Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Orrusta frjálsrar hugsunar

Ég get alveg skilið allt það trúfólk sem hefur illan bifur á okkur Vantrúaraktívistum. Ef ég væri trúaður sjálfur og gengi með þær hugmyndir að handleiðsla æðra afls væri nauðsynlegur partur af lífi mínu myndi ég sennilega ekkert skilja í fólki sem reyndi að hafa af mér þann draum. Miklu fremur myndi ég líta með velþóknun til allra þeirra sem iðnir væru að viðhalda þessum draumi mínum og leggja sig jafnvel í líma við að halda mér við þá dásamlegu sannfæringu.

En ég er ekki trúaður og því sé ég hlutina í öðru ljósi. Og hvað sem hver heldur þá ber ég engan kala til nokkurs trúmanns fyrir að ganga með og verja þær hugmyndir sem hann heldur svona mikið upp á.

Nei, ég einfaldlega kenni í brjósti um þetta fólk.

Tökum sem dæmi heittrúaða múslima. Þegar grannt er skoðað þá er það alveg augljóst hvaðan þetta fólk fær hugmyndir sínar. Áróðrinum er viðstöðulaust haldið að því og um leið alið á þeim hugmyndum að sanntrúaðir séu á réttri braut í lífinu en hinir vantrúuðu séu þeim og hugmyndum þeirra ógn.

Í íslömskum löndum er stjórnskipanin oftar en ekki sú sem hægt er að kalla trúarríki. Það er ekki skilið á milli pólitísks valds og trúarlegs. Hugsun og hegðun fólks er miskunnarlaust stjórnað í nafni trúarlegs kennivalds. Og afleiðingin er oftar en ekki almennt hatur í garð heiðingjanna.

Ég vorkenni því fólki sem lætur fara svona með sig. Ég vorkenni því fólki sem ekki er þess umkomið að spyrja sjálft sig út í réttmæti þeirra skoðana sem því er uppálagt að ganga með í kollinum. Fólk sem lifir í blindri trú mun aldrei læra að þekkja kúgara sína.

Því í staðinn fyrir að fyrirlíta þá sem eru annarrar skoðunar en þeir sjálfir ætti þetta fólk að beina spjótum sínum að þeim sem stjórna hugum þess. Í trúarríkinu eru það stjórnvöld sem ættu að líða fyrir hátterni sitt, ekki saklausir teiknarar í Danmörku, aðrir múslimar með „vitlausa“ túlkun á Kóraninum eða þeir sem snúist hafa til kristni, trúleysis eða annarra lífsskoðana. Í stað þess að ráðast á sendiráð erlendra ríkja vegna innprentaðrar trúarlegrar móðgunargirni, ellegar sínar eigin dætur fyrir að elska kristna menn, ætti þetta aumingjans fólk að ráðast gegn ofurvaldi þeirra sem standa fyrir allri þessari innrætingu glórulausra hugmynda til að geta meðhöndlað almenning eftir vilja sínum.

Og þá er ég ekki að tala um hernað og vopnaskak. Slíkar aðgerðir, fyrir utan að vera skemmandi og deyðandi, eru ekki áhrifaríkar. Nei, það sem ég er að tala um er vitundarvakning sem gerir fólki kleift að hafna boðskap kúgara sinna í rökræðu. Kennivald sem enginn trúir lengur á hlýtur sjálfkrafa að hrynja til grunna.

Hinu frjálsborna fólki hér í Vesturheimi, sem sökum frjálsræðis og lýðréttinda er kleift að ástunda frjálsa og gagnrýna hugsun, ber borgaraleg og siðferðileg skylda til að tala um fyrir heittrúuðum múslimum, koma fyrir þá vitinu svo þeir læri að þekkja kvalara sína. Aðeins þannig verður stríðsæsingi, skærum og almennri eymd útrýmt í þessum löndum þar sem heimskan hefur um langan aldur verið sett á stall. Ef stjórntækið er trú þarf að uppræta þá trú, færa lýðnum aftur heilastarfsemi sína og reisn.

Í raun gildir það sama um allt það aumingjans fólk hér á meðal vor sem bundið er á sömu klafa hugsanaþrældóms og heilu þjóðirnar í austurvegi. Fólkið í Krossinum og Veginum mun til að mynda aldrei læra að þekkja kúgara sína ef enginn er til þess að benda á staðreyndir málsins.

