Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Frekja og siðleysi

Viðbrögð við greinum þeim sem ég hef fengið birtar í hinum ýmsu blöðum undanfarið hálft ár (sjá blogg.visir.is/binntho) hafa verið mun betri en ég bjóst við. Fjöldi manns hefur haft samband við mig og þakkað mér fyrir skrifin, vinir og ættingjar jafnt sem bláókunnugt fólk, viðbrögð sem vissulega hvetja til dáða.

Fátt verður mér þó jafnmikil uppspretta greinaskrifa og ýmislegt það sem prestar þjóðkirkjunnar missa út úr sér. Tilefni þessa greinarstúfs sem hér birtist er viðtal við sr. Guðbjörgu Árnadóttur í auglýsingakálfi um Suðurland sem dreift var 21. febrúar og gefinn er út af Athygli.

Skólatrúboð

Skólatrúboðið er ný stefna Þjóðkirkjunnar. Foreldrar þeirra barna sem kirkjan herjar nú á kannast ekki sjálfir við þetta úr eigin skólagöngu og vara sig því ekki á hvað um er að vera enda virðist ekki vera mikill áhugi á því meðal skólatrúboða að láta foreldra vita. Sjálfur komst ég að eilífum kirkjuferðum barna minna á skólatíma þegar annað þeirra kvartaði. Ég benti þeim á að kvarta sjálf en ekki vildi ég skipta mér af sjálfur, ég vil ekki láta mínar skoðanir bitna á börnum mínum. Öfugt við skólatrúboðana sem láta sínar skoðanir óspart bitna á mínum börnum.

Margir þeir sem hafa samband við mig eru foreldrar barna í leik- og grunnskólum sem eru einmitt í þeirri stöðu að vilja ekki láta það bitna á börnum sínum að þeim skuli sárna þegar foreldrarétturinn er tekin af þeim forspurðum og mannréttindi þeirra og barnanna þeirra hunsuð.

En hvernig stendur á þessari sókn kirkjunnar í skólana?

Þúsundir skrá sig úr Þjóðkirkjunni

Nýleg frétt í vefritinu TimesOnline gefur góða vísbendingu um tilgang skólatrúboðsins. Þar segir frá nýlegri skýrslu Mannréttindaráðs SÞ (A/HRC/7/10) um trúfrelsi en samkvæmt henni telja tveir þriðju hlutar Breta sig ekki aðhyllast nein tiltekin trúarbrögð. Skýrslan kallar á afnám tengsla milli ríkis og kirkju enda sé slíkt á skjön við trúfrelsi og lýðræðishefðir nútímans.

Kannanir sem gerðar hafa verið á Íslandi benda til þess að um helmingur landsmanna telji sig kristinnar trúar en 80,6% landsmanna voru skráð í Þjóðkirkjuna 1. des. 2007. Úrsagnir úr Þjóðkirkjunni hafa verið um og yfir 1000 á ári undanfarinn áratug en á móti kemur að öll nýfædd börn eru sjálfkrafa skráð í trúfélag móður og stendur meðlimafjöldinn því nánast í stað, fjölgaði um aðeins 227 manns á síðasta ári. Þróunin er þó öll á einn veg:

Þjóðkirkjunni blæðir og flaumurinn eykst og eykst, árið 2006 skráðu hálft annað þúsund sig úr henni og árið 2007 er talan sjálfsagt nær tveimur þúsundum.

Prestar í stéttabaráttu

Samkvæmt lögum frá 1996 greiðir ríkið laun 138 presta auk biskups og 18 starfsmanna Biskupsstofu. Tekið er fram í 61. grein laganna að prestum fjölgi um einn fyrir hverja 5000 sem bætast við meðlimafjölda Þjóðkirkjunnar en á þeim 11 árum sem liðin eru síðan þetta var sett í lög hefur þjóðkirkjulimum fjölgað um tæplega 7500 en úrsagnir hafa numið tvöfallt þeirri tölu á sama tíma. Fækkun í prestastétt verður samkvæmt sömu formúlu en þó er athyglisvert að jafnvel þótt landsmenn allir segðu sig úr Þjóðkirkjunni myndi ríkið samt borga laun 77 presta og 13 starfsmanna biskupsstofu.

