Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kúgun duglega minnihlutahópsins

Það hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum kirkjunnar manna við þeim skrefum sem menntakerfið virðist vera að taka í átt til hlutleysis í trúmálum. Í staðinn fyrir að koma með málefnaleg rök halda þeir því bara statt og stöðugt fram að þarna sé lítill hópur trúleysingja að skemma fyrir meirihlutanum. Þetta virðist vera það eina sem Þjóðkirkjan hefur til málanna að leggja.

Vinaleið

Sem betur fer eru það ekki bara örfáar, trúlausar hræður sem sjá eitthvað athugavert við það að í grunnskólum starfi skólaprestur eða skóladjákni við að boða trú. Til dæmis eru landssamtök foreldra, Heimili og skóli, á móti Vinaleið. Er landssamband foreldra leppsamtök fámennu trúleysingjanna? Ásatrúarfélagið hefur mótmælt Vinaleið og beðið um að hún verði stöðvuð. Er þessu trúfélagi stjórnað af nokkrum trúleysingjum? Fleiri félög hafa mótmælt Vinaleið, en ég held að allt skynsamt fólk átti sig á að vandamálið er ekki bara þrjóska einhvers lítils hóps utan trúfélaga.

Trúboð í leikskólum

Nýlega var sagt frá því að þrír leikskólar í Seljahverfi hafi hafnað boði Þjóðkirkjunnar um að fá prest í reglulegar heimsóknir. En samkvæmt prestinum er stundað trúboð í þessum heimsóknum. Ein af ástæðunum fyrir því að hætt var við heimsóknir leikskólaprestsins var víst skýrsla (.pdf) sem starfshópur Leikskóla- og Menntaráðs Reykjavíkurborgar lét gera um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa. Í skýrslunni er lagt til að lögð verði áhersla á að í skólanum eigi ekki að stunda boðun trúar. Ef til vill er einn meðlimur þessa hóps útsendari trúlausa minnihlutans: „Halldór Reynisson, frá Biskupsstofu“. Tal Karls Sigurbjörnssonar um að hætt hafi verið við heimsóknirnar vegna þess að „litlum hópi“ hafi „heppnast að taka skólana á taugum*“ er augljóslega ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.

Fermingarfræðslufrí og kristið siðferði

Þegar kemur að skipulögðu kirkjustarfi á skólatíma og tali um kristið siðferði í lögum um menntakerfið, þá verða kirkjunnar menn að kenna öðrum útsendara okkar, menntamálaráðherranum, um þær breytingar.

Fjölmenning?

Í viðtali í Íslandi í dag sagði presturinn Bolli Pétur Bollason að honum fyndist fjölmenning ekki vera ástæðan fyrir því að hann mætti ekki lengur stunda trúboð í þremur opinberum leikskólum, því það væru ekki innflytjendur sem kvörtuðu, heldur kæmu kvartanirnar frá „Íslendingum sem standa utan trúfélaga“. Ég persónulega á afar erfitt með að skilja hvers vegna það skiptir máli að trúarlegi fjölbreytileikinn sé ekki innfluttur, heldur heimaalinn. Væri það betra ef trúlausir innflytjendur bentu á óréttlætið? Eða þurfa það að vera innfæddir trúmenn? Það skiptir augljóslega ekki máli hver mótmælir trúboði Þjóðkirkjunnar í opinberum skólum, heldur hvort skólarnir ættu að vera hlutlausir í trúmálum eða trúboðsakur Þjóðkirkjunnar.

Meirihlutinn

Sumir virðast líka vera á þeirri skoðun að þetta órétti sé í rauninni allt í lagi, þar sem meirihlutinn á víst að vera kristinn. Í Reykjavík sídegis státaði Karl Sigurbjörnsson sig til dæmis af „markaðshlutdeild“ Þjóðkirkjunnar í fermingarmálunum. Flest fólk áttar sig samt vonandi á að meirihlutinn hefur ekki leyfi til þess að níðast á minnihlutanum. Það er líka afskaplega hættulegur leikur fyrir kirkjunnar menn að nota þessi rök, því kristið fólk getur vel verið í minnihluta á Íslandi.

