Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Brjóstvit - spá Vantrúar fyrir árið 2008

Jæja gott fólk, nú er lag að kanna hvernig spátölvu Vantrúar gekk með árið sem er að renna sitt skeið og líta um leið lauslega á þruglið í Vikuvölvunni. En fyrst þetta:

Tókuð þið eftir nýlegri stríðsfyrirsögn á Moggavefnum - Völvan spáir stjórnarslitum? Nú er auðvitað allt í lagi að tefla fram einhverjum svona völvuspám í lok ársins, sem dægradvöl, en er ekki fulllangt gengið að slá bullinu upp með þessum hætti í virtu dagblaði? Dulræn spádómsgáfa er að sjálfsögðu ekkert annað en hindurvitni og ábyrgðarlaust að ala á slíku sem marktækri heimild og efla með því tiltrú fólks á bábiljur og kjaftæði.

Einu sinni tiltók Mogginn alltaf, undir hverri stjörnuspá blaðsins, að líta bæri á þetta sem dægradvöl og að spádómar sem þessir byggðu ekki á traustum grunni vísindalegra staðreynda. Þetta mætti þessi ágæti miðill taka upp aftur sem og þegar hann birtir viðtöl við hjálækna og aðra kuklara. Það getur nefnilega hlotist skaði af því að kynda undir svona trúgirni.

En nóg um það, tölvuspá Vantrúar fyrir árið 2007 var að sjálfsögðu ekki byggð á neinu öðru en líkindum og heilbrigðri skynsemi. Engin yfirnáttúra þar. Þetta var m.a.s. tekið skýrt fram í greininni, að um brjóstvitið eitt væri að ræða. Völva Vikunnar hefur í mörgu tekið þennan hátt upp eftir okkur í nýjustu spánni:

Þá spáir Völvan því að [...] tvær þekktar persónur muna falla frá á árinu, önnur mun þekktari en hin. (visir.is)

Stórkostleg forspá. Vantrú bætir um betur og segir: Allmargir þekktir einstaklingar munu falla frá á áriniu, sumir þekktari en aðrir.

Það er þetta með brjóstvitið. Við vitum fyrir víst að ýmislegt muni koma upp á á næsta ári. Tölfræðin segir okkur að einhverjir stórbrunar verði, að einhverjir þurfi á hjálparsveitum að halda til að komast ofan af hálendinu, að þekktir menn og konur muni falla frá, að órói verði i efnahagslífinu og stjórnmálunum, að einhverjir standi sig vel og beri hróður landsins út á við, að frægt fólk muni heimsækja Ísland, að viðbúnaður verði vegna hugsanlegra hryðjuverka, að jörð skjálfi og að það jafnvel gjósi. Jarðfræðingar spá gosi við Upptyppinga næsta haust og einfalt fyrir hvaða völvu sem er að veðja á þann hest.

Völva vikunnar gengur reyndar lengra og spáir tveimur gosum, öðru nærri byggð. Hún er kannski að hugsa um jarðskjálftahrinuna við Selfoss en engu skiptir hvort öll spá hennar gangi eftir. Það er nefnilega þannig að ef það gýs á hálendinu en ekki við byggð getur hún þakkað sér fyrir að hafa haft rétt fyrir sér með það, en síður verður henni álasað fyrir hitt. Valkvæm hugsun, góðir hálsar.

Af hverju sjáum við aldrei forspá um nákvæma atburðarás eins og:

Sunnudaginn 20. apríl mun Davíð Oddson láta af embætti Seðlabankastjóra af heilsufarsástæðum. Eftirmaður hans verður Sighvatur Björgvinsson en hann hefur lengi verið maður númer 2 í bankanum. Sighvatur verður klæddur gráteinóttum jakkafötum þegar Sólveig Bergmann fréttamaður tekur við hann viðtal í fréttum Stöðvar 2.

Hvað haldið þið? Ef þessi spákúluglápandi skuplukellíng getur séð inn í framtíðina ætti hún að geta séð atburðina og lýst framvindu, fatnaði og jafnvel orðaskiptum. En þess í stað fáum við eitthvað jafnóljóst og:

Völvan er ekki bjartsýn þegar kemur að efnahagsmálum. Hún segir fjármálakreppu framundan og spáir miklum sveiflum á gengi krónunnar. (visir.is)

Semsagt eitthvað sem hver sæmilega meðvitaður einstaklingur getur sagt sér sjálfur.

