Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Danmörk: Fermingar 12 ára?

Í Danmörku stendur nú yfir umræða um hvort lækka eigi fermingaraldurinn um eitt ár, og ferma börn í 12 ára bekk í stað 13 ára bekkjar. Þessi umræða á án efa eftir að berast hingað áður en langt um líður, þannig að það er eins gott að byrja debattið bara strax með svari til væntanlegra formælenda þessarar hugmyndar.

Skiptar skoðanir eru innan kirkjunnar sjálfrar:

Einn helstu talsmanna 12-ára-ferminga í Danmörku er Jan Lindhardt, biskup í Hróarskeldu. Hann heldur því fram að börn þroskist fyrr í dag en þau gerðu áður fyrr, og að 12 ára börn í dag séu t.d. töluvert þroskaðri en þegar hann var 12 ára sjálfur. Þar af leiðandi sé ekkert að því að lækka aldurinn. Menntamálaráðherrann, Bertel Haarder (í hægriflokknum Venstre), styður tillöguna. Annað sem stuðningsmönnunum þykir mæla með tillögunni er að það sé auðveldara að kenna 12 ára börnum heldur en 13 eða 14 ára, auk þess sem mörg börn skipti um skóla eftir 12 ára bekk og best sé að þau fermist í félagahópi sem þau þekkja vel.

Ekki eru allir prestar þó á einu máli. Anne Braad, sóknarprestur í Stefánskirkju á Nørrebro, er til dæmis ósammála biskupnum. Hún telur að tillagan hafi aðallega komið fram vegna þess að það sé auðveldara að hafa stjórn á 12 ára börn en 13 ára: „Kirkjan hefur alltaf viljað lækka aldurinn, vegna þess að því eldri sem börnin eru, þess fleiri kjósa að láta ekki fermast.“

Gitte Nissen Raun, sóknarprestur í Kildavælds-kirkju á Østerbro í Kaupmannahöfn, gengur lengra en Braad – hún tekur börn ekki til fermingar fyrr en í 14 ára bekk. „Rök okkar eru,“ segir hún, „að maður geti átt betri samræðu við nemendurna þegar hormónarnir hafa hjaðnað aðeins.“

Raddir skynseminnar

Barnasálfræðingurinn John Aasted Halse leggur orð í belg í umræðunni og segir 12 ára börn séu ekki undir það búin að taka upplýsta afstöðu til guðs eða kristni, og að eðlilegra væri að bíða með fermingar fram að 16-17 ára aldri: „Við vitum að því yngri sem nemendurnir eru, þess áhrifagjarnari eru þeir, og þess erfiðara eiga þeir með að taka sjálfstæðar ákvarðanir.“ Annar sálfræðingur, Metta Benkjær, er á sama máli og Haalse, og bendir á að það skipti meiru að ungmennin viti hvað þau séu að undirgangast, heldur en að þau fermist með krökkum sem þau hafa þekkt lengi: „Ég tel að 12 ára sé of ungt. Það er auðveldara að ráðskast með þau á þeim aldri og þau skilja ekki eins vel það óhlutbundna í kristninni, eins og maður mundi búast við af 14 ára börnum.“

Það er óskandi að ráðamenn í Danmörku láti ekki gíruga kirkjunnar menn hafa sjálfdæmi í þessu miklvæga máli. Það væri nær að hækka fermingaraldurinn heldur en að lækka hann.


Heimild: Kaasgaard, Stinne: „Konfirmation i 6. klasse er håbløst“, Nyhedsavisen 24. ágúst 2007.

Vésteinn Valgarðsson 29.10.2007
Flokkað undir: ( Fermingar , Kristindómurinn )

Viðbrögð


HT - 29/10/07 08:43 #

Hér er nú eitthvað málum blandið. Vill svo til að ég er búsettur í Danmörk og á barn á fermingaraldri. Það myndi fermast ári seinna hér en á Íslandi. Veit ekki hvort svo er alls staðar en er amk þannig í þeim sveitarfélögum sem ég þekki til.


Haukur Ísleifsson - 29/10/07 12:18 #

Þetta er ruglað. Hvernig geta þeir ætlast til að 12 ára krakki geti tekið svona stóra ákvörðun. Ég var 13að verða 14 og ég sé eftir því núna. Ég hefði aldrei fermst ef ég hefði vitað hvað ég væri að gera. Hvernig er hægt að ætlast til þessa af 12 ára krakka.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 29/10/07 12:34 #

Ég veit að ef fermingar hér á Íslandi væru framkvæmdar þegar fólk verður 16 eða 17 ára hefði ég ekki látið ferma mig. Þegar ég var 13 ára var ferming bara eitthvað sem allir í fjölskyldunni gengu í gegnum, eitthvað sem hafði alltaf verið talað um eins og það væri engin spurning um það hvort maður léti ferma sig - og að auki til var ég ekki nógu þroskaður til að geta staðist allar fermingargjafirnar.

Ég er alveg sammála Haalse og Bernkær að það sé miklu mikilvægara að börnin skilji hvað athöfnin gengur út á heldur en að þau fermist með einhverjum sem þau þekki.


