Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þegar minnihluti kúgar meirihluta

Tómas Torfason er með ágæta skilgreiningu á öfgum í grein sinni “Öfgahópur leikur lausum hala” og birtist í 24 Stundum þann 5. desember síðastliðinn, það sé “félagsskapur sem ræðst gegn ríkjandi viðhorfum og gildum fjöldans”. Ætla má að mannréttindi, jafnrétti og frelsi séu meðal helstu gilda samfélagsins, samtök sem berjast gegn þessum gildum myndu að sönnu kallast öfgahópar.

Tómasi tekst að hins vegar að snúa venjulegri orðræðu á hvolf með því að telja baráttumenn fyrir sjálfsögðum mannréttindum vera öfgamenn, “mikil ógn við íslenskt samfélag”. Þessi hættulegi hópur sem krefst þess að virtur sé réttur foreldra til að stjórna trúaruppeldi barna sinna og réttur barna minnihlutahópa til að njóta sömu skólagöngu og önnur börn, “fer út fyrir allt meðalhóf eða ríkjandi norm samfélagsins” að mati Tómasar.

Þar er Tómas sammála trúbróður sínum, Karli Sigurbjörnssyni, sem stillti svo eftirminnilega upp kirkjunni gegn mannréttindum og umburðarlyndi í messu nokkrum dögum áður. Þar er það ekki kirkjan sem á að víkja að mati Karls.

Fámennur og harðsnúinn hópur

Tómas tilheyrir fámennum hópi fólks sem hefur um nokkurt skeið gert sitt ítrasta til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og því miður oft seilst heldur langt i í aðferðum sínum. Hópur þessi er vel skipulagður, harður í horn að taka og vel reyndur í áróðursaðferðum. Áhrifa hans gætir víða í íslensku samfélagi. Kjarninn í þessum hópi eru nokkur hundruð ríkisstarfsmenn sem hafa nánast það eina hlutverk að reka áróður fyrir þeim skoðunum sem stofnuninni er ætlað að standa vörð um, skoðunum sem á sér ekki hljómgrunn hjá meirihluta landsmanna. Stofnunin sem þeir vinna fyrir er auðvitað betur þekkt undir nafninu Þjóðkirkjan og fær á þessu ári fjóra milljarði á fjárlögum.

Minnihluti bak við milljarðina

Árið 1986 könnuðu þeir Dr. Pétur Pétursson og Dr. Björn Björnsson trúarlíf Íslendinga. Niðurstaða þeirra var sú að um eða yfir þriðjungur landsmanna væri fylgjandi því sem þeir kölluðu hina “klassísku kristni”. Hæst náði svarhlutfallið þegar spurt var hvort Jesús væri sonur Guðs og frelsari, 45% landsmanna samsinntu því. Fyrir tuttugu árum blasti því við sú merkilega staða að trúfélag sem rekið er sem ríkisstofnun, á fjárlögum og vernduð af stjórnarskrá, var með hugmyndafræðilegan stuðning minnihluta landsmanna. Hér eru stórar upphæðir í húfi, launaseðlar háttsettra embættismanna, fálkaorður og jafnvel diplómatapassar.

Sótt inn í skólana

Þessi fámenni félagsskapur ríkisstarfsmanna býr yfir áróðurstækni sem þróuð hefur verið gegnum þúsundir ára. Þeir vita vel að auðveldasta bráðin eru börnin, því fyrr því betra. Áróðursmeistarar kirkjunnar hafa lengi haft einkennisorð Jesúíta, “gefið mér barn fyrir sjö ára aldur og ég mun gefa þér manninn” að leiðarljósi.

Maður getur ímyndað sér hvernig meðlimir þessa stéttarfélags ríkisrekinna trúboða hafa hist í einhverju bakherberginu, svartklæddar krákur á hrafnaþingi, og skipulagt áróðursstríðið. Nú skyldi sótt inn í skólana. Samviskulaust, því milljarðir voru í húfi.

Hálfur sigur unninn?

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem finna má á vef Biskupsstofu og unnin var árið 2004 af IMG Gallup telja um sjö af tíu Íslendingar sig vera trúaða. Af þeim eru þrír fjórðu Kristnir, nánar til tekið játar 51% landsmanna árið 2004 því að þeir séu kristnir í einhverjum skilningi. Er áróðurinn að skila sér? Ekki nóg, hlýtur að vera svar hins háværa hóps. Á þessum tuttugu árum hefur nefnilega hlutfall þeirra sem skráðir eru í áðurnenfnda ríkisstofnun dalað jafnt og þétt og stendur nú þannig að um átta af hverjum tíu Íslendingum eru skráðir félagar. Þessi stofnun getur því ekki talið sig vera fulltrúi nema um 40% þjóðarinnar í besta falli – þeirra sem eru sammála þótt ekki sé nema einhverju smávægilegu úr boðskapnum og jafnframt skráðir félagar.