Sókn og vörn

Í sama viðtali kom fram að Karl taldi allt þetta vera að mörgu leyti „viðbrögð við því að kirkjan hefur verið í mikilli sókn, þ.e.a.s. margir frábærir prestar og djáknar á vegum kirkjunnar hafa verið að opna nýjar leiðir í samstarfi við aðra aðila í samfélaginu“, þessir aðilar eru í þessu tilviki opinberir skólar. Aldrei þessu vant held ég að það sé eitthvað vit í ummælum Karls Sigurbjörnssonar. Staðreyndin er nefnilega sú að þetta eru að einhverju leyti viðbrögð við því að Þjóðkirkjan er að troða sér inn í opinbera skóla með trúboð. Innbrotsþjófur getur ekki kvartað yfir árásum og yfirgangi þegar hann er rekinn úr húsi, sama gildir um trúboð og skóla.

Aðalatriðið

Það skiptir ekki máli hverjir kvarta yfir trúboði í opinberum skólum og það skiptir heldur ekki máli hvort helmingur, þriðjungur eða fjórðungur þjóðarinnar sé kristinn eða ekki. Aðalatriði málsins er það að opinberir skólar eiga að vera fyrir alla. Þeir eiga að vera hlutlausir í trúmálum og innan veggja skólans á ekki að stunda trúboð. Ef kirkjunnar menn ræða bara atriði sem skipta engu máli, í stað þess að ræða um aðalatriðin, þá læðist að mér sá grunur að ástæðan sé sú að þeir vilja ekki ræða um aðalatriði málsins.

Hjalti Rúnar Ómarsson 30.11.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/11/07 09:27 #

Grunnskólalög banna mismunun nemenda vegna trúarbragða.

Í Aðalnámskrá segir að skólinn sé menntastofnun, ekki trúboðsstofnun.

Í lögum um borgaraleg réttindi er sagt að foreldrar beri ábyrgð á trúarlegu uppeldi barna sinna.

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er minnt á rétt barna til skoðana sinna, líka í trúmálum.

Í úrskurði Mannréttindanefndar SÞ var norska ríkið sagt brjóta á þessum réttindum foreldra og barna með einhliða trúaráróðri í skólum - helgileikjum, útdeilingu trúarrita, sálmasöng, bænakvaki o.s.frv.

Samskonar úrskurður var kveðinn upp í máli annarra norskra foreldra gegn ríkinu af Evrópudómstólnum.

Leikskóla- og Menntasvið minnir á þessi lög, reglur og dóma og mælist til að skólastjórnendur virði þau.

Tekið er tillit til þessara úrskurða í breyttu orðalagi í frumvarpi til laga.

Heimili og skóli vilja að trúarleg starfsemi fari fram utan skóla og skólatíma til að gæta jafnræðissjónarmiða.

En krafa um að þetta sé virt er túlkuð sem frekja, kúgun minnihlutans á meirihlutanum. Hvað veldur algjöru skilningsleysi svo margra?


Flosi - 30/11/07 10:47 #

Sjá bls 2 í 24 stundum í dag. Ég held að nú verði allir andstæðingar trúboðs í skólum að búa sig undir baráttu. Ég er ekki trúleysingi en er innilega sammála ykkur í þessum efnum.


Arnar - 30/11/07 12:17 #

Bara bls. 2? Hvað með bls. 14, 21 og 60?


Flosi - 30/11/07 12:31 #

Takk Arnar, þetta er verra en ég hugði. Vegna anna í vinnu hafði ég ekki komist lengra en á bls 2. Ljósmóðirin er augljóslega trúarfasisti en ég hélt að Kolbrún og Ólafur væru með eitthvað vit í kollinum. Hvernig brygðist þetta fólk við ef múslimar vildu einnig fá tækifæri til að boða sína trú í skólunum? Ætli því yrði tekið fagnandi?


Arnar - 30/11/07 12:59 #

Ætli það myndi ekki heyrast eitthvað væl, ef td. söfnuður múslima á íslandi færi að dreyfa kóraninum í grunnskólum.

Þetta er allt réttlæt í nafni þess að þetta sé 'þjóðkirkja' og eigi þess vegna að hafa aukin rettindi umfram önnur trúarbrögð.

Hvert er réttlætið ef allir eru skráðir í þjóðkirkjuna við fæðingu (þe. ef móðir er skráð í þjóðkirkjuna) og svo er allt réttlætt með því að meiri hluti þjóðarinnar séu meðlimir í þjóðkirkjunni.

Það ætti að skrá alla úr öllum trúfélögum og svo geta þeir sem hafa áhuga farið og skráð sig sérstaklega í þau aftur. Væri gamann að sjá hvað það eru margir sem nenna því, og hvert hlutfall 'þjóðkirkjunnar' yrði eftir það.

Btw., eru ekki hugtökin 'þjóðtrú' og 'þjóðkirkja' brot á hinum ýmsu mannréttindansáttmálum sem ísland er aðili að? Bannað að mismuna eftir trúarbrögðum.


Ester - 30/11/07 14:00 #

Það væri gaman að safna saman hinum ýmsu trúritum hinna og þessa safnaða og fara að dreyfa þeim í grunnskólum landsins (fyrst það má dreyfa nýja testamentinu þá er erfitt að banna það) og athuga hvað fólki finnst svo um það. Ég bara skil ekki hvernig er ekki hægt að sjá rökin gegn þessu trúboði.


Árni Árnason - 30/11/07 14:44 #

!!! Kærleikurinn brottrækur úr skólunum.!!!

Svona upphrópanir sýna bara hvað þetta fólk er vitsmunalega illa statt. Gerir þetta fólk sé grein fyrir því hvílíkur sleggjudómur svona orðfæri er gagnvart öllum sem ekki teljast kristnir ?


Davíð - 30/11/07 18:05 #

Hér er haldið oft uppi á þessum vef vantrú að því fylgi lausn frá kristni að kynna sér blaðsíður Biblíunnar. Sama fólk argar síðan yfir því að það sé trúboð að færa börnunum Nýja-Testamenntið. Skondinn tvískynnungur eða?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/11/07 18:15 #

Á Vantrú gerum við greinarmun á börnum og fullorðnu fólki.


Haukur Ísleifsson - 30/11/07 21:51 #

Það sem þeir meina er að maður sem kynnir sér innihald Biblíunnar með gagnrýnni hugsun verður næstum sjálfkrafa trúlaus.


Guðjón - 01/12/07 23:56 #

Sælir- Dætrum mínum sem eru ekki í þjóðkirkjunni stóð til boða að fara með fermingarbörnunum í fermingarferðarlagið þó þær fermdust ekki. Þær vildu gjarnan fara með vinkonum sínum og höfðu gaman að. Ég tel að þær áhyggjur sem þið vantrúarmenn hafið af áhrifum kirkjunar á grunnskólann og leikskólann að mestu ástæðulausan. Það er fyrst og fremst foreldrar og trúarstarf utan skóla sem hefur áhrif á trúarskoðanir fólks. Og þegar fólk er orðið fullorðið tekur það sjálft afstöðu til þessara mál . Ég spái því að einhver af börnum ykkar vantrúarmanna munu í framtíðinni snúast til trúar vegna þess að það hefur oft gerst að börn sem eru alin upp við trúleysi gerist trúuð á fullorðins árum. Sama gildir um börn trúaðra mörg þeirra snúa baki við trúnni á fullorðins árum. Eru ekki margir í ykkar röðum dæmi um slíkt fólk Eru ekki flestir félagar í vantrú skíðir og fermdir. En auðvita hljótið þið að hald baráttu ykkar áfram þar sem nokkur árangur hefur náðst. Hvað er að því þó börn heimsæki kirkju, haldið þið virkilega að það skipti einhverju rosalegu máli. Þetta er að mínu mati óþarfa viðkvæmni


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/12/07 00:33 #

Ok, hleypum þá múslímum, hindúum, trúleysingjum og satanistum inn í skólana líka. Held að allar áhyggjur af slíku séu óþarfar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/12/07 00:45 #

Guðjón, ég held að þú endurspeglir sjónarmið afar margra og því ágætt að geta brugðist við þeim.

