Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hinn mikli velunnari samkynhneigðra

Tíðindin af nýafstöðu Kirkjuþingi festa það í sessi sem allir vissu, að Þjóðkirkjan ætlar sér einfaldlega ekki að kasta hjónabandinu á þá „ruslahauga“ að leyfa samkynhneigðum að eiga þátt í því. Það er vandræðalegur tilbúningur að „staðfest samvist“ komi í staðinn fyrir hjónaband.

Karl Sigurbjörnsson spurði á dögunum hvort það væru „fortakslaus mannréttindi“ að fá að ganga í hjónaband. Mitt svar er afdráttarlaust , að því gefnu að maður sé orðinn lögráða og að annar lögráða einstaklingur vilji giftast manni. Þótt Karl hafi orðað þetta sem spurningu, þá var auðvitað undirliggjandi staðhæfing sem hver sem er getur lesið milli línanna: Það eru EKKI fortakslaus mannréttindi að fá að giftast, heldur réttindi sem eru aðeins frátekin fyrir suma.

Að mínum skilningi ættu allir að vera jafnir fyrir lögum. Fortakslaust. Ég hafna því alfarið að hjátrú og þjóðsögur frá myrkum fornöldum eigi að ráða því hverjum maður má giftast og hverjum ekki. Kirkjan, sem byggir á forneskjulegum helgisetningum, á auðvitað að fá að vera hún sjálf, og ráða því hvað hún leggur blessun sína yfir og hvað ekki, en að fólki sé mismunað þess vegna í landslögum – það er í einu orði sagt ótækt.

Það er hjákátlegt að sjá allt það góða og velmeinandi fólk sem starfar innan kirkjunnar og er laust við hommafóbíu, þegar það vill bæði halda og sleppa ginnhelgum og ótvíræðum boðum Biblíunnar. Það er einfaldlega ekki í réttu trúfélagi. Þetta er ekkert grín, ef maður ætlar í alvörunni að fara eftir boðskap Biblíunnar, þá ber manni ekki bara að neita samkynhneigðum um að fá að giftast:

Þriðja Mósebók 20:13
Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.

Þetta er einfaldlega hvorki samrýmanlegt hugmyndum nútímamanna um mannréttindi, né þeim sigrum sem mannréttindasinnar hafa unnið síðan á upplýsingaröld.

En kirkjunnar menn sitja fast við sama keip. Einhver presturinn bar sig aumlega undan þessari voða ómaklegu gagnrýni og benti réttilega á að kirkjan hefði nú verið að „ræða þessi mál“ í meira en áratug. Það var og! Þetta er greinilega í góðum höndum fyrst kirkjan er að „ræða“ þetta; við sem þolum ekki mannréttindabrot eða mismunun getum þá væntanlega bara slakað á og lagt árar í bát. Kirkjan sér væntanlega bara um að „ræða“ þetta, ha?

Málið er bara að það dugir ekki að ræða þetta bara. Það þarf að sjást árangur. Meira en áratugur af blaðri um guðfræðileg álitamál hefur ekki skilað mannréttindabaráttu samkynhneigðra áfram um þumlung. Ekki einn þumlung. Ef þetta væri ekki grafalvarlegt mál, þá gæti maður næstum því hlegið. En „það sem þér gerið mínum minnsta bróður, það gerið þér mér,“ á maður einn að hafa sagt. Það verður ekki við það unað að hjátrú og kreddur standi á bremsunni á mannréttindabaráttunni. En á þeirri bremsu telur Karl Sigurbjörnsson sér skylt að standa „og að standa vörð um gróin trúarleg og samfélagsleg gildi. Ég axla fúslega þá ábyrgð að hafa reynst þar þröskuldur á vegi þeirra sem lengst hafa viljað ganga,“ sagði hann í viðtali í fyrra. Skilaboðin eru: Samkynhneigðir mega alveg vera til, en ef þeir vilja giftast er Karli að mæta. En auðvitað er það satt hjá honum að þetta sé skylda hans – þetta er nú einu sinni vinnan hans.

„Ef Alþingi heimilar prestum og forstöðumönnum trúfélaga að gerast vígslumenn samkynhneigðra væru það bein afskipti af helgisiðum og innri málum trúfélaga. Slíkt tíðkast ekki í neinu þjóðfélagi sem við viljum miða okkur við,“ sagði hann við sama tækifæri. Ég tek undir þetta. Gerum hjónabandið alfarið að borgaralegri stofnun og aðskiljum ríki og kirkju án tafar!


