Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Opið bréf til Sigurðar Kára

Arfleifð gegn frelsi

Kæri Sigurður Kári Kristjánsson
alþingismaður og flokksbróðir

Ég get ekki orða bundist yfir þeirri vinnu sem unnin hefur verið í menntamálanefnd. Vegna síðustu atburða langar mig að renna aðeins yfir okkar kristilegu arfleifð með frelsið í huga. Kenningar John Stuart Mill um frelsið, mannréttindi og eignaréttinn höfðu mikil áhrif á líf vesturlandabúa á 19. öld. Það skal engan undra en John Stuart Mill var fljótur að sjá mein kristinnar trúar og harðstjórnarinnar sem henni fylgdi. Það var líka ástæðan fyrir því að Mill var ekki kristinn. Þegar Bandaríki Norður Ameríku voru stofnuð undir áhrifum einstaklingsfrelsis og eignaréttar sá Thomas Jefferson nauðsyn þess aðskilja ríki og kirkju. Sá skýri aðskilnaður ríkis og trúar varð svo hluti af stjórnarskrá Bandaríkjanna. Fyrir vikið var hann ofsóttur af kaþólsku kirkjunni, það skal því engan undra að frelsishetjan Thomas Jefferson var ekki kristinn.

Á meðan upphafsbaráttan fyrir einstaklingsfrelsi kraumaði í Frakklandi og svo Bretlandi voru kristin áhrif efld á Íslandi. Við sem lifum í byrjun 21. aldar getum sett okkur í spor forfeðranna, því stofnun ríkiskirkju árið 1550 með morðum stenst allan samanburð við yfirtöku Talibana á þjóðlífinu í Afganistan. Fljótlega eftir meinta siðbót hér á landi tóku þjóðkirkjuyfirvöld upp grimmilegar refsingar gegn brotum á boðorðunum tíu með séráheyrslu á hórdómsbrotakenningar Jesú. Þjóðkirkjan og skósveinar hennar kölluðu herferðina Stóradóm. Upphaf þessa trúarbrjálæðis hefur ennþá áhrif á lög landsins í dag samanber Evangelíska ríkistrú í stjórnarskránni. Einnig 125 gr. hegningarlaga um guðlast og undarlegum trúaráróðri sem troðið er inn í ólíklegustu lög - samanber grunnskólalögin.

Arfleifðin

Slíkur var fjöldi fórnarlamba Lútersku ríkiskirkjunnar að ef miðað er við fjölda núlifandi íslendinga, væri annan hvern mánuð ríkisprestur að leiða dauðadæmdan samviskufanga til aftöku. Flest fórnarlömbin voru hengd, hálshöggvin, drekkt eða brennd. Fyrir utan hrottafengin morð kristinnar arfleifðar, fékk meginfjöldi sakamanna að kynnast óvenjulegum og villimannslegum refsingum. Útlimir voru höggnir af þjófum, sem kallað var limalát. Hýðingar voru algengar fyrir minniháttar trúarbragðabrot. Einstaka var refsað með handleggs-, fót- eða kjálkabroti. Til að niðurlægja sakamenn var gripið til þess ráðs að hlekkja þá við kirkjudyr svo að sóknarbörn og ríkispresturinn gætu hæðst að hinum dæmda.

Eins og Talibanar hóf ríkiskirkjan á Íslandi kristilega menningarbyltingu. Messuhald, bænakvak og biblíulestur þóttu aðeins sæma ríkisguðinum. Margskonar þjóðararfleifð eins og t.d. þjóðdansar, þjóðlög og samkomur voru bannaðar með tilheyrandi skaða á aldagamalli menningararfleifð landsins. Í staðinn fyrir raunverulega þjóðararfleifð eignuðust landsmenn Stalínískt listform með lofgjörðasöngvum og bænaþulum til að blíðka ríkisguðinn. Kirkjunnar menn dásama þetta listform enn þann dag í dag og kalla hana þjóðararf sem þeir svo troða við öll tækifæri upp á börn: “Ungum er það allra best, að óttast Guð, sinn herra” og fleiri þrælavísur kristindómsins.

