Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Manneskjur

Charles Manson. Prestar. Shri Mataji Nirmala Devi. Maharishi Mahesh. Múhameð spámaður. Gunnar í Krossinum. Sri Chinmoy. Guðmundur í Byrginu. Karl Sigurbjörnsson. Hvað á allt þetta fólk sameginlegt? Jú, allar þessar manneskjur hafa, eins og fjölmargar aðrar gegnum söguna, annað hvort tekið sér hugarfarslegt vald yfir öðru fólki eða verið fært þetta vald af tilbiðjendum sínum.

Við munum öll þegar Forrest Gump tók upp á því að hlaupa heimshafa á milli í einhverju eirðarleysi. Brátt söfnuðust að honum fjölmargir fylgjendur, hlupu með og voru þess vissir að þarna væri um einhverja æðri veru að ræða. Þegar Gump var búinn að fá nóg af hlaupunum staðnæmdist hann og sneri sér að hjörðinni. "Suss, þegið! Hann ætlar að fara segja eitthvað," heyrðist úr munni einhverra sem reiðubúnir voru að lepja hvert spakt orð af vörum meistara síns, af vörum manns sem hafði ekki einu sinni látið sér detta það í hug að taka sér átorítet yfir hug nokkurs lifandi manns.

Eins og þessir bláeygu fylgjendur Forrest Gump höfum við öll hegðað okkur svipað með einum eða öðrum hætti. Það eru líka þarna úti fjölmargir sem stunda þann bransa að telja okkur trú um að þeir hafi óskorað leiðtogavald og andlega forsjá yfir okkur. Þegar við vorum lítil nutum við leiðsagnar uppalenda okkar og síðar komu til skjalanna hinir og þessir frelsrar, bæði lífs og liðnir. Lenín, Milton Friedman, John Lennon, Þorgrímur Þráinsson og ótal fleiri. Þetta fólk hafði allt og hefur boðskap að færa og flestum okkar hættir til að meðtaka slíka orðræðu á forsendum þess hver það er sem færir okkur hana. Já, viðlátum það blinda okkur hver sagði hlutinn og ákveðum að fylgja stefnunni eða hafna henni á forsendum þess.

Hættum því.

Þessi háttur er einn sá skaðlegasti í fari okkar mannanna, þessi tilhneiging til að meitla aðra í gull, setja á stall, guðgera og dýrka. Síðan er allt sem hálfguðinn segir tekið sem háheilagt orð og ekkert spurt út í það frekar.

Ef við myndum öll hætta þessari hegðun gætum við skapað grundvöll fyrir mun betri veröld til að byggja. Og sem betur fer er ákaflega auðvelt að breyta hegðun sinni í þessa veru. Það þarf aðeins að hafa þrennt í huga:

  1. Hver sá sem talar með átoríteti er fyrst og fremst manneskja og við megum aldrei missa sjónar á því, hversu mjög sem guðumlíkur viðkomandi er orðinn, fyrir eigið tilstilli eða annarra.

  2. Hegðun manna og hugmyndir eru fyrst og fremst afrakstur þess jarðvegar sem þeir eru sprottnir úr. Viðhorf þeirra bera með sér hvar þeir eru fæddir og á hvaða tíma þeir eru uppi.

  3. Það er ríkt í eðli okkar flestra að vera boðberar visku, ná að sannfæra tilheyrendur okkar um að við séum óvitlaus. Sumir taka þennan sálarkima sinn lengra en eðlilegt getur talist. Þeir búllsjitta og hafi þeir nægilega útgeislun og sannfæringarkraft mun verða hlýtt á orð þeirra.

Leyfið mér að útskýra:

Nú um helgina gaf sig á tal við mig maður sem reyndi að sannfæra mig um að "andinn" væri sterkari efninu og að við öll gætum risið upp frá dauðum. Hann sagði Jesú hafa verið dæmi um þetta og nefndi til viðbótar nokkrar anekdótur um meintar upprisur. Í huga þessa manns var enginn efi, en hvaðan komu honum þessar hugmyndir?

Einhver hafði verið að rugla í hugarstarfi hans, mjög sennilega einhver bjánaleg nýaldarbók sem hann hafði lesið. Í stað þess að lesa þessa bók með gagnrýnu hugarfari hafði hann augljóslega gert höfund hennar að átoríteti, litið svo á að þarna væri um að ræða höfund sem byggi að einhverri æðri visku.

