Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Pat Condell á íslensku - Guð blessi trúleysið

Pat Condell er breskur grínisti og rithöfundur. Hann heldur úti ferlega skemmtilegri síðu þar sem hann dregur trúarhugmyndir og skipulögð trúarbrögð sundur og saman í háði. Hér fyrir neðan er íslenskuð útgáfa af einum pistla hans, stílfærð eftir íslenskum veruleika og birt með leyfi höfundar.


Ég bý í samfélagi þar sem allir bera virðingu fyrir trú annara - svo fremi að það sé trúað á guð. Þrátt fyrir það eru góðar ástæður fyrir því að gerast trúleysingi. Hvað mig snertir þá er það "vinnutíminn" sem mér líkar best - allur sólarhringurinn. Þessi tími hentar mér ágætlega. Fólk spyr mig stundum hvernig það er að vera trúleysingi og vissar spurningar koma alltaf upp í kjölfarið. Til dæmis:

Hvernig getur þú greint á milli góðs og ills án þessa að nota trúarbrögð sem leiðavísi?

En það er einmitt það sem ég geri. Trúarbrögð eru leiðavísir í mínu lífi. Flest af því sem ég sé trúarbrögð gera er illskan uppmáluð. Mér þykir þetta nokkuð nothæfur leiðavísir. Ef trúarbrögð eru í spilinu, þá veit ég að illskan er ekki langt í burtu. Önnur spurning er:

Er trúleysi ekki bara líka trúarbrögð?

Í vissum skilningi er trúleysi trúarbrögð á sama hátt og sköpunartrú eru vísindi og islam eru trúarbrögð friðarins. Trúleysi eru trúarbrögð þegar tungumálið hefur glatað merkingu sinni. Hvernig getur trúleysi verið trúarbrögð? Hvern dýrkum við? Og hver mun drepa okkur ef við dýrkum ekki neitt? Trúleysi krefst ekki algerrar hlýðni og viðhefur ekki hótanir um eilífa glötun og móðgast ekki yfir skeldýraáti (eins og blátt bann er við í biblíunni). Trúleysi er ekki andsnúið samkynhneigðum og kemur ekki fram við konur eins og búfénað. Það er í raun synd að trúleysi sé ekki trúarbrögð því annars gætum við borgað okkur sjálfum tólf þúsund kallinn sem fer í sóknargjöld árlega.

Nei trúleysi nýtur engrar sértakrar viðurkenningar. Það eru engir trúleysingjaskólar þar sem börnum er innrætt trúleysi sem trúarkerfi né heldur krefst trúleysi þess af samfélaginu að halda uppi prestum á ofurlaunum. Trúleysi getur ekki einu sinni í sinni víðustu mynd verið trú. Fyrir mér er trúleysi bara annað nafn á veruleikanum. Það einfaldlega táknar að afsaka sig ekki fyrir að vera manneskja og vera bara ánægður með lífið eins og það er, en sóa því ekki í gagnslausar pælingar upp úr fornaldarskáldskap sem boðar að himnaríki bíður eftir manni og það eina sem ég þarf að gera er að deyja!... Þetta er þokkalegt gjald fyrir stað sem sennilega er uppfullur af prestum og ofurkristnu fólki. Nokkuð sem er í mínum huga ömurlegri örlög en alger og endanlegur dauði.

En fólk þarf trúarbrögð til að svara vissum spurningum. Spurningum eins og „hvernig er best að hefta mannlegan reisn?“ og „hvernig getum við troðið boðskapnum okkar inn á yngstu samfélagsþegnana í samfélaginu okkar.?“ eða „í hve mörgum milljónum getum við eytt í kirkjubyggingar án þess að skammast okkar?“ Þessum spurningum svara trúarbrögðin afar vel. Því miður eru aðrar spurningar sem trúarbrögð eiga ekkert svar við þannig að reyndin hefur verið sú að trúarbrögðin búa bara til svörin við þeim.

Þarna kemur trúleysið sterkt inn. Trúleysið kemur og segir. „Hey, þú bara bjóst til svarið við spurningunni.“ „Nei!“ svara trúarbrögðin. „Þetta er það sem við köllum guðfræði.“ Hver er munurinn á lækni og guðfræðingi? Einn skrifar út lyfseðla meðan annar gæti verið á téðum lyfjum. Guðfræðingur er sérfræðingur í því óþekkjanlega og hefur allar prófgráður til að sanna það. –Sérfræðingur! Mér finnst að spurninginn sem við ættum að spyrja, frekar en að velta vöngum yfir því hvort trúleysi séu trúarbrögð sé þessi: Hversvegna er guðfræði talin sem grein heimsspekinnar en ekki sem grein skáldskaparlistarinnar? Guðfræði er nefnilega afar skapandi. Þú getur sett hvaða guð sem er í hvaða búning sem er og það hlýtur að vera mjög skemmtilegt fyrir alla sem koma það þeirri vinnu. Ég sé reyndar enga ástæðu til að kenna guðfræði frekar en t.d stjörnuspeki.

OK. Við náum þessu! Þú trúir ekki á guð. En þú verður að taka til greina að trúarsamtök gera mikið af góðverkum, sérstaklega í þriðjaheiminum. Þú getur varla gagnrýnt það?

Hvað ertu að segja mér? Ertu að halda því fram að ef þessi samtök væru ekki trúarleg, þá myndu þau ekki gera þessi góðverk? Eru þau í rauninni ekki að gera þetta af hjartagæsku sinni því þau eru bara að fylgja skipunum? Er þetta það sem þú ert að segja? Ég reikna með að ef þau væri heiðin trúleysingjasamtök þá hefðu þau engan tíma til að gera góðverk því þau væru önnum kafin við að svalla í öllum sínum lægstu hvötum. Því það er það sem við trúleysingjarnir gerum, -ekki satt? Sálir okkar eru spilltar og ataðar auri syndarinnar.

Þetta er í rauninni frábær lífsstíll. Þegar ég er búin að gera þetta vídeó, ætla ég að eyða deginum í að syndga því ég veit að mér verður ekki refsað fyrir það. Ég er orðin býsna æstur í syndasukkið og lýk máli mínu hér og nú.

Ritstjórn 04.01.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Eiríkur - 04/01/08 19:44 #

hehehe...

ég varð solítið ruglaður á að lesa þetta.. missti nefnilega úr að þetta átti að vera íslensk útgáfa... og náði ekki þess með vídeóið..(best að lesa upprunan) allaveg skemmtileg grein.. og komu nokkri nýir púnktar fyrir mig fram.


LegoPanda@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 05/01/08 21:14 #

Góð grein, vert að þýða:)

Það er skemmtilegt með Pat Condell, að hann er ekkert að skafa utan af hlutunum!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.