Þurfum að komast í yngstu börnin!

Betur má ef duga skal. Milljarðirnir verða ekki varðir til frambúðar nema traustur meirihluti sé að baki. Sleppum kenningunum, hvísla þeir hver að öðrum, það trúir þeim enginn hvort eð er. Eignum okkur allt gott og jákvætt (kærleika, frið, siðgæði, jólin og jafnvel ástina) og herjum svo á leikskólana.

Kenningarnar hverfa

Grundvallarkenning í boðskap Kristninnar er líf í Jesú, loforðið um upprisu til samfélags við Guð. Krossfestingin snýst um þetta eina atriði, Jesú deyr fyrir syndir þeirra sem á hann trúa svo þeir geti öðlast eilift líf. Í skoðanakönnunn IMG Gallup sem áður er nefnd játar innan við einn af hverjum tíu Íslendingum þessari grundvallarsetningu kristninnar. Hin evangelíska Lúterska Þjóðkirkja er ekki að standa sig, fyrir milljarðina fjóra, ef henni tekst ekki að koma boðskap sínum betur til skila en þetta. En svo er líka hægt að endurskipuleggja sig, skilgreina kenningarnar þannig að það sé nóg bara að segjast bara vera kristinn og vera skráður í Þjóðkirkjuna. Nóg til þess að frelsast? Nei, auðvitað ekki. Nóg til þess að halda í milljarðina.


Styttri útgáfa af þessari grein birtist í 24 stundum 13. desember

Brynjólfur Þorvarðarson 17.12.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Þorsteinn - 20/12/07 21:06 #

Ég vil bara sem maur í fjöldanum benda á að vantrúaði minnhlutinn er ekki eins lítill og menn álykta, t.d. ég. Ég mjög venjulegur Íslendingur sem stend ágætlega í lífinu, er í þjóðkirkunni, skýrður og fermdur. Á hinn boginn er ég á móti trúarbrögðum og líf mitt varð alldrei betra fyrr en ég hætti að trúa á guð og annað bull. Það er bara svo rótgróin hefð fyrir kristni s.s. jól, páskar, gifting o.s.frv. að ég hef ekki nennt að berjast fyrir þessu og svo ekki sé talað um það mótlæti sem trúleysingjar mæta. Ég hélt lengi vel að ég væri eitthvað sérstakur hvað þetta varðar, en þegar ég loksins fór að ræða þetta við jafnaldra mína og fólkið í kringum mig komst ég að því að flestir sem ég umgengst trúa alls ekki á guð og finnst það bara kjánalegt s.s. eru trúleysingjar allveg eins og ég og gera einfaldlega ekkert í því þar sem þeir finna ekki tilgang í því eins og ég.

Ég tók líka eftir að þeir einstaklingar sem voru hvað mestir trúleysingjar voru hvað greindasir þ.e. gekk betur í skóla, höfðu meiri hæfileika og vissu meira, og svo öfugt.

Samt er ég talinn til kristna hluta þjóðarinna og er þar með talinn á móti trúleysingjum.

Ég fékk kristið uppeldi, var sendur í sunnudagaskóla og látinn lesa biblíuna. Það var hræðilegt, að kenna barni sem ekki veit betur eitthvað sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Ég trúði á guð en hætti því smátt og smátt eftir því sem ég þroskaðist og er í dag allveg laus við það. Við verðum að hætta að innrita svona hluti í börn áður en þau geta greint rétt frá röngu.

Mín börn eiga ekki eftir að fá kristið uppeldi, því mitt kristna uppeldi, sem var bara það sem flest börn fengu (ekkert afbriðilegt eða bælt), færði mér ekki neitt þótt ég hafi ,,talað til guð" o.s.frv. hvorki skilning á heiminum né eitthver siðgæði eða réttlætiskend.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 20/12/07 22:51 #

Þakka þér fyrir þitt innlegg Þorsteinn. Mæli með því að þú skráir þig úr Þjóðkirkjunni fyrst að þú ert á þessari skoðun.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.