Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Enn um Jesúm og heimsendi

bolli_predikar.jpg
Séra Bolli prédikar í Seljakirkju
Fyrir skemmstu birtist á þessum síðum* greinin „Viðheldur fáfræði kristninni?“ þar sem ég benti m.a. á þá staðreynd að stór hluti fræðimanna í Bandaríkjunum og Þýskalandi hafi frá því bók Alberts Schweitzer „Leitin að hinum sögulega Jesú“ kom út árið 1906 litið á Jesúm sem heimsendaspámann. Ef eitthvað er að marka viðbrögðin sem ég hef fengið við greininni á almenningur erfitt með að trúa þessu upp á „frelsarann“. Hvað sem því líður virðist heimsendatrúin enn lifa góðu lífi innan Þjóðkirkjunnar, eins og sjá má í prédikun sr. Bolla Péturs Bollasonar „Lausn yðar er í nánd“, sem hýst er á tru.is.

Í vangaveltum sínum segir Bolli að sama hversu mikill sem hræðsluáróðurinn um fuglaflensuna og hlýnun jarðar verður séu þetta „ekki tákn um endalok heims vegna þess að þetta eru einmitt hugmyndir okkar mannfólksins um endalokin“. Bolli er á því að „Guð“ kristinna manna hafi það á sinni „könnu að ákvarða um endalokin, hvernig svo sem þau verða?“ Síðan veltir hann því upp „af hverju í ósköpunum er ég að fjalla um endalokin á þessum kyrrláta og góða tíma sem aðventan er“? Svarið er einfaldlega „að guðspjall dagsins [Lúkas, 21:25-33] fjallar um komu Jesú hina síðari er ‚himinn og jörð munu líða undir lok‛“, sem sýnir skýrt að með endurkomunni er „ekki einvörðungu um að ræða friðsama birtingu jólabarnsins“.

Eins og tæplega helmingur Bandaríkjamanna virðist Bolli trúa að Jesú sé væntanlegur með sverð í hendi. „Já, Jesús kemur fyrr en varir á skýi og mun dæma lifendur og dauða eins og við kristið fólk höfum játað og játum enn“. Eina leiðin til þess að forðast skapofsa „jólabarnsins“ er að mati Bolla stöðugur undirbúningur, sem hlýtur að fela í sér að meðtaka kristna trú og rækta hana, „þannig að koma hans verði okkur í raun ekki til dóms, heldur til hjálpræðis“.

Nú ætti öllum að vera ljóst að Biblían boðar heimsendi, sem mun bresta á fyrr eða síðar. Skiptir þá litlu hvort ummerki hans megi greina í samtímanum, eins og áróðursmeistarar sjónvarpsstöðvarinnar Ómega halda fram, eða hvort hann muni koma okkur að óvörum, eins og Bolli ýjar að. Þá mun hinn friðsami Jesú skólakristinfræðinnar snúa aftur til jarðar í vondu skapi og fara, eins og Bolli gefur í skyn, með ófriði gegn öllum þeim sem ekki á hann trúa. Nú skil ég eina ástæðu þess að sr. Birgir Ásgeirsson, sem ég gagnrýndi nýlega í greininni „Þjóðkirkjan, umburðarlyndi og heimska“ (Fbl., 21/12, 2006), kallar alla þá sem hafna meintri tilvist Guðs kristinnar, þ.e. á fimmta milljarð einstaklinga, „heimskingja“: Þeir sem ekki játa trú á „jólabarnið“ eiga líklega yfir höfði sér dauðadóm þegar „það“ snýr aftur til jarðar.

*Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag

Steindór J. Erlingsson 23.07.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 23/07/07 12:00 #

Er "heimsendir" ekki bara eitthvað sem er túlkunaratriði? Ríkiskirkjuprestarnir eiga í engum vandræðum með að túlka þetta þannig að "heimsendir" sé eitthvað persónulegt eða sálfræðilegt ástand.

Uss hvað ég er orðin þreyttur á þessari víðu túlkunarhefð í ríkiskirkjunni.

Ég veit barasta ekki hvað í biblíunni má ekki túlka eins vítt og hugurinn leyfir? Er einhver fasti í guðfræði ríkiskirjunnar? Er allt háð túlkun? Ég sem hélt að þegar orð og skoðanir guðs eru á línunni þá væru "the stakes pretty high"..

Annars er ég afar ánægður með greinarnar þínar ágæti Steindór. -Fínar hugvekjur.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 23/07/07 18:00 #

„Já, Jesús kemur fyrr en varir á skýi og mun dæma lifendur og dauða eins og við kristið fólk höfum játað og játum enn“.