Heimildir:
Móses: Leviticus 20:13.
Sigurður Bogi Sævarsson: „Óbundinn hagsmunum valdsins“, viðtal við Karl Sigurbjörnsson, Ský 3. tbl. 2006, Heimur hf., Reykjavík, s. 27-28.

Vésteinn Valgarðsson 21.11.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Arnar - 21/11/07 09:10 #

Var ekki hæstiréttur að dæma það um daginn að prestar væru ríkisstarfsmenn? Ekki viss um að ríkisstarfsmenn geti neitað um að veita þá þjónustu sem þeir eiga að gera.

Og svo þegar prestar og margir trúarbloggarar bera af sér hommahatrið með því að segja 'ég sagði aldrei að samkynhneigðir væru sori, bara að samkynhneigð væri sori'. Eh.. svo ég hef ekkert á móti rauðhærðu fólki, ég fyrirlít bara rautt hár?

Og svo hræsnin að velja sér bara það sem þeir vilja trúa, eru ekki allir þeir sem fremja hór fordæmdir í biblíunni? Ef fólk getur valið um að trúa því að hommar eru slæmir en það er allt í lagi að fremja hór, akkuru getur það á ekki valið um að hommar séu bara ágætustu skinn.. nema náttúrulega að hommahatrið sé komið einhverstaðar annarstaðar en úr bíblíunni.


Árni Árnason - 21/11/07 10:37 #

Mig langar að draga saman í stuttorða punkta um hvað þetta mál snýst.

  1. Ef Alþingi heimilar !takið eftir, heimilar! prestum og forstöðumönnum safnaða að vígja samkynhneigða í hjónaband, er ekki verið að hafa bein afskifti af helgisiðum og innri málum trúfélaga. Trúfélögum verður eftir sem áður í sjálf vald sett hvort þau nýta heimildina.

  2. Það eru mannréttindi að fá að ganga í hjónaband, en ekki skýlaus mannréttindi að öllum trúfélögum sé skylt að framkvæma gerninginn.

  3. Við getum gert þá kröfu að allir séu jafnir fyrir lögunum, en getum ekki gert þá kröfu að trúarsöfnuðir leggi kenningar sínar til hliðar.

  4. Það leysir engin vandamál að gera hjónabandið alfarið að borgaralegri stofnun. Einhverjir virðast hafa óslökkvandi þörf fyrir að hjónabandið sé einnig trúarlegt. Annars myndu þeir bara sætta sig við að fara til Fógeta eins og fjölmörg pör gera í dag.

  5. Við getum ekki heimtað hvort tveggja í senn, að kirkjan sé ríkisstofnun sem beri jafnar skyldur til allra skattgreiðenda og hitt að aðskilja beri ríki og kirkju.

  6. Eina lausnin er að kirkjan lúti sínum eigin lögmálum, en sé aðskilin ríkisvaldinu að fullu. Ef einhverjir ( t.d. samkynhneigðir ) eru ósáttir við lögmál kirkjunnar er það þeirra á milli að leysa, nú eða leysa ekki.


Björn Ómarsson - 21/11/07 10:38 #

Þetta mál allt saman finnst mér bera þess vitni að kirkjan (hvort sem það er sú ríkisrekna eða aðrar "frjálsar") er langstærsta hindrunin í siðferðislegum umbótum í samfélaginu, ekki öfugt. Mannréttindabarátta samkynhneigðra hefur, af því er virðist, náð mjög langt á flestum sviðum, að því trúarlega undanskildu.

Mér finnst nauðsinlegt að kirkjunnar menn hugsi sig tvisvar um áður enn þeir heimta aukna kennslu í "kristinni sifræði" í skólum landsins.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 21/11/07 23:20 #

Gifting er í flestum löndum eingöngu borgaraleg. Prestar gifta ekki með lögum, en brúðkaup eru haldin í kirkjum sem "helgun" hjónabandsins. þannig er þetta t.d. í Bretlandi og í Slóvakíu. Mér skilst að það sé þannig víðast.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 21/11/07 23:54 #

Mér finnst einmitt að hjónabandið eigi bara að vera borgaraleg stofnun. Trúfélög geta vígt eða blessað það sem þeim sýnist fyrir mér, en ég skil ekki hvers vegna það ætti að hafa lagalegt gildi.


