Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Félagsleg brennimerking samkynhneigðra

Það er öllum mikilvægt að njóta viðurkenningar í sínu samfélagi. Með viðurkenningu fylgir stolt og góð líðan yfir því sem þú ert og því sem þú ert að gera. Samkynhneigðir hafa lengi þurft að berjast fyrir því að njóta viðurkenningar frá umhverfi sínu. Hvaða afleiðingar getur það haft fyrir einstakling að vera fordæmdur fyrir tilfinningar sínar og geta jafnvel ekki sýnt sitt rétta eðli, vera „leikari“ fastur í eigin líkama, geta ekki sýnt sitt rétta andlit nema innan viss hóps? Hvað veldur því að barátta samkynhneigðra fyrir því að njóta virðingar í sínu samfélagi hefur gengið svona hægt?

Gamall málsháttur segir að það læri börnin sem fyrir þeim er haft.

Samskipti okkar og viðhorf til annarra, hvort sem um er að ræða fjölskyldu, einstaklinga eða jafnvel þjóðfélagshópa er flókið ferli sem byggir á mörgum hlutum en þó að miklu leiti á lærðu atferli, hegðun og skoðunum. Bæði lærum við af öðrum, í okkar nánasta umhverfi, en einnig og ekki síður almennt af því þjóðfélagi og menningarheimi sem við lifum í.

Allan þann lærdóm sem við viljandi eða óviljandi viðum að okkur á lífsleiðinni ásamt okkar eigin reynslu notum við svo til að skapa okkar eigin útgáfu á því hvað við teljum rétt eða rangt, gott eða illt. Það er svo ákaflega mismunandi hvort fólk þroskar með sér gagnrýna hugsun og skoðun eða samþykkir í blindni. Þó svo að frelsi til athafna, hugsana og skoðana sé rúmt í okkar þjóðfélagi nú til dags, er það samt svo að við hneigjumst til að fylgja þeim grundvallargildum og skoðunum sem í þjóðfélaginu og menningunni ríkja hverju sinni.

Ef skoðanir og hegðan ráðandi afla, til dæmis stjórnvalda, stofnana eða stórra félaga/samtaka í þjóðfélaginu er á einn veg er líklegt að það verið almennt ríkjandi skoðun fjöldans og álitin rétt skoðun og ásættanleg hegðun. Ef stórar stofnanir eins og til dæmis þjóðkirkjan, sem við höfum verið alin upp við að sé sannleiksboðandi vald sem ekki er venjan að efast um eða gagnrýna, setja fram ákveðnar skoðanir og leikreglur er nokkuð víst að stór hluti samfélagsins mun taka þeim sem hinum heilaga sannleika og tileinka sér og verja án þess að mynda sér eigin gagnrýna skoðun á viðkomandi málum og/eða málefnum.

Ef stofnun níðir ákveðinn þjóðfélagshóp er líklegt að fylgjendurnir geri það líka án þess að taka sjálfstæða afstöðu um siðferði þess.

Flest fólk aðhyllist einhver trúarbrögð og hefur ákveðinn trúarboðskap sem leiðbeinandi þátt í sínu lífi ásamt þeim leikreglum sem samfélagið hefur komið sér saman um.Trúarlíf og þær skoðanir sem trúfélög setja fram hafa mikil og djúp áhrif á fylgjendur og ekki venja að setja sig á móti þeim, enda getur helvítisvist legið við ef farið er gegn.

Nú er það svo að íslenska þjóðkirkjan hefur algjöra yfirburði yfir aðrar „lífsskoðanastofnarnir“ og félög. Hún hefur verið nánast alráð í gegn um aldirnar og prestar fyrri tíma mjög valdamiklir og prédikanir þeirra sem reglur. Af þeim ástæðum er menning okkar ákaflega samofin þjóðkirkjunni og áhrif hennar, bæði beint og óbeint, á þjóðfélagið eru gríðarleg og mjög erfitt að meta það til fulls eða gera sér grein fyrir því.

Nú þarf ekki að kynna sér kristni lengi til að sjá djúpstætt hatur og fyrirlitningu á samkynhneigðum. Til dæmis stendur í biblíunni,:

„Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð“. (Þriðja bók Móse 18:22.).

„Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim“. (Þriðja bók Móse 20:13.).

„Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar“. (Bréf Páls til Rómverja 1, 1:26-27.).

Skoðanir æðstu manna og forkólfa íslensku ríkiskirkjunnar eru öllu ljósar og hafa verið einbeittar á móti samkynhneigð þó að þeir hafi á undanförnum árum aðeins látið undan miklum þrýstingi, en það er því miður auðsjáanlega aðeins á yfirborðinu.