Eignarupptakan

Eignir og lönd streymdu í fjárhirslur ríkiskirkjunnar með óheiðarlegum eignaupptökum þar sem eignaréttur landsmanna var fótum troðinn. Almenningur var svo neyddur til að fjármagna og byggja kirkjur fyrir skít úr hnefa með sjálfboðavinnu og sköttum. Einvaldurinn kórónaði svo allt með haftabúskap og kristilegri einokunarverslun. Til að tryggja hlýðni landsmanna var svo prestum plantað í hverja sveit til að hafa KGB eftirlit með skoðunum og atferli landsmanna. Þessi kristna samfélagsgerð gekk svo að endingu að efnahag Íslands dauðum. Með þeim afleiðingum að börn og gamalmenni dóu umvörpum úr hungri í minnstu þrengingum vegna vöruskorts í landinu. Vegna þess að við vorum kristin þjóð þótti ástandið fullkomlega eðlilegt enda allt vilji guðs. Það var ástæðulaust að mótmæla yfirvöldum því samkvæmt biblíunni og kenningum Lúters voru yfirvöld frá guði komin og höfðu skilyrðislausan kristilegan rétt til að aflífa nöldurseggi.

Kristindómurinn er alheimslausn sem prófuð var í nokkrar aldir á Íslandi með hörmulegum afleiðingum á sama hátt og kommúnisminn í Austur Evrópu. Ekkert er jafnfjarri frelsi einstaklingsins og heilög þrenning með sitt Orwellska syndaeftirlitskerfi og eilífðarríki sem kennt er við himna. Segja má að síðasti einræðisherra Íslands heiti Jesú Kristur og nú ætti hans tími að vera allur. Það er því mjög sárt að sjá þig, Sigurður Kári, leggjast í krossferð við að upphefja arfleifð kristindómsins til að friða kristileg íhaldsöfl í landinu. Enn hryggilegra er afstaða þín sökum þess að veraldleg stofnun (NATO) berst nú blóðugu stríði við trylltan Talibanaher í Afganistan. Talibana sem vilja eina arfleifð ríkistrúar með sambærilegar hugmyndir í kollinum og framkvæmdar voru hér með Stóradóm og ríkiskirkju.

Nútíminn

Frá þeim tíma að Eva tældi Adam hefur frjáls vilji verið höfuðsynd kristinnar trúar. Til að koma skikk á þá synd blóðfórnaði Guð syni sínum sem eftir þrjá daga reis upp úr gröf sinni á ónáttúrulegan hátt til að boða endurkomu sína. Með þessu ráðabruggi tókst þeim feðgum að fyrirgefa jarðarbúum eplaátið. Sá sem trúir svo á þessa þjóðsögu fær þakklátur inngöngu í himnaríki. Þar mun svo ríkja fullkomið viljaleysi og syndlaust ófrelsi um alla eilífð undir dyggri stjórn himnafeðganna. Satt best að segja líkist hin kristna heimsmynd meira Norður Kóreu en nokkru öðru ríki. Kristindómurinn á einfaldlega ekkert erindi við nútímann þó mikið sé reynt að af hagsmunaðilum að halda í honum lífi.

Vonandi hefur þessi yfirferð komið þér að gagni, Sigurður Kári. Auðvitað skora ég á þig að lesa (aftur) bók John Stuart Mill um frelsið. Með smá upprifjun: “Mill hélt því fram að hver einstaklingur réði yfir sjálfum sér, líkama sínum og hug, og ætti að vera frjáls undan „harðstjórn meirihlutans“, sem með ósögðum siðareglum og siðferðishugmyndum stjórnar samfélaginu með harðri hendi. Mill hélt því fram að einstaklingur ætti að vera frjáls til þess að gera hvaðeina sem skaðar ekki aðra.” (Tekið af Wikipedia)

Kær kveðja,

Frelsarinn 23.05.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 23/05/08 09:59 #

Flottur pistill til Sigurðar Kára. Vonandi að hann lesi hann yfir.