Árni Árnason - 29/10/07 12:58 #

Er einhver hissa ? Úlfaflokkar skilja gjarna ungviðið frá hjörðinni og gera þannig að auðveldri bráð. Harðsvíraðir dópsalar læðupokast við skólalóðirnar til að koma ungviðinu á bragðið sem allra fyrst. Prestarnir sem hafa laun sín úr vasa skattborgaranna vita líka vel að ungviðið er auðveldasta bráðin, og ófær um að verja sig.

Sannið þið til, íslenska Ríkiskirkjan á eftir að grípa þessa hugmynd á lofti, svo krípí sem það nú er.


FellowRanger - 29/10/07 14:05 #

Sorglegt.

En fær mig til að líða vel með að þessi síða og félag er uppi. (Ef) þegar þessi tillaga kemur upp er gott að vita af öðrum sem eru hreint ekki sáttir.


Kári - 29/10/07 15:10 #

Hækkum fermingaraldurinn á Íslandi upp í 18 ára! Ætti að leyfa 12 ára krökkum að vera fjárráða og lögráða?


Þórgnýr Thoroddsen - 29/10/07 15:26 #

Ég var svo klár þegar ég var ungi að velja að ganga til prests, en hafna fermingunni. Ég tilkynnti henni að ég myndi gera upp hug minn við 18 ára aldur.

Ég myndi vera sammála því að ferming færi ekki fram fyrr en einmitt þá. Þrátt fyrir að börn þroskist „fyrr“ en áður, þá er ekki laust við það að öll þessi efnishyggja blindi aumingja börnin.

kv.


Haukur Ísleifsson - 29/10/07 15:47 #

Veit ekki með 18 ára. Held að 16 væri betra. Kanski því ég er 16.


Árni Árnason - 29/10/07 16:07 #

Hvað liggur svona mikið á ? Þetta er nú ekki eins og með skírnina, þar sem hreinsa þarf helvítis erfðasyndina af ungunum sem allra fyrst svo að þeir fari ekki til helvítis. Það er víst búið að afnema limbóið. Maður getur auðvitað skilið hasarinn í kringum skírnina, þar sem allt þarf að gerast í glóandi hlandspreng áður en skrattinn krækir krumlum sínum í bersyndug illyrmin. En ferming ? Hvað liggur á ?


Siggi - 29/10/07 16:22 #

Prestar eru fullorðið fólk sem fær fermingargjafir oft á ári.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 29/10/07 17:06 #

HT: séra Raun fermir sín fermingarbörn ekki yngri en 14 ára. Ég reikna því með að prestar hafi meira um það að segja í Danmörku en á Íslandi, hve gömul börnin eru.


Haukur Ísleifsson - 30/10/07 10:13 #

Fatta ekki hvernig á að skrifa inn á spjallborðin. Gæti enhver leiðbeint mér?


LegoPanda@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 31/10/07 03:20 #

Haukur:

Ég veit ekki hvort þú varst búinn að fá hjálp við þetta, hér eru ábendingar ef ekki.

Ertu búinn að búa til notendanafn? Það gerirðu með því að velja ,,Register" efst til hægri á aðalsíðunni.

Þegar þú ert búinn að því verðurðu að velja umræðuflokk áður en þú getur skrifað eitthvað. Ef þú velur til dæmis ,,Heimspeki og almenn umræða" þá ættirðu að sjá takka sem á stendur ,,New Topic" fyrir neðan bláa kassann sem inniheldur allar núverandi umræður. Hann er fyrir ofan blaðsíðutalið.

Þú notar þann takka til að búa til nýjan umræðuþráð.

Ef þú vilt gera athugasemd við einhvern þráð, þá kemur takki svipaður hinum sem á stendur ,,Post Reply" þegar þú ert að skoða umræðuþráð. Þetta kerfi virkar heldur ekki eins og á Huga.is, sem er mest megnis með hreiðruð umræðutré (þ.e. maður getur svarað ákveðnum athugasemdum og svar manns kemur sem útleggur af því). Hérna bætir maður bara við umræðuþráðinn, og þarf því að skrifa hverjum maður er að svara ef það er ekki augljóst.

Vonandi hjálpar þetta!


Haukur Ísleifsson - 31/10/07 15:36 #

Kærar þakkir


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 02/11/07 11:10 #

Eins og allir (vonandi) vita er barn skráð í þjóðkirkjuna við fæðingu ef móðir þess er þar skráð.

Eina ástæðan fyrir því að barn er ekki skráð "fermt" um leið er að þá tapaði kirkjan gífurlegu fjármagni auk þess að prestar hefðu þá minna að dunda sér við...


Védís - 15/11/07 18:51 #

Ég er 15 ára, og ef ég ætti að fermast núna myndi ég ekki gera það. Á sínum tíma taldi ég mér trú um að ég væri EKKI að fylgja hópnum, ég tryði á guð o.s.frv. En Ég var bara að reyna að falla inn í hópinn og fá gjafir. Ég skammast mín hálfvegis fyrir þetta núna, og er alvarlega að íhuga að láta skrá mig úr þjóðkirkjunni... ég er búin að átta mig á mótsögnunum í Biblíunni.

