Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skítlegt hjartalag

Séra Gunnar Jóhannesson skrifar „Enn um trú, guðleysi og kærleika“ í Mbl. 23. feb*. Í greininni segir: „Kærleikurinn – líkt og aðrar dyggðir – er okkur sannarlega eðlislægur vegna þess að við eru sköpuð af kærleiksríkum Guði og í hans mynd. Kristið fólk hefur aldrei talið sig hafa einkarétt á manngæsku. Þvert á móti er lögmál Guðs skráð á hjörtu allra (sbr. Jer 24.7; 31.33; Rm 2.14-15).“ En um hjörtu allra segir Kristur nokkur sjálfur: „Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska“ (Mk. 7:21). Skítleg sköpun atarna og ömurleg fyrirmynd.

Gunnar varar við afstæðis- og sjálfshyggju því þá geti menn „ekki grundvallað siðferði sitt á öðru en eigin viðhorfum og persónulegu skoðunum“. Slíkt telur hann „mesta böl okkar daga“ sem sé að „útrýma vitund okkar um raunverulegan sannleika og viðmið í lífinu.“ Þessi grimmu örlög segir hann „rökrétta afleiðingu af undanhaldi guðstrúar.“

Í kaflanum sem ég vísaði í segir frá fræðimönnum og faríseum sem varð á að gagnrýna lærisveina Jesú fyrir að þvo sér ekki um hendurnar (fánýtan sið og mannasetningu) áður en þeir snæddu. „Jesús svarar þeim: ,,Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar. Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna.“ Enn sagði hann við þá: ,,Listavel gjörið þér að engu boð Guðs, svo þér getið rækt erfikenning yðar. Móse sagði: „Heiðra föður þinn og móður þína.“ og „Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.“ En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: „Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,“ það er musterisfé, þá leyfið þér honum ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður. Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs. Og margt annað gjörið þér þessu líkt““ (Mk. 7:6-13).

Kristur segir meira um vert að drepa óþæg börn en þvo sér um hendurnar fyrir matinn. Guð fyrirskipar svokölluð heiðursmorð og Kristur tekur undir.

„Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ (Mt. 7:16) sagði Jesús líka en Gunnar kýs að meta kristnina ekki af grátlegum ávöxtum hennar „hvort sem það eru ofsóknir, krossferðir eða annað“ því fólk verði „að skilja að það sem fyrir augu ber endurspeglar alls ekki boðskap Jesú Krists“.

Ég gef mér að Gunnar líti svo á að orð Guðs sé hinn „endanlegi sannleikur“. Boðskapur Jesú er klárlega að örlög hræsnara séu í eldsofninum eilífa, þar verði grátur og gnístran tanna (Mt. 13:42). Reyndar segir Jesús nægja að sívirða mann til að „hafa unnið til eldsvítis“ (Mt. 5:22). Hvaða álit höfum við á foreldri sem býr barni sínu eilífar kvalir því það þóknast ekki foreldrinu, foreldri sem hefur þó ekki fyrir því að gera óumdeilanlega vart við sig?

Kristnir menn heiðra guð sinn vissulega með vörunum og lofa „kristið siðgæði“. Þeir segja að allt fari fjandans til ef frá þessu er snúið eða það ekki tilgreint sérstaklega í lögum. En hvað felst í þessu kristna siðgæði, algildum sannleika? Klárlega að ástir samkynhneigðra eru „viðurstyggð“ („Þeir skulu líflátnir verða.“ 3M 20:13).

Og boðorðin segja kristnir grundvöll siðgæðis. Æðst þeirra er auðvitað að ekki skuli aðra guði hafa en ógeðfelldan guð Ísraelsmanna. Ekki má teikna af honum myndir, eða nokkru öðru! Ekki má nefna nafn hans við hégóma (t.d. síma). Ekkert má aðhafast á laugardögum o.s.frv. Eitt þekktasta boðorðið er líklega að menn skuli ekki drýgja hór. „Þá er einhver drýgir hór með konu annars manns, drýgir hór með konu náunga síns, þá skal líflátinn verða bæði hórkarlinn og hórkonan“ (3M. 20:10). „Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór“ (Lk. 16:18). „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Mt. 528). Þetta eru orð Krists, kristið siðgæði.

Í boðorðunum stendur beinlínis að menn megi ekki gera neinar myndir af nokkru sem til er (2M 20:4). Kristnir menn túlka það sumir svo að ekki megi gera myndir af guði (Jesús var guð, samt maður (með skítlegt hjartalag?), samt sonur guðs, æ!). Aðrir að myndirnar megi gera en ekki tilbiðja þær. Sumir múslimar túlka sömu orð (í sömu bók) svo að ekki megi gera mynd af Spámanninum. Er Gunnar Jóhannesson maðurinn til að segja þeim og okkur hinum hver hinn „raunverulegi sannleikur“ er? Grundvallar Gunnar mat sitt á honum ekki bersýnilega á „eigin viðhorfum og persónulegu skoðunum“?

Við megum líklega þakka fyrir að prestar hér eru þó komnir þetta langt frá Guðsorði og kristnu siðgæði. Sem betur fer þroskast siðferðiskennd okkar og því er dapurlegt þegar þeir lofa nokkur þúsund ára og löngu úreltan leiðarvísi í siðferðismálum. Úreldingin er augljós nenni menn að lesa Biblíuna eða fylgjast með þeim sem láta ráðast af henni.


Birtist í Morgunblaðinu þann 28. febrúar sl.
*Grein Gunnars birtist einnig á trú.is

Reynir Harðarson 04.03.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )