Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sri Chinmoy

Í gærkvöldi mætti fulltrúi Vantrúar í Kastljós til að ræða um Sri Chinmoy og söfnuð hans. Tilefnið er að nýlega hafa 50 alþingismenn lýst yfir stuðningi sínum við að Sri Chinmoy fái Friðarverðlaun Nóbels. Í fréttum kom fram að flestir þingmenn höfðu ekkert fyrir því að kynna sér málið og skrifuðu undir yfirlýsingu án þess að vita nokkuð um manninn sem þeir voru að styðja.

Chinmoy lyftir 3000 kílóum með einni hendi

Það verður að segja eins og er að við á Vantrú höfum haft takmarkaðan áhuga á Sri Chinmoy. Flestir þekkja frásagnir af afrekum hans á kraftlyftingasviðinu þar sem hann ku hafa lyft gríðarlegum þyngdum og aðrir hafa eflaust heyrt um afrek hans á menningarsviðinu.

Meistarinn

Það lítur út fyrir að söfnuður Chinmoy sé költ í gervi friðarsamtaka. Chinmoy er sölumaður og varan er hann sjálfur sem gúrú. Hann stólar á góðvilja fólks til að ná árangri í þessaru sölumennsku sem gengur út á að ýkja stórkostlega frásagnir af gjörðum hans.

Meðal „afreka“ hans eru t.d. víðfrægar lyftingar, en Chinmoy hefur ferðast um víða veröld og lyft þjóðhöfðingjum. Einnig heldur hann því fram að hann hafi lyft um þrjú þúsund kílóum upp fyrir höfuð einhent.

Þegar þessi lyftingarafrek eru skoðuð nánar kemur í ljós að Chinmoy notar aðstoðartæki í nær öllum tilvikum, vogarafl er nýtt til þess að auðvelda lyftuna og gúrúinn lyftir í raun ekki nema broti af þyngdinni. Sjónarvottar að þriggja tonna lyftum Chinmoy hafa sumir haldið því fram að lóðið hafi ekki haggast en meistarinn hafi náð að sannfæra flesta fylgjendur sína um að svo hefði verið. Fyrrum hirðljósmyndari hefur játað að hafa falsað myndir til að láta lyftur líta betur út. Raunin er sú að það lyftir enginn þrjú þúsund kílóum með annarri hendinni, fyrr brotna beinin. Þessar meintu lyftingar sýna fram á að Chinmoy beitir vísvitandi blekkingum til þess að sannfæra fólk um ofurmannlegt eðli sitt.

Sri Chinmoy er einnig alræmdur fyrir gríðarleg afköst sín í menningarframleiðslu. Hann hefur sent frá sér ógrynni laga, ljóða og myndverka. Sumar fullyrðingarnar um afköst hans eru reyndar glórulausar, eins og t.d. sú að hann hafi teiknað 13 milljón fuglamyndir á 13 árum, að milljón fuglamyndir á ári að jafnaði. Ef við gerum ráð fyrir 6 tíma nætursvefni hefði hann þurft að teikna tvær myndir á mínútu allar vökustundir. Þrátt fyrir að þessar tölur eru auðvitað áróður, þá held ég að allir sálfræðingar myndu flokka það sem sjúklega þráhyggju að teikna 13 milljón myndir af fuglum. Af tónlistargáfu hans fara misjafnar sögur. Með þessu erum við ekki að ráðast á listahæfileika hans, heldur einungis að benda á að Chinmoy beitir blekkingum til þess að gefa falska mynd af sjálfum sér. Falska mynd sem hann notar til þess að narra fólk í söfnuð sinn.

Er söfnuður Sri Chinmoy költ?

Ýmis atriði benda til þess að söfnuðurinn sé költ. Við höfum dýrkaðan og dáðan leiðtoga sem verður átrúnaðargoð félagsmanna. Sögurnar af leiðtoganum verða afskaplega ýktar og hann býr yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum. Algengt er að félagsmenn hafi mynd af leiðtoganum þegar þeir stunda hugleiðslu .

