Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fórnarlömb innrætingar

Mér er sífellt gerð upp sú skoðun að ég hafi megnustu fyrirlitningu á trúmönnum og sjái fyrir mér betri heim þegar búið verður að útrýma þeim öllum. Við þetta kannast ég ekki.

Ég er alltaf og ætíð að gagnrýna skoðanir manna og heilu hugmyndakerfin, ef út í það er farið. Ég bendi á það hvernig hugmyndir manna geta bitnað á saklaus fólki, jafnt í stóru sem smáu og leyfi mér að halda fram rangindum slíks þankagangs. Þetta geri ég í þeirri von að þeir sem svona er ástatt fyrir geti endurmetið lífsskoðanir sínar og vonandi að lokum varpað þeim fyrir róða og tekið upp aðrar heilbrigðari.

Ekki veit ég hvaða andlegu þættir það eru í fari margra trúmanna að geta ekki séð gagnrýni mína fyrir það sem hún er. Kannski er of sárt að sjá einhverju sem manni er heilagt úthúðað, en það réttlætir þó aldrei að smíðaðar séu afskræmdar skrípamyndir af málflutningi mínum og bornar upp á mig óhugnanlegar sakir í krafti þeirra. Hver sá sem slíkt gerir hefur einfaldlega ekki gert sér far um að koma auga á það sem liggur að baki skoðunum mínum, heldur flatmagar hann í þeim hugarfarslega Lazy-boy að afgreiða allt mitt mál sem Hitleríska útrýmingarstefnu.

Hvergi hef ég haldið því fram að allir trúmenn séu nöttarar, geðsjúklingar, hryðjuverkamenn og andlegir barnaníðingar sem heimurinn þurfi að losa sig við. Slík afgreiðsla er fullkominn útúrsnúningur.

Sumir trúmenn eru að sönnu það sem kalla má nöttara. Þetta eru þeir sem engin rök hrína á, fólk sem svo flækt er í kennisetningar heilagra bábilja að öll gagnrýni lítur í augum þess út fyrir að vera mannvonska og grimmd. Þetta fólk fær ekki séð að nokkuð athugavert geti verið við þá heimsmynd sem kennivaldið hefur dregið upp, það skortir alla gagnrýna hugsun þegar kemur að þessu atriði.

Þetta eru fórnarlömb innrætingar og ég kenni í brjósti um þau.

Ég hef heldur aldrei haldið því fram að trúmenn almennt séu geðsjúklingar. Staðreyndin er þó sú að ýmsir boðendur undarlegra trúarhugmynda eru augljóslega kolgeggjaðir, en fylgjendur þeirra eru svo í trúgirni sinni og sökum vöntunar á gagnrýninni hugsun á valdi þeirra hindurvitna sem hinir geðsjúku boða. Heilmikið af trúarhugmyndum júdókristninnar er af þessum meiði, geðsýkisranghugmyndir sem heilbrigt fólk tekur að sér að ganga með.

Þarna er líka um að ræða fórnarlömb innrætingar og ég kenni í brjósti um þau.

Hryðjuverkamenn hugans og andlegir barnaníðingar. Þeir eru að sönnu til, en fráleitt eru allir trúmenn undir þá sök seldir. Þessi hugtök leyfði ég mér að nota um þá presta sem finnst verjandi að brengla huga ungra barna og sveigja að þeim kolgeggjuðu ranghugmyndum sem trú þeirra heldur á lofti. Það er alveg augljóst í mínum huga að mörg börn sem fá þessa innrætingu bera þess ekki bætur, því heimsmynd trúarinnar mótar hugsanir þeirra og gjörðir alla ævi.

Þetta eru fórnarlömb innrætingar og ég kenni í brjósti um þau.

Hugtökin hryðjuverkamenn hugans og andlegt barnaníð eru auðvitað ekki falleg hugtök, það veit ég vel. En ég tel nauðsynlegt að tefla þeim fram til að varpa ljósi á þá meinsemd sem felur í sér að innræta saklausum börnum glórulausar hugmyndir bronsaldarmanna um heiminn. En ég átta mig þó alveg á því, og hef margtekið það fram, að þeir sem þessa iðju stunda séu fráleitt einhver illmenni eða með vafasöm markmið að leiðarljosi. Ég veit alveg sem er að hryðjuverkamenn hugans stunda þetta í góðri trú og hafa að eigin mati fögur markmið í þessa veru. Ég veit sem er að þetta fólk er sjálft í fjötrum innrætingar og ég vorkenni því.

