Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tekinn

Fæstir trúmenn átta sig á að þeir hafa verið teknir í bakaríið af eigin frumhvötum. Trúarbrögðin hafa þróast með manninum og eru mótuð af væntingum hans og löngunum. Merkilegt nokk, þá hafa þróast afskaplega áþekk trúarbrögð í ólíkum samfélögum fornaldar, vegna þess að frumhvatir mannsins eru þær sömu þó samfélögin séu ólík. Aðeins hæfustu trúarbrögðin hafa lifað af síðustu aldir. Ekki af góðsemi, heldur af stakri keppnishörku og sjálfsbjargar grimmd. Skoðum aðeins hvernig útsmognustu trúarbrögðunum hefur tekist að taka vini og ættingja í faðm sinn.

Öryggið

Þegar heilbrigt barn lúrir í fangi foreldra sinna er það sælt og öruggt. Við sækjumst eftir slíku öruggi frá blautu barnsbeini. Þegar trúmaðurinn finnur fyrir mikilli nálægð guðs og vernd hans er hann að fitla við þessar frumstæðu tilfinningar frá barnæsku. Þetta eru vissulega fallegar tilfinningar sem trúarbrögðin hafa misnotað svo meistaralega.

Trúin

Börn hafa engar forsendur til að efast um orð foreldra sinna fyrstu árin. Þau sem trúa til dæmis orðum þeirra að ekki eigi að ganga fram af bjargsbrún eru líklegri til að lifa af. Fyrir vikið geta foreldrar talið börnum sínum trú um hvað sem er, því þau verða að geta treyst foreldrum sínum fyrstu árin. Allt sem börn kokgleypa á þessum árum er erfitt að leiðrétta síðar. Þess vegna vilja trúarbrögðin halda stífu trúboði að börnum. Það eru mjög miklar líkur að barn sem er alið sem kristið verður kristið, múslimi verður múslimi o.s.frv.

Lífslöngunin

Fátt er sterkara en lífslöngunin. Slík tilfinning er svo sterk að fólk fæst til að gera ótrúlega hluti til að lifa af. Trúarbrögðin spila af öllum mætti á þessa frumhvöt mannsins með eilífu lífi. Því er í raun létt verk að fá fólk til að trúa til fullnægja lífslönguninni.

Hópurinn

Menn eins og nánir ættingjar hans simpansar eru hópdýr. Vinna saman í hóp og ráðast á aðra hópa til verja eða sækja verðmæti. Þessi hegðun og hversu skipulögð við erum í atferlinu er ástæðan fyrir velgegni mannsins. Að vera hluti af hóp veitir okkur vellíðan og við erum tilbúin til að gera ýmislegt til að vernda hópinn. Trúarbrögðin uppfylla þessa hópþörf mannsins svo um munar.

Hópeflið

Mesta vellíðan innan hópsins er þegar liðið fyllist múgæsing, lotningu eða jafnvel fellur trans. Við slíkar ástæður líður hópnum best, fyllist mikilli samkennd og vinnur jafnvel sína stærstu sigra. Messan er tæki trúarbragðanna til að spila með þessa þörf eins og fótboltakappleikir nú á dögum.

Dýrkunin

Innan hópa mannsins og dýra verður strax til ákveðið hírarkí. Því sterkari sem leiðtoginn er og valdskipting skýrari því ánægðari verður hópurinn. Ef leiðtoginn er ódrepandi mun hópurinn síður leysast upp. Það er ekki að ástæðulausu að kirkjan hefur ódrepandi leiðtoga sem kallast guð (Jesú). Síðan eru undirmenn hans í valdaröð: Biskup, prófastur, sóknarprestur, sóknarnefndarformaður og sóknarbörn ásamt fjölda virðingaembætta innan þessara hópa eins og t.d. vígslubiskup, djákni eða meðhjálpari

Viðurkenningin

Innan hópsins þurfa allir að fá viðurkenningu til að finna sig vera hluti af honum. Allskonar persónulegar athafnir fullnægja þeirri þörf. Þannig er hinum trúaða talið trú um að hann sé mikilvægur hópnum og líf hans hafi tilgang.

Launin

Allt frá alda öðli hafa börn fengið mat fyrir góða hegðun. Á þessu grundvallaratriði hafa trúfélögin allskonar bitlingakerfi. Gjafir eru í boði fyrir trúfestu einstaklinga. Verðlaunin kosta trúfélagið ekkert annað en að uppfylla þær frumhvatir sem taldar hafa til dæmis upp fyrir ofan. Til að sefa ákveðin hóp viljugra þá eru þeir gerðir að starfsmönnum hópsins sem fylgir virðing eða efnahagslegt öryggi.

