Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hver þarf óvini þegar hann á svona vini?

Fyrr í vetur hélt Ríkiskirkjan enn eitt þing sitt, enn einu sinni tók hún ófullnægjandi skref og enn einu sinni fengum við að heyra ósannfærandi stuðningsyfirlýsingar við réttindi samkynhneigðra. Hástemmdar fyrirsagnir um „söguleg þáttaskil“ hafa holan hljóm þegar umgjörðin og samhengið eru á sömu bókina lærð og áður, að samkynhneigt fólk geti ekki fengið sömu réttindi og annað fólk vegna það sé ekki eins og annað fólk.

Karl biskup fagnaði „niðurstöðu“ í „erfiðu máli“. Það er að sönnu réttnefni að kalla málið erfitt, enda er sjálfsögð krafa samkynhneigðra um mannréttindi í andstöðu við ritninguna. Þótt reynt sé að þýða sig frá upphaflegum boðskapnum um grýtingu, viðurstyggð og blóðsök þá dugir það bara ekki til. Kirkjan er samt nógu trú ritningunni til að standa á bremsunni, og fær þá slæmu pressu fyrir sem við má búast. En hversu mikil niðurstaða er þetta? Ætlast biskup til þess að stuðningsmann samkynhneigðra líti á þetta sem fullnaðarsigur og leggi árar í bát?

Það er alltaf sama viðkvæðið hjá biskupi þegar málefni samkynhneigðra eru annars vegar. Hann segir alltaf það sama, að með næsta skrefi þyki honum nú of langt gengið, en bætir því jafnframt alltaf við að kirkjan styðji samkynhneigða dyggilega og lætur það stundum fylgja að hún lengi hafi staðið fyrir „samtali“ um félagslega stöðu þeirra. Heyr á endemi! Það skiptir meira máli hvað hendurnar aðhafast heldur en hvað munnurinn segir. Sumir prestar hafa svo sannarlega staðið með samkynhneigðum, en eins og nýjasta Kirkjuþingið sýnir okkur enn og aftur, þá eru þeir í stjórnarandstöðu innan kirkjunnar og ekki hægt að segja með góðu móti að kirkjan sem slík sé á þeirra máli. Stefna ríkiskirkjunnar við samkynhneigða virðist vera sá sami og öfgafullra safnaða – að „elska syndgarann en hata syndina“. Er það háttur vina, að mismuna vinum?

Það skondna er að í sumum öðrum málum hefur kirkjan ekki sett ritningarstafina fyrir sig. Veit alþjóð að „Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri drýgir hór gegn henni. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum drýgir hún hór.“? Þetta stendur ekki í Gamla testamentinu, heldur segir Jesús það í Markúsarguðspjalli 10:11-12. Ekki minnist ég þess að þetta hafi hindrað marga presta í að gifta fráskilda á síðustu tímum.

Tal um hvað orðið „hjón“ þýði er bara orðhengilsháttur. Það er ekki svo langt síðan orðið „prestur“ fól í sér að átt væri við karlmann. Hefðu guðfræðimenntaðar konur sætt sig við eitthvað „ígildi“ prestsvígslu, sem sumir töluðu þá um, eins og biskup vill nú að samkynhneigðir geri með hjónabandið? Eða að með vígslu kvenprests væri verið að kasta prestshempunni á ruslahaugana?

Kirkjan vill bæði halda og sleppa. Annars vegar getur hún ekki hlaupist undan arfleifð Mósebóka, sem fordæmir „kynvillinga“ og fleira meinlaust fólk, en hins vegar getur hún ekki annað en drattast á eftir breyttum viðhorfum. Nógu hratt grefur undan henni samt. Ef kirkjan væri ekki kredduföst mundi hún líklega fagna því að samkynhneigðir hefðu yfir höfuð áhuga á viðurkenningu hennar. Ég, fyrir mitt leyti, hef ekki áhuga á klúbbum sem mismuna fólki eftir kynhneigð, frekar en húðlit, kynferði eða ætterni. Þetta „erfiða“ hjónabandsmál væri einfaldast að leysa með því að gera hjónabandið að borgaralegri stofnun eingöngu. Trúfélög gætu þá blessað það sem þeim sýndist.

Kirkjan er ekki lýðræðisleg stofnun, þótt hún reyni að láta líta svo út. Almenningur greiðir ekki atkvæði um hvaða túlkun er guðfræðilega rétt eða röng – það væri enda andstætt inntakinu. Samúð almennings er með samkynhneigðum, en kirkjan stendur á bremsunni. Þegar svona er komið er eina leiðin að greiða atkvæði með fótunum. Það er erfitt að breyta kirkjunni, en það er fjarska auðvelt að skrá sig úr henni. Eyðublöðin eru aðgengileg á vefsíðu Þjóðskrár.

Vésteinn Valgarðsson 23.03.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 23/03/08 13:41 #

Góð hugleiðing Vésteinn og réttmæt. Hvernig er hægt að vera skráður í lífsskoðunarfélag sem telur sig geta túlkað vilja ósýnilegrar veru og er fast í árþúsundagamalli kreddu og fyrirlitningu á þeim sem eru öðru vísi að kynhhneigð? Lesendur, ef þið eruð ennn skráðir í þennan klúbb þá vinsamlegast vaknið til vitundar og skynsemi og skráið ykkur úr honum. Peningunum er óendanlega betur varið í Háskóla Íslands, jafnvel þó að hann hýsi prestaskóla.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.