Allir hryðjuverkamenn eru líka frelsishetjur. Það fer eftir því hvoru megin maður stendur víglínunnar hvaða skilgreiningu maður notar. Franska andspyrnuhreyfingin, sem við hér í hinu frjálsa vestri tölum um með velþóknun, var ekkert annað en hryðjuverkasamtök. Þetta fólk var einfaldlega að berjast við kúgara sína og vinna þeim málum brautargengi sem það taldi til hinna fegurstu hugsjóna.

En nasistarnir, sem hryðjuverk Frakkanna bitnuðu á, voru líka að fylgja eftir því sem þeir töldu fagrar hugsjónir. Þeir voru á valdi kennivalds sem innrætti þeim ömurlegt hugarfar í nafni fegurstu hugsjóna. Þessu átta ég mig ágætlega á og í stað þess að fyrirlíta allt það fólk sem framfylgdi helstefnu nasismans kenni ég einfaldlega í brjósti um það.

Þetta fólk var á valdi skaðlegrar innrætingar.

Sterkasta vopn okkar gegn skaðlegri innrætingu felst í sjálfstæðri og gagnrýninni hugsun. Grunnurinn að réttlátu og heilbrigðu samfélagi verður aðeins tryggður með hugsanafrelsi þar sem menn vega og meta rök í stað þess að hlýða kennivaldi í blindni. Það er þetta sem ég boða í baráttu minni við trúarbrögðin. Hugsjón mín er háleit og felst í því að benda á skaðlegt kúgunarvald kennisetninga svo samborgararnir megi synda upp úr djúpi óranna og leggja grunn að heilbrigðu samfélagi. Ég vil ekki útrýma nokkrum manni en þess í stað lækna og líkna þeim sem fastir eru í viðjum skaðlegs hugarfars.

Eina aðferðin til að koma mér ofan af þessum hugsunarhætti er að benda mér á, með góðum rökum, að þessi útsýn mín á heiminn standist ekki, að trúarhugmyndir og lotning kennivalds skapi ekki þá hættu sem ég svo augljóslega sé.

Ég gæti haft rangt fyrir mér í þessu öllu, en það er engin lausn að búa til úr mér lítinn Hitler og berja svo á mér með þeirri svipu án nokkurra haldbærra raka. Ég vil fá gagnrýni á hugmyndir mínar, en sú gagnrýni verður að vera heiðarleg og málefnaleg. Ég kalla eftir slíkri umræðu um leið og ég tilkynni að þeir sem ætla hina leiðina séu ekki verðugir andstæðingar og fái hér eftir engin viðbrögð af minni hálfu.

Birgir Baldursson 26.11.2007
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Haukur Ísleifsson - 26/11/07 11:13 #

Er þetta ekki bara beint svar við ásökunum Lárusar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/11/07 03:50 #

Jú og einnig í víðara samhengi.


Arngrímur Eiríksson - 27/11/07 13:21 #

Sammála þér Birgir. Annar punktur í þessu er sá sem Dawkins kom með þegar hann er spurður hvers vegna hann sé svo orðljótur, miskunnarlaus og fullur heiftar í gagnrýni sinni á trúarbrögð. Hann bendir réttilega á að þessa mótbáru heyri maður bara þegar rætt er um trúarbrögð, hvergi annars staðar, t.d. á vettvangi stjórnmálaskoðana, söguskoðana, skoðana á list o.s.frv. Sömu reglur eigi bara að gilda um allt og trúarbrögð hafa allt of lengi verið skýld fyrir gagnrýni og lengi vel hefur þótt dónalegt og ókurteist að tala illa um þau. Af þessu leiðir að minnsta, sakleysislegasta gagnrýni á trúarskoðanir fólks upplifa margir sem miskunnarlausa og óheflaða stórskotaliðsárás.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/11/07 20:38 #

Nákvæmlega!


Haukur Ísleifsson - 28/11/07 00:11 #

Þegar maður hefur bygt líf sitt á ligi er erfit að horfast í augu við það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.