Árni Árnason - 22/11/07 10:00 #

Hjónabandið er löggerningur, og hægt er að stofna til þess sem slíks án nokkurrar aðkomu trú-ða af neinu tagi. En vegna hinnar, mér óskiljanlegu, þarfar fólks til að sjálfskipaðir umboðsmenn guðs og bestu vinir Aðal setji líka stimpil himnaríkisvaldsins á gerningin, hefur þeim verið fært vald til að handsala jarðtengda löggerninginn samhliða.

Það væri í sjálfu sér einföld aðgerð að gera pörum að fá ávallt uppáskrift fógeta fyrir hjónabandsskráningu, óháð trúarafstöðu, en þá myndi deilan bara fara að snúast um það hvort söfnuðurinn viðurkenndi hjónabandið fyrir hönd yfir-yfirvaldsins. Myndu þá hommarnir og lesbíurnar sem í dag gráta krókódílatárum yfir kirkjunni sem vill ekki gifta þau, ekki bara gráta sömu krókódílatárunum yfir kirkjunni sem vill ekki setja undirskrift guðs með fjarstýrðri hendi á hjónabandssáttmálann ?


Karl Gunnarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/11/07 22:29 #

Mikið væri ég til í að sjá kannað hvernig fólk, sem hefur skipt um trúfélag síðustu árin, skiptist eftir kynhneigð.

Mér þætti ekki óeðlilegt að sjá að samkynhneigðir hefðu flykkst frá ríkiskirkjunni yfir í Fríkirkjuna.


Haukur Ísleifsson - 22/11/07 22:43 #

Fríkirkjan hefur ekki lagalegt leifi til að gyfta samkynhneigða er það?


Árni Árnason - 23/11/07 09:53 #

Nei, enn VILL ef hún fær leyfi, þjóðkirkjan hins vegar vill ekki leyfið af því að þá lendir pressan á henni að framkvæma, eða missa fólk til safnaðanna sem vilja.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 24/11/07 00:04 #

Þess vegna finnst mér einmitt að löggjörningurinn eigi að vera hjá sýslumanni, dómara eða skipstjóra einum, og engum öðrum. Einhver vígsla eða blessun er svo bara ekki á þeirra könnu. Þá getur Þjóðkirkjan haldið sinni "samræðu" áfram eins og henni sýnist án þess að ríkisvaldið óhreinki á sér hendurnar, og samkynhneigðir steytt á kirkjunni sjálfri frekar en að ríkið sé að taka einhvern þrýsting af henni. Hún er nógu stór til að verja sitt mál sjálf.


Haukur Ísleifsson - 24/11/07 01:18 #

Var það ekki það sem kom fram á síðasta kirkjuþingi að þvóðkirkjan lísti yfir vilja sínum til að gefa saman (ekki gyfta) samkynhneigð pör er lögum yrði breytt?


Kristján Ari Sigurðsson - 26/11/07 11:39 #

Ég sem kristinn einstalkingur, sé ekkert á móti því að samkynhneigðir fái öll þau réttindi og gagnkynhneigð pör hafa.

En svo er það að samkynhneigðir vilja giftast, ganga í hjónaband, en þar dreg ég línuna. Biblían er mjög skýr varðandi hjónabandið, það er fyrir mann og konu.

Arnar, það er munur á því að fyrirlýta gjörðir og því að fyrirlýta persónuna sjálfa. Það er í raun stór munur.

Það vantar líka oft í umræðuna að frá sjónarhorni kristins mans þá eru allir jafnir, allir jafn syndugir(vona að þið skiljið það hugtak) og þar að leiðandi er ekki hægt að segja að samkynhneigð sé verri en að drýgja hór, stela, girnast, ljúga o.s.frv. Munurinn er þó sá að ég kem ekki fyrir framan Guð og segji, ég var að gera eitthvað sem þú sagðir mér að gera ekki, viltu ekki blessa það?

Annars er aðskilnaður kirkju og ríkis eitthvað sem er mjög rökrétt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/11/07 13:39 #

En svo er það að samkynhneigðir vilja giftast, ganga í hjónaband, en þar dreg ég línuna. Biblían er mjög skýr varðandi hjónabandið, það er fyrir mann og konu.

