Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kennarinn og kristnifræðin

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 7. október síðastliðinn gagnrýndi ég námsefni í Kristinfræðikennslu í grunnskólum (sjá blogg.visir.is/binntho). Þann 21. október birtist svargrein Cinziu Fjólu. Hún virðist sammála mér um vankanta námsefnisins en telur nær að beina athyglinni að þætti kennarans og hvernig hann túlki efnivið námsbókanna og beri á borð fyrir nemendur.

Kennari í vanda

Grunnskólakennurum er að sönnu vorkunn að takast á við þetta námsefni enda hef ég heyrt af kennurum sem þjást eða hreinlega gefast upp og neita að sinna kristnifræðikennslu. Í yngstu bekkjum sér umsjónarkennari jafnan um alla kennslu og það er leitt til þess að hugsa að einhverjir kennarar treysti sér ekki til að kenna á yngsta stigi vegna þess námsefnis.

Kennurum ber að sjálfsögðu að fara eftir Aðalnámskrá en þar eru lagðar línurnar um kennsluna. Sá hluti Aðalnámskrár sem fjallar um kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði (almennt kallað kristnifræði) og námsefnið sem Námsgagnastofnun býður upp á fer að miklu leyti saman enda væntanlega skrifað af sömu mönnum auk þess sem námsefnið er gefið út af opinberri stofnun og afhent skólum ókeypis samkvæmt lögum frá Alþingi. Námsefnið verður fyrir vikið hluti af hinni opinberu námskrá og ekki bætir úr skák þegar það er beinlínis samið á vegum annarrar opinberrar stofnunar, sjálfrar ríkisskirkjunnar.

Sannleiksást sett til hliðar

Í námsefni í kristnifræði er meðal annars farið yfir sögur úr Mósebókum. Sköpunin, syndaflóðið og ættfeðurnir eru augljós ævintýri og þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Söguþráður annarrar Mósebókar, um brottför Ísraelslýð frá Egyptalandi, er einnig augljós tilbúningur. Sömuleiðis innrás Jósúa inn í Kanaansland. William Dever er fyrrum yfirmaður Albright-stofnunarinnar í Jerúsalem og einn sá virtasti á sviði fornleifafræði Biblíunnar. Í nýlegri bók sinni fer hann vandlega yfir stöðu fræðigreinarinnar og segir meðal annars að innlendur uppruni Ísraelsþjóðar sé í dag viðurkenndur af því sem næst öllum fræðimönnum. (Dever 2003, bls.74.)

Með auknu konungsvaldi og ríkjamyndun í norðurríki Ísraels á 9. öld f.o.t. hefst ritun þessara bóka en það er vel þekkt að nýjar ríkjaheimildir búi sér til fortíð og fái þá ýmsar sagnir að láni frá nágrönnum sínum. Eitt skýrasta dæmið um þetta er þegar hirðingjaflokkur Magja tók upp fasta búsetu og hóf ríkjamyndun en eignuðu sér hina alls óskyldu (og löngu horfna) þjóð Húna sem forfeður. Slavneskir nágrannar tóku í kjölfarið að kalla land þeirra “Húnagarð”, betur þekkt sem Ungverjaland. (Man, 2005, bls.374 og áfram.)

Auðvitað er hinn sannleikselskandi kennari í miklum vanda ef hann tekur að sér þessa kennslu á annað borð. Hann þarf sífellt að vera að minna nemendur á að þessi saga sé nú alls ekki sönn, að þetta hafi nú aldrei gerst o.s.frv. Líklega bregðast nemendur þá við með því að efast um tilgang kennslu og námsefnis með tilheyrandi námsleiða og óróleika.

Siðgæði sett til hliðar

Eins og ég benti á í síðustu grein minni er siðferðisboðskapur námsefnisisins vægast sagt vafasamur. Góður kennari getur vissulega gert mikið til að bæta úr hér, með því að fjalla um námsefnið með nemendum og benda þeim á að þrátt fyrir það sem segir í bókinni þá sé rangt að drepa fólk eða að gleðjast yfir því að fólk sé drepið.