Kæru Krossarar og aðrir hvítasunnumenn!

Sjáið þið ekki að í stað þess að fyrirlíta þá sem ykkur hefur verið kennt að séu á valdi djöfulsins, þá eigið þið að snúast gegn foringjum ykkar? Sjáið þið ekki að forstöðumennirnir fylla hugi ykkar af heimskulegum ranghugmyndum til að hafa af ykkur fé og sanna lífsgleði? Sjáið þið ekki hvað þeim gengur til? Og sjáið þið ekki hættuna sem felst í þessu siðlausa atferli þeirra?

Þið eigið að spyrja þá út í fyrirætlanir sínar. Þið eigið að beita gagnrýninni hugsun ykkar á allt það sem þessir menn segja. Þið eigið að lesa ykkur til um eðli trúarkölta á borð við þau sem þið tilheyrið og frelsa ykkur undan því oki sem búið er að leggja á ykkur af þessum siðblindu brjálæðingum. Þið eigið að hlusta á þá sem vara ykkur við.

Það er verið að etja ykkur út í stríð. Með skefjalausu heilaþvætti er ykkur innrætt sú firra að heimsendir sé í nánd og að allt verði gott þegar móðir allra stríða skellur á. Sjáið þið ekki grængolandi geðveikina í slíkum boðskap?

Og Þjóðkirkjufólk, þið eruð ekki undanskilin. Þið sem teljið ykkur sanntrúuð og hólpin í þeim Jesú Kristi sem biskup og félagar boða, þið eruð á valdi sömu ömurlegu ranghugmyndanna. Þið fáið kannski einhverja fróun út úr því að sækja kirkju og telja algóðan guð aðstoða ykkur gegnum lífið, en í raun eruð það þið sjálf sem ákveðið hugsun ykkar og hátterni. Þið þurfið ekki á þessari hækju að halda til að líða vel. Þessi hækja er í senn óþörf, siðferðilega röng og skaðleg.

Foringjar ykkar kenna ykkur að fyrirlíta þá sem ástunda frjálsa og gagnrýna hugsun. Það er talað um nákaldan hafís vantrúar, ógn við mannlegt samfélag og mannskemmandi áhrif guðleysis. Þetta eru allt saman bábiljur. Sjáið þið ekki að þeir sem svona tala hafa það eitt að markmiði að fjötra huga ykkar?

Hafið þið velt fyrir ykkur þeim hag sem bæði prestar, Gunnar í Krossinum og múslimaleiðtogar hafa af því að tala svona við ykkur? Kannski sjáið þið það grímulaust hjá þeim trúflokkum sem þið ekki aðhyllist. Kannski sér Þjóðkirkjumaðurinn í hendi sér að Gunnar í Krossinum er alræmdur költleiðtogi sem gengur ekkert gott til, en skarar eld að eigin köku með því að fá fólk til að halda að það sé betra en aðrir. Og fylgjendur Gunnars sjá kannski vel hvers lags geðveiki það er að stjórnvöld í miðaustrinu haldi brjálæðislegum kenningum að sínu fólki. En gott fólk, þetta er allt sama tóbakið.

Skortur á gagnrýninni og frjálsri hugsun býður heim hættunni á hatri og fyrirlitningu milli ólíkra hópa. En hver sá sem hefur náð að höndla þetta tæki skynseminnar getur ekki hatað. Hann getur aðeins kennt í brjósti um ykkur og óttast það sem þið eruð fær um að láta dynja yfir saklaust fólk í krafti annarlegra hugmynda ykkar um heiminn.

Vaknið. Við verðum öll að taka til hendinni og koma þessum bilaða heimi okkar í heilbrigt ástand. Vaknið! Við verðum að brýna hugareggjarnar og koma mannkyninu til hjálpar. Hefjum rökræðuna!

Birgir Baldursson 06.11.2007
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


óðinsmær - 06/11/07 10:49 #

þetta er stórkostleg grein!

(þó að ég sé að sjálfsögðu ekki sammála hverju orði þá færir hún Vantrú uppá annað level - reynið að halda ykkur þar :)


Haukur Ísleifsson - 06/11/07 12:34 #

Klárlega ekki skrifað á "Language of the common man" en samt fallegt.