Biblían segir margt annað um hjónabandið, t.d. að það sé ekki fyrir fráskyldar konur. Ertu sammála því að fráskyldar konur megi ekki giftast aftur - eða lestu Biblíuna eins og flestir hlaðborðskristnir, velur þá bita sem passa þínum smekk?


Kristján Ari Sigurðsson - 29/11/07 11:27 #

Reyndar er ég bókstafstrúa :)

Matti, ef þú færir eftir biblínunni þá væri einginn fráskilin, ekki satt?

Fyrir utan að það er til fyrirgefning...


Haukur Ísleifsson - 29/11/07 14:47 #

Ef allir færu eftir biblíunni væru samkynhneigðir, óhlýðnir unglingar, útlendingar og margir aðrir drepnir. Bókstafstrú er svo skemmtileg.


Arnar - 29/11/07 16:25 #

Sorry, Kristján.. tók ekki eftir því að þú hefðir svarað mér persónulega fyrr en núna (leiðist í vinnunni).

"Arnar, það er munur á því að fyrirlýta gjörðir og því að fyrirlýta persónuna sjálfa. Það er í raun stór munur."

Það sem ég meina er, að ef 'gjörðin' skilgreinir persónuna, td. eins og það að karlmann langi til að giftast öðrum karlmanni gerir hann að homma.. þá er nú frekar langsótt að aðgreina þetta tvennt. Annað hvort er maðurinn hýr eða ekki og hvernig getur þá 'gjörðin' sem gerir hann samkynhneigðan verið sori en ekki maðurinn sjálfur?

Annað dæmi; barnaníð er sori, eru barnaníðingar þá ekki sori?

Og fyrst þú ert svona mikill bókstafstrúarmaður, ber þér ekki 'krinstin' siðferðisleg skilda til að fara út og grýta til dauða alla þá sem hafa drýgt hór, alla sem hafa óhlýðnast föðursýnum, eða bara yfir höfuð alla sem trúa ekki á biblíuna.. etc?

Ef það er hægt að fyrirgefa öllu þessu fólki, sem er samt fordæmt í biblíunni, akkuru er þá ekki hægt að fyrirgefa samkynhneigðum?


mofi - 29/11/07 17:10 #

Ef það er hægt að fyrirgefa öllu þessu fólki, sem er samt fordæmt í biblíunni, akkuru er þá ekki hægt að fyrirgefa samkynhneigðum?

Engann veginn þannig að samkynhneigðir þurfa fyrirgefningu einhverra kristna einstaklinga. Ef viðkomandi trúir á Guð og trúir að Guð hefur skilgreint samkynhneigð sem synd þá getur hann fengið fyrirgefningu en aðeins með því skilyrði að hann iðrist og hætti að syndga.


Haukur Ísleifsson - 29/11/07 22:17 #

En ef viðkomandi trúir á Guð en trúir ekki að Guð hafi verið mótfallin/n samkynhneigð þá ætti hann að fá að gyftast öðrum eins. Right?


Arnar - 30/11/07 10:05 #

Mofi: Nei, það þarf engin fyrirgefningu kristina. Enda er það hræsni að kristnir menn dæmi fólk og fyrirgefi, því samkvæmt kristinni trú er guð eini sem getur dæmt aðra og fyrirgefið fyrir þeirra gjörðir.

Skilnaður er líka synd samkvæmt biblínunni, það að fráskyldar konur giftist aftur er synd.. samt fá fráskyldar konur að giftast. Er þeim þá fyrirgefið en ekki samkynhneigðum? Er hægt að hætta að vera fráskilin?

Kynlíf fyrir hjónaband er synd, er samt hægt að fyrirgefa það? Er hægt að hætta við að hafa stundað kynlíf fyrir hjónaband?

Ætti ekki réttilega að draga þær konur út á götu þar sem kristnum karlmönnum ber kristileg siðferðisleg skylda að grýta þær til dauða með kristilegan kærleik í huga?


Haukur Ísleifsson - 30/11/07 17:40 #

Já gætið samræmis í gjörðum og orðum og drepið alla fráskilda.


Kristján Ari Sigurðsson - 09/12/07 20:54 #

Arnar: Þú segir í sömu andrá að það væri hræsni ef kristin einstalkingur dæmir einhvern, svo er það næsta sem þú segir að þú skiljir ekki að við séum ekki að grýta fólk... hvernig "meikar það sense"?