Ég efast um að nokkur í Vantrú telji að börn þeirra skaðist stórkostlega við að hlusta á prest, fara í kirkju, leika í helgileik, læra bæn o.s.frv. Okkur finnst hins vegar óviðeigandi að hafa oftast ekkert um þetta að segja eða að þurfa að krefjast þess að börn okkar skeri sig úr hóp annarra ef okkur er í nöp við þetta.

Á skal að ósi stemma. Réttu þeim litla fingur og þeir gleypa höndina. O.s.frv. Kirkjan hefur hafið sókn inn í skóla landsins, á öllum skólastigum. Á prestastefnu kom fram að draumur sumra er að prestar og djáknar verði jafnsjálfsagðir í skólum og sálfræðingar og námsráðgjafar. Þetta hugnast okkur alls ekki.

Í yfirstandandi deilu mála e.t.v. báðir deiluaðilar skrattann á vegginn. Trúlausir óttast Talibanaríki eða myrkar miðaldir, jafnvel bara ástand eins og ríkir nú í Bandaríkjunum (í pólitík, trúmálum, menntun). Trúaðir óttast upplausn og siðleysi.

Báðir deiluaðilar eru sannfærðir um að nái þeirra sýn fram að ganga verði þjóðfélagið betra og fegurra. Annar aðilinn telur sig mæla fyrir réttlæti og sanngirni, hinn fyrir skikkan skaparans. Hvort hugnast þér betur?


Guðjón - 02/12/07 15:06 #

Ég er þeirrar skoðunar að þegar maður tekur þátt í opinberi umræðu eigi maður yfirleitt að beita veraldlegum rökum. Megin spurningin hér er ástæða til þess að banna alla trúariðkun í skólum. Ég tel að svo sé ekki og í lýðræðisríki sé rétt að líta til skoðana almennings á málinu og ef það er svo að meirihlutinn hafni því að skólar eigi að vera algjörlega veraldlegir á ekki að breyta þessu. Það er aftur á móti mjög mikilvægt í skólastarfi að finna lausnir og málamiðlanir þannig að sem mest sátt ríki um skólastarfið. Leiðin til að fá slíka sátt er ekki að lítill minnihluti knýi fram breytingar sem meirihlutinn er á móti. Það verður hins vegar að finna leiðir til að koma til móts við ykkur vantrúarmenn eins og hægt er.


Sverrir Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 02/12/07 16:46 #

Sæll Guðjón

Mér finnst málflutningur þinn vera yfirvegaður og studdur rökum. Sumu hefur verið svarað hér en það er eitt atriði til viðbótar sem skiptir talsverðu máli og hefur ekki verið mikið í umræðunni. Þetta lykilatriði tengist hugtakinu „upplýstu samþykki“. Þótt meirihlutinn mótmæli ekki einhverju þá er ekki sjálfgefið að flestir styðji fyrirkomulagið. Þetta gildir t.d. um trúboð í skólum. Þótt það séu fáir sem stigi fram fyrir skjöldu og mótmæli því þá er ekki þar með sagt að allir aðrir styðji það. Það er ekki einu sinni sjálfgefið að það sé meirihlutastuðningur við það að prestar og guðfræðingar heimsæki menntastofnanir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/12/07 17:09 #

Þegar tilkynnt var að hætta ætti að taka á móti presti í leikskóla Seljahverfi í síðustu viku voru foreldrarnir sem stödd voru á fundinum spurð hvort þau væru ósátt við þá ákvörðun. Ekkert foreldri á fundinum sagði svo vera. Þegar leikskólastjóri nefndi enginn hefði mótmælt starfi leikskólaprests tók eitt foreldri til máls og sagði að líklega væri það vegna þess að foreldrar vildu ekki taka barnið sitt úr hópnum.