Ég vildi gjarnan bæta við að samblástur trúar og ríkis er alltaf á gráa svæðinu og getur aldrei orið samnefnari fyrir fólk sem býr í heilbrigðu og þroskuðu ríki.


Örninn - 23/05/08 10:37 #

Flottur pistill. Sér í lagi finnst mér það gott að það skuli vera flokksbróðir SKK sem áttar sig á þessum hlutum. Hingað til hefur kolkrabbinn ekki viljað heyra á það minnst að aðskilja ríki og kirkju, endurskoða kristinfræðikennslu í grunnskólum og fleira. Það skildi þó ekki vera að Frelsarinn sé í röngum flokki?


Guðjón - 23/05/08 11:34 #

Það dregur mjög úr vægi þessa pisills að hann er ritaður undir dulnefni- hefur höfundur eitthvað að fela?


Sigurður Karl Lúðvíksson - 23/05/08 11:39 #

Afstaða fyrrum frjálshyggjumannsins og frænda míns Sigurðar Kára er eins og rýtingsstunga í bakið á öðrum frjálshyggjumönnum, það tekur mjög á að horfa upp á þessar hrókeringar hans.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 23/05/08 11:39 #

Sæll Örn. Sem betur fer eru trúleysingjar í öllum flokkum með mismunandi pólitískar skoðanir á öllum málum. Ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins hafa ályktað með aðskilnað ríkis og kirkju mörgum sinnum. Því miður er ennþá sterk hreyfing af kristilegum íhaldsmönnum á mínum aldri í flokknum, sem eru hræddir við Jesú (og biskupinn) eftir að hafa játað honum hollustu sína fyrir framan sóknarprestinn á fermingadaginn. Trúarofstækið er því miður ákveðin stærð í öllum stjórnmálaflokkum. Meiri segja hefur VG sína Kolbrúnu og Jón Bjarnason sem komu í vegfyrir á landsfundi VG að samþykkja aðskilnað ríkis og kirkju. Þannig er mikið starf framundan í öllum flokkum sem þarf að vinna svo að ríki og kirkja verði aðskilin. Ég skora á alla að vinna að því verki innan sinna flokka.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 23/05/08 11:43 #

Hvað segirðu Guðjón, hvaða rök verða minna virði af því að þú veist ekki hver skrifar hann?


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 23/05/08 11:43 #

Sæll Sigurður Karl. Ég er hjartanlega sammála þér.


Guðjón - 23/05/08 13:26 #

Stuðningur við framangreindar tillögur hefur mjög lítið með trúarskoðanir að gera- þetta er almennt orðuð og loðin viljayfirlýsing sem er höfð er með til skrauts í frumvarpinu og breytir nákvæmlega engu um skólastarf. En hún fer greinilega í taugarnar æstum vantrúarmönnum sem hafa þvílíka óbeit á trúarbrögðum þeir geta ekki einu sinni unað við þessa skynsamlegu málamiðlun sem friðar íhaldsmennina í flokknum.


Sindri Guðjónsson - 23/05/08 13:28 #

Ég er líka trúlaus hægrimaður, og Sjálfstæðismaður. Ég get að mestu leyti tekið undir þennan pistil, og vona að Sigurður Kári lesi hann.

Kristindómur er almennt ekki í anda frelsis einstaklingsins, enda ber mönnum að hlýða í einu og öllu eilífum allvaldi (Guði), sem getur dæmt menn til glötunar m.a. fyrir hugsanaglæpi og rangar skoðanir. Einnig ber mönnum að leggja líf sitt í sölurnar fyrir náungann og heildina (menn eiga að fylgja í fótspor Jesúsar, sem gaf líf sitt fyrir alla hina). Lítið einstaklingsfrelsi í því.


