Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er kristnifræðikennsla trúboð?

Kristnifræði er hluti af skyldunámsefni grunnskólanna. Í aðalnámsskrá segir að skólinn sé „fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun og er því fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum“. Eins og ég mun sýna hér fram á virðist námsefnið sem börnum okkar er boðið upp á í kristinfræði ganga á skjön við þennan skýra vilja löggjafans.

Margir fræðimenn hafa bent á að guð Gamla testamentisins frekar ógeðfelld „persóna“, sem meðal annars stundaði þjóðarmorð, nokkuð sem guðfræðiprófessorinn Hector Avalos fjallar ítarlega um í bókinni „Fighting Words: The Origins of Religious Violence“. Með þetta í huga er fróðlegt að skoða hvernig þessi guð og ofbeldið sem hann framkvæmir er sett fram í kennslubókum. Í bókinni „Birtan“, sem ætluð er fjórða eða fimmta bekk, er ýtarlega fjallað um dvöl gyðinga í Egyptalandi og baráttu þeirra til að losna þaðan, án þess þó að þar komi fram að rannsóknir síðustu áratuga hafi leitt í ljós að hún eigi sér líkast til enga stoð í raunveruleikanum, eins og fram kemur í „The Bible Unearthed“ eftir fornleifafræðingana I. Finkelstein og N. A. Silberman.

Hvort sem þetta endurspeglar fáfræði höfundanna eða er hluti af meintu trúboði þeirra þá er þetta léttvægt í samanburði við þá staðreynd að nemendum er kennt að ofbeldið sem guð framkvæmir í sögunni séu réttlætanlegt. Fjallað er um plágurnar sem guð sendi yfir Egypta og að eftir hverja þeirra hafi faraó lofað að sleppa gyðingunum en jafnharðan svikið loforðið. Að lokinni þessari frásögn eru bornar fram spurningar. Í loka spurningunni er guð hreinsaður af ábyrgð á eigin illvirkjum og hún færð yfir á faraó, þegar spurt er: „Er einhvern tíma í lagi að svíkja loforð?“. Þessi óhjákvæmilega túlkun kemur skýrt fram í kennarahandbókinni (bls 10).

Spurningin sem þetta vakti upp hjá mér var hvort þessi hvítþvottur á ofbeldi guðs Gamla testamentisins sé undanfari þess að réttlæta fyrir grunnskólanemendum heimsendahugmyndafræðina sem fram kemur í Nýja testamentinu og illvirkin sem henni fylgja, sbr. grein mína „Enn um Jesúm og heimsendi“ (Fbl. 23/07/07). Með þetta í huga renndi ég yfir bókina „Upprisan og lífið“, sem ætluð er nemendum í sjöunda bekk, veturinn áður en þau taka endanlega ákvörðun um hvort þau ætla að fermast. Þessi tilgáta stóðst hins vegar ekki nánari skoðun.

Í bókinni er ekkert fjallað um að stór hópur virtra fræðimanna hafi í gegnum tíðina litið á Jesúm sem heimsendaspámann. Engin fræðsla er um deilurnar sem áttu sér stað innan frumkristninnar um hvers eðlis Jesú var og hvernig bæri að túlka boðskap hans, né að Nýja testamentið hafi verið sett saman á fjórðu öld af sigurvegurum þessara deilna, sem hinn heimsþekkti guðfræðiprófessor Bart Ehman gerir að umtalsefni í „Lost Christianities“. Ekkert er rætt um að fræðimenn hafi frá því á nítjándu öld vitað að Markúsarguðspjallið sé „elst guðspjallanna og að Matteus og Lúkas hafi báðir m.a. lagt Markús til grundvallar sögum sínum um Jesúm“. Þetta er mjög mikilvægt atriði því eins og Ehman bendir á í „Misquoting Jesus“ gerir þessi vitneskja okkur kleift að „sjá hvernig þessir síðari höfundar breyttu Markúsi“. Ein þessara breytinga fólst í að „mýkja“ heimsendaboðskapinn sem fram kemur í Markúsi, eins og Ehrman bendir á í bókinni „Jesus“. Enn fremur er ekkert fjallað um að frásagnir guðspjallanna af meintri upprisu Jesú séu svo misvísandi að rök þeirra sem trúa sögunni séu, eins og Ehrman bendir á, „guðfræðileg eða persónuleg, ekki sagnfræðileg“. Í stað alls þessa, og raunar enn fleiri atriða, lesa grunnskólabörn gagnrýnislausa umfjöllun um Matteusarguðspjall (handbók kennara bætir engu við).

Þessi upptalning er sterk vísbending um að kristinfræðinámsefnið sé sniðið að þörfum Þjóðkirkjunnar og vilja hennar til að viðhalda kristni hér á landi og brjóti þar með gegn þeirri sjálfsögðu kröfu um að námsefni endurspegli það sem best er vitað sem og ólík sjónarmið fræðimanna. Athugasemdirnar sem hér koma fram renna einnig frekari stoðum undir gagnrýnina sem ég setti fram í greininni „Viðheldur fáfræði kristninni?“ (Fbl. 16/07/07). Það má því færa rök fyrir því að námsefni sjöunda bekkjar brjóti gegn vilja löggjafans um að skólinn eigi ekki að vera trúboðsstofnun. Vilja foreldrar láta bjóða sér þetta?