Meðlimir þurfa að lúta ströngum reglum um hegðun og atferði og er refsað, eru jafnvel útskúfaðir, ef þeir brjóta reglurnar. Meðlimirnir skulu vera grænmetisætur, skulu stunda hlaup og eiga að klæða sig á ákveðinn hátt. Þeir taka gjarnan upp gælunöfn í stað eigin nafna. Chinmoy hefur sagt að ástundun kynlífs hamli andlegum þroska og meðlimum er bannað að stunda kynlíf, jafnvel með maka. Nokkuð margir fyrrverandi félagar í söfnuðinum hafa ásakað Chinmoy um kynferðislega misnotkun [dæmi] en samtökin vísa þeim ásökunum á bug. Töluvert virðist um það að meðlimir þurfi að vinna fyrir lítið eða ekkert kaup í fyrirtækjum Chinmoy og þeir meðlimir sem hætta í samtökunum eru iðulega útskúfaðir. Tónlistarmaðurinn Carlos Santana sagði frá því að þegar hann hætti í félagsskapnum hafi leiðtoginn gefið út skipun um að félagsmenn skyldu slíta sambandi við Santana þar sem hann ætti að drukkna í djúpum sjó fáfræðinnar fyrir að yfirgefa Chinmoy.

Það sem hér upp talið bendir sterklega til þess að söfnuður Sri Chinmoy sé költ. Fyrir utan meinta kynferðis- og fjárhagslega misnotkun vissulega frekar saklaust költ – a.m.k. borið saman við sum dómsdagskölt.

Friðarverðlaun

Ef Chinmoy hefur virkilega unnið að því að stuðla að heimsfriði höfum við ekkert á móti því að hann sé tilnefndur til friðarverðlauna. Okkur er sama hvaðan gott kemur í þessum efnum. Aftur á móti skiljum við ekki hvernig það stuðlar að heimsfriði að lyfta Steingrími Hermannssyni eða sarga á hljóðfæri í Háskólabíó. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort sögur af starfi Chinmoy fyrir bættum friði í heiminum séu jafn ýktar og sögur af öðrum afrekum hans.

Hvernig kemur það til að Sri Chinmoy er tilnefndur? Árið 2004 hafði New York post það eftir fyrrverandi meðlimi í samtökunum að Chinmoy hafi skipulega unnið að því að koma meðlimum sínum fyrir í ýmsum störfum í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í þeim tilgangi meðal annars að vinna að því að Chinmoy yrði tilnefndur sem sérstakur talsmaður heimsfriðar. Með þessu erum við alls ekki að gera lítið úr starfssemi Sameinuðu þjóðanna eða starfsfólki þess hér á landi sem eru félagsmenn í samtökum Chinmoy.

Þetta skipulagða starf virðist vera að skila árangri hér á Íslandi þremur árum síðar. Það er áhugavert að velta því fyrir sér af hverju allir þessir þingmenn skrifuðu undir stuðningsplagg hér. Í fréttum Ríkissjónvarpssins kom fram að Halldór Blöndal er meðal þeirra sem unnið hafa að því að safna undirskriftum þingmanna en einn meðlimur sértrúarhópsins hér á landi tengist Halldóri Blöndal fjölskylduböndum, hugsanlega skýrir það að einhverju leyti góðan árangur við undirskriftasöfnun.


Þöggun

Það er merkilega erfitt að finna hlutlausar upplýsingar um Sri Chinmoy, svo virðist sem áhangengur hans séu vel að sér í því að teppa leitarvélar og samtök hans virðast vera dugleg við að fjarlægja gagnrýni. Þannig er umfjöllun Wikipedia sérstaklega merkt sem óáreiðanleg þar sem fylgismenn Chimnoy virðast hafa gengið ansi langt í ritskoðun og breytingum [1,2]. Dæmi eru um að síður sem áður innihéldu gagnrýni á Sri Chimnoy vísi nú á heimasíðu hans og frásagnir eru um að söfnuðurinn hafi beitt hótunum til að loka vefsíðum. Með smá vinnu er þó hægt að finna gagnrýni fyrrum meðlima í söfnuði Sri Chinmoy og með hjálp archives.org er hægt að finna síður sem ekki eru lengur aðgengilegar á netinu.

