Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lögbrjótar, brjálæðingar og bingó

Það er alveg agalega þægilegt eftir nokkurra daga til margra mánaða vinnustrit að komast í helgarfrí eða orlof - til að slaka aðeins á, ferðast innan jafnt sem utan lands eða sinna ýmsum áhugamálum s.s. lestur, list eða leik.Einnig er gott að brjóta aðeins upp hina föstu vinnurútínu með stökum frídögum, einsog 17. júní, verslunarmannahelgin, 1. maí - dögum sem skipta okkur öllu máli - eða fá aukalegt álag á launatímann ef maður er í vissum störfum, t.d. aðhlynning, verslun, þjónustu o.s.frv.

Síðan væri ágætt ef við fengum svo að útdeila sjálf einhverjum 10 hátíðardögum yfir árið ef okkur skyldi þóknast þannig, s.s. sínum eigin afmælisdegi eða annarra.

Til að mynda myndi mér ekki finnast amalegt að fá 90% launaálag í vinnunni á afmælisdeginum mínum þann 25. september, á dánardegi Dimebag Darrel þann 8. desember eða fyrsta föstudegi á nýju ári til að fagna útgáfu Morning Star með Entombed - eða á öllum þessum dögum ef mig langar. Það væri ekki heldur amalegt að hafa heimtingu að fá frí á þessum dögum og fagna þeim á þann hátt sem manni dettur í hug, kannnski með smá þungarokki og bjórsumbli.

En við búum í þjóðfélagi þar sem lúther-evangalískt trúfélag er sérstaklega verndað í stjórnarskrá þjóðarinnar, þjóðfélagi þar sem ríkistjórnin byrjar sitt starfstímabil á kristilegri messu, þjóðfélagi með spes kirkjumálaráðherra og þjóðfélagi sem hefur sérstaka helgidagalöggjöf tileinkuð ríkiskirkjunni. Lög sem eiga að sjá til þess að ekki heyrist tíst á meðan bænahaldi og öðru trúarrunki stendur.

Vissulega hefur slaknað allverulega á þessari trúarlagalegu frekjukló, þó sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. En það er bara svo ótrúlegt að þessum lögum hefur ekki verið breytt eða eytt. Hvað með fólk einsog mig sem hefur lítinn áhuga á því að halda hátíðlega uppá þessa daga:

1. Sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu.

2. Föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur.

3. Aðfangadagur jóla frá kl. 18.00 og jóladagur til kl. 6.00 að morgni næsta dags.

Mörgum þætti skárra að sjá föstudag eða laugardag í staðinn fyrir sunnudag. En lausnin felst ekki í að bjóðast til þess að bæta við helgidögum, setja Ramadan, Lamnas, Hanúka eða aðrar trúarlegar hátíðir inní helgidagalöggjöfina, heldur að leyfa fólki að ráða þessu sjálft.

Hvað hefur þetta fólk á móti bingó?

Föstudaginn 21. mars sl. stóð Vantrú fyrir oggusmárri samkomu á Austurvelli þar sem boðið var uppá heitt kakó, kleinur og bingó. Viðbrögðin voru ekki á verri endanum, þarna töldu sumir - og telja enn - að um fádæmalausa frekju og athyglissýki var að ræða; guðlast, lögbrot, siðleysi et cetera. Mér er fyrirmunað að skilja hvað þetta fólk hefur á móti heitu kakó, kleinum og bingó.

Maður spyr sig samt, hvernig ætli viðbrögðin hefðu verið ef Samtökin´78, Ásatrúarfélagið eða Fríkirkjan hefðu staðið að þessu? Hefðu viðbrögðin verið einhvernmegin á þá leið að þarna væru þessir “helvítis kynvillingar að vekja á sér athygli eina ferðina enn, er ekki nóg fyrir þetta pakk að hafa þessa glysgöngu þarna í staðinn fyrir að flagga einhverju hommalegu bingói á Austurvelli - geta bara hrært í kakóinu heima hjá sér"; að þessir “bölvuðu heiðingjar geta bara blótað á laun frekar en að vera með þessa fádæmalausa bingófrekju”; jafnvel að “þetta frjálslynda, kristna hommahyski á bara að framfylgja lögunum í stað þess að trufla helgihald Þjóðkirkjunnar með glymjandi bingói, hávaðinn var sérstaklega ærandi þegar þau svo smjöttuðu og sötruðu á kleinunum og kakóinu að það heyrðist ekki í Hallgrímskirkjuklukkunun klukkan tvö! Þvílík hneisa!”

