Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðskilnaður kirkju og skóla

Umræða undanfarinna daga og vikna hefur snúist um það hvort eðlilegt sé að Þjóðkirkjan noti leik- og grunnskóla sem sinn helsta trúboðsvettvang. Málsvarar kirkjunnar hafa reynt að fara ýmsar leiðir í réttlætingu sinni, meðal annars þá að eigna sér upphaf skólahalds á Íslandi. Væntanlega eiga þeir þá skólana og geta gert við þá sem þeim sýnist?

“Skólastarf á Íslandi er sprottið upp úr jarðvegi kirkjunnar”, segir Halldór Reynisson verkefnisstjóri fræðslusviðs Biskupsstofu í DV þann 29. nóvember. “Það gleymist alveg að það var kirkjan sem á sínum tíma ruddi skólunum braut hér á landi” segir séra Þórhallur Heimisson daginn eftir í Hafnarfjarðarkirkju. "Það hefur alltaf verið samstarf milli skóla og kirkju" segir séra Jóna Hrönn Bolladóttir í Kastljósi 3. desember.

“Gunnfáni íslenskrar almenningsmenntunar”

Árið 1901 fékk Guðmundur Finnbogason tveggja ára styrk frá Alþingi til að kynna sér uppeldis- og menntamál á Íslandi. Guðmundur hafði nýlokið námi í sálarfræði og heimspeki og gekk þegar til verka en áður en skýrslan kom út birti hann tillögur sínar fyrir almenning í bókinni Lýðmennt árið 1903. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands gaf bókina út í nýjum búningi árið 1994 og í inngangi segir Ólafur H. Jóhannsson, aðjúnkt við KHÍ, að bókin hafi á sínum tíma markað “tímamót í íslenskri alþýðufræðslu. Með boðskap bókarinnar og lagasetningu um barnafræðslu sem fylgdi í kjölfarið var bundinn endi á aldagamla hefð kristindómsfræðslu á ábyrgð heimila og hins geistlega valds”.

Fyrirsögnin hér að ofan er sú einkunn sem Ólafur gefur riti Guðmundar í inngangi sínum en Ólafur er sjálfur einn áhrifamesti menntafrömuður Íslands í nútímanum.

Í inngangi bókarinnar lýsir Ólafur þeirri stöðu sem ríkti í skólamálum við upphaf tuttugustu aldar. Í þorpum og kaupstöðum við sjávarsíðuna voru skólar starfandi, oftast að frumkvæði heimamanna, en flestir studdir af ríkissjóði. Í sveitum var farkennslan hið ríkjandi form ásamt heimakennslu.

Hér er ekkert frumkvæði presta eða kirkju. Foreldrar hafa ávallt viljað mennta börn sín og í þéttbýli gefst tækifæri til raunverulegs skólahalds. Útvegsmenn voru hlynntir skólarekstri og voru jafnvel frumkvöðlar að stofnun skóla og spyrja má hvort að baki hafi legið samkeppni við sveitirnar um vinnuafl en vistarbönd voru afnumin stuttu áður en þessi þróun hófst.

Togstreita milli sjávar og sveita er ekki ný á Íslandi. Ólafur lýsir því í fyrrnefndum inngangi að á tveimur síðustu áratugum 19. aldar hafi einstaka þingmenn gert “ítrekaðar tilraunir til að færa skipan fræðslumála í nútíðarhorf, þ.e. undan umsjá kirkju og presta yfir til ríkis og skóla, en án árangurs.” Hann telur áðurnefnda togstreitu búa þarna að baki og þarf lesandi ekki að lesa mikið milli lína til að skipa kirkjunni í lið með fulltrúum sveitanna, gegn skólastarfi.

Óhjákvæmilegt að afnema kristnidómsfræðslu?

Bókin Lýðmennt kom út árið 1903 eins og áður sagði en þar fjallar Guðmundur Finnbogason meðal annars um “kristnidómsfræðslu”. Hann bendir á að “snörp barátta” hafi verið háð víða um lönd um þessi mál og “sumstaðar hefur henni lokið þannig, að kristnidómsfræðslan hefur verið afnumin í lýðskólunum. Svo er t.d. á Frakklandi, Hollandi, í Bandaríkjum Norður-Ameríku og víðar. ... Þetta fyrirkomulag er nálega óhjákvæmilegt, þar sem svo hagar til, að ýms meir eða minna fjarskyld trúarfélög verða að senda börn sín til sama skólans.”

Guðmundur bendir á nokkur rök fyrir því að fræðsla um kristni eigi ekki heima í skólum. “Foreldrarnir eiga rétt á að uppala börn sín í þeirri trú eða lífsskoðun, sem þeir sjálfir aðhyllast” segir hann og bendir jafnframt á að varla sé hægt að heimta “ákveðnar trúarskoðanir af kennurum, og sé því rangt að leggja þeim á herðar fræðslustörf í þeirri grein sem engin trygging er fyrir, að þeir geti kennt af sannfæringu sinni.”