Sigurður Karl Lúðvíksson - 06/11/07 13:53 #

Frábær grein, vel valið orðalag, takk fyrir þetta, og hverju orði sannara.


Daníel Páll Jónasson - 06/11/07 14:33 #

Frábærlega skrifuð grein og mjög þörf. Auk vandaðs (og reyndar örlítið háfleygs) orðalags er boðskapurinn góður og skilaboðin skýr.

Eiginlega sammála óðinsmær... þetta færir vefinn upp á annað level þó hann hafi verið mjög góður fyrir.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 06/11/07 20:06 #

Einhvers staðar las ég þá söguskoðun að þróun mannréttinda á Vesturlöndum hafi verið stigskipt. Eftir að gömlu konungsveldin féllu frá og lýðræði tók að þróast þá beindist baráttan fyrst að almennum mannréttindum eins og kosningarétti og eignarétti. Eftir að búið var að tryggja það færðist áherslan yfir á félagsleg réttindi eins og almannatryggingar. Að lokum kom barátta minnihlutahópa fyrir sínum réttindum eins og barátta samkynhneigðra á Íslandi er gott dæmi um. Þessi þróun hefur að sjálfsögðu gengið mislangt eftir heimshlutum.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort að við séum að flytjast yfir á nýjan orrustuvöll þar sem tekist er á við síðustu leifar gamla samfélagsins, trúarbrögð.

Ef við hugsum aðeins út í það þá er t.d. öll orðræðan í kringum kristni komin frá gamla lénsskipulaginu. Kristur ætlar sér ekki að verða lýðræðislega kosinn forseti jarðar við dómsdag, hann vill verða konungur. Hann boðar ekki áróður í fjölmiðlum heldur sverð. Kristin trú boðar ekki frelsi einstaklinga heldur ánauð þeirra, líkt og menn áttu að vera þegnar konungs síns hér áður fyrr. Þessi sömu konungar þáðu svo vald sitt frá guði í gegnum heilagar vígslur sem háttsettir embættismenn innan kirkjunnar sáu um.

Okkar eigin þjóðkirkja er fyrirbæri ættað frá þeim tímum þegar Ísland var yfirráðasvæði dönsku konungsfjölskyldunnar.

Þetta er vissulega stórsöguleg pæling sem mörgum sagnfræðingum er meinilla við. En maður kemst ekki hjá því að bera þessa baráttu fyrir endanlegu trúfrelsi saman við fyrri átök fyrir réttindum sem í dag þykja sjálfsögð. Við erum kannski enn að kljást við gamla drauga frá útdauðri þjóðfélagsskipan.


Haukur Ísleifsson - 06/11/07 22:06 #

Ég tel að trúarbrögð séu ekki að fara að deyja út. Hins vegar munu þau eflaust breytast og aðlagast. Kristni er til dæmis ekki til þess fallin að lifa af lengi í þróuðu lýðræðis samfélagi.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 07/11/07 02:01 #

Já þetta er góður pistill og eins og sannur "prédikari" þarna á ferð :-)

Liggur við að maður hrópi Hallelúja!!!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/07 02:09 #

Svona verður maður af því að lesa yfir sig af Þórberg. Og þegar að er gáð er hægt að finna þarna Chaplin í Einræðisherranum.

Takk fyrir hrósið, öllsömul. :)


Birta - 07/11/07 08:30 #

Birgir skrifaði

Kæru Krossarar og aðrir hvítasunnumenn!

... Sjáið þið ekki að forstöðumennirnir fylla >hugi ykkar af heimskulegum ranghugmyndum til að >hafa af ykkur fé og sanna lífsgleði? Sjáið þið >ekki hvað þeim gengur til? Og sjáið þið ekki >hættuna sem felst í þessu siðlausa atferli þeirra?

Þetta er rangt hjá þér Birgir. Flestir forstöðumennirnir hafa góðan ásetning, en eru alveg jafn ráðvilltir og sauðirnir. Þeir fylla hugi fólks vissulega af heimskulegum ranghugmyndum, en trúa öllu sem þeir predika sjálfir, og telji sig boðbera hinnar mestu speki. Þeir starfa ekki til þess að hafa af fólki fé eða til að ræna það lífsgleðinni. (Það er engu að síður útkomann, fólk lætur af hendi fúlgur fjár í söfnuðina, og hvítasunnufólk er oft hálf óhamingjusamt, þó það sé í algerri afneitun hvað það varðar og mætir með spari brosið á samkomur)

Það eru örfáar undantekningar sbr Gummi í Byrginu, Ted Haggart og Jimmy Swaggart og Jimmy Bakker og svoleiðis fírar.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 07/11/07 09:54 #

Ég trúi því reyndar að flestir (ekki allir, t.d. ekki þeir sem Birta taldi upp) trúarleiðtogar meini vel. Að ásetningur þeirra sé góður.