En af hverju í ósköpunum gerir hann þetta? Sennilega vegna þess að við lifum á tímum þar sem haldið er að okkur alls kyns hindurvitnum með þeim orðum að á bak við þau búi djúp þekking og æðri skilningur. Oft virðist vera nóg að halda því fram að viskan sé þarna fyrir hendi og þá er eins og mörg okkar stökkvi á þann vagn og trúi án nokkurra frekari sönnunargagna.

En höfundar svona bóka eru fyrst og fremst manneskjur eins og við. Þeir eru hvorki merkilegri eða æðri okkur í nokkru einasta tillti. Með því er ég ekki að segja að annað fólk geti ekki búið yfir merkilegri visku, heldur að það er ekki nóg fyrir okkur að trúa fullyrðingunum sem frá þeim streyma, heldur þurfum við að taka því öllu á gagnrýnum forsendum. Höfundur svona bókar gæti einfaldlega sjálfur verið á valdi annarra í umhverfi sínu sem fyllt hafa hann að ranghugmyndum og hann svo sjálfur spunnið við, matreitt og selt kjaftæðið til að verða merkilegri í augum samborgaranna.

Veröldin er full af slíku fólki.

Áhangendur Charles Manson fylgdu honum ótrauðir út í hvaða ódæði sem honum datt í hug að fremja, því þeir spurðu sig aldrei um réttmæti þess sem hann predikaði. Útgeislun hans og sannfæringarkraftur var nóg. Sama gildir um áhangendur Gunnars í Krossinum, þá skortir fullkomlega að rannsaka sannleiksgildi þess sem sá maður boðar, því tiltrúin á visku hans og beintengingu við guðdóminn er þeim nóg.

Charles Manson er auðvitað bara manneskja eins og við hin og þar er Gunnar í Krossinum líka. Báðir þessir menn hafa tekið sér vald yfir hugarstarfi annarra af þeirri einföldu ástæðu að þeir geta það, enda heimurinn fullur af áttavilltu fólki sem ráfandi leitar uppi hverja þá visku sem vel hljómar.

Ég heyrði á tal nokkurra homma og lesbía í þættinum Samfélagið í nærmynd í síðustu viku. Samtökin '78 eru þrjátíu ára um þessar mundir og af því tilefni fékk Leifur Hauksson Hörð Torfa og fleiri til skrafs um baráttuna. Hinir samkynhneigðu töluðu um alla viðhorfsbreytinguna sem orðin er á þessum áratugum síðan baráttan fór í gang, árangurinn er glæsilegur, en um leið vita menn sem er að það má ekkert slaka á, því svona viðhorf geta alltaf breyst til baka í einu vetfangi. Það sýna okkur t.d. sveiflukennd viðhorf samborgara okkar til aðfluttra Íslendinga.

En af hverju ætti nokkur maður að einblína á kynhneigð annarrar manneskju til að byrja með. Kemur okkur þetta nokkuð við. Af hverju erum við að láta smekk fólks fyrir rekkjunautum móta framkomu okkar til þess, svo lengi sem þetta fólk er ekki að skaða einhvern? Eigum við ekki að temja okkur að líta fyrst og fremst á manneskjuna þarna, en láta stimplana eiga sig?

Hvernig væri að taka upp þá háttu héðan í frá, lesandi góður? Munum að allir í kringum okkur eru fyrst og fremst manneskjur og hættum að láta gjörðir þeirrra og hugmyndir stjórna okkur, hvort sem er til tilbeiðslu eða fordæmingar.

Birgir Baldursson 12.05.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Fjóla Dögg Helgadóttir - 13/05/08 10:16 #

Frábær grein!!!!! Minnir óneitanlega á skrif Davids nokkurs Burns sálfræðings!


Friðrik - 18/05/08 08:57 #

Heill þér meistari Birgir Baldursson, spakmæli þín ná engri átt og hvert orð af vörum þínum eru gullkorn í sandkassa hins andlega... ...heh, nei nei, en frábær grein... einmitt viðfangsefni sem maður veltir oft fyrir sér í hausnum en kemur sjaldnast út þegar þess "þarf".

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.