Vissan

Það fyllir okkur sælu að hafa reglufestu og vissu um líf okkar. Ekkert er verra en óvissa og ógn í okkar huga. Trúarbrögðin gefa okkur ákveðna heimsmynd og tilgang. Sama hversu vitlaust þetta skipulag trúarbragðanna er þá uppfyllir það knýjandi þörf fólks til að hafa fast land undir fótum.

Sálin

Eitt af lykilatriðum þess að manninum vegnar vel er að hann getur sett sig í spor annarra. Ekki bara í nútíð eins og simpansar heldur líka í fortíð og framtíð. Þessi flókni eiginleiki leiðir af sér óteljandi möguleika í samskiptahæfni. Til að auðvelda þessa heilastarfsemi hefur þróunin skipt manninum í tvennt sem líkama og persónu. Fyrir okkur er nokkuð auðvelt að játa að líkami sé dáinn enda hann aðeins hlutur í hugsunarferli okkar. En við eigum erfitt með að viðurkenna að persóna deyi enda ekki skilgreindur hlutur. Það er því eðlislæg blekking að telja okkur trú um að til sé sál (ósýnileg persóna). Á þessari einföldu hugsunarblekkingu eiga trúarbrögðin upphaf sitt og lifibrauð.

Trúarbrögðin höfða til eins margra mannlegra frumhvata og hugsast getur. Á meðan einn festist í hópeflinu í stuði með guði, þá finnur sá næsti til móðuröryggissælu. Snilld trúarbragðanna felst í því að höfða til breiðasta svið frumhvata mannsins. Steypa ólíku fólki með ólíka þarfir í eina heild. Þótt til dæmis trúin á upprisu guðinn Jesú Krist sé rakalaust rugl þá lifir kirkjan og trúin á hann. Hvers vegna? Vegna þess að ákveðnu fólki finnst tilfinningaklám kirkjunnar gott. Ástæðan fyrir að færri sækja í trú er sú að grunnþörfum þeirra er sinnt á annan og betri hátt. Þannig hefur þekking á okkur sjálfum og menntun afhjúpað trúarbrögðin og um leið gert lífið skemmtilegra.

Frelsarinn 10.10.2007
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Daníel Páll Jónasson - 10/10/07 12:55 #

Frábær grein. Stutt, hnitmiðuð og sannfærandi samantekt á ástæðunum fyrir trúgirni fólks.

Reyndar mætti einnig yfirfæra sum atriðanna á okkur trúleysingjana. Við sameinumst í andstöðu okkar í garð kirkjunnar, trúboðs í leikskólum/skólum og fjáraustursins úr ríkissjóði til hindurvitnamálefnanna.

En munurinn á "okkur" og "hinum" er sá að við fáum ekki styrki úr ríkissjóði, erum ekki að bjóða upp á falskar vonir eða tilbúin svör og höfum vitanlega rétt fyrir okkur ;)


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 10/10/07 13:08 #

Engin spurning að það er hópefli að vera í vantrú á sama hátt og að horfa á liðið sitt keppa í íþróttum eða vera í stjórnmálaflokki. Það er gaman að vera hluti af team. Það er alls ekkert slæmt við það enda manninum eðlilegt. Spurningin er hvort að fólk átti sig á því að það er ekki hluti af sælunni að trúa á gvuð þó að trúamaðurinn haldi það þegar hann grætur í messu.


Doddi - 10/10/07 17:40 #

Maður hefði haldið að vantrúarmenn sem byggja á bjargi vísindahyggjunnar myndu ekki láta frá sér greinar sem byggja á löngu úreltum hugmyndum Freuds.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/10/07 18:53 #

Svona nú Doddi, ekki láta þetta hanga í lausu lofti - tættu greinina í þig.

Annars verð ég að játa að mér hefur aldrei þótt trúargagnrýni Freud skipta miklu máli.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 10/10/07 22:01 #

ég hef ekki einu sinni lesið Freud :)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/10/07 22:28 #

Efnisgreinin "Öryggið" hljómar alveg eins og Freud, ég veit ekki með allt hitt.


