Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sagnfræði eða trúarbrögð?

Ég vil þakka Steindóri J. Erlingssyni greinar hans að undanförnu. Hann bendir réttilega á það að frásagnir guðspjallanna af upprisunni geti seint talist sagnfræðilega áreiðanlegar enda allar ósamhljóða. Við það má auðvitað bæta að guðspjöllin eru skrifuð talsvert eftir að meintir atburðir áttu sér stað og ekki hafa höfundar þeirra verið sjónarvottar að atburðum. Loks er upprisan vægast sagt með miklum ólíkindum og þyrftu heimildir að slíku kraftaverki að vera miklum mun traustari en hér er til að dreifa. Samt er upprisan talin “söguleg” í Aðalnámskrá grunnskóla!

Goðmenni endurrisin

Samtímamenn fyrstu kristniskálda tóku lítið mark á frásögn af krossfestum, dánum og upprisnum manni enda ekkert nýtt í henni, þetta var gömul saga og margsögð.

Launhelgar fornaldar voru meðal útbreiddustu trúarbragða í Rómarveldi. Hluti af helgihaldi þeirra var helgileikur þar sem goðmenni er hengt í tré, það deyr og er grafið en rís aftur til lífs. Táknræn hringrás lífs eins og sést í jarðargróðri sem deyr að hausti en rís til lífsins að vori. Launhelgarnar tóku gjarnan og aðlöguðu eldri guði, til dæmis Bakkus hinn Rómverska, og á Uffízi safninu í Flórens má sjá tvær styttur af trjáhengdum Bakkusi, endurgerðir frumgerða frá 1. öld.

Frægastur endurrisinna goðmenna fornaldar var þó Ósíris hinn egypski. Guð undirheima en einnig lífs og sköpunar, ástmaður Ísisar. Helsta hátíð Ósírisar var haldin að vori, nokkru fyrir sumarflóð Nílar. Samkvæmt helgileiknum var Ósíris drepinn og rifinn í smátt en partarnir hengdir á tré. Ísis tínir þá saman en nær í sál Ósírisar til undirheima. Á þriðja degi rís hann aftur til lífs. Sem hluti af helgileiknum er borðuð heilög máltíð þar sem brauð er látið tákna líkama Ósírisar en rauðlitaður bjór drukkinn með og táknar blóð hans. Hvort tveggja unnið úr korninu sem rís eftir Nílarflóðið, lífgjöf Egyptalands sem rennur ávallt rautt fyrst í stað. Þessi egypska “páskahátið” er mun eldri en frásögn guðspjallanna.

Jesús sagði hvað?

Fróðir menn á fyrstu öldum efuðust auðvitað margir um að Jesú hefði yfir höfuð verið til, hvað þá að sagan af upprisunni væri sönn. Í ljósi þess hversu óáreiðanlegar heimildir guðspjöllin eru þá er vafasamt að gefa sér nokkuð um hvað Jesú sagði eða sagði ekki. Hvort hann hafi verið heimsendaspámaður eða eitthvað annað er ekki sagnfræðilegt umræðuefni að mínu viti.

Helstu rökin gegn því að hægt sé að vita með vissu hvað Jesú sagði eða gerði er reyndar að finna í bréfum Páls sem jafnframt eru elsti hluti Nýja Testamentisins. Páll þekkti aldrei Jesú en hann hafði áratugalöng samskipti við lærisveina á borð við Pétur, Jóhannes og Jakob, oft talinn bróðir Jesú, og auðvitað hlýtur hann að hafa haft aðgang að fjölda manna sem ætla mætti að höfðu verið vitni að atburðum í lífi og starfi Jesú.

Páll er einn mesti ritsnillingur allra tíma. Í bréfum sínum leggur hann drög að þeim trúarbrögðum er síðar nefndust kristni og hann ræðir fram og til baka ýmis álitamál, trúarleg jafnt sem veraldleg, í löngu máli og af mikilli rökfestu. En hann nefnir aldrei eitt einasta atvik úr æfi Jesú, ekkert sem hann á að hafa sagt eða gert! Í öllum sínum rökleiðslum vitnar hann aldrei í þá frumheimild sem maður skyldi ætla að hefði verið honum aðgengilegust, æfi og starf Jesú sjálfs. Hann nefnir auðvitað ítrekað hinn upprisna Krist – sem þarf ekki, frekar en Ósiris, að vera raunveruleg persóna.

Þekking á borð við þessa kæmist aldrei inn í námsefn i grunnskóla og nemendur vita það sjálfir, samanber þessi dæmisaga: Kennari einn í trúarbragðarfræðum benti nemendum í 8. bekk á að dúfan sem birtist við skirn Jesú gæti verið tákn Ísisar og að niðurdýfingarskirnir hafi þekkst í Ísis dýrkun. “Mátt þú nokkuð segja okkur þetta?” spurði þá einn nemandinn.

