Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Menningarsjokk tillitseminnar

Ég bý erlendis um þessar stundir. Við flutningana upplifði ég vægt menningarsjokk. Það er svo margt öðruvísi hér en ég á að venjast. Prestar ríkiskirkjunnar og aðrir fylgismenn hennar virðast líka vera að ganga í gegnum menningarsjokk þessa daganna. Veröldin sem þeir héldu að þeir þekktu er ekki til og líklega var hún aldrei til.

Þjóðkirkjan er í stöðu sem hún hefur ekki áður verið í. Allt í einu þarf hún að taka tillit til þess að það eru ekki allir Íslendingar sem aðhyllast kristni. Það hafa væntanlega alltaf verið til Íslendingar sem ekki voru kristnir án þess að það kæmi á yfirborðið. Það að hafa eitthvað val í trúmálum er tiltölulega nýtt fyrirbæri á Íslandi. Í nýlegri könnun sem var gerð fyrir ríkiskirkjuna, guðfræðideild og kirkjugarðana sagðist einungis um helmingur vera kristinnar trúar.

Fyrir skömmu kom fram um að um það bil fjórðungur barna er ekki skírður í ríkiskirkjunni. Foreldrar þessara barna hafa væntanlega tekið upplýsta ákvörðun. Af hverju ættu börnin þeirra að verða fyrir trúboði í skólum? Ríkiskirkjan veit af þessum stóra hóp sem er að sleppa og vill væntanlega ná til þeirra. Það er verið að reyna að taka ákvörðunarvaldið frá foreldrunum.

Þess vegna er verið að draga línu. Trúboð á ekki heima í skólum og skólar eiga ekki að aðlaga starf sitt að þörfum trúfélaga. Þetta er kjarni málsins. Foreldrar sem vilja fara með börn sín til prests mega það áfram. Skólinn á að vera hlutlaus og sinna öllum jafnt. Þetta er eina leiðin til að skapa sátt um skólastarf. Sanngirni og tillitsemi er allt sem þarf.


Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. desember.

Óli Gneisti Sóleyjarson 15.12.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Greta Björg - 16/12/07 00:10 #

Sæll Óli,

Ég hef ekki gert athugasemd hér á Vantrú áður, en núna langar mig til að hrósa þér fyrir góðan pisti. Mér finnst þú hitta naglann á höfuðið með honum.

Sem trúuðum lýðræðissinna hefur mér oft liðið illa undanfarið að lesa þau gífuryrði er hafa gengið á báða bóga í umfjöllun um þetta mál. Ég óska þess heitt og innilega að senn muni byrja að þokast til aukins skilnings á nútímanum meðal landa minna.

Auðvitað er aðskilnaður ríkis og kirkju ekki mál sem hægt er að ganga frá eins og hendi sé veifað. Þetta mál þarf sinn umþóttunartíma. En mitt álit er að Þjóðkirkjunni muni affarasælast að láta af illdeilum, horfa á staðreyndir og taka á stöðunni með reisn, í stað þess að haga sér eins og forsmáð eiginkona.

Góðar kveðjur og gangi þér vel í útlandinu.

Greta Björg


Greta Björg - 16/12/07 13:30 #

P.s. Ég skelli þessu hér, þó það eigi víst heima á spjallborðinu (þarf maður ekki að vera innskráður til að spjalla þar?):

Af hverju eruð þið með þessa hauskúpu í merkinu ykkar? Af hverju notið þið ekki einfaldlega stóra rauða A-ið? Mér finnst það mun flottara og legg til að þið takið það upp í staðinn fyrir gamla merkið. Að vísu sé ég það ekki lengur á síðunni, nema í slóðar-merkinu (eða hvað það nú heitir!), svo kannski eruð þið búnin að breyta þessu nú þegar.

Mér finnst nefnilega gamla merkið gefa frekar neikvæð skilaboð, - þó eflaust sé þar aðeins sannleikann að finna, þar sem mér skilst að helst viljið þið ganga af öllum trúarbrögðum dauðum.

Ég leyfi mér að álíta að ykkur muni seint verða að þeirri ósk ykkar, að minnsta kosti ekki í ykkar lífi, þar sem átrúnaður í einhverri mynd hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Ég sé þetta að minnsta kosti ekki gerast á þeirri öld sem nú er hafin. Ef eitthvert ykkar lifir svo lengi að sjá henni ljúka (sem ég geri alveg örugglega ekki!) mun auðvitað koma í ljós hvort okkar hafði rétt fyrir sér. Það er að segja ef allt mennskt líf á hnettinum verður ekki löngu horfið, fyrir aulahátt þeirra sem honum þykjast ráða!

Kveðja, G.B.


Greta Björg - 16/12/07 13:35 #

Þetta er bloggið mitt, ef einhver vill vita hver ég er: http://saumakona.blog.is/blog/saumakona/


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 16/12/07 14:06 #

Ríkiskirkjan er algjörlega að skjóta sig í fótinn með atferli sínu síðustu vikur. Þeir hljóta að vera í vægu sjokki!

Greta Björg:

Þetta er alls ekki hauskúpa í merkinu sem þú sérð í slóðarglugganum. Þetta er höfuðið á geimveru í þessari velþekktu ímynd mjóslegna geimvera með föla húð og stór svört augu. Þetta er hluti af gamla merki Vantrúar hér á síðunni, sem hafði þann tilgang að sýna dæmi um 2 hindurvitni; þ.e. geimverusamsæri og trúarbrögð (eins og kristni). Úr lögum félagsins:

2. gr Tilgangur félagsins er að berjast gegn boðun hindurvitna í samfélaginu, s.s. skipulögðum trúarbrögðum, skottulækningum og gervivísindum.

Þetta merki átti einungis að koma þeirri stefnu til skila. Það að hægt sé að túlka geimveruhöfuðið sem hauskúpu er óheppilegt, og það rekur á eftir því að við uppfærum slóðarmerkið eins og við höfum síðuna.


óðinsmær - 16/12/07 20:33 #

mjög vel orðað hjá þér Óli Gneisti, þú ert að ná mér yfir á þína hugsun, ekki til trúleysis heldur að finna til samkenndar með foreldrunum sem mega ekki til þess hugsa að börn sín sjái prest eða Biblíu á opinberum vettvangi ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.