Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þúsund sögur - engin sönnunargögn

Það má ekki gera lítið úr því hvernig reynslusögur hafa tilhneigingu til að magnast upp í meðförum fólks. Magnús Skarphéðinsson og Birgir Baldursson ræddu nokkrar slíkar um geimverur og fljúgandi furðuhluti í morgun og eins og fyrr þurfti Magnús að taka það sérstaklega fram að þeir sem upplifðu einhverja þá atburði sem hann sagði frá hafi síðar orðið málsmetandi menn í samfélaginu.

Þetta notaði hann líka í síðustu viku, enda gera svona ummæli frásagnirnar strax trúverðugri. En hvað, getur verðandi áhrifafólk í þjóðfélaginu ekki fært í stílinn? Og eigum við alltaf að treysta því að frásagnir á borð við þær sem Magnús og hlustendur hafa borið á borð séu nákvæmlega rétt sagðar? Í tilviki hlustenda, þar sem þeir eru að lýsa eigin reynslu, er hugsanlega hægt að treysta því að nokkuð rétt sé lýst, en þegar Magnús segir eftir minni frásögur að reynslu annarra er rétt að hafa varann á.

Við þekkjum það öll hvernig við höfum tilhneigingu til að matreiða atburði til að þeir hljómi sem betra söguefni. Höfum það í huga í hvert sinn sem við heyrum sagðar sögur af ótrúlegum hlutum.

Og verum líka dugleg við að leita eðlilegu skýringanna. Hvað t.d. með þessi tákn á himninum, talan 2000 og einhver orð? Á tímabili var vinsælt að skrifa með leysigeslum í himininn og muna margir eftir slíkum sýningum sem fram fóru í Laugardalnum árið 1987. Tæknin er til og af hverju ættum við þá að skýra þessa hluti með fjarstæðukenndari hætti en efni standa til?

Og hvar eru öll sönnunargögnin? Af hverju, eftir allan þann tíma sem FFH hefur sveimað yfir höfðum okkar, er ekki neitt sem hægt er að reiða fram sem óyggjandi sönnun fyrir því að framandverur eigi í hlut? Af hverju er allt sem við fáum í hendurnar annað hvort sögusagnir og falsanir?

Hér má heyra samtal þeirra Magnúsar og Birgis í þættinum Í bítið:

Einnig er hægt að sækja skrána hér [.mp3 12 MB]

Ritstjórn 09.10.2007
Flokkað undir: ( Útvarp )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/10/07 10:20 #

Hlustandi sem hringdi inn talaði um hrævareld, en sennilega hefur hann átt við urðarmána.


Eyvindur Karlsson - 09/10/07 11:28 #

Af hverju birtast FFH alltaf hjá híbýlum hvíts drasls? Í þeim undantekningartilfellum þegar þeir birtast ekki í litlum Suðurríkjabæjum Bandaríkjanna er það í Breiðholti.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 09/10/07 12:26 #

Nú á tímum almennrar myndavélaeignar ætti þess ekki að vera langt að bíða að ljósmynd næðist af geimveru. Það eru helvíti margir með myndavél í símanum sínum.

Ég undra mig samt á þessum geimveru-reynslusögum. Sérstaklega þeim sem snúa að einhverskonar rassa-rannsóknum. Rosalegustu reynslusögur af því þegar geimverur nema manneskur á brott, snúast mikið um að geimverurnar rannsaka af kostgæfni rass þess brottnumda. -Hvaða rugl er það eiginlega?

Geimvera ferðast um óravíddir alheimsis til þess að rannsaka rass einhvers hillbillý í Texas!

Þess utan er alveg örugglega líf á öðrum hnöttum. Einföld tölfræði bendir sterklega til þess. En hvort þessar geim-verur séu að spóka sig um í Kringlunni er annað mál. Mér þykir alltaf fyndið að skoða ljósmyndir af (meintum) geimförum. það er eins og þróun þessara geimfara ráðist mikið af tískusveiflum hérna á jörðinni. á 6. áratuginum var mikið um svona rúnuð geimvför. Engar hvassar línur. Furðulegt nokk. sama þróun og í t.d í bifreiðsamíð hérna á jörðinni.

p.s

Ég mæli sterklega með kvikmyndinni "Mars Attakcs" eftir Tim Burton.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/10/07 12:58 #

