Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúarbragðafræðsla eða kristniboð

Umræða um kristniboð í grunnskólum gekk fjöllum hærra í vetur. Kirkja og skólayfirvöld hafa sætt harðri gagnrýni og svarað fyrir sig, stundum fullum hálsi.

Kirkjunnar menn (af báðum kynjum) hafa verið misjafnlega rökfastir og virðist í fljótu bragði sem þeir hafi margir hverjir misskilið málflutning andmælendanna. Nú skal ég ekki segja hvort þessum misskilningi fylgir ásetningur eða ekki, en mál er að leiðrétta hann.

Misskilningurinn felst í að það sé verið að mótmæla því að frætt sé um kristna trú í skólum. Ég veit ekki hvaða dagblöð eða vefsíður Örn Bárður Jónsson eða Karl Sigurbjörnsson lesa, eða aðrir sem hafa haldið þessu fram, en mér vitandi hefur ekki nokkur maður krafist þessa.

Krafan sem sett hefur verið fram er önnur: Trúboð á ekki heima í skólum. Kannski liggur misskilningurinn í því að sjá ekki muninn á fræðslu um kristni og boðun á kristni, kannski er það faglegt sjónarhorn prestsins sem byrgir sýn. Munurinn er þó skýr. Svo ég taki mína eigin reynslu til dæmis, þá var ég fræddur um hindúatrú og búddatrú í grunnskóla án þess að það vottaði fyrir boðun í þeirri fræðslu. Um kristindóm er ekki sömu sögu að segja.

Það skýtur strax skökku við að kristin fræði séu sérstök námsgrein. Allir skilja að sá ríki þáttur sem kristni óneitanlega á í menningu okkar verðskuldar meiri athygli en flest önnur trúarbrögð, en hún þarf ekki að vera svo mikil að það útheimti sérstaka námsgrein – hvað þá að boðun eigi þar heima í bland.

Það er tvennt ólíkt að útskýra og boða. Skiljanlega er það því erfiðara sem fólk er sjálft sannfærðara um það sem það útskýrir. Það kallar aftur á að aðkoma kirkjunnar að börnum í skólanum verði minnkuð. Kirkjan ætti samt að geta unað vel við. Hún á hundruð húsa um land allt, þar sem enginn amast við trúboði hennar.

Hér um árið sagði Karl biskup „það að þegja um trú [væri] innræting gegn trú.“ Vera má að það sé rétt, en þessum orðum er beint gegn málflutningi sem hefur ekki átt sér stað í umræðunni nema hjá talsmönnum kirkjunnar sjálfum. Það væri mér að meinalausu að athuga trúarbragðafræðslu sem væri öll á gagnrýnu nótunum, en þess hefur enginn krafist í þessari umræðu. Meðalvegurinn sem auðveldast væri að ná sátt um er auðvitað að skólarnir séu ekki trúarlega gildishlaðnir.

Jakob Hjálmarsson Dómkirkjuprestur skrifaði í vetur að það sé ekki hægt að vera alveg hlutlaus. Það er satt og rétt – en þýðir ekki að við eigum að samþykkja hlutdrægni þegar við sjáum hana. Vegurinn til góðs getur verið vandrataður og þar skiptir ekki mestu að þekkja hið rétta heldur hið ranga. Ef jafnræði lífsskoðana er markmið, þá þurfum við að þekkja ójafnræðið til að geta tekist á við það.

Ég vona að talsmenn kirkjunnar sjái sem er, að það krefst þess enginn að þagað sé um trú eða innrætt gegn henni. Krafan er að fræðslan fari þannig fram, að trúarskoðunum sé ekki haldið að börnum. Það er ekki skólans að innræta börnum lífsskoðanir og ekki kirkjunnar heldur, nema með vilja foreldra. Ég vona að þessi misskilningur sé hér með leiðréttur og umræðan geti eftirleiðis farið fram með upplýstari hætti.