Mér hefur lengi fundist að það ætti að hækka fermingaraldurinn, því að þegar maður er þrettán ára vill maður bara fylgja hjörðinni. Af hverju vill þjóðkirkjan hafa hóp af fólki á sínum snærum sem er bara þarna af því að allur vinahópurinn þeirra síðan í 8. bekk er þar líka?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 15/11/07 20:15 #

Ætli þeir séu ekki eftir peningum og völdum. Þ.e. peningum því öll fermingarbörnin þurfa að borga eitthvað fyrir ferminguna til prestsins + námsefni. Og völdum, með stærri söfnuði geta þeir réttlætt ýmislegt sem annars væri ekki hægt.

Það er mjög mikilvægt að halda að fólki þessari mítu því án hennar væri gvuðdýrkun ekkert annað en trú á jólasveinninn - um leið og krakkar fatta að jólasveinninn er ekki til þá er enginn til að halda þeirri trú við og því hætta þau að trúa. Þetta gildir ekki um gvuðtrú því það eru mjög margir sem hafa hagsmuni af því að sem flest fólk trúi.


Nafnlaus - 12/06/08 13:20 #

Ég er á móti þessu. Ekki liðnir tveir mánuðir síðan ég fermdist og ég sé eftir því, var ekkert að hugsa um hvað ég var að gera, hefði ekki fermst ef ég ætti að fermast núna


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 15:02 #

Já, og það eru margir í þínum sporum.


Nafnlaus - 12/06/08 17:30 #

Já, og það finnst mér slæmt. Ef eitthvað fyndist mér að það ætti að hækka fermingaraldurinn, því eins og fyrir mig, var þetta bara eðlilegt, allir félagarnir voru að fermast og maður gerði bara eins en svo skítsé ég eftir því núna þegar ég fór að hugsa út í þetta..


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 22:05 #

Ég fermdist fyrir þremur árum og sá eftir því skömmu seinna. Ef fermingaraldur yrði færður í 16 ár. Þá efast ég ekki um að nema örfáir ákvæðu að fermast.


Jenný - 20/06/08 00:16 #

ekki trúleysingi.. en langaði bara aðeins að skoða þessa síðu af því ég er oft buin að hugsa um að gerast trúleysingi trúi alveg á guð en trúi bara ekki alveg því sama og kristnir svo ég fermdist ekki (mamma varð brjáluð -.-) ætlaði að verða bahá'í en er ekki lengur alveg viss veit ekki lengur hverju ég trúi er svo ringluð:/ og ég sé alls ekki eftir að hafa ekki fermt mig! kristni er svo skrýtin =/ mér fynnst að maður ætti að fermast 16 eða seinna ég þarf allavega 1 ár í viðbót til að ákveða hverrar trúar ég er allir vinir minir litu á gjafirnar og litu svo á mig og bara af hverju í andskotanum ekki að ferma sig!:O flestir fermast bara fyrir gjafirnar.. þetta er svo erfið ákvörðun! hefði átt að vera skráð úr kirkjunni 7.Júní en mamma skrifaði ekki undir eikka blað... og þá get ég það ekki fyr en 16:/

mér fynnst mjög mikið vit í flestu sem er á þessari síðu mjög gaman að skoða..:)


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 20/06/08 00:29 #

Gott hjá þér. Endilega haltu áfram að kynna þér málin.


Kristján Hrannar Pálsson - 20/06/08 00:30 #

Jenný: Þegar ég var um fermingaraldur (og einnig nokkur ár eftir þann tíma) var ég einnig nokkuð reikandi um trúarafstöðu mína. Ég kaus að fermast borgaralega því mér fannst þá þegar þrettán ára aldurinn alltof snemmt fyrir ungt fólk að geirnegla trúarafstöðu sína og líkti því á sínum tíma við flokksskráningu 13 ára unglinga sem þyrftu helst að dveljast í þeim stjórnmálaflokki það sem eftir væri.

(Ímyndið ykkur pólitíska umræðu hér á landi ef svo væri raunin!)

Eftir því sem árin liðu fannst mér eins og þessi pressa á mér þess efnis að ég yrði að gerast "einhverrar trúar" yrði minni og loks fannst mér best að skilgreina mig sem trúlausan þar sem ég lifði, og lifi, hinu besta lífi án þess að aðhyllast nokkur trúarbrögð. Margir eru haldnir þeirri ranghugmynd að allir þurfi að "trúa" á eitthvað, þ.e. vera í flokki einhverra trúarbragða en sú afstaða er alls ekki rétt.

Fjölmargir, sérstaklega á Íslandi kjósa að trúa ekki á neinn guð og lifa fullkomlega eðlilegu lífi. Ég hvet þig til að lesa fleiri greinar á þessum vef og meta þær út frá þínum eigin forsendum hvers konar lífsskoðanir þú kýst að aðhyllast frá þessum sjónarhól. Þessi vefsíða fékk mig a.m.k. til að endurskoða ýmislegt og hugsa málin úr frá þroskaðri forsendum.

Kær kveðja

Kristján

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.