Einn prestur hefur því bæst við frá því lögin voru samþykkt sem er auðvitað ekki nærri nóg fyrir þann mikla fjölda guðfræðinga sem bíða eftir embættum. Kirkjan hefur allar klær úti og hefur til dæmis platað Reykjavíkurborg til að kosta miðbæjarprest. Vinaleiðaklúðrið var önnur tilraun til að finna eitthvað að gera fyrir alla þessa guðfræðinga, sveitarfélögin áttu að borga og miðað við reynsluna af Garðabæ hefði þurft einn prest fyrir hverja tvo grunnskóla. Feit embætti fyrir um 90 vinaleiðapresta hurfu úr draumsýn biskups þegar sú vitleysa var stoppuð af.

En stofnun sem hefur starfað í þúsundir ára fer sér hægt. Sr. Guðbjörg er eins og svo margir aðrir skólatrúboðar að tryggja framtíðina fyrir sig og starfsbræður sína og systur, skólatrúboðið er síðasta hálmstráið ef tryggja á feit embætti til framtíðar. Hleypið okkur í börnin svo við getum stöðvað lekann, segja þau.

Helsta sóknarfæri kirkjunnar

Þannig lýsir biskup Íslands skólatrúboðinu. Séra Guðbjörgu finnst það “forréttindi að mega heimsækja leikskólann” þar sem hún er með “kristnifræðslu”, kennir börnum bænir og trúarlega söngva. “Þarna fæ ég tækifæri til að kynnast nánast öllum þeim sóknarbörnu mínum sem eru á leikskólaaldri og skapa traust þeirra til kirkjunnar ...” og þar höfum við það!

Maður getur ekki annað en furðað sig á ófyrirleitninni og þeirri vanvirðingu sem börnum og foreldrum þeirra er sýnd. Skólatrúboð þrífst í skjóli einstaklinga innan skólakerfisins sem eiga það sameiginlegt trúboðunum að taka hagsmuni kirkunnar fram yfir siðareglur eigin stétta, almenn mannréttindi, lög og lýðræðislegar hefðir. Þetta heitir víst “kristilegt siðgæði” í þeirra munni en kallast á venjulegri íslensku frekja og siðleysi.


Umrætt viðtal við séra Guðbjörgu er hægt að nálgast hér (.pdf-skjal) á blaðsíðu 8.

Brynjólfur Þorvarðarson 05.03.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Lalli - 05/03/08 08:32 #

Þetta er stórfín grein, hnitmiðuð og skýr. Svona eins og góð blaðaskýring.


Flugnahöfðinginn (meðlimur í Vantrú) - 05/03/08 13:02 #

Það sem er ömurlegast við þetta er að þetta fólk neitar að um trúboð er að ræða, en í annan tíma má sjá og heyra þetta sama fólk missa svona játningar út úr sér. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum. Óheiðarleg og lítilmannleg framganga. Hvað er hægt að segja um svona fólk annað?


Árni Árnason - 06/03/08 13:42 #

Þó að það sé auðvitað yfirlæti af verstu sort að efast um gáfnafar í samhengi guðstrúar, þá er það nú samt svo að maður fyllist efasemdum um heilastarfsemi fólks sem talar eins og Sr. Guðbjörg.

“forréttindi að mega heimsækja leikskólann” “kristnifræðslu”, kennir börnum bænir og trúarlega söngva. “Þarna fæ ég tækifæri til að kynnast nánast öllum þeim sóknarbörnum mínum sem eru á leikskólaaldri og skapa traust þeirra til kirkjunnar ...”

Er þessi manneskja gersamlega blinduð af trú sinni og hagsmunum kirkjunnar ? Er ekki snefill eftir af einhverju sem gæti kallast heilbrigð skynsemi og raunveruleikaskyn ?

Hvað ætli henni fyrndist ef dagatali leikskólanna væri skift á milli trúar- og lífsskoðunarfélaga og þar fengju þau að ráðskast með huga barnanna og laða þau til sín ? Skilur manneskjan ekki að þessi réttnefndu "forréttindi" hennar eru á kostnað mannréttinda annarra.

Ég verð að segja, þó að ég taki með því ákveðna áhættu, að ég sé litlar skýringar á svona framferði, aðrar en annaðhvort meðvitaðan níðingshátt, sem fótum treður vitandi vits mannréttindi, jafnræði,trúfrelsi og lýðræði, eða á hinn bóginn, heimsku. Mér er afskaplega illa við að bera upp á fólk meðvitaðan níðingsskap.

Það er e.t.v. ekki við öðru að búast, en að fólk sem er gegnsýrt af eigin hugarórum um yfirnáttúruverur og setur hagsmuni sína um vel launaða innivinnu á kostnað skattborgaranna framar hagsmunum almennings, noti sér þau forréttindi sem þeim gefast, en hvar er fólkið sem á að stöðva þessa vitleysu ?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.