Ég held að menn telji sig nú skilja hrævareld þokkalega en urðarmáni er annað. Lýsingin á ljóskúlum sem eltu flugvél gæti verið lýsing á urðarmána, stundum hafa þeir sveimað um inni í flugvélum (að sögn). Mér finnst hins vegar merkilegt að við eigum gamalt orð yfir þetta fyrirbæri - sem enn er óútskýrt - en hefur náðst á filmu. Ekki vantar heldur myndir af fljúgandi furðuhlutum, flestar óskýrar og margar skýranlegar með venjulegum hætti. Ég hef verið að skoða FFH á youtube og ekki vantar flóruna þar. Verð að viðurkenna að ég er nokkuð ringlaður eftir. Svo er ótrúlega gaman af samsæriskenningum í kringum þetta allt saman. Færa má fyrir því sannfærandi rök (með tilvísun í myndir) að menn hafi aldrei stigið fæti á tunglið. Með öðrum myndum sýna menn fram á og fullyrða að þar hafi Bandaríkjamenn í leyni stundað námugröft og haft þar umsvif allt síðan 1962. Enn aðrir fullyrða að finna megi merki gamallar menningar á tunglinu og Mars (aftur með myndum), jafnvel flak gríðarstórs flugskips á tunglinu. Samkvæmt forvígismönnum þeirrar kenningar eru menn ekki að grafa eftir málmum á tunglinu heldur reyna að skilja tæknina í þeim fornleifum sem þar er að finna. Bandaríkjamenn eru í stöðugum viðræðum við geimverur og til er nokkrir flokkar af þeim. Þær miðla okkur tækni en eru loðnar í upplýsingum um tilgang sinn hér. Þetta eru reyndar ekki geimverur heldur EBE (extraterrestrial biological enteties). Sumir segja þær guði, aðrir djöfla, þeir þriðju að þær komi úr iðrum jarðar. Enn aðrir að geimverur búi á meðal okkar í dulargervi, hættulegastar þeirra eru skriðdýrin (reptilians - sláið því upp). Samkvæmt Súmerum býr víst flokkur þeirra á tólftu plánetunni sem kemur (með ragnarökum) til okkar árið 2012.

Ljúflingurinn Magnús vill öllum trúa en ég veit ekki hvernig hann fótar sig í tilverunni vitandi af öllum þessum sögum sem engin leið er að koma heim og saman. Við höfum líka áreiðanlegar heimildir fyrir tilvist Lagarfljótsormsins. Það mætti finna það kvikindi áður en við förum til fundar við geimverurnar á Snæfellsjökli.

Eftir að hafa skoðað þetta allt dáist ég að ímyndunarafli mannskepnunnar og hæfni til að sjá stuðning við kenningar sínar í hverju horni. En kenningarnar væru óneitanlega merkilegri ef hægt væri að afsanna þær. Jólasveinninn getur nefnilega verið til þótt hann finnist ekki við leit í Esjunni.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 09/10/07 13:07 #

Þeir sem verja mestum tíma allra í að glápa upp í himininn eru stjörnuáhugamenn. Á hverju einasta heiðskíra kvöldi, alls staðar á jörðinni, eru þúsundir stjörnuáhugamanna að fylgjast með himninum. Þeir sjá aldrei neitt!

Það virðist líka vera einkennilegt að fólkið sem sér fljúgandi furðuhluti er það sem er óvant því að kíkja upp í himininn. Það þekkir ekki það sem sést á himninum. Ég var í stjörnuskoðun um daginn í Krýsuvík og þangað komu tveir menn sem lýstu því að þar sæi fólk hina undarlegustu hluti. Nú förum við reglulega þangað í stjörnuskoðun og sjáum ALDREI neitt ókunnuglegt.

Ótrúlegt líka að geimverurnar sem konan sem hringdi fyrst inn kynnu vestrænt stafróf. Abúkó. Alveg stórfurðulegt.


