Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvers vegna þessi ofsi?

Það athyglisverðasta í umræðu undanfarinna vikna um trúboð og skólastarf eru ofsafengin viðbrögð nokkurra áhrifamanna innan Þjóðkirkjunnar. Efasemdir um ágæti þess að tengja saman starf skóla og kirkju hafa oft verið settar fram. Yfirmenn Þjóðkirkjunnar hafa ætíð brugðist ókvæða við þessum efasemdaröddum en nú keyrir um þverbak. Fólk sem vogar sér að íhuga hvort betur fari á að kennarar kenni trúarbragðafræði en að prestar séu með trúboð í opinberum skólum er úthrópað sem siðlausir föðurlandssvikarar. Biskupinn gengur svo langt að kalla Siðmennt ,,hatrömm samtök” fyrir þetta eitt. Gífuryrðin létu heldur ekki á sér standa í grein Geirs Waage, sóknarprests og fyrrverandi formanns Prestafélags Íslands, sunnudaginn 16. desember þar sem hann bregst við stuttu áliti sem undirritaður skrifaði í 24 Stundir um trúboð og skólastarf 7. desember.

Geir er þekktur fyrir að nota efsta stig lýsingarorða um velflest viðfangsefni samtímans og sjást ekki fyrir í ummælum sínum eins og þegar hann í Kastljósþætti nýlega talaði í sömu andrá um nasisma Þýskalands og giftingar samkynhneigðra í kirkju. Morgunblaðið sá ástæðu til að bregðast hart við þeim ummælum og húðskamma klerkinn. Útúrsnúningum og skammaryrðum Geirs er engin ástæða til að svara, slík ummæli dæma sig sjálf. Það sem er öllu alvarlegra í málflutningi Geirs er tilraun hans til að endurskrifa söguna. Sögufölsun er þekkt aðferð þeirra sem barist hafa gegn framförum í mannkynssögðunni. Grein Geirs er dæmi um það. Hafa skal það sem sannara reynist.

Í fyrsta lagi kannast Geir ekki við að kirkjan hafi gert nokkuð á hlut kvenna í sögunni og segir að full sátt hafi verið um að konur vígðust til prests í Þjóðkirkjunni. Geir ætti að þekkja söguna betur en það. Í ævisögu Auðar Eir sem ber heitið ,,Sólin kemur alltaf upp á ný" fer hún ítarlega yfir andstöðu þeirra innan kirkjunnar sem ,,voru ekki reiðibúnir að sammælast um að kjósa konu sem prest”. Afskipaleysi yfirstjórnar kirkjunnar gagnvart tilraunum hennar til að hljóta prestskosningu kemur skýrt fram. Daginn sem Auður Eir var vígð til prests þann 29. september 1974 fundu nafngreindir prestar sig knúna til að mótmæla því harðlega í Morgunblaðinu. Einn þeirra komst svo að orði: ,,Þess vegna lít ég á vígslu kvenpresta sem andlega kynvillu, afbrigðilega, en ekki eðlilega”. Einnig má geta þess að niðurstöður rannsóknar um prestembættisveitingar, sem birtist í Kirkjuritinu árið 1999, sýna að karlar voru hvað eftir annað valdir til prestembætta þótt þeir hefðu minni starfreynslu og menntun en konur sem sóttu um sömu embætti frá miðju ári 1996 til ársloka 1998. Ég ætla rétt að vona að séra Geir verði ekki fenginn til að fjalla um sögu kirkjunnar í skólum í sinni sveit.

Í öðru lagi segir Geir að enginn prestur hafi mótmælt lögum um staðfesta samvist samkynhneigðra árið 1996. Þetta er alrangt. Hið rétta er að Þjóðkirkjan hafnaði því alfarið að staðfest samvist gæti farið fram innan hennar. Í því felst að sjálfsögðu andstaða við athöfnina.

Í þriðja lagi segir Geir að ,,Engan prest hef ég heyrt veitast að heimilum og fjölskyldum samkynhneigðra, allra sízt biskupinn”. Það er augljóst að klerkurinn býr í einhverjum allt öðrum veruleika en við hin. Lengst gekk biskupinn í ummælum sínum þegar hann var spurður um hvort leyfa ætti samkynhneigðum að ganga í hjónaband í fréttum NFS í upphafi árs 2006: ,,Ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við allavegana köstum því ekki á sorphauginn alveg án þess að hugsa okkar gang”.

Það athyglisverðasta í málflutningi presta Þjóðkirkjunnar sem andvígir eru að gefa samkynhneigða saman er að þeir beita sömu rökunum og þeir sem börðust harðast gegn því að konur yrður vígðar sem prestar. Þetta má sjá í bók Auðar Eir og í fjölmörgum greinum sem birst hafa í Morgunblaðinu á umliðnum árum. Þetta sýnir hversu veikum fótum málflutningur þeirra stendur. Niðurstaða kirkjuþings nú á haustdögum um að viðhalda aðskilnaðarstefnu kirkjunnar í garð samkynhneigðra, með því að skilgreina sambúð gagnkynhneigðra og samkynhneigðra með mismunandi hætti, staðfestir þetta enn frekar. Kirkjuþing steig hins vegar stórt framfaraskerf með því að heimila prestum að staðfesta samvist. Þökk sé fjölda presta og safnaðarmeðlima kirkjunnar sem barist hafa fyrir mannréttum lesbía og homma innan hennar.

