaliljufræjum sem lykta einsog hnetusmjör. Bara til þess að troða guðfræðingum í skólana og veita kristilega sálgæzlu.

Þetta fólk kann svo sannarlega að rugga bátum á vitlausustu stöðum. Mig grunar líka að þau viti allt um kristið siðgæði og jafnvel kristna arfleifð, svo kannski þau mættu fara svara þeirri spurningu sem oft kemur upp varðandi þetta málefni, en mig rekur ekki í minni að hafa fengið eða fundið neitt svar við: Hvað er kristið siðgæði?

Ef það er einhver ein stofnun sem ætti að standa vörð um hina kristnu arfleifð er það Þjóðminjasafnið.

Þórður Ingvarsson 26.05.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/05/08 09:01 #

Starfshættir skóla, sem annarra opinberra stofnana, ættu fyrst og fremst að mótast af fagmennsku.

Þá er ég ekki að tala um fagmennsku þjóðkirkjunnar í kynferðisbrotamálum. Áhugasamir geta svo lesið sér til um fagmennsku í skólum í ljósi áhuga ríkiskirkjunnar á að seilast í barnssálir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/05/08 09:19 #

Ég googlaði orðið "fagmennska" og fann þá grein nemanda í KHÍ um fagmennsku ólíkra stétta. Þessi grein er ekki skrifuð í tengslum við þessa umræðu, höfund þekki ég ekki neitt, en hann hittir naglann nákvæmlega á höfuðið. (Greinin er örstutt.)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/05/08 10:04 #

Menn voru greinilega veruleikatengdari fyrir 14 árum: Breytingar á skólalöggjöf - fréttabréf menntamálaráðuneytisins, 3. tbl. 1994:

Lög kveði á um starfshætti sem stuðla að sem mestri fagmennsku í skólastarfi. Skólastjóri og skólameistari gegni faglegu forystuhlutverki í starfi grunn- og framhaldsskóla. Lagt er til að allir grunn- og framhaldsskólar gefi út sérstaka skólanámskrá. Skólanámskrá er unnin af kennurum og öðru fagfólki og er opinber yfirlýsing skólans um áherslur í skólastarfi, starfshætti skólans og sérstöðu, m.a. með tilliti til námsframboðs. Einnig er lagt til að allir skólar taki upp viðurkenndar aðferðir til að meta innra starfið. Sem dæmi má nefna gagnkvæma aðstoð kennara á vettvangi, skipulagt umbótastarf og mat á stjórnunarháttum og samskiptum starfsfólks innan skólans og við aðila utan hans.

Lagt er til að lög kveði á um faglegt forystuhlutverk skólastjórnenda. Ákvæði frumvarpanna um skólanámskrárgerð og sjálfsmat skóla kalla á mikla samvinnu kennara og annars fagfólks undir forystu skólastjóra eða skólameistara. Slíkir starfshættir efla kennara í fagmennsku sinni og vinna gegn þeirri einangrun sem stundum einkennir kennarastarfið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.