Heimildaskrá á blogg.visir.is/binntho

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 13. ágúst og á vísisvefnum.

Brynjólfur Þorvarðarson 20.08.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Khomeni - 20/08/07 12:56 #

Ég þakka góða grein hjá Brynjólfi. þetta er einmitt áhugamálið mitt. Goðsögnin um Jesús. Þetta er nokkuð margslungin saga en þegar púslin koma öll saman þá er ekki annað en vera sannfærður um að Jesús var aldrei til. Sögurnar um hann eru augljóslega goðsögn, sprottin upp úr gyðingdómi og nýplatónsku.

það er beinlínist fáheyrt að halda því fram að það sé söguleg staðreynd að Jesús hafi hrækt í auga blindingja og sá hafi fengið sjónina.

Þetta er þó kennt sem söguleg staðreynd í öllum grunnskólum landsins...


Ólafur Haukur Árnason - 21/08/07 00:29 #

Brynjólfur fullyrðir: "Hann [Páll] nefnir aldrei eitt einasta atvik úr æfi Jesú, ekkert sem hann á að hafa sagt eða gert! Í öllum sínum rökleiðslum vitnar hann aldrei í þá frumheimild sem maður skyldi ætla að hefði verið honum aðgengilegust, æfi og starf Jesú sjálfs."

Ég er svo sem ekkert alkunnugur Pálsbréfunum en mér varð strax hugsað til þessara orða, sem eru hornsteinn kenningar kirkjunnar um evkaristíuna og elsta heimild sem til er um hana:

Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gjörði þakkir, braut það og sagði: "Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu." Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu." (1Kor 11:23-25)

Þarna er a.m.k. komið "eitt einasta atvik" og það kæmi mér ekki á óvart þótt fleira í þessum dúr leyndist í Pálsbréfunum... en sjálfur hef ég engan tíma til að fara í gegnum þau og athuga málið til hlítar. Það mætti þó alveg benda Brynjólfi á þá ágætu vinnureglu að lesa texta yfir áður en hann skrifar um þá blaðagrein.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 21/08/07 01:22 #

Ágæti Ólafur. Í ljósi þess að á þessum tíma á þessum stað var amk 3 tegundir af sömu goðsögunni. -Goðsögunni um mannguðinn sem er fórnað fyrir mennina. Egyptar kölluðu sinn guð Ósíris, Grikkir áttu sína útgáfu sem Dýónísos og Rómverjar áttu Bakkus. Allar þessar goðsögur eiga sér fyrirmynd í mýstíkerum fornaldar.
-Paganisma.

Páll þekkti þessar goðsögur vel og einfaldlega snéri þeim upp á nýja goðsögu um Jesús. Þegar hann tekur fram í Kor 11-23 að jesús vilji láta minnast sín með brauðáti og vínsmökkun, er ekki um neina nýjung að ræða. Á þessum tíma var algengt að dýrka Dýónísos með þeim hætti að hann var "étin" og "drukkin". Það er urmull af vísunum í guðspjöllunum um að kristning fæðist ekki eins og fyrir eitthvað kraftaverk. Kristnin fetar kunna slóð og tekur gamlar goðsögur og eignar sér þær. Þetta er alls ekkert óalgengt í trúfræðunum og afar einkennandi fyrir kristindómin satt best að segja.

Dýónísos á það sameiginlegt með Jesú að báðir eru fæddir á vetrarsólstöðum þann 25. desember.

Báðir eru fæddir af hreinum meyjum

Báðum er fórnað af guðinum, föður sínum fyrir syndir mannkynsins

Báðir láta lífið á spýtu (tré / kross)

Báðir ríða inn í borg á asna

Báðir framkvæma kraftaverk

Báðir stilla vinda

Dæmin eru miklu fleiri, svo mörg að ég nenni ekki að telja þau upp. En nú skulum við spyrja okkur í fullri alvöru og velta fyrir okkur hvort það geti verið tilviljun að sögurnar um Jesú eru nánast nákvæmlega eins og sögurnar um Dýónýsos og Ósýris. Og höfum það í huga að sögurnar um þessa fornu guði Grikkja og Egypta eru töluvert eldri en sögurnar um Jesús.

Þetta "vandamál" hefur alltaf blasað við og trúvarnarmenn fóru meir að segja ekkert leynt með þessa staðreynd (að sögurnar um Jesú eiga sér eldri fyrirmyndir) Þeir leistu þetta "vandamál" þannig að sagt var að Satan hefið skrifað þessi rit um Dýóísos og Ósíris...!! AFTUR Í TÍMANN.