Greinin birtist einnig í Morgunblaðinu í gær (23/7/07)

Vésteinn Valgarðsson 24.07.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Guðjón - 24/07/07 10:11 #

Ég get tekið undir með vantrúarmönnum með það að ástæða er til að velta fyrir sér hvað á að kenna í grunnskólum um trúarbrögð og eflaust væri hægt að bæta þá kennslu m.a. með þvi að leggja meiri áherlsu á fræðslu um önnur trúarbrögð.

En ég er dálítið undrandi á þessari umræðu. Ég á sjálfur 5. börn sem hafa gengið hafa í grunnskóla og hef aldrei orðið var við boðun eigi sér stað. Ég hef ekki orðið var við að íslenskir grunnskólakennarar væru öðruvísi en gengur og gerist og fæstum þeirr trui ég til að fara offarir i boðun kristinnar trúar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/07/07 10:15 #

Ertu dómbær á það?


Diddi - 24/07/07 13:38 #

Shit hvað það er magnað hvað menn eru drulla í sig af æsingi af því að börnum er kennt um kristna trú í grunnskólum. Eru ekki allir skólar byrjaðir að kenna líka um önnur trúarbrögð.


Kristján Hrannar Pálsson - 24/07/07 13:47 #

Diddi hefði kannski átt að lesa greinina til að átta sig á því að hún gagnrýnir trúboð í skólum en ekki fræðslu um kristna trú.


Leifur - 24/07/07 22:25 #

Sælir hér! Trúarbragðafræðsla á að fara fram í skólum en ekki kristniboð.

[Sá hluti athugasemdar sem ekki tengist efni greinarinnar var fluttur á spjallið - Matti]


gimbi - 25/07/07 01:37 #

Leifur, lestu Mengellu, hún orðar þetta vel...


gimbi - 25/07/07 02:10 #

Ég las reyndar grein Vésteins í blaðinu.

Það sem situr einna mest eftir, er myndin af honum sem birtist með greininni.

Mér fannst fara þarna maður með allar heimsins klyfjar á herðum sér.

Ég horfði í augun á honum, en ég þurfti að líta undan.

Alvaran hræddi mig...


Andri - 25/07/07 12:25 #

Vésteinn! Alvarlegur maður. Erum við að tala um sama manninn hérna?


Leifur - 25/07/07 13:50 #

Ég spyr hver er að boða kristna trú? Sjálfur er ég kennari og kannast ekki við að neitt trúboð sé viðhaft. Síðasta vetur fræddi ég krakkana um búddisma og hindúisma en ekki kristni. Við ræddum þessi trúarbrögð og bárum þau saman og kristni líka án þess að gera henni eitthvað hærra undir höfði. Ég held að þið ættuð að róa ykkur aðeins í þessari umræðu. Sjálfur er ég talsmaður þess að trúarbragðafræði sé kennd í skólum og að menn reyni að koma auga á hvað er sameiginlegt með öllum trúarbrögðum en ekki hvað er ólíkt. Ég veit ekki um neinn kennara sem stendur í kristniboði nema þá kannski Snorri í Betel en ég veit ekki hvort hann kenni þessi fræði. Ég held að kennarar séu frekar tregir til að kenna kristin fræði heldur en hitt. Andiði nú gegnum nefið og njótiði lífsins. Gangi ykkur vel. Kv. Leifur


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/07/07 14:05 #

Ég spyr hver er að boða kristna trú?

Ýmsir, hér eru nokkur dæmi hjá Siðmennt.

Bendi einnig á aðrar greinar í skólaflokknum og greinar okkar um Vinaleið Þjóðkirkjunnar.


