Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

"Erfiðustu stundir guðleysingjans"

Í Morgunblaðinu í dag skrifar Sigurður Ægisson kveðjuhugvekju. Sigurður hefur skrifað hugvekjur í blaðinu í sex ár. Ég hef reglulega lesið hugvekjur hans og verð að segja sjaldan hefur mér þótt eitthvað til koma. Yfirleitt er þetta frekar ódýrt efni, klisjur, frasar og flökkusögur.

Af og til höfum við gert athugasemdir við hugvekjur Sigurðar hér á Vantrú ,t.d.: [a, b, c].

Í kveðjupistli sínum í dag vitnar Sigurður í þankabrot úr bókinni Lífsspeki eftir Jón Hjaltason. Sjötta atriði listans vakti athygli mína en þar er spjótum beint að guðleysingjum.

VI Erfiðustu stundir guðleysingjans eru þær þegar hann er barmafullur af þakklæti fyrir eitthvað en veit ekki hverjum hann á að þakka.

Nú er guðleysinginn kjaftstopp. Hvað þýðir þetta? Oft hef ég upplifað gleði og fögnuð en aldrei hefur mér fundist það erfitt að ég geti ekki beint þakklæti mínu í átt að einhverri persónu á slíkri stundu.

Hugsanlega er þetta vísbending um þankagang sumra trúmanna. Líður þeim virkilega illa þegar þeir gleðjast ef þeir geta ekki lotið í gras og þakkað gvuðinum sínum fyrir ánægjustundina? Eru einhverjir trúmenn virkilega svo illa staddir að í stað þess að upplifa sanna gleði og ánægju verða þeir að gera lítið úr sjálfum sér, upplifuninni og veröldinni. Er hin kristna sektarkennd virkilega svo þrúgandi að jafnvel þegar ánægjan ætti að ráða ríkjum þurfa einhverjir að gera lítið úr sjálfum sér og lúta fyrir æðri mætti? Er hugsanlegt að eitt af því sem kristnin hefur á samviskunni sé að hafa ráðist á gleðiupplifunina, að gleði án gvuðs hafi í raun verið fordæmd í aldir - að það hafi verið synd að upplifa ánægju, að líf mannsins hafi átt að vera þrúgað og þungt?

Af hverju ekki bara að gleðjast, upplifa þakklæti og vellíðan. Beina því þá bara í átt til þeirra sem við umgöngumst eða beina gleðinni inn á við - vera þakklát okkur sjálfum þegar það á við.

Ég get ekki talað fyrir alla guðleysingja, en ég fullyrði að ánægjustundir lífs míns hafa aldrei orðið erfiðar útaf skorti á trú á yfirnáttúruverur.

Sigurði óska ég velfarnaðar og vona að hann haldi áfram að tjá sig opinberlega um trúmál. Skrif hans veita okkur í Vantrú iðulega innblástur.

Matthías Ásgeirsson 27.01.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/08 16:17 #

Þakklætistilfinningin sem ég upplifi þegar vel gengur og allt er í harmóníu er svona "shit happens" með öfugum formerkjum: Good shit happens too!

Rétt eins og guðleysinginn þarf ekki að þakka guðum fyrir hið góða í lífinu kennir hann ekki nokkurri yfirnáttúruveru, lukku eða forlögum um skakkaföllin. Stundum er veruleikinn bara ekki heppilegur og lítið annað um það að segja. Maður reynir þá frekar sjálfur að krafla sig út úr því og bera ábyrgð á velferð sinni í stað þess að gefa út þykkjufull skuldabréf þar sem guðdómur kristinna manna er í sjálfskuldaábyrgð.

Orsakasamhengi tilverunnar er ekki alltaf einstaklingunum í hag og enga kröfu hægt að gera um að náttúran og raunvera dekri við okkur. Að ganga út frá slíku væri gríðarlega hrokafullt.

Mér dettur í hug æðruleysisbænin, "guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við hluti sem ég get ekki breytt..." Sé guðastærðin tekin út úr þessu og sáttin gerð á forsendum "shit happens" erum við að tala um hreinræktaða hagnýta tómhyggju. Og hún er alveg örugglega auðveldari í meðförum, því ekki þarf að spyrja sig stöðugt að því hvað einhverjum yfirnáttúruöflum gangi til.