Þekking á sögu þjóðarinnar er lykillinn að öflugri sjálfsmynd og velgengi. Kennslu í sögu mætti enn efla í grunn- og framhaldskólum. Saga kristninnar er stór hluti þessarar sögu og því er mikilvægt að segja hana. Þessa sögu á að segja á grunni sagnfræði, þjóðfélagsfræði og trúarbragðafræði. Það fer miklu betur á því að kennarar segi þessa sögu en þjónar tiltekinnar trúar og kirkju. Grein Geirs er skýrt dæmi um það. Gleðileg jól.

Baldur Þórhallsson Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands


Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. desember

Baldur Þórhallsson 26.12.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Arngrímur Eiríksson - 26/12/07 18:33 #

Já það gladdi mig mikið að sjá þessa frábæru in-your-face grein hans Baldurs, allt rétt hjá honum þarna. Varðandi hið heiðna upphaf jólanna, þá rakst ég á þetta frábæra myndband með Stephen Fry frá því í fyrra að ég held: http://www.youtube.com/watch?v=MSm7YPMQOSo&eurl=http://atheistmedia.blogspot.com/

Gleðileg jól!


Þórarinn Sigurðsson - 27/12/07 03:54 #

Fyrir trúuðu fólki er trúin hjartans mál. Ef til vill skýrir þetta að hluta til ofsafengin og tilfinningaþrungin ofnæmisviðbrögð margra trúmanna við þessari umræðu.

Ýmsar dramadrottningar, sem kallað hafa Vantrúarmenn öllum skemmtilegum nöfnum, vilja nefnilega meina að nú sé með svívirðilegum hætti veist að siðferði í landinu. Þegar betur er að gáð virðast rökin oft vera á þessa leið: þeir sem eru andsnúnir Ríkisstyrktri einokunarstöðu Þjóðkirkjunnar eru augljóslega andsnúnir almennu siðferði, manngæsku og öðru góðu.

Þeim sem hafa kynnt sér mælskufræði lýðskrumsmeistara fortíðarinnar virðist þetta vera elsta brellan í bókinni: tilbúnum afarkostum er stillt upp til að draga athygli frá öðrum möguleikum.

Málið er bara ekki svona svarthvítt, frekar en nokkuð annað. Jöfn staða trúfélaga og aðskilnaður Ríkis og Kirkju fæli alls ekki í sér árás á kristið fólk, eins og svo margir hafa gefið í skyn upp á síðkastið. Ekki stendur til að meina kristnu fólki að iðka trú sína eða vega að frelsi þeirra til að ala upp börn sín á sinn háttt. Krafan er einfaldlega að ókristnir njóti sama réttar og kristnir.

Það er eðlileg krafa skattgreiðenda sem eiga börn í ríkisreknum skólum að börn þeirra séu alin upp í þeirri heimspeki eða trú sem þeir kjósa. Væri eðlilegt að formaður Vinstri-Trjáfaðmara á Íslandi borgaði ríkinu fyrir að innræta börnum sínum kenningar Miltons Friedmans?

Bendir ekki líka allt til þess að kristin kirkja þrífist langbest þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju er alger? Í þessum skilningi bendi ég til dæmis á ótrúlegan vöxt evangelískra kirkna í SA-Asíu og í Bandaríkjunum. Eftir því að dæma ættu kristnir menn að krefjast aðskilnaðar ríkis og kirkju strax í gær.

Annars óska ég öllum trúuðum, ótrúuðum og veitekkitrúuðum gleðilegrar hátíðar!


Guðjón - 29/12/07 11:34 #

Ég lít á þetta mál frá allt öðru sjónahorni en Baldur. Það hvort talsmenn þjóðkirkjunnar bregðist við með ofsafengnum hætti við framkomnum kröfum er aukaatriði frá mínum bæjardyrum séð. Ég get tekið undir það með veraldlega sinnuðu fólki að trúboð á ekki að eiga sér stað í opinberum skólum, en ég tel að menn hafi útvíkkað merkingu orðsins trúboð til þess að koma á fyrirkomulagi sem er þeim þóknanlegt en í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Það væri mikið nær að krefjast aðskilaðar ríkis og kirkju. Það er mál sem þarf að skoða. Menn verða að gera sér grein fyrir að skólinn er fyrir alla og að það þarf að ríkja sátt um skólann. Leiðin til þess að skapa þá sátt er ekki ganga útfrá forsendum fólks sem hefur óbeit á trúarbrögðum og hefur ekkert umburðalyndi gagnvart þeim. Auðvita á að taka tillit til slíks fólks eins og annarra, en ég fæ ómögulega skilið að það sé þörf á að skipuleggja allt skólastarf þannig að það sé ánægt ef engin sem tengist þeim hópi er í bekknum.


danskurinn - 29/12/07 12:18 #

Guðjón skrifar: ”..ég fæ ómögulega skilið að það sé þörf á að skipuleggja allt skólastarf þannig að það sé ánægt ef engin sem tengist þeim hópi er í bekknum..”

Þú skilur þetta ekki vegna þess að prestur í skóla eða leikskóla er ekki hluti af því sem kallað er “skólastarf”. Spurningin um hverjir væru ánægðir með slíkan prest, verður því aldrei raunveruleg fyrr en búið er að breyta hugtakinu “skólastarf” og lögum þar að lútandi. Þess vegna sýnist mér að þú hafi ekki skilið hugtakið “skólastarf” eins og merking þess er samkvæmt lögum þessa lands.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.