Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað gengur að þessu fólki?

Katólsk kirkja er eina stofnun í heimi, sem engum framförum tekur. Þrátt fyrir alla þá þekkingu, er mannkyninu hefur hlotnazt síðustu aldir í náttúrufræði, heimspeki, sálarfræði og biblíurannsókn, þá er katólsk kirkja enn þá að burðast með sömu villukenningarnar, sem hún kenndi endur fyrir mörgum öldum.

- Þórbergur Þórðarson

Mér er ófært að skilja það hvernig sæmilega hugsandi fólk í þessu upplýsta samfélagi okkar getur látið sér detta í hug að gerast kaþólikkar.

Kannski sjá menn allt hið upphafna tilstand í einhverjum bjarma, hátíðlegar athafnir, fallegar kirkjur, skrautleg klæði og ábúðarlegt og traustvekjandi fas klerkanna. Kannski var það einhver tískubylgja sem riðið hefur yfir þjóðfélagið sem kallar eftir því að skera sig úr hópi, tilheyra öðrum og flottari söfnuði en hinni hversdagslegu ríkiskirkju með alla sína skrautfátæku kumbalda, nútíðarlega, fúnkis eða gamla timburhjalla.

Ég veit það ekki. En það sem ég veit er að á bak við ákvörðun upplýstra samborgara okkar um að ganga kaþólsku á hönd er einhver hégómi, í bland við hugsanaleti. Þetta fólk getur varla verið að velta því mikið fyrir sér fyrir hvaða gildi þessi stofnun stendur.

Átta menn sig t.d. á fjöldamorðunum sem viðgangast í samtíma okkar, eða ætti ég kannski frekar að kalla það þjóðarmorð? Kaþólskan er ríkjandi trú í mörgum Afríkulöndum og þar hafa hindurvitnatiktúrur páfans og félaga hans um smokkanotkun kostað ófá mannslíf. Þetta hleypur á hundruðum þúsunda, bara í Rúanda, svo dæmi sé tekið.

Og ástandið er varla mikið betra í löndum Mið- og Suður-Ameríku þar sem kaþólskan er lögvernduð ríkistrú. Þar er reyndar ekki um bann að ræða, en kaþólska kirkjan rekur stífan áróður gegn smokkanotkun á einhverjum glórulausum guðfræðilegum forsendum.

Samhliða smokkabanni og andsmokkaáróðri er það líka stefna þessarar sömu kirkju að halda ungum þegnum sínum frá allri haldbærri kynfræðslu. Það er gert á þeim forsendum að því minna sem krakkar viti um kynlífið, því síður taki þau upp á að stunda það. Þessi bábilja hefur orðið mörgum efnilegum unglingnum að heilsu- og fjörtjóni.

Ykkur hefur kannski rekið í rogastans síðustu misserin við að sjá allan þennan fréttaflutning af misnotkun kaþólskra presta á ungum kórdrengjum sínum? En á upplýstum einstaklingum nokkuð að koma slíkt á óvart? Þetta snýst ekki um nýtilkomið siðleysi klerkastéttarinnar, heldur er um aldagamla hefð að ræða. Það hefur einfaldlega verið rótgróin siðvenja innan þessarar kirkju um allar aldir að kórdrengir þjóni yfirboðurum sínum til sængur. Í staðinn fengu þessir fátæku alþýðusynir félagslegt og efnahagslegt öryggi, reglulegar máltíðir og hálfgerða virðingarstöðu í samfélaginu. Manni óar við því að hugsa til þess hve mikill fjöldi pilta á öllum þessum öldum lét sig hafa það að afgreiða presta sína á þennan hátt gegn því að öðlast mannsæmandi líf.

Þetta eiga kaþólikkar að vita, sér í lagi þeir sem alist hafa upp í upplýsingasamfélaginu hér heima. Hvernig dettur þeim í hug að vera kaþólikkar með þessa vitneskju í farteskinu?