Shit happens, bæði heppilegur og ekki. Sættu þig við það.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 27/01/08 16:59 #

Satt að segja finnst mér þessi lífsspeki Jóns Hjaltalíns hreint engin speki. Réttara væri að kalla þetta fáfræði og firru.

Reyndar gerir Jón sig sekan um hugsanavillu þegar hann stillir dæminu upp, svo ekki er von á góðu. Hann gerir ráð fyrir þakklætinu, a priori, og þvingar að óþörfu upp á guðleysingjann einhverri kreppu um hvert á að beina því.

Mig grunar að Jón eigi við sannar gleðistundir, þegar menn eru ánægðir, sáttir, hamingjusamir, fegnir o.s.frv. Á slíkum stundum er maður einfaldlega alsæll, og óþarfi að flækja það.

Ef ég er barmafullur af þakklæti veit ég fyrir hvað ég er þakklátur, og líka hverjum eða hverju. Guð kemur þar ekki inn í myndina og fjarvera hans hefur aldrei valdið mér hinu minnsta hugarvíli.

Ég lýsi fullu frati á þessa "speki".

Ef guðleysingi og trúmaður lifa af einhverjar hamfarir eða slys eru báðir fegnir. Trúmaðurinn þakkar guði sínum "í auðmýkt", sem í raun er hámark hrokans - að halda að almáttugur guð hafi haft fyrir því að bjarga lífi einmitt hans. Guðleysinginn getur verið þakklátur fyrir að ekki fór verr, án þess að það þaklæti beinist að einhverri guðaveru. Hann er þakklátur fyrir að hann var í bílbelti eða kastaðist út úr bílnum o.s.frv. Engin þörf á neinni andaveru.


Pétur Björgvin - 27/01/08 21:04 #

Leyfi mér að bregðast við þessum skrifum hér á nokkuð himneskan hátt sem lýsir væntanlega þeim ólíka hugsunargangi sem liggur á bak við tjáningu og skilning á samhengi lífsins. Svosem ekki í fyrsta sinn sem við rekumst má það (-;

Ég skil himneskuna í jákvæðri mynd sinni, sem ábendingu um nýjan himinn og nýjan jörð, nokkuð sem er hluti af heimsmynd og trúarskilningi hins kristna einstaklings. En mannskilningur flestra í dag er kominn á annað plan, manneskjan ekki lengur skilin sem hluti af náttúrunni og náttúran orðin að hlut sem rannsaka má með stjörnukíkjum og smásjám. Það er því ekki sjálfgefið að þessi hugtök sem hér eru sett fram séu skilin af lesandanum í þessum himneska skilningi. Og hér er áhugavert að vitna t.d. í orð Karl Jaspers sem segir að framgangur náttúruvísinda sé kristindóminum að þakka. Slíkt vilji hins vegar gleymast og stundum sé nú látið eins og kristindómur og náttúruvísindi, hafi, séu og verði alltaf tvær andstæður. Þessi hugsun, trúmanninum framandi, getur álít ég leitt til þess að manneskjunni sé það óskiljanlegt að öll upplifun sé sett í samhengi trúar, í samhengi sköpunarinnar, í samhengi daglegs bænalífs, tilbeiðslu og andlegrar upplifunar í samfélaginu við Guð sem er nálægur ei fjarlægur, hluttakandi í lífinu, ei hlutlaus.

Hugsun hins kristna trúmanns er um leið local og universal í senn. Köllun hans snýr að frið og réttlæti, til báráttu gegn ófrið og óréttlæti. Þann innri frið sem til slíks er nauðsynlegur sækir trúarmaðurinn í andaktina, í helgistundina, í það heilaga, himneska. Í huga hans eða með munni sínum tjáir hann lofgjörð sína með til dæmis sálmum um náttúruna, um sköpun Guðs og tekur þannig undir ákall Biblíunnar sem hvetur okkur til að lofa það fagra í náttúrunni og benda á það sem betur má fara. Því Guð sá að allt var gott þegar hann hafði skapað heiminn. Fyrir trúmanninum er það líka ljóslifandi staðreynd að veröldin lofar Guð og Guð talar til hennar allrar: Heyrið þið fjöll, hlustið þið dalir… Og þannig er rigningin, dýrahljóðin, vindurinn, litla barnið, brosið, hláturinn, söngurinn, blómið allt lofsöngur um sköpunina. Og líf trúmannsins er hér ekki einhver sýning, eitthvað sem gert er í þykjustunni, heldur lifir hann í samhengi, sér sig í samfélagi við Guð og menn, já heiminn allan sem Guð hefur falið honum að annast, hlúa að og varðveita. Þannig verður hver stund, hver gönguför að tíma með Guði, því guðlaus tími, tími án Guðs er í huga trúmannsins ekki aðeins ,,ekki til” heldur ,,óhugsandi”.