En hver var tilgangurinn með bingói Vantrúar á Austurvelli? Tilgangurinn var af tvennskonar toga; a) Að spila bingó í blíðunni. Og meira í framhjáhlaupi en alvöru að b) vekja athygli á einu einkennilegasta orðalagi í íslenskri löggjöf:

2. Á helgidögum skv. 2. og 3. tölul. 2. gr. er eftirfarandi starfsemi óheimil:

a. Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. # (feitletrun höfundar)

Það merkilega við þetta að þessi lög voru eitthvað rýmkuð árið 2005, en þessi tiltekna og vitlausa klausa fékk að halda sér.

Bingó fær uppreisn æru

Ef það er eitthvað sem virkir innlendir, vefvafrarar geta stólað á í þessum skeikula heimi eru það vægast sagt einkennileg og á köflum vafasöm viðbrögð Moggabloggara. Svo það kom skemmtilega á óvart hvað viðbrögðin fyrir þessum gjörningi Vantrúar voru frekar jákvæð. Vonandi að Moggabloggarar fyrirgefi þessum fordómum mínum. En þau stafa af þeim frekar einsleitum skoðunum sem manni finnst stundum einkenna bloggara á fyrrgreindum vettvangi. En þegar þessi frétt birtist um bingóið á föstudaginn virtust flestir vera sammála því að þessi helgidagalöggjöf er kjánaleg, jafnvel jafn asnaleg og guðlastalögin:

125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.

Að benda á ártal dagsins í dag til að undirstrika fáránleika þessara laga er næstum orðin klisja. En það er árið 2008. Það er 21. öldin - síðast þegar ég vissi - en samt eru þessi og önnur forneskjuleg lög í gildi. Sumir benda á að þessi lög séu töluvert óvirk en eru nauðsynleg til vonar og vara. Vonar og vara fyrir hvað?

Svona svipað og fjárhættuspil er bannað samkvæmt lögum (XX. kafli almennrar hegningarlaga frá 1944, grein 181-184), en spilakassar er ókei, stöku pókerspil fínt (nema stundum) og lítið hægt að gera við veðmálum á netinu. En samt eru viðurlög á einstaklinga fari valdsumboðið eftir einhverjum duttlungum eða geðþótta og hnekkir á einhverjum.

Svo veit ég ekki betur en svo að stór hluti af lagabálknum Jónsbók frá 1281 sé enn í gildi, svo það er feykinóg lögbundið af ólögum sem ekki er hægt að bæta upp með því að bæta við, heldur væri okkur gerður góður greiði með því að skipta þeim út fyrir önnur og betri lög sem hæfa því upplýsta fjölmenningarsamfélagi sem við lifum í.

Þórður Ingvarsson 24.03.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Viddi - 24/03/08 10:19 #

Lög sem hægt er að túlka á ýmsa vegu, eða óvirk lög sem ekki er eytt er ein helsta ógnun við frelsi borgaranna. Framkvæmdarvaldið á ekki að fá að túlka lög eftir þeirra hentisemi, eða framfylgja aðeins sumum lögum eftir hentisemi. Framkvæmdarvaldið á aðeins að framfylgja þeim lögum sem við segjum þeim að framfylgja, eins og við segjum þeim að framfylgja.

Óljósir lagabókstafir og óvirk lög hafa kostað margan mann lífið.


Haukur - 24/03/08 11:03 #

Það er nú nokkuð mikið sagt að stór hluti Jónsbókar sé í gildi. En það eru nokkur ákvæði, þau má sjá neðst á þessum lista.