Reyndar koma frá henni nokkur skot í þessum dúr, sbr:

Að lokum má nefna að Völvan spáir því að Ólafur Ragnar muni hætta sem forseti á næsta ári, að Magnús Geir verði Borgarleikhússtjóri og að Manchester United vinni ensku deildina. (visir.is)

En auðvitað skiptir engu máli hvort þetta rætist, við munum öll einblína á Upptyppingagosið sem henni tókst að hafa rétt. Gleymum öllu þessu. En ef þetta rætist þá megum við ekki gleyma því að hún gæti átt sér raunverulegar heimildir fyrir þessum atburðum - inside info. Kannski hefur hún frétt að Ólafur Ragnar sé hættur að nenna þessu, kannski hefur það m.a.s. birst einhvers staðar opinberlega en við hin öll búin að gleyma því. Sama gildir um Magnús Geir, getur verið að hann hafi einhvers staðar í allri fjölmiðlaumræðunni verið bendlaður við þetta nýja starf?

En skítt með þetta allt, árið er að klárast og við megum engan tíma missa. Hér eru spádómar Vantrúartölvunnar fyrir árið 2007, eins og þeir birtust fyrir ári:

  • Áframhaldandi styrjöld í Írak
  • Kosið verður til þings og niðurstöðurnar munu koma einhverjum á óvart
  • Prestar halda áfram að vera jafnmálefnalegir
  • Steingrímur J. og Ögmundur munu tala mikið á Alþingi
  • Hugsanlega verður eldgos á landinu eða allavega einhvers staðar í heiminum.
  • Jónína Ben mun komast í fjölmiðla og segja eitthvað heimskulegt
  • Biskupinn mun tala um græðgi í samfélaginu án þess að tengja það á nokkurn hátt við ofurlaun sín né við heimtufrekju þjóðkirkjunnar
  • Davíð Oddsson verður fúll yfir einhverju
  • Mikið verður um lélegt sjónvarpsefni og þá sérstaklega raunveruleikasjónvarpsþætti
  • Moggabloggarar verða hissa á að þeir séu ekki ráðnir til alvöru fjölmiðla.
  • Ritstjórarnir á Trú.is munu ekki hleypa í gegn óþægilegum kommentum
  • Útrásin heldur áfram
  • Íslendingur vinnur íþróttaafrek
  • Einhver hneykslismál munu skekja þjóðfélagið, sumt af því tengt trúarstarfsemi, annað stjórnmálum
  • Mikil átök í kringum stjórnarmyndun í vor
  • Hræringar á fjölmiðlamarkaði
  • Mikil kirkjusókn um næstu jól og páska
  • Vindasamur vetur með kulda og rigningartíð
  • Milt sumar en víða vætusamt
  • Vinaleiðin frelsar mörg börn í Garðabæ
  • Vinaleið verður kærð
  • Hatur milli Ísraels- og Palestínumanna mun halda áfram
  • Slæmt ástand mun ríkja í Afganistan
  • Uppbygging í Kína verður gífurleg
  • Mikið mun ganga á hjá íslensku bönkunum
  • Miklar uppgötvanir hjá Íslenskri erfðagreiningu
  • Tveir eða þrír stórbrunar á árinu, a.m.k. einn þeirra verður heilu byggðarlagi nokkurt áfall
  • Kuklari verður með sjónvarpsþátt þar sem hann fær til sín fræga gesti
  • Olíuverð hækkar
  • Efnahagsstjórn landsins verður fyrir gagnrýni
  • Fjölmiðlafólk mun gagnrýnislaust birta fáránlegustu staðhæfingar skottulækna, miðla, presta og annarra kuklara

Ekki er annað að sjá en flest af þessu hafi gengið eftir. Við erum einfaldlega miklu betri en Völva Vikunnar!

Og svo djörf erum við hér á þessu vefriti að við ætlum að láta þetta allt standa fyrir næsta ár líka (nema þetta með Vinaleiðina í Garðabæ og þingkosningar) og bæta þessu við:

  • Fjármálamarkaðurinn réttir hægt og rólega við sér eftir samdráttinn að undanförnu
  • Ríkisstjórnin heldur velli
  • Hlutfall meðlima í ríkiskirkjunni lækkar dálítið
  • Áfram verður logið upp á Siðmennt og Vantrú skoðunum sem þessi samtök hafa ekki
  • Biskupinn segir eitthvað megaheimskulegt
  • Órói og kvikuhreyfingar í Vatnajökli eða norður af honum, jafnvel gos
  • Breytingar hjá Birni Bjarnasyni
  • Ólga í borgarstjórn Reykjavíkur
  • Deilur um kjaramál þegar nálgast sumarið, jafnvel verkföll
  • Miklar náttúruhamfarir verða erlendis
  • Mikið spillingarmál kemur upp í viðskiptum
  • Deilur verða um embættisveitingu stjórnmálamanns
  • Skipskaði en mannbjörg
  • Sviptingar á fjölmiðlavettvangi
  • Eldfim stríðsátök úti í heimi
  • Kvikmyndastjarna hlýtur dapurleg örlög
  • Britney Spears gerir eitthvað heimskulegt og fjölmiðlar smjatta á því
  • Hiti yfir meðallagi á landsvísu. Vor og haust sníða af vetrinum, en sumarið jafnsvalt og venjulega
  • Ísland kemst ekki í öryggisráðið