Og komum við þá að upplifuninni sem er einstök í lífi hvers manns, enginn getur sagst upplifa það sama og ég, ég get ekki sagst upplifa það sama og einhver annar. - Og þannig leyfi ég mér að setja spurningarmerki við tjáningu Jóns Hjaltasonar og túlkun Sigurðar á þeirri tjáningu. Heimur einstaklings sem kennir sig við guð- eða trúleysi er væntanlega annar en einstaklingsins sem kennir sig við sinn guð eða sína trú. Vissulega getur upplifun okkar verið hliðstæð en þar sem hún byggir á persónugerð okkar, sjónarhorni … verður hún alltaf fyrst og fremst persónubundin. En allt sem við upplifum kemur ferli af stað innra með okkur og margir kannast við spurningar í framhaldi af sterkri upplifun eins og: ,,Hver er ég”, ,,Hvaðan kem ég” , ,,Hvert stefni ég…” ???? - Spurningar um lífið, um tilvist okkar, tilgang.

Hvert við beinum þessum spurningum byggir gjarnan á þeirri heimsmynd sem við byggjum líf okkar á eða með hversu opnum hug við erum tilbúin til að hlusta á kenningar og hugmyndir annarra, lífssýn sem er okkur jafnvel framandi. Ef heimsmynd einstaklingsins felur í sér guðshugmynd þá beinir hann þessum spurningum, þessum vangaveltum til guðs síns eða guða sinna. Slíkur guð getur verið einstaklingurinn sjálfur ,,guð í mér” í bókstaflegri merkingu þess frasa.

Held að okkur sé það öllum ljóst að erfitt er a alhæfa um trúmenn (eða trú/guðlausa) almennt, upplifun þeirra og guðsmyndir. En þessar fáu línur hér að framan ættu þó að gefa í skyn hvert svarið hins kristna trúmanns gæti orðið.

Frá hinu kristna sjónarhorni bætist að mínu viti eftirfarandi: Fyrir mér eru engin guðlaus gæði til, gæði lífsins eru frá Guði og hluti sköpunarinnar, þ.e. í því samhengi sem ég skil og upplifi mig og mitt trúarlega samband við Guð föður, skapara himins og jarðar og frelsara minn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/08 21:54 #

Fyrir mér eru engin guðlaus gæði til, gæði lífsins eru frá Guði og hluti sköpunarinnar

En hvað með hörmungar? Er guðinn stikkfrí frá þeim?

Fyrir trúmanninum er það líka ljóslifandi staðreynd að veröldin lofar Guð og Guð talar til hennar allrar: Heyrið þið fjöll, hlustið þið dalir…

Þar liggur vandamál trúmannsins, hann gengur út frá þessum hlutum sem staðreynd án nokkurra þeirra gagna sem styðja mál hans. Slíkt geta skynsamir menn ekki leyft sér.

Annars er þetta óttalegur pómóvaðall.


Pétur Björgvin - 27/01/08 22:25 #

Takk fyrir hrósið Birgir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 27/01/08 23:48 #

Pétur Björgvin kemur með ágæta útlistun á sýn þess trúaða sem sér guð í öllu því jákvæða (en gleymir hentuglega að tengja sama guð við það neikvæða, eins og Birgir bendir á).

Eftir stendur þó að sá trúlausi er ekki í neinum vandræðum á sínum gleðistundum - vegna þess að hann getur ekki þakkað þær guði.

Að fullyrða að það séu erfiðustu stundir guðleysingjans er einfaldlega argasti þvættingur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/08 23:51 #

Þú kýst að svara ekki spurningunni. Hver er aðkoma guðsins að hörmungum lífsins? Svarið mættirðu rökstyðja.

En mannskilningur flestra í dag er kominn á annað plan, manneskjan ekki lengur skilin sem hluti af náttúrunni og náttúran orðin að hlut sem rannsaka má með stjörnukíkjum og smásjám.