Flugnahöfðinginn (meðlimur í Vantrú) - 09/10/07 13:38 #

Hugsaðu þér Sævar hvað stórt svæði af himninum er myndaður á hverju kvöldi allt árið um kring. Mig grunar að það sé meiriparturinn af himninum því mjög margir stjörnuljósmyndarar eru að taka víðar myndir. Síðan er hann myndaður með mjög ljósnæmum myndavélum og hver mynd lýst jafn vel klukkutímum saman. Og nú er ég bara að tala um myndatökur áhugamanna. Ef UFH eru til þá væru þessir ljósmyndarar búnir að fanga þessi fyrirbæri. En fáránlegra er þetta í ljósi orða Magnúsar að á hverri mínútu væru að meðaltali tveir vitin af UFO í lofthjúpi jarðar. Myndirnar hjá öllum þessum stjörnuljósmyndurum ættu að vera út ataðar í ljósrákum eða annars skonar ljósmengum frá öllum þessum UFH sem eru samkvæmt vitnum alltaf gríðarlega björt. Það ætti bara önnur hver stjörnuljósmynd að vera ónýt vegna þessa.


Flugnahöfðinginn (meðlimur í Vantrú) - 09/10/07 13:58 #

Eitt fyrirbæri sem er ekki ólíklegt fólk sem þekkir ekki til gefi sér að sé FFH og það er Red Sprite 1. 2. 3.


Jón Frímann - 09/10/07 15:23 #

Nokkrir herir heimsins hafa tekið uppá myndbönd óþekkt flugför, í eitt skiptið var flugfarið ósýnilegt nema að því leiti að það sást á innrauðu. Hvort að þarna voru geimverur á ferðinni veit ég ekki. En aftur á móti þá eru til gögn um hin ýmsu furðuleg flugför sem hafa sést.

Ekkert að því er þó á þann háttin sem Magnús Skarphéðinsson hefur haldið fram og heldur fram í dag. Enda er það bara della í honum og hefur alltaf verið.


Guðjón - 09/10/07 17:27 #

Einugist þeir sem hafa ekki kynnt sér þessi mál halda því fram að fljúandi diskar séu ekki til. Það er auðvelt að sanna tilvist þeirra.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/10/07 17:29 #

Það er auðvelt að sanna tilvist þeirra.

Frábært. Gerðu það þá.


Maggadora - 09/10/07 17:32 #

Mér fannst þetta skemmtilegur þáttur. Trú og vantrú gefið sjéns. Meðlimir í vantrú ættu kannski einhvern tímann að hitta Magnús og fá að skoða safnið hans.

Ég hef sjálf aldrei sjéð geimverur svo ég viti. Nema eitthvað af þessu furðulega fólki sem ég hef kynnst í gegnum tíðina sé frá öðrum hnetti :-) Aftur á móti hefur mig dreymt að ég færi um borð í geimdisk og kannski er það óskhyggja því að ég hef mikinn áhuga á geimvísindum.


Kári - 09/10/07 18:16 #

geimverur hafa ekkert að gera með geimvísindi.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 09/10/07 18:39 #

Nokkrir herir heimsins hafa tekið uppá myndbönd óþekkt flugför, í eitt skiptið var flugfarið ósýnilegt nema að því leiti að það sást á innrauðu. Hvort að þarna voru geimverur á ferðinni veit ég ekki. En aftur á móti þá eru til gögn um hin ýmsu furðuleg flugför sem hafa sést.

Þetta var mexíkóski flugherinn, ef ég man rétt, sem myndaði olíuborpalla undan ströndum Mexíkó. Upp frá borpöllunum steig gas sem sést illa eða ekki í sýnilegu ljósi en innrauða ljósið, hitinn, sést auðvitað greinilega á innrauðri myndavél. Myndin sem flugherinn tók var tekin um borð í flugvél og því virtist sem ljósin hreyfðust.

Þetta birtist í fréttum á sínum tíma, en engum fréttamanni datt í hug að flytja fréttir af þessu þegar hið sanna kom í ljós.


Jón Frímann - 09/10/07 18:55 #

Þú afsakar, en ég er löngu hættur að trúa þessum sögum að þarna hafi verið um gas að ræða. En þetta er alltaf gas, eða blaðra, eða bara eitthvað annað, eitthvað sem kemur í veg fyrir að svona mál séu rannsökuð almennilega, nema auðvitað af fólkinu sem hefur enga getu til þess að rannsaka svona mál en gerir það samt.

Og varðandi hreyfinguna, það hefði ekki gerst, þar sem að við erum að tala um afstæða hreyfingu. Þ.e flugvélin er á ferð, en borpallurinn er fastur, gasið sem stígur upp frá honum er á leiðinni upp, en það er samt fastur punktur þar sem það kemur upp. Þannig að augljóst hefði verið ef að þessir innrauðu punktar hefðu verið tengdir við borpall.

