Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjóðkirkjan og „hin dauða hönd ríkisvaldsins“

Ég hef heyrt trúleysingja halda því fram að sú sérkennilega tegund af sósíalisma, að hafa ríkisrekið trúfélag, sé þrátt fyrir allt betri kostur en að hún leiki lausum hala; að það sé skárra að hin dauða hönd ríkisvaldsins haldi henni í doða og sleni heldur en að hún þurfi að treysta á sjálfa sig og berjast fyrir tilveru sinni. Þetta er sjónarmið sem ég skil svo sem ósköp vel, en ég er samt ósammála því. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

Ástæða númer eitt: Það er ekki sanngjarnt gagnvart öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum að eitt trúfélag hafi forréttindastöðu. Ríkisvaldið ætti að gæta raunverulegs jafnræðis allra lífsskoðana, og það væri einfaldast að útfæra með því að það léti þau öll jafn afskiptalaus.

Ástæða númer tvö: Það er innan við helmingur Íslendinga kristinn. Ef trúfélög sæju um það sjálf að innheimta félagsgjöldin sín, eins og önnur félög, þá mundu sinnuleysingjarnir flestir spara sér þá þúsundkalla sem það kostar að vera í kirkjunni, og verja þeim í eitthvað skemmtilegra eða skynsamlegra, eins og leikhúsmiða, tóbak eða sælgæti. Þegar ríkið innheimtir sóknargjöld af öllum, óháð trúfélagsskráningu, þá ýtir það undir sinnuleysi um trúfélagsskráninguna. Hver ætli séu inngönguskilyrðin í himnaríki, að mati Þjóðkirkjunnar? Er nóg að hafa bara borgað sín sóknargjöld?

Ástæða númer þrjú: Ríkisvaldið á að vera á jarðbundnu nótunum og það á ekki að blanda hjátrú inn í það. Hver er meiningin með því að setning Alþingis hefjist á messu í Dómkirkjunni? Hvers vegna hefur Þjóðkirkjan, ein trúfélaga, aðgang að skólastofum opinberra skóla og leikskóla? Hvers vegna er stór hluti af dagskrá Ríkisútvarpsins undirlagður af bænahjali eða froðusnakki um guðfræði?

Ástæða númer fjögur: Trúarkenningar Þjóðkirkjunnar sjálfrar. „Ef Alþingi heimilar prestum og forstöðumönnum trúfélaga að gerast vígslumenn samkynhneigðra væru það bein afskipti af helgisiðum og innri málum trúfélaga. Slíkt tíðkast ekki í neinu þjóðfélagi sem við viljum miða okkur við,“ sagði Karl Sigurbjörnsson sjálfur í viðtali í fyrra. Ég er í sjálfu sér sammála því að ríkisvaldið eigi að láta trúfélög afskiptalaus í innri málum þeirra, svo fremi að þau haldi sig innan ramma laganna. Ef helgisetning trúfélags segir t.d. að fólk fari til helvítis ef það liggur með einstaklingi af sama kyni, þá skil ég ekki í því að ríkið geti eða eigi að reyna að breyta því með lögum. Það er auk þess erfiðara að fást við forneskjuna ef hún fær ekki að koma fram.

Ástæða númer fimm: Burtséð frá jafnræðissjónarmiðum, þá er einfaldlega ljótt að halda því fram að fólk fæðist „syndugt“ eða að einhver fari til „helvítis“ eftir dauðann. Ríkið ætti ekki að styrkja félagsskap sem þrífst á því að innræta fólki óþarfa sektarkennd; nóg hefur fólk víst annað til að hafa áhyggjur, þótt „sálarheill“ bætist ekki við. Auk þess er mér fyrirmunað að sjá að nokkur rök séu fyrir því að ríkið styðji það, að börnum séu innrættar óröklegar hugmyndir um lífið. Börn eru ekki heimsk, og þau þurfa ekki að læra sköpunarsöguna til að átta sig eitthvað á uppruna heims og manns, eða um meinta fæðingu Jesú til að sætta sig við að fá frí í skólanum í desember.

Niðurstaða mín er því einföld: Einkavæðum Þjóðkirkjuna! Eins og skot!


Heimildir:
Tilskipun um ferminguna, Lagasafn Íslands.
Sigurður Bogi Sævarsson: „Óbundinn hagsmunum valdsins“, viðtal við Karl Sigurbjörnsson, Ský 3. tbl. 2006, Heimur hf., Reykjavík, s. 27-28.

Vésteinn Valgarðsson 14.11.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Haukur Ísleifsson - 14/11/07 09:40 #

Tek undir það. Á ummælum biskups mætti túlka sem svo að hann vilju sjálfur aðskilnað.


Kristján Hrannar Pálsson - 14/11/07 11:21 #

Mér sýnast áhyggjur margra um að hér muni rísa upp frekari öfgatrúarsöfnuðir í kjölfar aðskilnað ríkis og kirkju óþarfar. Flestir Þjóðkirkjumeðlimir eru sinnulausir um sína trú hvort eð er og myndu tæpast snúast til harðari kristni ef hún væri aðskilin.


Árni Árnason - 14/11/07 17:23 #

Þessar áhyggjur eru alls ekki óþarfar. Það er vissulega satt að flestir Þjóðkirkjumeðlimir eru sinnulausir með öllu og myndu sjálfsagt verða það áfram. En bara flestir. Einhverjir, fáir, en nógu margir samt, færu í sértrúarsafnaðargírinn og færu að ganga í hús til að afla meðlima og aura. Prestarnir myndu hvetja fólk í sníkjur og snap til að geta borgað sér góð laun. Fólk yrði að taka það strax föstum tökum að þetta fólk yrði ekki til ama, með því að setja upp skilti < trúboð bannað > Ég er t.d. með kross í símaskránni og hika ekki við að láta sölufólk sem hringir vita að því beri að kanna þetta áður en það hringir. Það hringir enginn sölumaður nema einu sinni í mig. Það þyrfti að koma upp einföldu merki á útidyrahurðir sem frábiður trúboð, og kæra þá sem ekki virða það. Þetta verður vandamál að einhverju leyti, en við því má bregðast.


Davíð - 14/11/07 21:51 #

Er hægt að segja að innan við helmingur þjóðarinnar sé ekki kristinn? Um 10% þjóðarinnar tilheyrir kristnum trúfélögum utan Þjóðkirkjunnar og þar fyrir utan eru mörg ótilgreynd trúfélög kristin. Má áætla að vel innan við 40% Þjóðarinnar telji sig kristinn á Lútherskann máta?


Óli Kr. - 14/11/07 22:07 #

[ athugsemd færð á spjallið - Matti Á.]


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 14/11/07 23:53 #

Davíð, já það er hægt að segja það. Sjá Meirihlutagoðsögnin

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.