En ég trúi því aldrei að þeir trúi því sem þeir predika. Til þess er það of mikið vitleysa og þeir flestir of vel gefnir menn.

Nei, ég held að þeir "trúi á trúna". M.ö.o. að þeir skilji ekki að siðfræði þarf ekki trúarlegan bakgrunn. Þeir halda að án trúar sé engin siðfræði og þar með ekkert samfélag, enginn kærleikur, enginn samkennd.

Því leika þeir leikinn og þykjast trúa. Halda blekkingunum að fólki um himnaríki og helvíti, um karma og tao, um dómsdag og allan djöfulinn. Allt bullið sem er búið til vegna þess að einhvern tímann í fyrndinni ákváðu menn að búa til lygasögur til að hræða börn til hlýðni og góðra siða.

Sjimpansar kunna gullnu regluna. Ekki fengu þeir hana frá Jesú. Kannski frá trúboðanum Húhúhú endur fyrir löngu.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 07/11/07 11:15 #

Það eru örfáar undantekningar sbr Gummi í Byrginu, Ted Haggart og Jimmy Swaggart og Jimmy Bakker og svoleiðis fírar.

Þetta eru bara þeir sem hafa verið "bustaðir". T.d. tel ég frestir af þessum stærstu í þessum geira geti flokkast sem glæpamenn. Benny Hinn ætti t.d. að vera bak við lás og slá fyrir að svíkja peninga út úr veiku fólki sem óskar þess heitast að fá lækningu meina sinna.


víðir Guðmundsson - 07/11/07 23:35 #

orði frá djöflinum er aðeins hægt að svara með orði drottins.

,,ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. væruð þér af heiminum , mundi heimurinn elska sitt eigið. heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum. minnist orðanna, sem ég sagði við yður: þjónn er ekki meiri en herra hans. hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yður. en allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig. hefði ég ekki komið og talað til þeirra, væru þeir ekki sekir um synd. en nú hafa þeir ekkert til afsökunar"
jóhannes 15:18-23

fyrir 2000 árum var til maður sem sá ykkur fyrir, þið voruð til þá og eruð enn til í dag..sem segir mér að voðalega lítið hefur breyst nema að það er komið internet....trúin er sú sama og vantrúin er sú sama. megi drottinn blessa ykkur og friður hans ná að fylla hjörtu ykkar. eitt sinn hefði ég tekið undir það sem þið ritið hér á síðum ykkar en eftir að ég opnaði hjarta mitt í auðmýkt og leyfði egóinu aðeins að fá frí fóru stórkostlegir hlutir að gerast. það var pláss fyrir Jesú krist.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 08/11/07 01:36 #

Ágæta Birta. Mín tilfinning er sú að forstöðumenn safnaða, líka ríkiskirkjuprestar, trúa ekkert á bullið sem þeir boða. Það er þó mögulegt að þeir sæki sér réttlætingu í því að tilgangurinn afsaki meðalið. þ.e að þótt boðskapurinn sé órablandaðar draugasögur þá sé siðferðisboðskaðurinn góður og ýmislegt hafi nú gott komið í kjölfar kristndómsins...

Ég er fullviss um að ríkiskirkjuprestar og flestir Jesúhoppararnir trúi t.d ekki á að Jesús K Guðsson hafi drepist í 3 daga, lifnað svo við, flogið upp í himininn og sitji á einhverskonar dómarastól til þess að dæma fólk til himnavistar eða til heljarvistar.

-En þeim er trúandi til að túlka þennan miðlæga atburð í guðspjöllunum sem eitthvað sálrænt ástand eða "tákn" eða "allegoríu" um eitthvað annað.

Skömmin við þetta alltsaman er að í grunnin fer það ekkert í taugarnar á mér hvort fólk út í bæ trúir þessu eða ekki. Skömmin við þetta er að þeir sem trúa þessari þvælu, reyna sitt ýtrasta við að téðri þvælu inn í ómótaða huga barnanna í samfélaginu okkar....