Þegar Brynjólfur segir að ekkert komi fram í Pálsbréfunum um líf Jesúsar á hann við að ekkert sem ekki var alkunna úr öðrum trúarbröðgum á þessum tíma kemur fram í textum um meintan Jesús.

Hafa ber í huga að Páll var samtímamaður Jesúsar en virðist ekkert kannast við guðspjöllin!!!

Ekkert!

Einu upplýsingar Páls um Jesú eru nokkrar setningar sem eru afar almennar og vísanir í trúarbrögð sem voru til staðar fyrir.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 21/08/07 07:03 #

Sæll Ólafur Haukur og þakka þér fyrir athugasemdina.

Þetta er rétt ábending hjá þér, Páll nefnir síðustu kvöldmáltíðina á þessum eina stað, eins og kemur fram í heimildarskrá minni, og kvöldmáltíðin er vissulega atburður í lífi Jesú. Sömuleiðis er upprisan atburður í "lífi" Jesú og kemur oft fyrir hjá Páli, þ.e. Kristur upprisinn. En kvöldmáltíðin og upprisan eru hvort tveggja hluti af helgileik Ósírisar og því stendur megin röksemdafærslan, enda þar ekkert sem ég er að finna upp hér og nú (sbr. heimildarskrá).

Það er rétt hjá þér Ólafur Haukur að það er betra að lesa texta yfir áður en maður skrifar um þá. Sjálfur hef ég lesið Pálsbréfin til að sannreyna að hann tali hvergi um Jesú. Annars eru bréfin vel þess virði að lesa þau enda er Páll ótrúlega góður penni.

Aðal vandamálið hjá Páli er hvort gentílismenn eigi að láta umskera sig en almennt hvort þeir þurfi að fylgja hreinlætisreglum Móselaga. Bæði Markúsar- og Jóhannesarguðspjall taka á þessu máli, sér í lagi tekur Jesú lítið mark á lögunum hjá Markúsi (t.d. Mar 7:19, 2:23 og áfram). Af hverju vitnar Páll þá ekki í orð eða athafnir Jesú máli sínu til stuðnings? Hann gerir það aldrei, ekki eitt einasta skifti. Heldur ekki í Kór 11:23 og áfram.

Greinin er rétt tæp 3900 stafabil sem er hámark fyrir Fréttablaðið. Þegar ég skrifaði "ekki eitt einasta" þá mundi ég reyndar eftir þessum kafla úr Kórintubréfi og hugsaði með mér hvort ég ætti að segja "ekki eitt einasta nema ..." en það kallar á útskýringar sem taka pláss og þetta var nú bara einu sinni blaðagrein en ekki fræðigrein.

En ég sé á athugasemd þinni að þú ert kunnáttumaður um Biblíuna og því vil ég bjóða þér að skoða efni sem ég hef sett saman um Jósefus sagnaritara og er að finna á heimasíðu minni blogg.visir.is/binntho og endilega gefa mér komment á það, ef þú nennir.

Kær kveðja

Brynjólfur


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 21/08/07 20:39 #

Á síðasta Páskadag var birt hér grein eftir Dan Barker sem fjallaði um meinta upprisu Jesú. Þar sagði hann einmitt að fyrir utan þetta orðalag sem ÓHÁ minnist á er ekkert minnst á neitt úr ævi eða verkum Jesú í bréfum Páls. Ekki eitt einasta kraftaverk t.d. Mörgum finnst það skrítið.


FellowRanger - 22/08/07 00:26 #

Var það ekki líka Hórus sem var voða sögusvipaður Jesús, eða er ég að rugla?


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/07 07:09 #

Það er rétt, Hórus er ein af hugsanlegum fyrirmyndum að Jesú. Egypsk trúarbrögð tóku breytingum gegnum tíðina en Hórus var m.a. talinn sonur Ósírisar og Ísisar (í einni útgáfunni finnur Ísis bara kynfæri Ósírisar eftir að hann hefur verið rifinn í smátt, og eignast með þeim Hórus). Þar sem Hórus fæðist eftir dauða Ósírisar var hann jafnvel talinn tákna Ósíris endurborinn. Hórus var einnig stundum talinn bróðir þeirra Ísisar og Ósírisar og jafnframt eiginn faðir sem Ósíris sjálfur.

Algeng mynd úr egypskri list er Ísis með nýæddan Hórus í fanginu og minnir óneitanlega á Maríu og barnið. Ósíris var talinn skapari lífs, og með tímanum skapari alls, en Hórus sonur hans og jafnframt hann sjálfur. Þarna eru sagnaminni um son Guðs sem jafnframt er sjálfur sami Guð!

Tákn Hórusar er fálkinn og samkvæmt einni sögunni flýgur Hórus yfir himininn einu sinni á sólarhring og eru þá sólin og tunglið augu fálkans.

