Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjóðkirkjuprestar eru hræsnarar

Margir munu ef til vill telja þessa fyrirsögn vera ómálefnalega. En raunin er sú að þetta er málefnalegt og það sem er mikilvægara, satt. Þjóðkirkjuprestar eru upp til hópa hræsnarar.

Málefnalegt?

Þegar maður kallar einhvern hræsnara er maður að vissu leyti að segja eitthvað um persónu viðkomandi. En það sem mikilvægara er, maður er að benda á að viðkomandi hegðar sér ekki í samræmi við það sem hann segist trúa. Ef prestar hegða sér ekki í samræmi við það sem þeir boða, þá hlýtur það nefnilega að vera viss áfellisdómur á boðskapinn. Að því leytinu til er þetta málefnalegt.

En að hvaða leyti eru prestar Þjóðkirkjunnar hræsnarar? Þeir segjast annars vegar fylgja boðskapi Jesú, en gera það ekki, og hins vegar segjast þeir fylgja játningum kirkjunnnar, en gera það ekki.

Jesús og prestarnir

Í guðspjöllunum kemur skýrt fram að Jesús hafi verið á móti giftingum fráskildra. Hann leyfir þó undantekningu, ef konan er ekki hrein mey þegar hún giftist, þá má skilja við hana. Þjóðkirkjuprestar fylgja þessu auðvitað ekki, enda myndu fáir geta gift sig hjá presti sem færi eftir þessari skipun Jesú.

Í guðspjöllunum er Jesús á móti auði. Hann segir við fylgjendur sína: „Seljið eigur yðar og gefið ölmusu!“ (Lk 12:33) og að „Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ (Mk 10:25). Byrjunarlaun presta eru um það bil hálf milljón á mánuði, síðan bætast við auðvitað allar greiðslurnar fyrir aukaverk (þar með talið giftingar fráskilinna!). Prestar eru hálaunamenn.

Í guðspjöllunum boðaði Jesús það að það lögmálið væri í fullu gildi. Það er erfitt að túlka orð Jesú um að „ekki einn smástafur eða stafkrókur muni falla úr lögmálinu þar til himinn og jörð líða undir lok“ (Mt 5:18) Þrátt fyrir þetta boða prestar það að lögmál Móses sé ekki í gildi.

Það gæti vel verið að einhverjir prestar haldi því fram að öll þessi orð Jesú séu falsanir, að Jesús sé þarna einungis málpípa höfunda guðspjallanna. Það gæti vel verið. Þeir prestar sem halda þessu fram eru auðvitað ekki hræsnarar að þessu leyti. En maður hlýtur að spyrja sig að því hvernig þessir prestar geta sagst fylgja boðskapi Jesú, þegar þeir telja guðspjöllin ekki vera áreiðanlegar heimildir um boðskap hans.

Játningarnar og prestarnir

Í aðaljátningu lútherskra manna, Ásborgarjátningunni, er klárlega kennt að við heimsendi muni Jesús koma úr himnunum og senda þá sem ekki hafa gengið í flokk hans til helvítis. Ef maður skoðar málfarið fer ekki á milli mála um hvað er rætt: „eilíf refsing“, „eilífar kvalir“, „kvalir án enda“, „helvíti“.[1]

Í sömu grein eru þeir sérstaklega fordæmdir sem kenna „að endir verði bundinn á refsingu fordæmdra manna og djöflanna.“, „að hinir fordæmdu og djöflarnir muni ekki kveljast að eilífu“ [1] .

Ég er nokkuð viss um að Þórhallur Heimisson [2] og Gunnar Jóhannesson [3] eru ekki einu prestarnir sem eru fordæmdir í aðaljátningu kirkjunnar sinnar.

Samkvæmt játningarriti Þjóðkirkjunnar, Kirkjan játar, þá þýddi „hið sterka orð, fordæming“ ekki að greyið prestarnir þurfi að kveljast að eilífu með okkur hinum, heldur að þeir séu „í andstöðu við trúna og þ.a.l. eigi undirskrifendur játningarinnar ekki samleið með þeim sem nefndir eru heldur séu þeir útilokaðir úr samfélagi mótmælenda“. Áður fyrr þýddi svona fordæming að prestarnir hefðu misst öll þjóðfélagsleg réttindi, en „[n]ú á dögum hefur fordæming af þessu tagi einungis kirkjuréttarlegar afleiðingar og tekur fram, hve langt guðsþjónustusamfélagið nái."[4]

Ef prestarnir hafa fylgst með í trúfræðitímum í guðfræðideild Háskóla Íslands , þá ættu þeir að vita að í augum lútherskra manna eru þeir fordæmdir villutrúarmenn. Ef þeir vita þetta en þiggja samt laun frá hinni lúthersku Þjóðkirkju þá hljóta þeir að vera hræsnarar.

Einhverjir prestar gætu ef til vill sagt að þeim sé alveg sama um hvað segir í játningunum. Þeir sem segja það eru líklega ekki hræsnarar, en maður hlýtur að spyrja sig að því hvort þeir séu ekki óheiðarlegir, þar sem vinnuveitandi þeirra, Þjóðkirkjan, vill að prestarnir fylgi játningum hennar.[5]

Eru þeir allir hræsnarar?

Ef við notumst við þau atriði sem ég nefni í þessari grein, þá held ég að það sé hægt að flokka flesta presta Þjóðkirkjunnar sem hræsnara. Það eru örugglega einhverjir sem eru ekki hræsnarar, prestar sem halda að guðspjöllin séu ekki áreiðanleg og að játningar kirkjunnar skipti ekki máli. En maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna þeir gerðust prestar til að byrja með.