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/11/07 04:10 #

Þetta er rangt hjá þér Birgir. Flestir forstöðumennirnir hafa góðan ásetning, en eru alveg jafn ráðvilltir og sauðirnir.

Svar við þessu má finna hér.


Birta - 08/11/07 08:21 #

"Dómsdagsköltleiðtogar heimsins eru að stórum hluta trúleysingjar sjálfir (því miður, þeir setja svartan blett á trúleysið) en um leið fullkomnir sikkópatar."

Þessi setning ein og sér nægir til þess að gera þessa grein þín algerlega afleita, enda eru engin rök færð fyrir þessari fullyrðingu, og mig undrar að þú skulir telja þig vita hverju annað fólk trúir, og hvernig það hugsar.

Greinin svarar ekki þessari spurningu.

Teitur, þú hefur eflaust rétt fyrir þér varðandi ríkisprestanna, en varðandi Jesú hopparanna, þá ert þú greinilega að tala um fólk sem þú þekkir ekki.


Finnur - 08/11/07 09:08 #

Dæmalaust kjaftæði er þetta. Komdu með dæmi um að "Gunnar skari eld að eigin köku".


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/07 09:17 #

Er Gunnar ekki á launum sem leiðtogi safnaðar síns?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/11/07 09:33 #

Má vera að þú hafir rétt fyrir þér. En þú viðurkennir þó væntanlega að það séu til undantekningar frá þeirri reglu að költleiðtogar trúi sjálfir, sbr:

Það eru örfáar undantekningar sbr Gummi í Byrginu, Ted Haggart og Jimmy Swaggart og Jimmy Bakker og svoleiðis fírar.

Mér dettur líka í hug L. Ron Hubbart.

Við skulum heldur ekki gleyma því að siðblindir menn geta spilað sig hvað sem er. Oftar en ekki ná þeir að vinna traust fólks með útgeislun og sjarma, jafnvel þannig að fólk sver fyrir það að þeir gangi í raun með fegurstu hugsjónir og hafi ærlegar tilfinningar i ríkum mæli.

En "the name of the game" er samt sem áður að ná stjórn á hugum fólks. Þetta eru hinir svokölluðu con-menni og af þeim er nóg í samfélaginu.

Móðir Theresa var ein þeirra. Hún trúði ekki á það sem hún boðaði, í það minnsta ekki þegar á leið. En það stoppaði hana ekki í því að þiggja háar fjárhæðir af glæpahyskinu sem hún gerði að vinum sínum um leið og hún hélt áfram að láta skjólstæðinga sína þjást, fólkið sem heimsbyggðin hélt að hún væri að líkna.

Hún var ein af þessum siðlausu trúleysingjum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/07 16:25 #

Af einhverjum óþekktum ástæðum hafa allar athugasemdir sem sendar voru inn eftir 9:30 í morgun glatast. Ég bið þá sem gerðu athugasemdir velvirðingar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/11/07 17:45 #

Hmm, reynum að rifja þetta upp:

Birta svaraði og sagði Swaggart, Haggart og Guðmund í Byrginu hafa verið trúaða, þrátt fyrir að hafa glutrað niður siðferði sínu í sambandi við þetta. Finnur kom svo og gagnrýndi mig fyrir að gera Gunnari í Krossinum það upp að stunda fjárplógsstarfsemi. Spurði hvað Gunnar hefði í laun.

Ég vísaði í þessa gömlu athugasemd mína og Finnur gagnrýndi mig frekar fyrir fabúlasjónir sem byggðu ekki á neinu nema mínum eigin gefnu forsendum. Ég svaraði því til að vissulega væru þessar forsendur gefnar, en ég hefði fyrir því heimildir að margir í Krossinum greiddu tíund og að upphæðir þær sem söfnuðust á samkomum hjá þeim næðu á stundum þessum tölum sem ég nefndi þarna í hinu kommentinu. Spurði svo hvað yrði um alla þessa peninga, fyrst Gunnar væri stöðugt að tala um að þessir söfnuðir ættu erfitt með að ná endum saman um hver mánaðamót.

Ef eitthvað er rangt munað eða haft eftir bið ég ykkur að leiðrétta.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.