Ritstjórn 26.09.2007
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Reynir - 26/09/07 09:52 #

Gott hjá RÚV að segja frá þessu hugsunarleysi þingmanna í fréttum og enn betra hjá Kastljósi að gefa efasemdarröddum smárými. Gagnrýnin hugsun er allt of sjaldgæf og vönduð vinnubrögð fjölmiðla heyra til algjörra undantekninga þegar fjallað er um það sem talið er "gott og meinlaust" eins og sjálfskipaða gúrúa, skottulækningar alls konar og trúarbrögðin, svo ekki sé minnst aðra yfirnáttúru - sem þykir bara krútt. Það þarf að sýna fram á bullið og vitleysuna í kringum þetta og hættuna af þessu öllu, sem er vissulega fyrir hendi. Vantrú bendir einfaldlega á að keisarinn er ekki í neinum fötum.


equaliser - 26/09/07 11:27 #

[ athugasemd færð á spjallið - Matti Á.]


Reynir - 26/09/07 11:28 #

Ég var að lesa mér til um friðarhöfðingjann og renndi yfir leirburð hans. Fann þar meðal annars þetta ljóð sem á vel við þessa tilburði hans til að fá Nóbelsverðlaunin:

30. A Solemn Promise

I have made a solemn promise
To myself:
Next time I see my Beloved Supreme,
I shall beg Him
To build me a new little heart
And totally destroy
My proud, giant mind.

Kannski er eitthvað um liðið síðan hann sá þessa yfirnáttúru sem hann elskar svo heitt :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/09/07 11:39 #

Ekki er boðskapurinn í þessu fagur - gereyðileggja alla sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Er það þetta sem hann vill að meðlimir költsins geri, svo hann eigi auðveldara með að ráðskast með þá?


Jón Frímann - 26/09/07 18:58 #

Ég ætla aðeins að bæta við heimildaskrá Vantrúar, ég fann nokkur áhugaverð atriði um umræddan cult.

En þessi maður er greinilega rugludallur með meiru. Ég vona bara að BNA menn hendi honum í fangelsi á endanum.


gimbi - 26/09/07 21:28 #

Þetta innslag í Kastljósinu varð nú aldrei sérlega málefnalegt. Auðsætt að of skammur tími var skammtaður og Helga Seljan of mikið í mun að halda tímaramma.

Hins vegar fannst mér Matti koma vel frá þessu og gott hjá honum að mæta.

Það eru margvíslegar ástæður sem mætti tína til í gagnrýni á þessari "tilnefningu" á Sri Chinmoy. Alltof umdeildur maður til að hann sé verðugur friðarverðlauna Nóbels...


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 27/09/07 04:34 #

Svo má líka deila um Nóbelsverðlaunin. Hvort þau séu eitthvað sniðug. Og þá sérstaklega þessi friðarverðlaun þeirra.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 27/09/07 15:24 #

Frábær pistill!!

Ég hélt ég væri ekki að meðtaka hlutina rétt þegar mér bárust fregnir af tilnefningu okkar til friðarverðlauna Nobels. Hvað voru þessir þingmenn að hugsa? Greinilega eru þeir viðkvæmir fyrir sölumennsku og hafa kolfallið fyrir þeirri taktík sem þeir voru beittir til að fallast á útnefningu þessa athyglissjúka, furðuskrípis sem Sri Chinmoy er.

Samtök Sri Chinmoy snúast algjörlega um hann og hans afrek og hvað hann vill og hvað ekki. Persónudýrkunin er algjör og númer eitt. Maður sem nær svona miklu valdi á fólki með því að láta það halda að hann sé bestur og mestur í öllu, og segir til um hvernig fólk á að hugsa og haga sér, er algjörlega siðblindur. Allt snýst í raun um hann!