Hmm. Er þetta ekki einmitt öfugt? Abrahamstrúarbrögðin aðgreina einmitt manneskjuna frá náttúrunni, manneskjan sérstök smíði guðs og á að ríkja yfir náttúrunni.

Vísindin færa okkur heim sanninn um að manneskjan sé einmitt partur af náttúrunni. Út á það gengur einmitt heimsmynd hins upplýsta nútímamanns. Og græjurnar sem þú nefnir hjálpa okkur einmitt að skilja þetta enn betur.

Þessi hugsun, trúmanninum framandi, getur álít ég leitt til þess að manneskjunni sé það óskiljanlegt að öll upplifun sé sett í samhengi trúar, í samhengi sköpunarinnar, í samhengi daglegs bænalífs, tilbeiðslu og andlegrar upplifunar í samfélaginu við Guð sem er nálægur ei fjarlægur, hluttakandi í lífinu, ei hlutlaus.

Þetta er óskynsamleg niðurstaða og óþörf. Okkur er það ekki óskiljanlegt að sumir setji upplifun sína í þetta samhengi, en samhengið er fullkominn óþarfi og fráleitt nauðsynlegar ranghugmyndir sem flækja málið.

Skoðum t.d. þann sem gengur út frá heimsmynd vísindaspekinnar. Geturðu séð að það samhengi sem hann gerir upp tilverunni, að óhamingja mannanna stafi af andsetningu geimverusálna, sé til óþurftar þegar kemur að skilningi á heiminum? En hvað þá með hið kristilega samhengi? Er það eitthvað líklegra, viturlegra eða nauðsynlegra? Af hverju ertu svona sannfærður um þetta?


Svanur Sigurbjörnsson - 28/01/08 00:09 #

Ég hjó einmitt eftir þessu hjá Sigurði í Mbl. Hverjum á maður að vera þakklátur á gleðistundum? Hverjum nema þeim sem komu þeim í kring og sköpuðu frið og jafnvægi í þjóðfélaginu. Á Íslandi getum við þakkað forfeðrum okkar fyrir að hafa þann þroska að fara ekki út í stríð eða valdníðslu í meiri mæli en raun ber vitni. Þess vegna búum við við frelsi í dag. Forfeður okkar lærðu af framfaraöflum upplýsingarinnar og því erum við ekki fáfróð smákóngaþjóð uppfull af ótta, trúarkreddum og óbærilegri valdníðslu. Þetta er maður þakklátur fyrir og sýnir því þá virðingu að reyna að bæta um betur. Hrein ánægja á að njótast ánægjunnar og lífsins vegna. Það þarf ekki réttlætingu eða sérstaka þakkargjörð. Náttúran gaf okkur lífið og það þarf ekki að þakka það neinum sérstaklega. Njótum!


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 28/01/08 01:17 #

Trúfólk er mjög gjarnt á að skrifa ástand þar sem þeir fyllast gleði og ánægju á nærveru heilags anda. Trúarvíma er líka tengd við nálægð drottins.

Það að komast í gott ástand og mikla vellíðan er ekkert bundið við trú ef út í það er farið. Maður getur komist í þannig ástand með hugleiðslu sem dæmi og að hlusta á fallega tónlist sem snertir tilfinningasviðið.

Það er ekki rétt af trúfólki en líkt því, að vilja einoka vellíðan og gleði og eigna sér þannig upplifanir og gera þær guðlegar.

Maður getur horft á lítið barn sem sýnir einlægan fögnuð og gleði án þess að hafa hugmynd um hver guð er.

Stundum fyllist maður lotningu þegar maður er staddur á fögrum degi í fallegu landslagi og þeirri lotningu hafa allir aðgang að óháð trúarbrögðum.

Eigum við ekki bara að þakka lífinu fyrir góðu stundirnar? og öllu og öllum sem gleðja okkur og eru þáttakendur í því ferli sem fyllir okkur fögnuði?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/01/08 02:54 #

Vandræðaorð þetta orð lotning. Við notum það um tilfinningu sem felst í því að vera frá sér numinn, en út af einhverjum trúartengingum aftan úr öldum á það rót sína í sögninni að lúta (e-m). Guðafólk er einmitt mjög duglegt að tengja þetta tvennt saman og gerir svo trúleysingjum það upp að geta ekki verið haldnir sömu tilfinningu, kennd og upplifun af því að þeir eru ekki að lúta neinum!