Þetta veldur því að djúpt í þjóðarsálinni leynist þessi innrætti kynhneigðarhroki sem svo erfitt er að úthýsa úr menningunni og samfélaginu. Það er vegna þess hversu auðvelt er að láta mata sig á skoðunum en leggjast ekki sjálfur í gagnrýna hugsun um manngildi, mannréttindi, umburðarlyndi og náungakærleika.

Því miður hefur þetta böl sem aðallega tengist fordæmingu kirkjunnar á samkynhneigðum kostað mikinn sársauka, höfnunartilfinningu, útilokun, sjálfsálitshnekki og vansæld fyrir þá sem fyrir verða, sem eru fyrst og fremst samkynhneigðir sjálfir en einnig þeirra nánustu. Fyrirlitning kirkjunnar er augljós og höggið þar sem síst skildi. Sjálfsmynd er brotin og nagandi efi um að maður sé ónáttúrulegur, skrítinn, óeðlilegur ásamt alls konar vanmáttartilfinningum koma þegar fólk í þessari stöðu berst við eigið eðli og þorir ekki að vera það sjálft af ótta við samfélagið og jafnvel þess eigin hugarheim sem er oft jafnsýktur og hinn ytri.

Þetta hefur í mörgum tilfellum endað með harmleik, en sem betur fer er þjóðfélagið smám saman að vakna við þennan vonda draum og hafna skoðunum steinrunninnar stofnunar í þessum málum. Það verður líka til þess að samkynhneigðir sjálfir eiga auðveldara með að fást við sjálfa sig og sættast við eigið eðli.

Félagsleg staða samkynhneigðra hefur batnað undanfarið og sjálfsmat og sýnileiki um leið þó kirkjan haldi áfram „að standa á bremsunni og að standa vörð um gróin trúarleg og samfélagsleg gildi“ og reynast „þar þröskuldur á vegi þeirra sem lengst hafa viljað ganga“ eins og Karl Sigurbjörnsson biskup segir um málefni samkynhneigðra og möguleika á að þeir fái að ganga í hjónaband með þeim sem þeim sýnist.

Félagsleg brennimerking samkynhneigðra er því ekki af öðrum sökum en aldagömlum skrifum öfgafullra manna, þröngsýni og afturhaldssemi þeirra sem skrifin túlka og leggja til við fjöldann sem hina réttu breytni.

Mannréttindi eins og við þekkjum þau í dag eru hins vegar að miklu leyti ávöxtur baráttu sem hugmyndalega séð má að miklu leyti rekja til upplýsingaaldar. Þá var það mannmiðuð rökhyggja sem ruddi braut framfara á mörgum sviðum samfélagsins, þar á meðal almennra mannréttinda. Þá fóru að koma brestir í ógnarstjórn og alsannleik kirkjunnar. Það gengur reyndar mun hægar en margir myndu kjósa að uppræta þá kreddufestu kirkjunnar sem fjötrað hefur samfélagið og valdið mörgum þjóðfélagshópum, ekki bara samkynhneigðum, angist og kvöl í gegnum tíðina.

Sigurður Ólafsson 21.05.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/05/08 13:10 #

Fordómar stafa af fáfræði. Ég man þá tíð þegar ég komst fyrst í kynni við samkynhneigða, þá var ég orðinn táningur og hafði á þeim viðurstyggð - algjörlega byggða á fáfræði minni. Við kynni af samkynhneigðu fólki rann upp fyrir mér ljós, þetta fólk er bara eins og hvað annað, oft meira að segja litríkara, þroskaðra og víðsýnna en almúginn.

Trúlausir eru að mörgu leyti í sömu sporum og samkynhneigðir voru áður - allt of margir eru í skápnu. Við getum lært mikið af samkynhneigðum og baráttu þeirra. Sterkasta vopn þeirra eru þeir sjálfir. Þegar þeir standa keikir og bjóða fordómunum byrginn vinnst björninn. Hræðsla okkar smásálanna gufar upp.

Við höfum séð sömu sögu í baráttu alkóhólista, geðsjúkra, fórnarlamba heimilis- og kynferðisofbeldis o.s.frv. o.s.frv.

En það er grátlegt að sjá kirkjuna standa á bremsunni og vera beinlínis hemil á mannréttindi, aftur og aftur. Og þegar maður hugsar til þess að þessi miðaldastofnun er rekin af almannafé og forsvarsmenn hennar eru háskólamenntaðir og opinberir ríkisstarfsmenn fýkur auðvitað í mann.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.