[1] Sjá 17. grein Ásborgarjátningarinnar á íslensku, þýsku og latínu.
[2]"En að lokum mun Jesús einnig snúa þeim til sín sem þannig er komiðfyrir [eru í helvíti - Hjalti] og leiða þá inn i fögnuð himinsins." Hvernig er lífið í himnaríki?
[3] Gunnar talar um "úr sér gengnum boðskap um helvítisvist" og "tímaskekkju" í sambandi við tal um helvíti. - Af umræðunni um trú og vantrú.
[4] Einar Sigurbjörnsson. 1980. Kirkjan játar.
[5]Sjá meðal annars vígsluheiti presta: "Nú brýni ég alvarlega fyrir þér: að prédika Guðs orð greint og ómengað, eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og samkvæmt vitnisburði vorrar evagelísk-lúthersku kirkju í játningum hennar." Handbók íslensku kirkjunnar. 1981. bls 188-189

Hjalti Rúnar Ómarsson 14.09.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 14/09/07 09:18 #

Hjalti, þú ert bókstafstrúarmaður í augum presta vegna þess að þú vitnar neikvætt í textann. Jesú elskar prestana en hatar syndina hi hi hi hi.... góð grein.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 14/09/07 09:50 #

Þetta verður alltsaman að lesast í Ljósi Krists og menningarsögulegu samhengi, bla,bla,bla,bla,,, ad nauseam.


Geir Konráð - 14/09/07 11:43 #

Skemmtileg grein. Ég vil samt aðeins koma með einn útúrdúr og minnast á eitt með nálaraugað og úlfaldan.

Meðan ég var út í Jerúsalem fékk ég aðra skýringu á þessu versi. Hún er sú að í múrnum utan um gömlu Jerúsalem eru mörg hlið og þar á meðal er eitt hlið sem er mjög smátt, og kallað Nálaraugað. Þarna komu menn með úlfalda og til að koma þeim í gegnum hliðið urðu dýrin að beygja sig, eða krjúpa og skríða í gegn.

Þeir sem sögu mér þetta töldu að algengasta túlkunin á þessu versi væri röng... því vonlaust er að koma úlfalda í gegnum alvöru nálarauga. Þeir aðhylltust að frekar að það sem Jesú (eða sá sem skrifaði þetta vers) hafi meint, er að ríkur maður þarf að beygja sig eða krjúpa (sína auðmýkt) líkt og úlfaldinn, til að komast inní Himnaríki.

En já, bara smá útúrdúr. Hinir trúuðu geta alltaf túlkað þessi vers þangað til að hægt er að sættast við þau.

Kv . Geir Konráð


Arngrímur Vídalín - 14/09/07 11:54 #

Re Geir Konráð:

Önnur skýring er á þá leið að kaðall (kamilos) hafi orðið að úlfalda (kamelos) vegna þýðingarvillu. En það þarf tæpast að diskútera frekar, það er ljóst af samhenginu að möguleikinn á að a komist gegnum b er vandkvæðum bundinn.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 14/09/07 12:22 #

Gott innlegg Hjalti. Rök eru það eina sem dugar gegn vitleysunni, þeirra eigin rök þeim mun frekar.

Þurfa annars prestar ekki að fá hærri laun til að vega upp á móti siðferðilegri skerðingu sálarlífsins sem hlýtur að vera afleiðing hræsninnar?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/09/07 15:42 #

„Vei yður fræðimenn og farísear, þér hræsnarar!“

Ef það er ómálefnalegt í sjálfu sér að kalla menn hræsnara, er þá Jesús ekki ósköp ómálefnalegur í þrumuræðu sinni?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/09/07 16:20 #

Ég spurði Dan Barker (trúleysingja en fyrrum prédikara) hvernig hann hefði getað verið svo blindur á bókstafinn - sem hann sér svo greinilega í dag að er fullur af þversögnum og hreinum viðbjóði. Svar hans var mjög athyglisvert. Hann líkti þessu við blindu konu sem býr með ofbeldismanni - en vill samt trúa öllu góðu um hann því innst inni sé hann vænsti maður sem elski hana svo heitt.

Blinda og helsi lúbarðra eiginkvenna er merkilegt fyrirbæri og ég hef mikið velt þessari samlíkingu fyrir mér. Held að hún sé nokkuð góð.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 14/09/07 19:21 #

Meðan ég var út í Jerúsalem fékk ég aðra skýringu á þessu versi. Hún er sú að í múrnum utan um gömlu Jerúsalem eru mörg hlið og þar á meðal er eitt hlið sem er mjög smátt, og kallað Nálaraugað.

Þessi skýring kom fyrst fram á miðöldum (á elleftu öld skv hinni óskeikulu Wikipediu), varla rétt. Á Wikipediu er einmitt dæmi úr rabbinískum heimildum sem sýnir að þetta þýðir líklega bara að það sé nánast ómögulegt, þar er svipuð líking notuð:

...nor an elephant going through the eye of a needle.


Anna Karen - 14/09/07 20:11 #

katish!


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 17/09/07 18:53 #

Meðan ég var út í Jerúsalem fékk ég aðra skýringu á þessu versi. Hún er sú að í múrnum utan um gömlu Jerúsalem eru mörg hlið og þar á meðal er eitt hlið sem er mjög smátt, og kallað Nálaraugað.

Ef við gefum okkur að þetta sé rétt þá sýnist mér að þetta breyti samt sem áður ekki boðskapnum. Til að úlfaldinn komist í gegnum Nálaraugað þarf að taka af honum alla bagga, líkt og ríki maðurinn þarf að losa sig við allar eigur sínar til að geta fylgt meistaranum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.