óðinsmær - 11/10/07 00:38 #

að trúa er oft á tíðum ekki annað en að fylgja innbyggðri sjálfsbjargarviðleitni og eðlishvöt einsog dýrin. Það gerir okkur betur í stakk búin til að lifa af ef við viðurkennum að við þurfum á Guði að halda. Menn eru umtalsvert betur settir andlega heldur en dýr sem treysta bara á eðlishvöt sína (og það er engin efnafræðileg tilviljun), og eðlishvöt mannsins segir honum að treysta á innsæið, samviskuna, rökhugsun og fleiri góða meðfædda eiginleika. Þeir sem afneita þessu eru einfaldlega á villigötum, einsog dýr sem forðar sér ekki þó að náttúran færi því skilaboð um yfirvofandi hamfarir. Það virkar alltaf dálítið á mig einsog þeir sem afneita Skaparanum séu innilokaðir í sjálfssköpuðu rými sem útilokar að þeir kanni nánar hitt og þetta nema eftir "vísindalegum aðferðum" og þeir forðast fyrirfram að taka nokkuð mark á óteljandi vandkvæðum sem koma upp við svo takmarðar rannsóknir (t.d þeirri staðreynd að margir vísindamenn trúa eða viðurkenna að einhverskonar andleg lögmál eru í gildi) og verða þ.a.l að fordæma allar trúarhugmyndir sem fornaldarþankagang og rökleysu - án þess að þeir hafi nokkuð kynnt sér af víðsýni í hverju upplifun þess að trúa á hugsandi æðri mátt felst. Það getur varla talist vísindalegt en fyrir þeim er það hinn algildi sannleikur. Og það að hafa einhvern tímann haft barnatrú og svo misst þörfina fyrir hana er ekki nógu góður grundvöllur til að loka sig af frá möguleikanum á að trú geti einfaldlega verið það mikilvægasta í lífinu.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 11/10/07 00:52 #

Óðinsmær. Gvuð er ekkert annað en sérsmíðuð heilstæð alheimslauns, hönnuð af mönnum til að uppfylla þeirra eigin þrár og langanir. Það er ekkert vit í henni og engin viska, aðeins hégómi og tilfinningaklám, sem fólk fellur dáleitt fyrir eins og sauðir til slátrunar.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 13/10/07 00:49 #

Til frelsarans.

Margir trúa á guð skv. biblíunni og trúa á orðið eins og það er kallað. Aðrir upplifa guð, ýmist á trúarsamkomum undir fögrum söng og bænagjörðum og andrúmslofti sem hefur byggst upp eða í einhverjum öðrum trúarlegum athöfnum.

Margir segja að það góða í lífinu sé guð og trúa því. Fyrir mörgum er guð nokkurs konar haldreipi þegar erfileikar steðja að og fólk biður um styrk til guðs.

Margir trúa á kærleikann og hið uppbyggilega og upplýsandi og kalla það guð og biðja eða hugsa samkvæmt því.

Er einhver munur á þessu öllu?


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 13/10/07 10:42 #

Sæl Margrét. Mér leið vel sem trúuðum manni og það sem þú telur upp hefði hljómað afar vel í mínum eyrum á sínum tíma. Þarna blandar þú saman þremur þáttum: Trúarlífinu (hópeflinu-bænalíf-söng), hjálp í erfileikum og kærleiksríka hegðun. Það er nákvæmleg það sem trúarbrögðin gera sem er að blanda öllum þessum þáttum saman sem eina heild (ásamt fleiri þáttum) til fullnægja okkar þörfum og væntingum. Kirkjur og trúarhópar væru ekki til nema fyrir skort. Mín skoðun er sú í dag að kirkjur og guðshugmyndafræðin sé ekki besta leiðin til þess vegna þess að guð er ekki til. Hann er aðeins örfuð heilasvæði (gagnaaugablöð) í heila þess trúaða.

Núna er ég í dag trúleysingi og lifi ekki lengur fyrir næsta líf. Ég trúi að kærleikur og hjálpsemi sé grundvöllur þess að sem flestum líði vel. Mér líður vel í góðra vina hóp og reyna temja heilan til þroska. Málið er að það þarf enga trú til að lifa innhaldsríku og jákvæðu lífi. Það þarf engan guð til að trúa á mátt þess að gera góð verk og líða vel. Ég hélt að það væri forsenda þess að upplifa eitthvað fallegt að trúa á guð. Ég hafði bara rangt fyrir mér á þeim tíma eins og allir prestarnir, forstöðumennirnir, gúrúarnir og "fórnarlömb" þeirra.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 13/10/07 14:29 #

Takk fyrir þetta svar.

Ég tel heldur ekki nauðsynlegt að fólk trúi á tilvist guðs langt því frá. Ég trúi á uppbyggingu hins góða í manninum og þá jákvæðu þætti sem maðurinn býr yfir.

Ég skil hins vegar þá þörf fólks að leita að styrk til guðs ef það er að ganga í gegnum erfið tímabil, hvort sem guð er til eða ekki.

Ég er aftur á móti mjög andvíg tilbeiðslu og rugli sem fer fram á samkomum margra trúaðra þar sem fólk er hneppt í trúarlega fjötra.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 13/10/07 15:59 #

Það er áberandi vandamál hversu fáa valkosti fólk hefur þegar illa stendur á. Hér landi er aðeins vinir,ættingjar, vinalínan og prestar ókeypis. Heilbrigðisþjónustan hefur takmarkaða möguleika nema fólk sé orðið alvarlega veikt. Einn og einn heimilislæknir reynir að aðstoða fólk. Það sem þarf að breytast er að fólk fái ókeypis eða mikið niðurgreidda sálfræðiþjónustu. Slíkt myndi draga mjög úr þörf fólks til að leita í tómri neyð í trú eða skottulækna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.