Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kærleikur, mildi og miskunnsemi

Mér hefur lengi blöskrað skilningsleysi og fordómar margra landa minna og Vesturlandabúa almennt í garð Íslam og múslima. Myndin sem við gerum okkur af hvoru tveggja er tengd órofa böndum hryðjuverkum og kvennakúgun. Þessi tenging er ekki ástæðulaus, en hún er einföldun.

Við í Vantrú erum sífellt sökuð um öfga og hatur, skilningsleysi og einfaldanir í gagnrýni okkar á kristindóminn. „Guð er kærleikur,“ segja gagnrýnendur okkar og vilja horfa fram hjá öllu bullinu og viðurstyggðinni sem blasir við í „hinni helgu bók“ og sögu kristninnar. Allt verður að lesa „í ljósi Krists“ og túlka með kúnstarinnar reglum. Það er staðreynd að flestir Íslendingar halda að kristindómurinn sé uppskriftin að fögru og göfugu mannlífi.

En á sama hátt og „Guð er kærleikur“ er Íslam trúarbrögð friðar. Múslimar kalla Guð sinn, „hinn milda og miskunnsama“. Eins og mölbúinn heldur að kristnin sé uppspretta alls hins besta í heimi hér heldur músliminn að Íslam sé hið sama. Og víst hefur margur maðurinn göfgast og unnið margt góðverkið í nafni sinnar trúar, hvort sem hún er Íslam, kristni, gyðingdómur eða annað. En gallinn við þessi eingyðistrúarbrögð, sem öll kenna sig við sama Guð (Allah, Jehóva), er bókstafurinn, og öll deila þau Gamla testamentinu. Sigurður Hólm hefur skrifað ágætan pistil um þetta.

Nýlega rakst ég á síðu múslima hér á landi (www.islam.is*) og hafði ekki skoðað hana lengi þegar ég rakst á súru 98:

98. Skýr sönnun (Al-Bayyina) 6. Þeir sem trúðu ekki meðal Fólks Bókarinnar (og meðal heiðingjanna) munu dvelja í vítiseldi til eilífðar. Þeir eru verstir manna.

Eftir að hafa spurst fyrir hvort þetta væri virkilega boðskapur múslima hér á landi fékk ég svar þess efnis að Íslam boði frið, miskunnsemi og kærleika og fari ekki í manngreinarálit, ef við séum góð við aðra séum við góð í augum Allah, hver sem stétt manna er eða trú. Því til staðfestingar fékk ég aðra þýðingu á ensku á þessari Sura (98 ) sem hljóðar svona (í minni þýðingu):

„Hafi menn öðlast hæfileikann til að greina rétt frá röngu en hafni svo því sem satt er og rétt er það versta glópska sem manneskja með sjálfstæðan vilja getur framið. Hún hlýtur að hafa í för með sér sína eigin refsingu, hvort sem manneskjan kallar sig eitt af börnum Abrahams, frelsaða í Kristi eða tekur mið af náttúrunni einni saman og skynseminni sem heiðingi. Í augum Allah ræðst heiður ekki af kynþætti eða þeirri trú sem menn játa heldur af einlægni og ráðvendni.“

„Merking hins heilaga Kórans, Abdullah Yusuf Ali, 1679“

Þarna kveður við allt annan tón. Getur verið að þetta sé virkilega þýðing á sama texta? Það vill svo til að albesti þýðandi okkar, Helgi Hálfdanarson, hefur þýtt Kóraninn á íslensku. Í athugasemd með þýðingunni segist hann hafa ratað „í því meiri vandræði sem hann komst yfir fleiri þýðingar; svo mikið bar þeim á milli, einnig nýlegum þýðingum, eins þar sem fræðimenn voru að verki. Þessu veldur ekki sízt það, að ekki eru allir á einu máli um túlkun frumtextans, sem auk þess þykir víða harla óljós.“

Í þýðingu Helga er 98. þáttur svona:

98. Þáttur – sönnunin (Opinberunin í Mekku)

Í nafni Allah hins milda og miskunnsama. Þeir af mönnum Bókarinnar, sem vantrúaðir voru, og heiðingjarnir, hurfu ekki frá vantrú sinni fyrr en þeir fengu staðfesta sönnun, þegar sendiboði frá Allah las þeim hin eilífu boð úr helgum ritum. Og þeir sem við Ritningunum tóku, urðu þá fyrst ósáttir innbyrðis, þegar þeir höfðu fengið sannanirnar. Fyrir þá var lagt að þjóna Allah og dýrka engan nema Hann, rækja bænir sínar og gjalda ölmusu-skatt. Það er vissulega hin sanna trú. Hinir vantrúuðu meðal manna Bókarinnar og heiðingjarnir skulu lengi brenna í Vítis eldi. Þeir eru af öllum skepnum verstir. En af öllum skepnum eru þeir bestir, sem taka við Trúnni og vinna góð verk. Allah mun launa þeim með vist í görðum Edens, aldingörðum sem vökvaðir eru streymandi vatni, þar sem þeir munu dvelja ævinlega. Allah hefur velþóknun á þeim, og þeir á Honum. Þannig verður guðhræddum launað.