Pétur Björgvin - 28/01/08 05:58 #

Skemmtileg og fróðleg umræða sem hér hefur skapast. Takk fyrir áhugaverð innlegg hér öll sömul.

Birgir, það er rétt, á hlaupunum í gærkvöldi svaraði ég engu þeim ábendingum sem þú hafðir komið með í þínum ummælum.

Mín upplifun af dauða og sorg, af því að kveðja náin ástvin, standa við gröf eigin andvana fædds barns, sitja við rúm deyjandi manneskju ... er ekki sú sama og ég lýsi hér að ofan um upplifun á gleðistundu. Að bera gleðistund saman við sorgarstund, að bera fögnuðinn yfir lífinu og því sem gengur vel við grátur og gnístran tanna yfir dauðanum og því sem ekki fer vel, er erfitt ef ekki ómögulegt.

Og að bera saman, flokka eða alhæfa um upplifun einstaklinga á því sem reynist þeim erfitt hlýtur að sama skapi að vera illgerlegt viðfangsefni þó vissulega hafi mannfræðingar, sálfræðingar, hugrænir trúarbragðafræðingar ... fengist við þetta á einn eða annan hátt. Þó er því væntanlega þannig farið að þegar ég lýsi minni upplifun þá eru til einstaklingar - hvort sem þeir kenna sig við trú, guð, trúleysi eða guðleysi - sem geta tekið undir með mér eða furðað sig á að ég geti sett fram slíka lýsingu. Og því verður ekki breytt.

Upplifun mína á slíkum stundum má draga upp í nokkuð einfaldri mynd. Ég er Guði reiður, ég rífst og skammast í honum, ásaka hann fyrir að vera fjarlægur, ,,upptekinn annars staðar". Og á sama tíma heyri ég orð Krists þar sem hann segir: ,,Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?" og leyfi ég mér að benda á ágæta prédikun sr. Jóns Dalbú Hróbjartssonar undir yfirskriftinni Þegar Jesús verður reiður en þar lýsir hann sinni sýn á þessum atriðum. Sjálfur upplifi ég Krist aldrei eins nærri eins og á slíkum stundum.

Aftur erum við væntanlega stödd á sviði þar sem upplifun trúmannsins er allt önnur heldur en einstaklingsins sem kennir sig við trú- eða guðleysi. Og aftur erum við stödd á sviði þar sem upplifun hins kristna einstaklings er önnur en einstaklingsins af alls óskyldum trúarbrögðum.

En takk fyrir að taka þetta upp Birgir.


Árni Árnason - 28/01/08 10:43 #

Ég undrast mest að á sama tíma og trúmennirnir blóta gagnsleysi guðs þegar syrtir í álinn, þá falla þeir fram í lotningu þegar vel gengur og þakka guði.

Hörmungar eru ekki fyrir tilstilli guðsins, heldur vegna þess að hann er upptekinn annarsstaðar, væntanlega að auka hamingju einhvers verðugri. Ég er næstum því viss um þegar flóðbylgjan drap kvartmilljón á fæðingarhátíð frelsarans var guð upptekinn við að stýra bolta trúaðs knattspyrnumanns í netið.


Eiríkur - 28/01/08 11:21 #

Pétur, mjög áhugar ver innleg hjá þér. Og von að hugleiðingar mínar móðgi þig ekki.

mér þykkir merkilegt þegar fólk segjir að það sé ólýsanlegt þegar það talar um trúanlega tilfiningar..eða einsog að frelsast t.d. en hvernig stendur þá á því að það sé hægt að upplifa þessar tilfiningar á hvaða guð sem maður trúir. væri þá ekki frekar einsog þú segjir að guð er með sjálfum þér? er það þá þín ýmind á guði? og er þá ekki það sama og segja að allar bækur og ritnigar sem hafa verið skrifaðar hafa einga gilda merkingu? því jú að allir trúaðir á hvaða guð sem þeir trúa fá þessar trúlegar upplifanir?


Gunnar J Briem - 28/01/08 21:03 #

Vangaveltur Dennetts eftir hjartaáfall snerta á þessum hlutum.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 28/01/08 21:37 #

Pétur: þvílík steypa! Manni verður ómótt af að lesa þetta, afsakaðu orðbragðið.

