Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dýpra en Bubbi

Ég vil þakka séra Gunnari Jóhannessyni tilskrif hans sem birtust í Morgunblaðinu þann 20. febrúar síðastliðinn, gott að vita til þess að einhver skuli nenna að lesa þessa pistla mína sem ég hef fengið birta hér í blaðinu.

Vont þykir mér hvað Gunnari virðist í nöp við mig persónulega. Ekki nenni ég að telja upp allt það sem honum verður á að segja miður gott um mig, verst þykir mér þó að vera kallaður hatursmaður kristninnar. Ég er hatursmaður ofbeldis og óréttlætis, eins og eflaust Gunnar sjálfur og við eigum það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á kristni og sögu hennar. Að hatast við trúarskoðanir annarra er mér fjarri.

Mér er reyndar heldur í nöp við kristið siðgæði enda virðist felast í því mjög eindregin mannfyrirlitning eins og birtist greinilega í skrifum Gunnars. Í fyrri pistli mínum ásakaði ég hann einmitt með óbeinum hætti um slíkt og ljóst af tilsvari Gunnars að ég hafði ekki rangt fyrir mér. Maðurinn er “auðsjáanlega” fallinn, segir Gunnar, og þá væntanlega dýpra en Bubbi um árið.

Gunnar er reyndar góður maður og mannfyrirlitning hans er tillærð, hann telur sig þurfa á henni að halda til að réttlæta siðaboðskap trúar sinnar. Ég veit að hann er ekki svona innst inni og fyrirgef honum fúslega geðvonsku hans í minn garð.

Enda er varla auðvelt að vera prestur, að hafa helgað ævistarfi sínu og vera á fullum launum við að verja vafasaman boðskap á veikum grunni. Ég finn til með sveitaprestinum sem hefur allt of mikinn tíma til að hugsa á endalausum akstri um fjarlægar sóknir, góðir menn sem vilja vel hljóta að vera í mikilli sálarkreppu í þessu starfi.

Misskilningur leiðréttur

Gunnar misskilur skrif mín þar sem ég bendi á að kristið siðgæði hafi ekki virkað sem skyldi í sögulegu samhengi. Þó vissulega megi lesa það úr orðum mínum, með einbeittum vilja, að ég hafi gefið í skyn að kristni væri orsakavaldur óhæfuverka þá var það alls ekki það sem ég vildi segja. Heldur hitt að kristinn siðferðisboðskapur hefur engan veginn megnað að koma í veg fyrir óhæfuverkin. Hann hefur núna haft hátt í 2000 ár til að sanna sig og mistekist.

Vandinn er auðvitað sá að kristið siðgæði setur manninn í annað sæti og telur hann ómerkilegan pappír. Slík nálgun getur haft óhugnanlegar afleiðingar í för með sér ef hún nær sinni öfgafyllstu mynd eins og Gunnar bendir réttilega á og við sáum illu heilli gerast víða um heim á 20. öldinni.

Kristinn siðaboðskapur reyndist gagnslaust gegn þessum öfgum, best sást það þegar allar kirkjudeildir beinlínis studdu nasismann í Þýskalandi, þessari kristnu þjóð sem braut alla ramma mannvonskunnar svo um munaði. Hinn kristni siðaboðskapur var máttlaus þegar á reyndi, eins og svo oft áður.

Vont siðferði?

Kristilegt siðferði er því miður ekki bara gagnslaust heldur jafnvel beinlinis vont siðferði. Gunnar sýnir þetta svo um munar, þessi ljúfi einstaklingur og mannvinur í raun telur það skyldu sína í orði að halda því fram að maðurinn sé í eðli sínu vondur – og notar þá í rökréttu framhaldi persónulegar árásir sem vörn fyrir málstað sínum. Viðmælandi hans, yfirlýstur trúleysinginn, hlýtur að vera vondur!

Þarna sækir Gunnar í hugarrann biskups og er þá illa komið fyrir góðum dreng. Leiðtogi kristinna á Íslandi er einmitt á þeirri skoðun að ókristið fólk geti ekki elskað eins og alvöru fólk, það geti ekki glaðst eins og alvöru fólk, geti ekki fundið til með náunganum eins og alvöru fólk. Þó biskup átti sig ekki á því sjálfur (vona ég) þá leiðir svona orðræða af sér ofbeldi. Andstæðingurinn er málaður sem ómennsk vera, siðferðisboðskapurinn setur guð ofar manninum – er þá ekki hinn ómennski trúleysingi þar fyrir neðan?

Fimmtungur þjóðarinnar er trúlaus samkvæmt skoðanakönnun Biskupsstofu. Vont fólk. Milljarður jarðarbúa eru íslamstrúar. Vont fólk. Flestir jarðarbúar eru hundheiðnir eða trúlausir. Vont fólk.

Valheyrnin kemur sér vel

Til allrar hamingju eru Íslendingar valheyrir þegar kemur að trúarsetningum, eins og sjálfsagt flestir jarðarbúar. Valheyrnin leyfir mönnum að velja það úr sem þeim finnst gott en þykjast ekki heyra hitt. Fullorðnir einstaklingar þroska með sér gott siðferði byggt á þeim trausta grunni nútímasamfélags að maðurinn sé ofar öllu, réttur hans til lífs og lima og hamingju, frelsi hans til orðs og æðis. Fullorðnir einstaklingar taka sjálfstæðar ákvarðanir um lif sitt, þar á meðal trú sína. Kennivald er ekki lengur ægivald.

Ætli prestarnir hafi ekki áttað sig á því að þeir ná ekki lengur eyrum fullorðinna og ætla sér þess vegna að herja á skólana, börnin og unglingana? Núna eru prestar í næsta nágrenni við séra Gunnar að reyna að ísmeygja sér inní framhaldsskólana, senda smeðjuleg bónarbréf til skólastjóra og kennara þar sem boðið er til “samstarfs”. Um hvað? Menntun ungmenna? Nei, ætli það sé ekki um stöðugildi guðfræðinga í samfélagi sem afkristnast svo hratt að atvinnuleysisvofan er tekin við af heilögum anda í hugum presta Þjóðkirkunnar.


Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar sl.

Brynjólfur Þorvarðarson 26.02.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.