Hérna er myndbandið á youtube, http://www.youtube.com/watch?v=4dDqrbyUrm8


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 09/10/07 19:15 #

Í hvaða aðstöðu ert þú að geta dæmt um það hvort þeir sem rannsökuðu þetta eru hæfir eða ekki? Það er frekar hrokafullt af þér að fullyrða það. Grein birtist í Skeptical Inquiry um þetta og hana er að finna hér:

www.csicop.org/si/2004-09/campeche.html

Þarna er miklu betri útskýring. Málið er mjög einfalt. Þetta voru olíborpallar, hvort sem okkur líkar betur eða verr.


óðinsmær - 09/10/07 22:45 #

það mætti halda að væri einhver gæðastimpill á rössum ef geimverur hafa sýnt þeim áhuga? annars er eiginlega ekki hægt að sanna neitt um þessi mál þannig séð. Herir heimsins eru væntanlega alltaf að prufa einhverja nýja tækni og þó að það myndi finnast flak af geimskipi eða næðust alveg rosalegar myndir af því þá væri alltaf hægt að segja að það tilheyrði einhverju sem herinn er að prufa. Og eins er hægt að draga úr fréttum af einhverju sem gerist með fljúgandi geimför sem menn búa til, með því að byrja að tala um geimverur.


FellowRanger - 09/10/07 23:28 #

Hvað, bara allir meðlimir í Vantrú, og ekki ég.

En hvað um það. Ég hef kynnt mér Roswell dæmið nokkuð frá því að ég frétti það fyrst, og er forvitinn afhverju td. þeir voru alltaf að breyta því hvað þetta var. Fyrst var það einhver prófun á nýju farartæki að mig minnir og seinna veðurlaðra sem hrapaði eða eitthvað. En ég er ekki að kaupa þessi myndbönd frá "krufningunni" eða neitt sem nýlega hefur komið í ljós. Hvernig sem því líður held ég bara áfram að stara á himininn í von um að eitthvað skuggalegt láti sjá sig. Til dæmis sleði jólasveinsins. Sjáumst.


gimbi - 10/10/07 01:55 #

[Kvörtun um ritstjórnarstefnu færð á spjallið -Hjalti]


Jón Frímann - 10/10/07 04:49 #

Sævar Helgi, þessi útskýring stenst alveg, enda sést það á myndbandinu þegar það er skoðað að vélin hreyfist, en ekki punktanir. En ég verð að taka það fram að ég trúi ekki þessum UFO köllum, ekkert frekar en köllunum sem afneita þessu öllu saman á einu bretti án þess að gefa fyrir því ástæðu.

Annars er ég með annað dæmi, Belgium 1990, hægt að horfa á það hérna. http://www.youtube.com/watch?v=s7psGj4M1ZI


Guðjón - 10/10/07 08:17 #

Matti þú getur gert tilraun. Farið um borð í flugvél með disk í handfarangri. Og ef flugvélin kemst á loft þá getur þú horft á fljúandi disk með eigin augum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/10/07 09:19 #

Ah, við höfum brandarakarl á svæðinu.


Flosi Þorgeirsson - 16/10/07 17:16 #

Það hlæja flestir að Magga Skarp og hans félögum sem sjá súpuskálir svífa um himininn en fólki finnst sjálfsagt að tilbiðja arabíska drauginn, eins og Helgi H. kallar hann, sem skaust til himna með látum fyrir nær 200 árum. Er einhver munur á Jesúm og Gilitrutt!?


Ormurinn - 21/10/07 22:33 #

UFO fenómenið er í raun mótsögn.

Um leið og búið er að ædentifæa einhvern hlut sem UFO (Unidentified Flying Object) er þá nokkuð lengur um UFO að ræða ;)


Flosi - 03/11/07 18:23 #

2000 árum ætlaði ég að sjálfsögðu að skrifa.


Gvendur Hinn - 23/03/08 22:30 #

Hvað finnst ykkur um video upptökunar sem herinn í mexico gerði opinberlegar?

http://www.youtube.com/watch?v=uDOOZ_IPb6Y&feature=related


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/03/08 18:41 #

Gvendur, er ekki verið að ræða þetta sama myndband í athugasemdum hér fyrir ofan?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.