"... framgangur náttúruvísinda sé kristindóminum að þakka"

Þarna datt botninn úr öllu sem þú sagðir, orðagjálfur til að fela merkingarleysu.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 28/01/08 23:06 #

Mig langar að segja við Pétur

að ég þekki sjálf persónulega trúarlega upplifun og veit að trúarleg upplifun eins og þú kallar hana er bara ástand byggt á því umhverfi sem maður er í og því sem fer þar fram. Ég þekki líka að vera reið guði á erfiðum stundum og þakka guði á góðum stundum.

Þegar ég fór út úr trúarheiminum, enda gat ég aldrei skrifað undir allt sem þar fór fram, hef ég upplifað góðar og slæmar stundir eins og gengur.

Þakklæti mitt og fögnuður hefur ekkert breyst, heldur bara þroskast myndi ég segja. Það er miklu sterkara að stóla á sjálfan sig heldur en guð. Að teysta sínum eigin mætti eflir mann og gerir mann sterkari andlega.

Ég skil það haldreipi sem guð er fyrir fólk á erfiðum stundum. Þegar fólk er að upplifa óbærilega hluti og erfiða að þeir eru nánast óhugsandi. Ég trúi að við öll búum yfir nokkurs konar æðra sjálfi eða innri gáfum og skilningi, sem við getum kallað fram þegar við þurfum á að halda og það gefi okkur styrk, trúuðum og ótrúuðum án þess kannski að við gerum okkur grein fyrir því. Ég trúi því að þar sé rödd skynseminnar hvað sterkust. Ég trúi á lífið, framfarir og þróun og hvað ekki síst þróun vitundarinnar og geri mér fulla grein fyrir því að ég er ekki alvitur og það er ýmislegt sem við vitum ekki og er ókannað eða illa kannað ennþá og þ.m.t. hugur mannsins.

Það er algjörlega rangt að ætla það að trúlausir geti ekki upplifað fögnuð og gleði á sama hátt og trúaðir, en þeir hafa það þó fram yfir trúaða að skilgreining þeirra á sinni upplifun er að hún er þeirra eigin en ekki frá guði komin.

Maðurinn sjálfur býr yfir ótrúlegum mætti og hæfileika sem á eftir að gera hann enn sterkari og öflugri þegar hann kannast við þessa hæfileika í sjálfum sér en skrifar ekki sína getu eða hæfileika til hugleiðingar og rökræðna á guð sem í raun dregur bara athygli mannsins frá hans eigin getu á vitsmunasviðinu.

Á margan hátt er guð athyglisþjófur og er það mikið til komið vegna ótta fólks við hann. Þessi ótti er okkur innbyrgður og í raun erum við á margan hátt hrædd við að leyfa okkar eigin mætti að blómstra og setjum okkur andlegar skorður þegar við erum bundinn trúnni á guð ritninganna. Margir trúaðir lifa í mjög þröngum og afmörkuðum heimi, fullum af boði og bönnum, sem eru sett í fallegan búning til að halda fólki við efnið. Trúaðir réttlæta óréttlæti og ómannúð í krafti síns guð, eða í raun afsaka óréttlætið með að það sé vilji guðs sem þeir í raun eru skíthræddir við að ganga gegn vegna helvítisboðskaps ritninganna og boðskap þeirra um að aðeins sé einn sannur guð og að það sé hin versta synd að ákalla hann ekki. Þeir óttast útskúfun og eru því bara þrælar trúarinnar.

Ég held að heimurinn tæki stórfenglegum framförum ef við losuðum okkur við fjötrana sem trúin hneppir okkur í og færum að treysta á okkar eigin mátt.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 29/01/08 08:57 #

Margrét skrifar:

Það er algjörlega rangt að ætla það að trúlausir geti ekki upplifað fögnuð og gleði á sama hátt og trúaðir, en þeir hafa það þó fram yfir trúaða að skilgreining þeirra á sinni upplifun er að hún er þeirra eigin en ekki frá guði komin.

Ríksikirkjupresturinn María Ágústsdóttir er reyndar ósammála þessu. Hún heldur meir að segja fram að "..án elskunnar til guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika". http://tru.is/postilla/2007/10/krafa-guds

Það er s.s erfitt fyrir okkur trúleysingjanna að elska okkar nánustu án trúar og tilbeiðslu við guðinn hennar Maríu Ágústsdóttur...