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag og á Vísisvefnum fyrir viku

Steindór J. Erlingsson 07.08.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Skólinn )

Viðbrögð


FellowRanger - 07/08/07 19:28 #

Ekkert hér sem kemur á óvart. Allir hér sem fermdust bara útaf græðgi say "I".

I


Andri - 07/08/07 19:59 #

I

Ég ætla ekki að biðja gudda að fyrirgefa mér en ég sé mikið eftir því. Ég og tölvan sem ég fékk áttum samt sem áður gott samneyti eftir þetta.

Voðalega var maður rænulaus á þessum árum. En er það ekki það sem var verið að reyna? Gera mann rænulausan...


Viddi - 07/08/07 22:19 #

Æ

Ég er reyndar að vinna í því að endurgreiða allar gjafirnar, ég hélt nefnilega góðan lista yfir þetta og síðan ég skráði mig úr Þjóðkirkjunni hef ég einsett mér það að greiða til baka tilhæfulausar gjafir, því eins og allir vita er það kolólöglegt að ferma fólk undir 14 ára aldri.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 08/08/07 00:30 #

Þegar maður hugsar út í það, þá man maður alls ekki eftir neinni gagnrýnni umfjöllun á kristni í kristinfræðitímum forðum. Annars held ég að minn grunnskólakennari hafi ekki verið neitt sérstaklega trúaður - kenndi bara efnið sem var sett fyrir án þess að leggja áherslu á að það ætti að vera heilagur sannleikur.

Ég held að mín sterkasta minning úr kristinfræði sé þegar ég teiknaði vaxlitamynd af Adam og Evu í aldingarðinum þegar ég var í 7 eða 8 ára bekk - hinir krakkarnir stríddu mér óvænt út af teikningunni vegna þess að ég teiknaði þau nakin. Það gerði ég náttúrulega til að vera samkvæmur frásögninni.

En auðvitað eiga að vera gerðar endurbætur á kristinfræði eins og hverri annarri námsgrein í skólum. Skoða kennarar einhvern tíman efni til íslenskukennslu eða stærðfræðikennslu gagnrýnislausum augum? Hví ættu þau þá að gera það með kristinfræðina?

Fyrir utan það sem mér finnst, að trúarbragðafræði ætti að vera kennd í stað kristninnar, t.d. með sögulega umfjöllun á trúarbrögðum og skoðað hlutlaust hvernig fólk í hverjum trúarhópnum sér heiminn.


Árni Árnason - 08/08/07 10:07 #

Það er auðvitað hverjum ljóst að mjög hallar á trúleysi og önnur trúarbrögð en kristni. Allt umfang, efnistök, áherslur og innihald er enn kristið að megininntaki, en sakir pólitísks rétttrúnaðar og auðvitað málamyndalaga eru hinu leyft að fljóta með í mýflugumynd.

Þetta er svona eins og að setja smáletraða neðanmálsgrein á eftir texta biblíusagnanna:

* ath. einnig er hugsanlegt að fólk trúi einhverju öðru, eða engu.

Það þarf að gera algerlega nýtt námsefni, ef menn á annað borð vilja hafa einhverja kennslu í trúarbragðafræðum.

Eins og þetta er í dag er bara verið að slá ryki í augu fólks með því að þykjast vera að kenna eitthvað annað en gömlu góðu biblíusögurnar.

Enn er langt í land að ákvæði um að skólar séu ekki trúboðsstofnanir sé uppfyllt. Það er bara þannig.


Guðjón - 13/08/07 15:33 #

Af hverju í ósköpunum tala Steindór um trúboð í íslenskum grunnskólum. Er hann ekki aðallega að gagnrýna áróðurskennt námsefni. Með því að nota orðið trúboð er hann að ásaka íslenska grunnskólakennara um ávirðingar sem þeir eiga ekki skilið. Trúboð fer ekki fram án trúboða og íslenskir grunnskólakennara eru ekki trúboðar í venjulegri merkingu þess orðs.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/08/07 15:40 #

Af hverju í ósköpunum tala Steindór um trúboð í íslenskum grunnskólum

Hann útskýrir það í síðustu málsgreininni - vegna þess að námsefnið virðist vera "sniðið að þörfum Þjóðkirkjunnar og vilja hennar til að viðhalda kristni hér á landi".

Trúboð fer ekki fram án trúboða og íslenskir grunnskólakennara eru ekki trúboðar í venjulegri merkingu þess orðs.

Nei, hættu nú þessari vitleysu. Það getur hver sem er stundað trúboð. Svona útúrsnúningar eru bjánalegir.


Guðjón - 13/08/07 16:31 #

Þú misskilur mig algjölega Matti. Auðvita geta allir stundað trúboð- ég tel hins vegar að það geri íslenskir grunnskólakennara yfirleitt ekki. Ég er að gagnrýna Steindór fyrir að nota orðið trúboð í þessu samhengi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/08/07 16:36 #

Mér finnst sú gagnrýni vera útúrsnúningurr. Orðið "trúboð" er gott og gilt í þessari tilteknu umræðu.

Umræðan er frekar einföld og ég sé ekki ástæðu til þess að flækja hana með því að velta upp blæbrigðum þessa tiltekna orðs.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.