Á málverki eftir Verrocchio og Leonardo da Vinci á Uffizi safninu, af skírn Jesú, kemur dúfan, tákn Ísisar ofan úr himnum, en fálkinn, tákn Hórusar, flýgur út úr myndarammanun til hægri, þ.e. fram í tímann, og stefnir á krossinn. Táknrænt er verið að skapa nýjan Hórus með skírn Jesú. Myndin er á heimasíðu minni, blogg.visir.is/binntho, á síðunni "Myndir".


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/07 12:07 #

Payloader epiphany!

Eftir að hafa skrifað athugasemdina um Hórus hér fyrir ofan í morgun fór ég í vinnuna eins og venjulega. Ég var rétt búinn að koma mér fyrir í hjólaskóflunni þegar fálki birtist, flaug hring kringum húsið á vélinni og horfði síðan inn um framrúðuna beint framan í mig úr um eins metra fjarlægð.

Að vísu er maður assgoti trúlaus - en var þetta ekki bara Hórus sjálfur að segja Hæ?


FellowRanger - 22/08/07 12:38 #

Ætli það ekki bara. Svo kom andinn úr Aladdín og söng "ég er frjáls".


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/07 12:52 #

Sönn viðbrögð vantrúandans!


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 22/08/07 16:45 #

Dásamleg sönnun!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/08/07 23:50 #

Mér finnst vera mikið af illa rannsökuðum hlutum um samanburð Jesú og annarra guða. Ég sé að ein heimildin er "The Jesus Mysteries" sem ég held að sé ekki mjög traust heimild. Þú hefur örugglega áhuga á þessum útvarpsþætti

Það væri frábært ef þú gætir bent á frumheimildir sem eru eldri en kristni um þetta:

Á þriðja degi rís hann aftur til lífs. Sem hluti af helgileiknum er borðuð heilög máltíð þar sem brauð er látið tákna líkama Ósírisar en rauðlitaður bjór drukkinn með og táknar blóð hans.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 25/08/07 09:11 #

Sæll Hjalti

Það er rétt hjá þér að margt af því sem sagt er um fyrirmyndir að Jesú gætu allt eins verið eftirmyndir. Gott dæmi er Baldur hinn hvíti ás. Óðinn er hengdur á tré og stunginn spjóti í síðuna, en heimildir um þetta eru auðvitað miklu yngri en kristni.

En ég skal athuga þetta nánar, það væri helst að skoða t.d. rit Heródusar en hann skrifar um þetta á 5. eða 6. öld f.o.t., leikritið Bakkynjurnar er frá svipuðum tíma. Dauðatextar egypskir eru helsta heimildin fyrir helgihaldi í tengslum við Ósíris, þeir eru allir miklu eldri en Jesú.

En hvað þar stendur nákvæmlega er svo aftur annað mál. Ég hef reynt að fara í frumheimildir sem víðast, en þessi tilteknu atriði sem þú nefnir, með helgileikinn, er fengið úr nýlegri og nokkuð góðri bók sem fjallar um helgihald hjá Egyptum til forna en hefur engan áhuga á kristni.

En sem sagt þetta þarf að skoða nánar.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 25/08/07 09:14 #

The Jesus Mysteries er auðvitað ótraust heimild eins og þú bendir á, sem og margar aðrar bækur sem ég hef lesið og haft gaman að. Sjálfur vitna ég aldrei í slíkar bækur beint nema til að nefna skoðanir höfunda. Hins vegar haf þessir menn rannsakað málið vel og eru með heimildaskrá. Með því að nota heimildaskrána er hægt að finna frumheimildirnar, þetta er aðferð sem hefur dugað mér vel. En það væri ósanngjarnt og óheiðarlegt að nota bækur og rannsóknarvinnu annarra án þess að geta þeirra.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/07 09:28 #

Sæll aftur Hjalti

Nú er ég búinn að setja inn link um Ósíris á heimasíðunni minni (efst á síðunni). Ég held að sú síða svari flestum spurningum þínum. Ég fann ekkert um að bjórinn hafi verið litaður rauður, ég man ekki hvar ég las það. Kannski kemur það seinna. Hins vegar eru skemmtilegar upplýsingar um hina heilögu þrenningu, 1500 árum áður en kristniskáldum datt það í hug.


einar Einarsson - 02/02/09 20:38 #

góð umræða, fróðlegt með Pál

Rauður bjór egypta er kominn úr sögninni um Hator er hún ætlaði að eyða mannkyni, Ra stoppaði hana með því að hella hana fulla, (hún hélt að rauði bjórinn væri mannsblóð og drakk sig undir borðið)

góð slóð um samanburð krists og ósiris, ber til baka margar sögusagnir: http://www.tektonics.org/copycat/osy.html

en auðvitað fjalla allar þessar sögur um þroskaferil sálarinnar í átt til æðra lífs

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.