Ekkert þessara foreldra hefur mótmælt starfi leikskólaprests, en stuðningurinn var samt ekki meiri en þetta.

Ekkert þessara foreldra er í Vantrú eða öðrum samtökum trúleysingja að því ég best veit. Heimildir mínar af þessum foreldrafundi koma frá ættingja mínum sem var á honum.


Guðjón - 02/12/07 18:50 #

Það þarf einfaldega að kanna þetta mál með aðferðum félagsvísindanna.


Haukur Ísleifsson - 02/12/07 19:16 #

Mikið rétt. Ég tel persónulega að fólk sé almennt ekki fylgjandi trúboði í menntakerfinu.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 02/12/07 20:51 #

Ég er ekki sammála því að það þurfi að kanna þetta mál, einfaldlega vegna þess að mér finnst þetta ekki vera vinsældakeppni. Mér finnst það mannréttindarmál að ég geti sent barnið mitt í skóla án þess að þurfa að vera hræddur um að einn daginn komi það og segist kunna að tala við Allah. Eða Jesú. Eða Óðinn. Ég vil sjálfur velja hvernig ég haga trúaruppeldi barnsins míns.

Það er auðvelt fyrir kristna að segjast alveg vera til í að það komi múslimi og kenni um islam, en ætli þetta sama fólk myndi nú ekki mótmæla ef krakkarnir kæmu allt í einu heim úr skólanum og vildu ekki svínakjöt og kyrjuðu Allahu Akbar! fimm sinnum á dag?

Nei, leyfum foreldrum að bera ábyrgð á trúaruppeldi. Það er það eina sem við biðjum um.


Sara - 03/12/07 02:24 #

Á vefi Siðmenntar stendur að skólinn eigi að vera hlutlaus uppeldisstofnun. Ég spyr? Af hverju á skólinn, leiksóli eða grunnskóli að sjá um uppeldi. Ég hélt að skólinn væri menntastofnun fyrst og fremst. Og ef við lítum á skólann sem slíka stofnun að mennta börnin okkar ber okkur þá ekki skylda til að líta á allt námsefni sem þeim er kennt, ekki einungis Kristinfræði? Ef við erum tilbúin að senda börnin okkar á stofnanir til uppeldis ættum við þá ekki að vera viss um að ALLT sem þeim er kennt þar sé í takt við okkar lífsskoðanir og lífsgildi.


Haukur Ísleifsson - 03/12/07 17:21 #

Flest það sem kennt er í íslenska menntakerfinu er ekki á neinn hátt tengt einhverjum sérstökum lífsskoðunum. Þannig á það að vera.


Arnar - 04/12/07 14:15 #

YES!

Guðsteinn/Zeriaph var svo góður að benda mér (og öllum sem vilja) á þá staðreynd að 'duglegri minnihlutinn' er ekki svo lítill!

"Ert þú fylgjandi trúarlegu starfi presta í leikskólum?
Já 61,8%
Nei 38,2%"
Sjá hérna


38,2% eru ekki beint örfáar hræður.. hvar eru þá þessi 90% sem eiga að vilja trúboð í leikskólum?


Haukur Ísleifsson - 04/12/07 14:36 #

Samt skuggalegt að svona margir séu fylgjandi.


Arnar - 04/12/07 15:42 #

Skuggalega lítið miðað við að Biskum og fleirri halda því fram að ~90% þjóðarinnar sé kristinn.


Haukur Ísleifsson - 04/12/07 22:28 #

52% þjóðarinnar er kristinn að ég best veit. Allar sæmilega thinkandi manneskjur ættu að vera á móti trúboði í leikskólum, alveg sama þó um kristin mann væri að ræða.


Sigurlaug Hauksdóttir - 04/12/07 23:43 #

Æ.. manni bara fallast hendur, svei mér þá!! Þið eruð nú örugglega búin að reka augun í þetta ásamt svo mörgu öðru

http://www.visir.is/article/20071204/FRETTIR01/71204037

Svo maður tali nú ekki um leiðarann hans Guðmundar!! http://www.dv.is/leidarinn/lesa/2840

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.