Hvað er að fólki að skrifa undir svona vitleysu?

Hann er bara eins og margir forkólfar sértrúarsafnaða, sem fá söfnuðinn til að dýrka sig og að orð þeirra og boðanir séu lög. Sjálfsdýrkun hans er algjör.

Ég vona svo sannarlega að það verði hægt að draga þessa tilnefningu til baka og hið fyrsta. Annars gerum við þjóðina að algjöru fífli.


óðinsmær - 27/09/07 15:54 #

vá þetta er aldeilis skilmerkilegt! vinkona mín fór einu sinni á Yoga námskeið hjá honum, það tók eina helgi og innprentunin byrjaði strax; ekkert kjöt (það er reyndar bara gott mál) ekkert kynlíf og enginn efi um afrek gúrúsins. Hún ákvað að forðast þesskonar námskeið framvegis því henni langaði bara að læra joga, hehe. Annars hef ég ekkert á móti þessu költi, veit of lítið um það til að dæma en hyggst kynna mér þessar vefsíðuábendingar ykkar. Takk takk.

Ég er samt mjög sjokkeruð yfir því að þingmenn séu að skrifa undir eitthvað svona, maður skilur bara ekki hvað er að gerast hjá þeim, svona í alvöru talað!


Kristín - 28/09/07 01:32 #

Hef um hríð haft áhuga á að læra og leggja stund á hugleiðslu. Byrjaði á námskeiði í hugleiðslu hjá Sri Chimnoy um daginn - þeir hafa verið óþreytandi við að bjóða upp á þessi endurgjaldslausu námskeið síðasta hálfa árið. Hætti fljótt - það var greinilegt að ekki yrði í boði möguleiki á hugleiðslu án tilbeiðslu (á Chimnoy). Afrekum mannsins á sviði yfirgengilegrar listframleiðslu var hampað sem og lyfti- og togáráttunni sem ég fæ með engu móti skilið hvaða ávinningi á að skila. Innti leiðbeinandann eftir því hver tilgangurinn með þessu mikla framleiðslumagni væri en fékk engin svör. Hins vegar var mér kennt eitt lag eftir Sri - á Bengölsku. Aftur fékk ég ekkert svar þegar ég spurði leiðbeinandann hvort hann gæti ekki snarað þessu yfir á íslensku - það væri auðlæranlega þannig. En Bengalskan reyndist ekki auðveld, ekki frekar en hljómfallið í sönglagi Sri. Þarna strögglaði ég með textann (sem fjallaði eitthvað um frið og ljós og dögun eftir því sem mér var tjáð en hefði svo sem getað verið: "Hálfviti, hálfviti - hægt að ljúga öllu að þér...Bengalska - hahaha".) - hver lína endurtekin aftur og aftur og aftur þangað til maður átti að kunna bæði lag og texta. Eftir u.þ.b. 40 mínutur af þessu var lagið sungið í gegn nokkrum sinnum og leiðbeinandinn brosti til okkar heiðskýru brosi og spurði: Fannst ykkur lagið skemmtilegt? "Nei, mér fannst það leiðinlegt" sagði ég en hinum hafði greinilega þótt rosalega gaman og því lofaði leiðbeinandi því að við myndum læra annað lag næst, eitt af þeim 19,999 sem við áttum ólærð. Það var á því augnabliki sem ég ákvað að hætta. Nú er ég hins vegar að læra hugleiðslu hjá ágætri konu sem er að eigin sögn kristinn búddisti en kennir hugleiðslu sem aðferð en ekki hugmyndafræði. Að vísu er farið með texta á tíbetísku en þegar ég bað um að honum yrði snarað yfir á íslensku var því vel tekið og geri ég ráð fyrir að tíbetíski textinn (sem fjallar víst um frið, ljós, dögun og eitthvað þess háttar) muni hljóma á hinu ilhýra innan skamms. Vitið þið um islamskan ásatrúarmann sem er með námskeið í einhverju skemmtilegu?


gimbi - 28/09/07 01:53 #

... no guru, no method, no teacher...