Að lokum kemst Guðmundur þó að þeirri niðurstöðu að hægt sé að halda kristnidómsfræðslunni innan lýðskólakerfis á Íslandi enda sé íslenskt samfélag mjög einsleitt hvað kristni varði, hér sé engin togstreita um stöðu kirkjunnar gagnvart ríkinu auk þess sem “prestastétt vor er frjálslynd”. Allt gæti þetta hafa átt við fyrir hundrað árum en öllum má ljóst vera að svo er ekki lengur.

Ekki bók af himni ofan

Sú kristnidómsfræðsla sem Guðmundur sá fyrir sér átti að felast í því að lesa “valda kafla úr biblíunni og þeir útskýrðir, sungnir fagrir sálmar og loks veitt nokkur fræðsla um sögu kristilegrar kirkju.” Fermingarfræðsla sé á vegum kirkjunnar og hann varar eindregið við einu: “Varla ætti að þurfa að taka það fram, hve rangt það er að láta börnin læra ýmislegt sem stendur í Gamla testamentinu sem sögulegan sannleika” og “ekki ættum vér að dylja börnin þess, að ‘Gamla testamentið er alls ekki bók fallin af himni ofan eða til orðin í heimi bókmenntanna á annan hátt en aðrar bækur’” segir Guðmundur og vitnar í rit Jóns Helgasonar síðar biskups, “Hvernig er gamlatestamentið orðið til” sem kom út 1901.

Af ofansögðu má ljóst vera að kirkjan stóð engan veginn að uppbyggingu grunnskólastarfs á Íslandi, jafnvel að hún hafi lagst gegn því starfi. Kristin kirkja hefur haft nærri 2000 ár til að efla menntun og siðgæði á áhrifasvæði sínu, þar af rúm 1000 ár á Íslandi. Hvernig stendur þá á því að frelsi, lýðræði og jafnrétti ásamt almennri menntun blómstri fyrst núna á síðustu öld eða jafnvel áratugum, einmitt þegar kirkjan er búin að missa ítök sín og orðin að jaðarfyrirbæri í mannlegu samfélagi?

Greinin birtist í 24 stundum þann 28. desember 2007

Brynjólfur Þorvarðarson 30.12.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/12/07 14:26 #

Skólastarf á Íslandi er kirkjunni að þakka, rétt eins og kvenréttindi, mannréttindi, umburðarlyndi, kærleikur, litlu jólin, stóru jólin, frídagar, víðsýni, tækni, vísindi, heilbrigðiskerfi, hjólreiðastígar og sauðfjárveikivarnir.

Brátt getum við þakkað kirkjunni góða stöðu samkynhneigðra hér á landi... nei, svei mér þá. Auðvitað er hún nú þegar kirkjunni að þakka.


Kári Svan (meðlimur í Vantrú) - 30/12/07 16:35 #

Ekki er bara um eingarupptöku á jörðum að ræða heldur líka eignarupptöku á framförum.

Maður dettur svo sem fleirra sem hún reynir að eigna sér. T.d heilan urmull af mannlegum tilfinningum, helst öllum þeim væmnu. Síðan segja þeir að þessar tilfinngar séu þeim og ósýnilega einræðisherranum sínum að þakka.


Haukur Ísleifsson - 01/01/08 07:23 #

Mér fanst áhugaverðast að þetta er mat frá árinu 190X. Það hefur ekkert breyst í þessum málum í yfir 1000 ár.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 01/01/08 19:52 #

Það er ekki upp á kirkjunnar menn logið, og vísa ég þar til fyrri athugasemdar hér. Í áramótaávarpi sínu sagði biskup: "Raunvísindin eru mesta andlega afrek Vesturlanda, ásamt lýðræðinu. Boðskapur Biblíunnar, von og trú, guðsmynd, mannskilningur og samfélagssýn, við birtu jólanna og ljóma páskanna og sólglit hvítasunnunnar, hann hefur verið sú deigla og áhrifahvati sem gerði þau afrek yfirhöfuð möguleg."

Svo hvetur hann til enn meiri kristinfræðikennslu. Í ljósi orða hans er ljóst að þekking á sögu og gagnrýninni hugsun er verulega ábótavant, jafnvel hjá háskólagengnum mönnum á miðjum aldri. Væri ekki nær að huga að því?


danskurinn - 02/01/08 02:19 #

Reynir skrifar: “..ljóst að þekking á … gagnrýninni hugsun er verulega ábótavant..”

Á margan hátt er gagnrýni andstæða þekkingar. Vegna þess að þekking er í eðli sínu íhaldssöm á meðan gagnrýni er frjálsari. Þegar menn vilja fara kenna gagnrýna hugsun er hætt við að þekkingin beri gagnrýnina ofurliði. Gagnrýnin verður þá akademísk og þar með íhaldssöm líkt og þekkingin og upp gæti komið e.k. pattstaða.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.