Guðjón - 23/05/08 13:30 #

Satt segir þú Óli- svo má líta á málið- það er að rökin skipti öllu máli.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/05/08 13:33 #

En hún fer greinilega í taugarnar æstum vantrúarmönnum sem hafa þvílíka óbeit á trúarbrögðum þeir geta ekki einu sinni unað við þessa skynsamlegu málamiðlun sem friðar íhaldsmennina í flokknum.

Guðjón, hefur þú fylgst með umræðum um þetta mál á Alþingi?

Var sú málamiðlun sem þegar er í frumvarpinu ekki skynsamleg? Hvað er óskynsamlegt við hana?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/05/08 13:36 #

...þetta er almennt orðuð og loðin viljayfirlýsing sem er höfð er með til skrauts í frumvarpinu og breytir nákvæmlega engu um skólastarf.

Ég er sammála því að þetta mun ekki haga nein áhrif á skólastarf sem slíkt, en kirkjunnar menn munu reyna að nota þetta til þess að afsaka trúboðstilraunir sínar í skólunum.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 23/05/08 13:44 #

Það er rétt Hjalti, Þessi setning verður Troju hestur presta og djákna til að auglýsa sig hjá börnum með öllum sálartæknilegum ráðum á kostnað skattborgaranna.


Guðjón - 23/05/08 14:06 #

Að mínu mati er vandamálið ekki raunverulegt skólastarf heldur er um að ræða æsing af litlu tilefni.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 23/05/08 14:14 #

Guðjón, vandamálið er ný stórsókn ríkiskirkjunnar í leik- og grunnskóla. Það er hinn raunverulegi vandi og allt kristilegt daðurshjal í lögum er misnotað af ríkiskirkjunni sem afsökun fyrir trúboði í skólakerfinu. Ef einhver gæti svæft þennan æsing og öfgastefnu ríkiskirkjunnar væri það strax til bóta. Hér er aðeins vera að standa vörð um frelsi barna fyrir ásókn trúfélaga.


Atli Jarl Martin - 23/05/08 18:16 #

Þetta er afbragðspistill. Ég sem iðkandi hinnar myrku trúar, mér til styrkingar og visku, gæti ekki verið meira sammála þessu.

Ég mun eigi líða það að börn mín komi heim með Krosslafsbókmenntir og þó svo Jésú bróðir besti sé skemmtilegt lag fyrir börn að syngja, þá læt ég þau vita hvers eðlis texti lagsins er. Í bekk dóttur minnar eru 65-70% börn af erlendu bergi brotin og mér finnst hreinlega skammarlegt af menntastofnun landsins að gera sér ekki grein fyrir því að þröngva trúarælu upp á þá sem minna mega sín er ekkert annað en ofsóknir.

Leyfum börnum okkar að kjósa sér sín eigin trúarbrögð þegar þau hafa vit og þroska til. Niður með Jésú og hans hirðmenn og sérstaklega þykjustuiðkendur trúar þessarar í ríkisstjórn okkar sem vilja viðhalda þessum fornu ofsóknum.

AVE SATHANAS! Atli Jarl


Árni Árnason - 23/05/08 18:25 #

Þessi þjónkun Sjálfstæðismanna við kirkjuna er langt í frá bundin við Sigurð Kára einan. Davíð Oddson, Björn Bjarnason,Sólveig Pétursdóttir og eflaust fleiri hafa sýnt sig hneigjast í þessa átt. Þetta er þó undarlegt í ljósi þess hve ríkiskirkja er út úr kú við þau lífsviðhorf sem þetta fólk þykist aðhyllast að öðru leyti. Hvernig er hægt að aðhyllast lágmarks ríkisafskifti, en ríkiskirkju á sama tíma ? Það bara stenst ekki. Ef það er yfirleitt eitthvað sem ríkið á alls ekki að vera með puttana í, þá er það trúmál og safnaðarekstur.

Ég þykist vita hver skýringin er, og er hún lítilla sanda og lítilla sæva ef rétt reynist. Popularismi. Þau þykjast öll vita að status quo í ríkiskirkjumálum styggi færri atkvæði. Prinsipplaus poppularismi, ja ekki er nú risið hátt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.