Guðrún Sæmundsdóttir - 28/09/07 14:06 #

Matti kom mjög vel fyrir í Kastljósinu, og tek ég undir hvert einasta orð sem að hann sagði þar. Margrét Hafsteinsdóttir hefur komið með þá hugmynd að stofna undirskrifalista til að mótmæla gjörðum þessara 50 þingmanna sem að styðja Shri chimmony, Getur einhver komið slíkum lista í gang? Gæti Vantú beitt sér fyrir því? eða einhver annar?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 28/09/07 14:38 #

Ég er hræddur um að það verði að vera einhver annar aðili en Vantrú sem kemur upp svona undirskriftarlista. Félagið Vantrú reynir eftir fremsta megni að blanda sér ekki í pólitík. Vantrú skilgreinir sig sem ópólitískur félagsskapur enda samanstendur félagsskapurinn af fólki sem spannar næstum því allt pólitíska litrófið.


Hans Magnússon - 10/10/07 13:52 #

Ég hafði ekki hugmynd um hver þessi gúrú var. Mig langaði bara að læra hugleiðslutækni og ekkert annað. Sá plakat sem hékk á vegg í sundi með símanúmeri gúrúsins. Mér fannst hinsvegar eitthvað gruggugt við það að allt var frítt og hikaði alltaf við að hringja. Svo ég ákvað að gúgla um gúrúinn. Nú skammast ég mín fyrir að hafa næstum fallið í gryfjuna og er sannfærður um hann hefur ekkert að bjóða mér(nema kannski uppskrift að góðum grænmetisrétti). Mig langar samt að læra eihverja hugleiðslutækni, án þess þó að verða rændur eða misnotaður andlega.

Kv, Hans Magnússon


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/10/07 14:04 #

Það hlýtur að vera hægt að stunda hugleiðslu án þess að það þurfi að tengjast einhverjum sértrúarsöfnuðum eða hindurvitnum. Er það ekki annars?


Guðmundur - 16/10/07 12:35 #

Ég myndi halda það. Mín hugleiðsla felst nú bara í því að fylgjast með andardrættinum, ekki mikið meira en það og ég held að meira sé ekki nauðsyn.

En já þessi Sri Chinmoy er varasamur á ýmsan hátt. Þó ég geti vel trúað að margt sé gott í hans fari.


Jón Magnús - 16/10/07 13:06 #

En já þessi Sri Chinmoy er varasamur á ýmsan hátt. Þó ég geti vel trúað að margt sé gott í hans fari.

Ætli maður þurfi ekki að fara venja sig á að tala um hann í þátíð þar sem karlinn gaf upp öndina þegar nóbelsverðlaunin voru afhent Al Gore ;)


Sigurður Aron - 24/02/08 02:25 #

Systir mín er á námskeiði hjá honum og það hefur hjálpað henni mikið og ég fer í næstu viku líklegast. Allir menn fá gagnrýni einhvern tímann og afhverju ætti hann að sleppa undan því. Það sem hann er að gera, er að stuðla að friði og hjálpa fólki að ná hugarró með hugleiðslu. Skil ekki hvað þið hjá Vantrú þurfið að vera að finna allt það neikvæða í öllu, Leitið frekar að því jákvæða hjá manninum sem er mun meira af.

30. A Solemn Promise

I have made a solemn promise
To myself:
Next time I see my Beloved Supreme,
I shall beg Him
To build me a new little heart
And totally destroy
My proud, giant mind.

Fólk sem kynnir sér Hindúisma eða Búddisma skilur hvað þetta ljóð þýðir. Þarna er hann að segja að þú eigir að láta hjartað ráða ferðinni í gjörðum hvers dags. hjartað á að tákna kærleik. Hugur táknar græðgi,reiði,öfund, Kvíða,hræðslu og þessa neikvæða kvilla sem hugsanir okkar leiða til.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/08 10:22 #

Sigurður, Chinmoy er dáinn. Þú þarft að temja þér að tala um hann í þátíð.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.