-Þar höfum við það.


Árni Árnason - 30/01/08 07:39 #

Hvað þykist guðsvolæðingur vita um erfiðar stundir guðleysingja ? Ég veit svo sem ekkert um aðra guðleysingja, en þegar ég gleðst yfir einhverju, veri það heppni, góður árangur, eða hvað annað sem færir mér gleði og hamingju, er nú ekki það fyrsta sem mér dettur í hug að ég þurfi endilega að falla fram í þakklæti, og allra síst að mig vanti einhverja gufuveru til að þakka, nema það sem gleður mig svo mjög sé beinlínis af annarra manna völdum, þá þakka ég þeim sömu að sjálfsögðu.

Þetta er bara í sama stílnum guðsvolæðinganna, að þeir vilja að það sé svo, að ekki sé lifandi í þessum heimi án gufuvera til að sleikja ra$$g@71) á. Tali þeir fyrir sjálfa sig, en ekki mig.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 30/01/08 19:37 #

Teitur

Ætli María eigi ekki eftir að skammast sín fyrir svona skrif? Þetta er náttúrulega illa hugsað af henni og óhugsað ef út í það er farið. Hún gefur skít í milljónir fólks sem elskar börnin sín og er kærleiksríkt án þess að skrifa það á mátt sem guð hefur gefið þeim.

Sumir ætla það að gæska þeirra sé frá guði komin og að þeir sem ekki vilja kannast við þennan guð fái þá ekki þessa gæsku. Henni er semsagt úthlutað til þeirra sem trúa á þennan guð mismununar.

Þetta er ótrúlega heimskulegt ef út í það er farið :-( Verst er að það eru margir sýktir af þessari hugsun án þess að gera sér grein fyrir því en vafra bara um í þessum hugsunarhætti án þess að reyna að sjá hlutina frá fleiri sjónarhornum.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/01/08 22:56 #

Sem kallast á góðri íslensku: þröngsýni.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 31/01/08 09:05 #

Ég held að María sjái eftir þessum orðum sínum. En þar kem ég einmitt að kjarna málsins.

Ríkiskirkjuprestar eiga jú að vera einskonar leiðarljós í siðferðislegum efnum, mæra og kynna boðskap biblíunnar fyrir áhreyrendum sínum. það er bara erfitt verkefni þar sem biblían er ekkert góður leiðarvísir af æskilegu siðferði. Biblían hefur t.d veitt mestu skálkum og ómennum innblástur fyrir sín illvirki.

Siðferði það sem María mærir er ekkert það sama og Gunnar í Krossinum mærir. Þótt bæði sæki sér innblástur í biblíuna.

María hefur bara "lent í því" að byrja að bulla og ekki getað hætt þegar hún lét út úr sér þessi hrokafullu setningu. það er nefnilega stundum eins og ríkiskirkjuprestarnir detti í einhvern gír og bulli bara eitthvað þvaður sem stenst ekki neina einustu skoðun. Oft er inntakið eitthvað kærleiks-moð sem vafið er inn í óljósar hugmyndir sem verið að skoðast í ljósi krists

Ég er þeirrar skoðunar að við mennirnir höfum innbyggt siðferði inn í okkur. Siðferði sem er ekkert frá neinum guði komið heldur sé afleiðing af því að við erum hópdýr. Apar hafa t.d afar skýrar siðferðisreglur. Hundar og kettir sömuleiðis. Allt yfirnáttúru siðferði mun alltaf rekast á við okkar meðfædda siðferði með hrikalegum afleiðingum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/03/08 16:52 #

Páskahugvekja Deiglunnar inniheldur samskonar vitleysu og þá sem ég gagnrýni í þessum pistli.

Þakklæti er mikilvægt atriði í kristinni trú sem gleymist oft. Sænski rithöfundurinn og leikritaskáldið August Strindberg (1849-1912) sagði: “Það er vissulega sælla að gefa en að þiggja en það krefst mikils sálarþreks að kunna að þiggja og vera þakklátur.” Einnig er sagt að maður metur það eitt sem maður þakkar.

Og þar getur hinn vantrúaði lent í vanda.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.