Námsefnið er lítill stuðningur í þessari viðleitni, því miður. Höfundar eru reyndar oft með spurningar í lok hvers kafla en þar er yfirleitt horft framhjá siðferðilegum álitamálum. Stundum eru jafnvel spurningarnar sjálfar vafasamar.

Í námsefni 4. bekkjar er kafli um plágurnar miklu og flóttann frá Egyptalandi. Eingöngu er stuðst við texta biblíunnar og ekkert fjallað um siðferðileg vafamál sem þó eru fjölmörg. Í lok kaflans eru tvær spurningar til nemenda, önnur um merkingu páska hjá kristnum, en hin um það hvers vegna Jesú sé stundum kallaður “Guðs lambið”.

Til að svara spurningunni þarf kennari að rifja upp með nemendum sínum að Guð hafi ákveðið að drepa eitt barn úr hverju húsi en Ísraelsmenn gátu komist undan með því að smyrja blóði nýslátraðs lambs á dyrastafi sína. Með þessum ógeðfellda blóði drifna mafíósasamningi (“tilboð sem þú getur ekki hafnað ...”) kúgar Guð þjóð sína til hlýðni en drepur börn annarra til að leggja áherslu á boðskap sinn.

Kennarinn þarf síðan að tengja Jesú við þennan gjörning og útskýra fyrir þeim í hverju hin kristna kennisetning felst.

Flestir nemendur eru væntanlega enn með sína saklausu barnatrú en þarna er henni umturnað í einhvern óhelgan sáttmála dauða og pínu þar sem Guð drepur sitt eigið barn, sem nokkurs konar undirskrif undir sáttmála samviskubits og ógnar þar sem ekkert okkar sleppur: ég drap hann fyrir ykkur, trúið á hann eða deyið.

Manni hreinlega hryllir við því að slíkt efni skuli borið á borð fyrir börn.


Birtist í Morgunblaðinu 10.11.2007

Brynjólfur Þorvarðarson 12.11.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/11/07 08:33 #

Ég efast um að margir kennarar fjalli á gagnrýninn hátt um glansmyndirnar sem samdar eru af og undir eftirliti kirkjunnar. Enginn þarf að efast um bjögun kristnifræðinnar eftir að hópur trúmanna safnaðist saman nú um helgina og afhenti þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum áskorun um aukna kristnifræðikennslu og áherslu á kristið siðferði.

Trúfélögin líta réttilega á námsefnið sem innrætingu, áróður fyrir "réttri" trú.

Og hvað felst í kristnu siðferði? Margir forvígismenn göngunnar hafa ítrekað fordæmt samkynhneigð - og eru þar trúir Biblíunni. Bænaganga þeirra var kölluð "pray-pride" sem andsvar við "gay-pride". Er fordæming samkynhneigðar hluti af "kristnu siðgæði"?


Haukur Ísleifsson - 12/11/07 12:04 #

Hjá þeim hörðustu já.


FellowRanger - 12/11/07 21:39 #

Nýjustu tilbúnu kannanir sýna að nú er hægt, með hjálp sérstakra hvalahljóða, að láta barnið fæðast með kristnar hugmyndir í kollinum ef móðirin óskast til þess. Ég sá líka auglýst tannkrem sem gerir tennurnar hvítar. Trúið mér ekki, kveikið á skjá einari og býðið eftir auglýsingum. Vitið til, ljósið mun bjarga ykkur frá hinu illa, ef þið bara trúið!! og seljið Ésú sálina ykkar, sem hann á nú þegar, sem er ekki til, sem gerir ekkert gagn, svo vitað sé. Hvað ætli séu margar til sölu á eBay?


Haukur Ísleifsson - 12/11/07 22:36 #

Hehe það er gaman að þessu.


Birta - 13/11/07 11:33 #

Mjög góð grein Brynjólfur.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 15/11/07 23:34 #

Takk takk

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.