Kaþólska kirkjan er siðlaus stofnun, um það ætti varla nokkur að efast. Öll lærðum við í grunnskóla um aflátsbréfin sem þessi valdastofnun tók upp á að selja fólki eftir að hafa með áróðri sínum haldið því þjökuðu af sektarkennd yfir kynferðismálum sínum og öðrum léttvægum "syndum". Og hversu mjög hafa ekki bullkenningar þessa bákns þurft að kosta alþýðu manna í hugarvíli, t.d. þegar kom að ungbarnalimbóinu. Öll sú angist sem sú kenning, sem kirkjan hefur nú sjálf viðurkennt að er bull, verður varla skilin eða skýrgreind venjulegum mannshuga, slíkur er fjöldi þeirra foreldra sem missti börn sín áður en það náði að láta þau skírast.

Hvaða upplýstur Íslendingur getur hugsað sér að ganga á hönd stofnun sem hegðar sér á svo voðalegan hátt?

Kaþólska kirkjan hefur alla tíð unnið að því ötullega að halda þegnum sínum í fáfræði og ranghugmyndum um leið og stritandi lýðurinn hefur þurft að gjalda henni stóran skerf af bágum kjörum sínum. Kardínálar og klerkar hafa alla tíð ekið sér um í lystisemdum, glysi og skrautklæðum meðan fólkið í kring átti varla til hnífs og skeiðar. Það eina sem kirkjan lagði til málanna var syndafyrirgefning og fáránleg tiltrú á náðarmátt líkamsleifa fólks sem gert hefur verið að dýrlingum. Hvaða sjúka einstaklingi datt eiginlega í hug að telja fólki trú um að það að snerta úldið hold og bein af einhverjum Stefáni myndi færa því hamingju, heilsu og jafnvel auðlegð? Við sem lifum á upplýstum tímum eigum að sjá þetta fyrir það sem það er. Og við eigum að fordæma það, ekki ganga því á hönd í einhverju snobbi og yfirdrepskap.

Ótal dæmi mætti tiltaka hér til viðbótar en ég læt mönnum eftir að fletta upp í Bréfi til Láru, eftir Þórberg, vilji þeir láta frekar sannfærast um þessa glæpastofnun.

Meira að segja þeir sem fæðast inn í kaþólskar fjölskyldur hér í samfélagi okkar eiga að geta séð hvers kyns er og losað sig undan innrætingu æskunnar. En margir kjósa þó að ganga um hnarreistir og lýsa því yfir með stolti að þetta séu trúarbrögð þeirra, rétt eins og þeir ættu von á einhverri sérstakri virðingu fyrir bragðið. Hvað er eiginlega að þessu fólki?

Birgir Baldursson 09.03.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja , Kaþólskan )

Viðbrögð


Jóhann - 09/03/08 11:51 #

Þrumulestur, mjög svo í anda meistarans.

Kaþólska kirkjan á Spáni er í miklum ham nú fyrir þingkosningarnar þar í landi. Jón Baldvin gaf skemmtilega úttekt í Speglinum nú á föstudaginn: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4387905


Kári B Hjaltalín - 14/03/08 02:27 #

Það má segja að Kaþólska kirkjan sé trúlaus, þegar að vísindum kemur. Eða kannski bara blindir.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 14/03/08 18:51 #

Flottur pistill!

Það hefur eitthvað dregið úr kaþólskri trú í Mið og Suður Ameríku, með tilkoma upplýsinga og fræðslu og einnig í Afríku.

Aftur á móti er páfinn núna að reyna að veiða evangelista í USA til fylgis við sig og skella öllum kristnum trúarhópum undir sitt vald. Alvald kirkjunnar er á stefnuskránni.


Árni Árnason - 17/03/08 14:42 #

Sæll Birgir. Mér varð spurn, þegar ég las neðangreind ummæli þín.

"Mér er ófært að skilja það hvernig sæmilega hugsandi fólk í þessu upplýsta samfélagi okkar getur látið sér detta í hug að gerast kaþólikkar."

Sé það tilfellið að sæmilega hugsandi fólk, í okkar upplýsta samfélagi sé að GERAST Kaþólikkar, þá er það mér að minnsta kosti jafnóskiljanlegt og þér.

Spurningin er: Eru einhverjir Íslendingar ( fyrir utan Jón Gnarr slíka kverulanta ) að gerast Kaþólskir ? Er það ekki þannig að fólk úr fólk úr gömlum Kaþólskum fjölskyldum er að verða aktíft eftir einnar eða fleiri kynslóða trúarlegt sinnuleysi ?

Hver sagði að þetta fólk væri "sæmilega hugsandi" ? Getur ekki verið að þar liggi hundurinn grafinn ?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.