Þarna eru líka enn eldri lög sem svara þeirri áleitnu spurningu hversu mikið kirkja þurfi að skemmast til að nauðsynlegt sé að endurvígja hana.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/03/08 16:30 #

Það er nú nokkuð mikið sagt að stór hluti Jónsbókar sé í gildi.

Ja, ég sagði:

Svo veit ég ekki betur en svo að stór hluti af lagabálknum Jónsbók frá 1281 sé enn í gildi

Ég vissi ekki betur, en veit ögn betur núna. Hversu stór hluti Jónsbókar er enn í gildi.

En samt, kommon:

Kap. 8. Um óðs manns víg ok hversu með hann skal fara.

Ef óðr maðr brýst ór böndum ok verðr hann manns bani, þá skal bæta af fé hans … ef til er … En ef óðr maðr særir mann, þá skal arfi uppi láta vera sárbætr ok læknisfé af fé hins óða.

Af hverju að hafa lög í gildi frá fokking 13. öld? Því það er svo kúl?

En þessi tvö lög frá Kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar, reitað árið 1275 er áhugavert:

  1. Um forræði biskups á kirkjum ok eignum þeirra.

Landeigandi er skyldr at láta gera kirkju á bæ sínum, hverr sem fyrr lét gera. …

  1. Um kirkjuvígslu.

Vígja skal kirkju síðan er ger er … En ef kirkja brenn upp eða annars kostar spillist, svá at niðr fellr öll eða meiri hlutr, þá skal vígja endrgerva kirkju. En þó at kirkjuráf brenni upp, fúni ok niðr falli lítill hlutr af veggjum, þá skal eigi vígja endrbætta kirkju.


Haukur - 25/03/08 11:49 #

Jájá, ég myndi samt ekki ofnota þessa "svo veit ég ekki betur en" aðferð.

Þegar ríki og kirkja verða skilin sundur hljóta ákvæði eins og þessi frá 1275 að verða afnumin - engin ástæða til að ríkið skipti sér af því hvenær tilteknar trúarlegar byggingar teljast hafa tiltekna trúarlega stöðu.

Jónsbókarákvæðið um óða manninn er hins vegar ekkert vitlausara en hver önnur lög. Það er heldur ekki svo langt síðan dæmt var eftir því fyrir Hæstarétti.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/03/08 12:04 #

Ég vísaði í þessi orð mín einu sinni. Ég skal ofnota það í annað sinn:

Svo veit ég ekki betur[...]

Svo ég viti aðeins betur en ögn geturðu vísað í þetta dómsmál?


Haukur - 26/03/08 13:55 #

Æ, þetta mun hafa verið 1972 en dómasafnið á netinu nær ekki svo langt aftur.

En þú þarft ekki að fara svona mikið í vörn, ég ætlaði ekkert að rökræða við þig, þetta var bara smáábending.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/03/08 16:18 #

Þetta það sem er hvimleitt við umræður á netinu. Maður getur gert upp allskonar kenndir hjá viðmælenda. Og þegar það gerist, þá nennir maður ekki að ræða mikið lengur.

Þú þarft ekki að vera svona æstur, reiður, hrokafullur, manískur, stressaður eða að gera manni upp ástand sem er ekki til staðars.

Og þú þarf ekki að álykta fullmikið útfrá örfáum orðum. Ofnota? Fara í vörn? Vattðefokk?

Takk fyrir ábendinguna varðandi dómsmálið og Jónsbók.


Páll Jónsson - 01/04/08 16:06 #

Ég er svo sem að mestu leyti sammála þér Þórður en þú valdir afleitt dæmi með ákvæðinu um óðs manns víg =)

Það er hið allra ágætasta ákvæði og lítið hægt að kvarta yfir því. Man eftir a.m.k. einu máli í skaðabótaréttaráfanganum þar sem dæmt var eftir þessu.

Plús það að já, það er helvíti kúl að hafa lög í gildi frá 13. öld. Kúlið ber hiklaust lægri hlut ef lögin eru orðin úrelt en ef notagildið er enn til staðar þá er kúlið góður bónus.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.