Þegar múslimi les þennan þátt (Suru) klökknar hann eflaust yfir mildi og miskunnsemi Allah, því hann lofar honum (réttilega) vist í aldingörðum til eilífðarnóns. Á sama hátt elskar hinn kristni Guð sinn sem lofar honum eilífðarvist í guðsríki. Kristnir og múslimar eiga það sammerkt að fegra guðinn og sjá bara það besta, því þeir eru einmitt mennirnir sem hann hefur velþóknun á. Hvorugur hópurinn virðist taka örlög okkar hinna tiltölulega nærri sér, eða telja að nokkur skuggi falli á mildi eða kærleika "Hans" í bjarma vítiseldsins.

Fyrsti þáttur Kóransins er afar stuttur, fimm línur, og fagur. En strax í öðrum þætti fá vantrúaðir óblíðar kveðjurnar og það stef er svo síendurtekið í næstu þáttum (þeir eru alls 114). Íslam er jafnfagur og kristni, þegar best lætur, en líkt og í kristni er stutt í það sem við eigum bágt með að sætta okkur við.

Ég ber mikla virðingu fyrir góðhjörtuðu fólki, ekki síst því sem styðst við trú sína í góðmennsku sinni, en í hugmyndum og textum kristinna, gyðinga og múslima er hroða að finna sem ég hika ekki við að gagnrýna. Kristnir hafa notað bókstafinn, og gera enn, til meiriháttar og minniháttar óhæfuverka, og það gera múslimar líka. Fordæmi menn Kóraninn ættu þeir að fordæma Biblíuna líka, með sömu rökum og þá er Nýja testamentið ekki undanskilið. Hér eru nokkur brot úr öðrum þætti Kóransins:

Um hina vantrúuðu gildir einu hvort þú varar þá við eður eigi; þeir láta ekki sannfærast. Allah hefur innsiglað hjörtu þeirra, og þeim verður refsingin þung. 2:6

Þeir bera mein í hjarta, og Allah lætur þeim sárna þrautir, og hegnin þeirra mun hörð, því að þeir lugu. 2:10

Dragir þú í efa það sem Vér höfum opinberað þjóni vorum Múhammeð, þá legg fram þátt sem þennan, og kalla til vitni annað en Allah, að þú segir satt. En bregðist þér – svo sem að vísu mun verða – þá skalt þú varast þann eld sem af mönnum og steinum brennur og búinn er hinum vantrúuðu. 2:24

Og svo framvegis í 2:85, 2:90, 2:99, 2:104, 2:126, 2:162, 2:165-6, 2:167, 2:172, 2:175, 2:191-2, 2:216, 2:218 og í næstu köflum....

* Síðan er ekki aðgengileg eins og er vegna vandræða með lén. Félagi múslima á Íslandi hefur verið bent á það.

Reynir Harðarson 04.02.2008
Flokkað undir: ( Íslam )

Viðbrögð


Anna Benkovic Mikaelsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 04/02/08 12:04 #

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Kóraninn þegar ég byrjaði að lesa hann í þýðingu Helga og með enska útgáfu við hliðina á! Hef heyrt að guðinn sjálfur hafi skrifað þessa bók, ef svo er þyrfti hann að taka Aristóteles (Um skáldskaparlistina) sér til fyrirmyndar! Helgi hefur þó unnið hér þrekvirki og er íslenski textinn betri en enski...læsilegri. Textinn er ekki mjög ljóðrænn, og voða mikið um "vantrúaða" eins og bent er á hér í greininni.
Auðvitað er ég ekki alin upp í æfingu við svona texta, og það útskýrir af hverju mér finnst biblíubókin meiri spennusaga og skemmtilegri aflestrar, en trúarrit múslima...kóraninn!?


Saga - 05/02/08 02:26 #

Ég var einmitt mjög ánægð með Kóraninn sem mér var gefin í íslenskri þýðingu nú fyrir skemmstu. Ég las hann reyndar ekki með enska þýðingu mér við hlið en samlas hann með Biblíunni og fannst ótrúlega gaman að bera saman t.d sköpunarsögurnar, og ég verð að segja að það kom mér á óvart hvað mér fannst nálgun Kóransins mun eðlilegri og ehhh.. "trúverðugri" ef hægt er að orða það þannig heldur en í Biblíunni.

En það var víst bannað að þýða Kóraninn í langan tíma á önnur tungumál einkum vegna þessa. Þ.e að hið ljóðræna form sem skiptir víst gríðalegum máli við lesturinn tapast í þýðingunni og um leið að hluta til partur af boðskapnum.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 05/02/08 09:55 #

Það sem ég hef lesið úr Kóraninum var skuggalega líkt biblíusögum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.