Haukur, mér þykir það leitt að þú hafir svo slæma afstöðu gagnvart kristni. Þú spurðir: "En ef viðkomandi trúir á Guð en trúir ekki að Guð hafi verið mótfallin/n samkynhneigð þá ætti hann að fá að gyftast öðrum eins. Right?" En málið er að kristni er allveg skýr í þessu máli... Annars ef þú trúir einhverju öðru þá er það bara þannig, eins og ég sagði þá er það sjálfsagt að fólk fá sömu réttindi. En vegna þess að þú trúir öðru ættir þú að geta þvingað einhvern sem trúir því ekki að fara gegn samfæringu sinni?

Annars er eitt sem þig kannski báðir, ásamt mjög mörgum, er það að á krossinu dó Jesús Kristur fyrir syndir mannanna. Það er boðskapur kristni, þess vegna er það ekki mín skilda að fara út og grýta fólk. Það er sorglegt að flestir hafa ekki áttað sig á þessari einföldu staðreynd og hronstein kristninar.


Arnar - 09/12/07 22:07 #

Dó hann þá ekki fyrir syndir samkynhneigðra líka?

Og ég kalla það hræsni að velja að trúa því að samkynhneigð sé sori (synd) en velja að trúa ekki að það eigi að grýta fólk til bana fyrir hór. Hvort tveggja er boðað í biblíunni.

Meikar það sense?


Kristján Ari Sigurðsson - 12/12/07 18:25 #

Jú Arnar, hann dó fyrir syndir þeirra líka, en það sem þú nærð ekki er að þó að einhver stundi hór, steli, ljúgi eða hvað sem er, er sjaldan beðið um blessun Guðs yfir því(Sem er það sem hjónabandi snýst um). Krossdauði krists getur veitt manni fyrirgefningu en ekki "leyft" þér að gera hlutinn.

Svo spyrðu um útskýringu um afhverju mér finnst ekki eins og ég eigi að fara út og grýta fólk.

  1. Ég bý ekki í guðræði
  2. Ég bý í landi þar sem það er bannað
  3. Hver gaf mér rétt til að dæma?

Arnar, þessar reglur eru enn í gildi en það er bara ekki mitt að dæma, né að framfylgja dóminum. Mat 7:2 Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.

Þegar Jesús dó á krossinum þá dó hann fyrir allar syndir heimsins, hver gefur mér þann rétt að taka það frá einhverjum að öðlast fyrirgefingu seinna á lífsleiðinni.

Það má líka benda til frásögu biblíunnar í Jóhannes 8 kafli 1.-11. Þegar Jesús mælir þessi fleigu orð: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana." Um konu sem gripin var við hór, enginn kastaði stein í hana og þá sagði hann við hana: "Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?" En hún sagði: "Enginn, herra." Jesús mælti: "Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."

Vona að þetta komi þér allavega nær svarinu...


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/12/07 19:01 #

Kristján, það má einmitt ekki benda á þessa sögu, þar sem hún er síðari tíma viðbót.


Kristján Ari Sigurðsson - 12/12/07 19:31 #

Hjalti minn, ég er kristin ekki gyðingur, ég trú á alla biblíuna ekki bara gamla textamentið.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/12/07 19:41 #

Kristján, þegar ég sagði "síðari tíma viðbót" var ég ekki að vísa til Nýja testamentisins, sagan um hórseku konuna er síðari tíma viðbót. Hún var ekki upprunalega í Jóhannesarguðspjalli. Ef þú kíkir í biblíuna þína, þá er hún líka örugglega innan hornklofa.


Kristján Ari Sigurðsson - 13/12/07 19:39 #

Hjalti, þetta er ekki allveg rétt hjá þér... Jú frásagan er í hornklofa, en útskýringin á því er að frásöguna vantar í sum handrit...


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/12/07 19:47 #

Jú frásagan er í hornklofa, en útskýringin á því er að frásöguna vantar í sum handrit...

Já, og sagan var ekki upprunalega í Jóhannesarguðspjalli.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 13/12/07 19:49 #

Nú er ég ekki mjög fróður um ritunarsögu biblíunnar en afhverju skyldi akkúrat þessa sögu vanta í sum handrit? Er ekki skýringin sú að hún er ekki upprunaleg heldur síðari tíma viðbót og er þess vegna ekki í öllum handritum?