Guðjón - 26/07/07 09:01 #

Ég held að það væri gott fyrir vantrúarmenn að fá að sitja í tímum í kristinfræði og sjá með eigin augum hvernig sú kennsla fer fram. Ég er nokkuð viss um að ef menn sæju hvað raunveruleg fer þar fram myndu þessar gagnrýnisraddir um boðun kristinar trúar snarlega þagna. Eftir því sem ég best veit er nánast engin kristinfræðikennsa í fyrstu bekkjum grunnskóla þ.e. 1- 3. nema helst fyrir jól og páska. Og þannig hefur það lengi verið þar sem ég þekki til.

Að lokum vil ég hrósa Leifi fyrir
bréf hans og ég er sérlega ánægur með þá nálgun hans á trúarbragða fræðslu að leggja freka áherslu á það sem er sameiginlegt í trúarbrögðum en það sem greinir þau að.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/07/07 10:57 #

Það er bara alls ekkert svo vitlaus hugmynd.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 26/07/07 17:48 #

Ég held að það væri gott fyrir vantrúarmenn að fá að sitja í tímum í kristinfræði og sjá með eigin augum hvernig sú kennsla fer fram.

Það er ekki eins og kristinfræði hafi verið fundin upp í fyrra. Ég er nú ekki svo gamall þannig að ég man eftir þessum kennslustundum.


AG - 26/07/07 20:50 #

Ekki er ég gamall en er ég var í kristinfræði á gaggaárum mínum var það prestur er kenndi okkur. Það var litið mjög alvarlegum augum ef við féllum ekki yfirlið af aðdáun af þeim geysimikla boðskap sem þessir tímar buðu upp á. Það var svo sannarlega trúboð í gangi þá og er eflaust enn.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 28/07/07 19:35 #

Mér finnst persónulega allt í lagi að kenna trúarbragðasögu í skólum, en ekki bara kristinfræði sem virðist alltaf fara út í nokkurs konar trúboð þegar út í það er farið.

Strákarnir mínir voru báðir í Vogaskóla en eru núna 17 og 21. Þeir þurftu báðir að fara í messur tengdar kristinfræðikennslunni og svo kom einhver frá Krossinum með bæklinga man ég eftir.

Ég vildi að ég hefði mótmælt þessu á sínum tíma en því miður gerði ég það ekki, en strákunum mínum fannst asnalegt að þurfa að fara í messu og fá bæklinga frá Krossinum.

Er að spá í hvort sértrúarsöfnuðir fái að koma í skóla og dreifa bæklingum og jafnvel vera með fyrirlestra?


Héðinn Björnsson - 30/07/07 08:29 #

Þeir sem telja ekki að um trúboð sé að ræða ættu að lesa kennsluskrá í kristinfræði. Þeir sem telja að ekki sé boðuð ein lífsskoðun fram yfir aðra ættu er bennt á kennsluskrá í samfélagsfræðum, sögu, kristinfræði o.s.frv. Grunnskólinn er boðunarstofnun á lífsskoðun ríkisvaldsins og enginn ætti að halda annað.

Að við séum nokkkur sem viljum reyna að halda trúmálum úti úr þeim lífsskoðunum sem ríkið boðar í skólum sínum breytir því ekki að það er eitt af grundvallarhlutverkum grunnskólans að ala upp nýja kynslóð með lífsskoðanir sem geta viðhaldið núverandi samfélagi. Að það svo alltaf misstekst soldið í hverri kynslóð er það sem breytir lífsskoðunum samfélagsins.

Það er því það sem baráttan um að koma kristinboðuninni út úr grunnskólanum snýst um. Að halda því fram að lífsskoðun samfélagsins hafi breyst það mikið að ekki sé lengur eðlilegt að hluti trúarbragðafræðslu sé að fara með börn í kirkju eða að gefið sé frí í skóla til að fara í fermingarfræðslu.

Þetta er lífsgildabarátta og báðum hliðum á henni væri holt að gera sér grein fyrir því.


Eva Hauksdóttir - 06/09/07 16:44 #

Ég tel að það að þegja um anarkó syndikalisma í grunnskólum sé gróf innræting gegn lýðræði og í raun dulbúin tilraun til að koma á fastistaríki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.