Og svo nokkrir nákvæmnisspádómar:

  • Risakónguló kemur í ljós í gámi af banönum á hafnarsvæði Eimskips
  • Verðið á rjómabollunni fer hæst í 899 krónur í Ragnarsbakarí
  • 4 morð verða framin á árinu. Tvö í mars, eitt í júni og eitt í september
  • Grænum Cheerokee verður stolið í Reykjavík í janúar. Hann finnst síðan í höfninni í Grindavík 30. september klukkan 18:05
  • Kjóa fjölgar mikið árið 2008 og talað er um faraldur.
  • Eiður Smári verður seldur frá Barcelona í byrjun ársins. Hann fer til West Ham
  • Séra Flóki verður áberandi í byrjun árs. Hann dettur íða föstudaginn 15. febrúar með hneykslanlegum afleiðingum.
  • Íslensk kvikmynd verður frumsýnd með Hilmi Snæ í aðalhlutverki og það sést í typpið á honum

Og svona í lokin. Á árinu sem senn er liðið fór þjóðfélagið allt á annan endan út af einhverju hundsspotti. Þetta er sennilega stærsta og eftirminnilegasta atvik ársins. Sá Völva Vikunnar það fyrir?

Nei. Ekki við heldur.

Gleðilegt ár öllsömul og takk fyrir hressileg skoðanaskipti á árinu.

Ritstjórn 31.12.2007
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


jogus (meðlimur í Vantrú) - 31/12/07 15:02 #

Magnús Geir sótti, ef ég man rétt, um starf leikhússtjóra hjá Borgarleikhúsinu í okt-nóv. Eftir ákaflega farsælan feril hjá LA yrði enginn (leikmaður) hissa að hann fengi starfið. Þetta er því tiltölulega safe bet.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 31/12/07 16:46 #

Langar að bæta nokkrum spádómum við fyrir árið 2008:

Framsóknarflokkurinn verður yfirlýstur trúflokkur!

Kona býður sig fram til forseta! (ef Ólafur Ragnar hættir)

Frægt erlent fólk á eftir að versla mikið á Íslandi á árinu.

Íslenskur leikari fær hlutverk í erlendri kvikmynd.

Ótti við flugnaflensu blossar upp og lyfjafyrirtækin græða mikið.

Gleðilegt ár!!


Aðalbjörn Leifsson - 01/01/08 18:01 #

Þið hefðuð átt að koma þessu að: Vantrú.is leggur sig niður og félagarnir ganga inn í trúfélagið Krossinn. Siðmennt-félag siðrænna húmanisma verður trúfélag. Vonin verður æðstiprestur.

Hafið það sem best og megi Guð blessa ykkur.


FellowRanger - 04/01/08 18:17 #

Og megi gítarnöglin alvarlega blessa á þér hælana.


Snorri Magnússon - 06/01/08 01:40 #

Það hefði líka mátt setja inn í tölvuspádóm vantru.is: Vantru.is heldur áfram trúboði sínu gegn trú Vantru.is heldur áfram að gera lítið úr trú fólks Vantru.is heldur áfram að gera lítið úr þeim sem eru þeim ósammála Vantru.is heldur áfram að gera lítið úr fólki Vantru.is heldur áfram að eiga skoðanaskipti við fólk með svörum á borð við "Af því bara" Vantru.is heldur áfram..........


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/01/08 01:55 #

Og? Ætlarðu að skæla útaf því?


Haukur Ísleifsson - 07/01/08 01:32 #

Snorri

Er maður einhvað sár?

Ég vil meina að það sé gott að gagnrýna allt. Jafnt skoðanir sem fólk. Það þíðir samt ekki að við séum að gera lítið úr fólki.


Erlendur (meðlimur í Vantrú) - 21/01/08 19:06 #

Ólga í borgarstjórn Reykjavíkur

Áhugavert í ljósi síðust frétta


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/01/08 23:00 #

"Deilur verða um embættisveitingu stjórnmálamanns."

Þetta er alveg lygilegt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.