Kristján Ari Sigurðsson - 13/12/07 20:09 #

Hjalti, þú verður að koma með mun sterkari rök fyrir þessu. Það er rökleysa að segja slíkt án rökstuðnings. Það að söguna vanti í sum handrit getur stafað af t.d. að eitt af eintak af upphaflega handritinu rifnaði og var svo skrifað upp eftir því, eða að einhver hafi reynt að bola þessu úr upphaflega handritinu. Þú ákveður hins vegar bara að það hafi verið ein af mörgum möguleikum...


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/12/07 20:27 #

Kristján: Þessa sögu vantar í elstu og bestu handritin. Hérna (*.pdf) er allt sem þú munt nokkurn tímann vilja vita um þessa sögu.


Kristján Ari Sigurðsson - 13/12/07 22:58 #

(linkurinn virkar ekki)


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 13/12/07 23:02 #

Virkar hjá mér. Prófaðu að hægri klikka á hann og gera "Save Link As"


Arnar - 13/12/07 23:50 #

Nei, sorry Kristján. Þetta kemur mér engan vegin nær svarinu. Akkuru er samkynhneigð einhver meiri synd en allar hinar syndirnar?

Það er ekkert talað um samkynhneigð í boðorðunum 10, samt fær fólk sem brýtur boðorðin að giftast. Samkynhneigð er ekki eitt af "the seven deadly sins".. samt fær fólk sem 'uppfyllir' einhverjar af þeim syndum að giftast. Það er ýmislegt annað sem er fordæmt í biblíunni, td. hór, en samt fær fólk sem hefur framið hór (td. fráskilið fólk eða fólk sem stundar kynlíf utan hjónabands) að giftast.

Og þetta með "Sá yðar sem syndlaus er.. " á alveg ágætlega yfir þá sem fordæma samkynhneigð um fram aðrar syndir.


Arnar - 13/12/07 23:55 #

Og kannski eitt annað, þú segir:

"1. Ég bý ekki í guðræði 2. Ég bý í landi þar sem það er bannað 3. Hver gaf mér rétt til að dæma?"

Þú býrð í landi þar sem það er bannað að mismuna fólki eftir kynhneigð og hver gefur þér rétt til að dæma samkynhneigða?

Þú segir að þessir þrír punktar stöðvi þig í að fara út á götu og grýta syndara til dauða, af hverju stoppa þeir þig ekki í að fordæma samkynhneigð?


Kristján Ari Sigurðsson - 22/12/07 15:58 #

Byrja að afska hversu seint ég er að svara, búið að vera nóg að gera í vinnunni.

Hjalti, sorry ég hef bara ekki tíma núna til að lesa yfir þetta...

Arnar,

  1. Ég hef verið að reyna að segja þér að samkynhneigð er engan vegin verri synd en eitthvað annað...

  2. Hjónaband, þ.e. vígslan sjálf er blessun á hjónabandið. Þegar maður áttar sig á þessu þá gefur það auga leið að Guð getur bannað eitthvað og blessað það svo.

Seinni pósturin frá þér "meikar ekki voða mikið sens" þar sem þú spyrð mig sömu spurningunar og ég var að velta upp. Þ.e. hver gaf mér rétt til að dæma? Hef ég einhvern rétt til að dæma? Og svarið er í raun nei. Það var það sem ég var að reyna benda þér á.

Svona til að svara seinustu spurnignunni sem þú spurðir mig um: Því ég þarf ekki að vera á móti persónu til að vera á móti einhverji tilhneiðingu/athöfn sem persónan framkvæmir.


Anna Benkovic - 25/12/07 18:38 #

"Gerum hjónabandið alfarið að borgaralegri stofnun og aðskiljum ríki og kirkju án tafar!"...tek undir þetta! ...er búin að fá nóg af HRÆSNI kristinna manna sem tala um synd annara og hef alltof alltof alltof alltof alltof alltof ....lengi REYNT að skilja þeirra sjálfsumglaða sjónarmið. Það gengur bara ekki upp án tilvísunar í eldgamla, fordómafulla BÓK!??


Kristján - 29/04/11 01:48 #

Já áhugavert quote i bibíuna Samt hafð Jesús 12 lærisveina og einginn þeirra var kona.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.