Merkilegt hvernig endalaust er hægt að halda þessu á lofti. Í um tvö þúsund ár hefur Jesús verið rétt handan við hornið og alltaf rétt ókominn. Í öllum kynslóðum kristinna manna er hægt að finna þá sem telja sig lifa á hinum síðustu tímum og að dómsdagur sé í nánd. Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að þetta er ekkert að gerast, hvað þarf mörg þúsund ár í viðbót til að kristnir ranki við sér?

Heimsendatrúin er mikið böl. Vegna hennar hafa margir leiðtogar dregið lappirnar t.d. í umhverfis- og friðarmálum vegna þess að þeir trúa því að guðinn þeirra sé á leiðinni til að leysa vandann fyrir þá. Ótrúlegt að slík firra skuli enn vaða uppi í samfélögum sem hafa alla burði til að vera upplýst og stjórnast af skynsemi.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 23/07/07 18:15 #

Góður pistill hjá Steindóri.

[Spurning um Zeitgeist færð á spjallið - Hjalti Rúnar Ómarsson]

Já það er frekar sorglegt hvað margir bíða eftir því í bókstaflegri merkingu að Jesú komi í skýi með sverð í hendi hvað þá hvað margir búast við heimsendi og eru búnir að síðan biblían komst á koppinn.


gimbi - 23/07/07 19:17 #

Ég heyrði eitt sinn því haldið fram á Omega að heimsendir sé í nánd. Innan tíðar.

Þetta gátu þeir merkt á því að nú væri hægt að senda beint út frá svo mörgum sjónvarpsstöðvum um heim allan, að allir geta fylgst með í beinni.

Vona að Mofi fá bestu sæti.

Ætli gangi ekki vel að selja auglysingartíma?


Guðjón - 24/07/07 08:04 #

Þessi grein fellur að sjálfsögðu i góðan jarðveg hér þar sem menn hrópa húrra í hvert skipti sem talað er illa um trúarbrögð hversu vitlaust sem málflutingurinn er

Ég sé ekki að það sé neitt fréttnæmt við þessar predikanir sem Steindór reynir að gera sér mat hún.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/07/07 08:14 #

Guðjón, segðu okkur hvað er svona vitlaust við málflutninginn.


Guðjón - 24/07/07 09:56 #

Mér finnst Steindór -gera úlvalda úr mýflugu. Það er algjörlega út í hött að halda því fram að þjóðkrikjan leggir áherslu á yfirvofandi heimsendi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/07/07 09:59 #

Út á hvað gengur prédikun Séra Bolla?


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 24/07/07 11:36 #

í hvert skipti sem talað er illa um trúarbrögð hversu vitlaust sem málflutingurinn er

Hvað er svona vitlaust við málflutning Steindórs? Er þetta ekki bara hugleiðing um predikun Bolla? Hvaða viðkvæmni er þetta eiginlega? Bolli er bara samvkæmur kristnum endatímaundirbúningi og varar við endurkomu Jesúsar. Verður ekki ´"grátur og gnístan tanna" fyrir þá sem taka endatíma-undirbúinngin af léttúð?

Guðjón! Þú ættir að lesa biblíuna þína. Þar er þetta allt svart á hvítu. Það þarf beinlínis að rangtúlka biblíuna til þess að fá út hina útvötnuðu ríkiskirju-útgáfu af kristindómnum. Bolli hefur þó bein í nefinu til að predika útfrá orðum biblíunnar en ekki út frá kærleiks-moði því sem einkennir málflutning ríkiskirkjupresta


Guðjón - 24/07/07 13:54 #

Ég held að Steidór missi trúverðuleik með þessari grein.

Menn vita hvernig boðskapur þjóðkirkjunar er og þessi pretikun breytir þar mjög litlu til eða frá. Þetta hljómar eins og nöldur sérvitrings í mín eyru. En auðvita gleðjast vantrúrmenn yfir þessu, en ég held aftur á móti að Steindór hafi margt þarfar að gera.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/07/07 14:58 #

Hver er tilgangur svona athugasemda Guðjón? Hefurðu ekkert betra að gera?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 24/07/07 15:03 #

Mig grunar að Guðjón sé mjög gramur og sár út í að til sé lífskoðun sem er á öndverðu meiði við hans eigin lífskoðun.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/07/07 15:06 #

Það er algjörlega út í hött að halda því fram að þjóðkrikjan leggir áherslu á yfirvofandi heimsendi.

Já, en heldur Steindór því fram?


Steindór J. Erlingsson - 24/07/07 15:19 #

Ég held að tími sé kominn að ég láti aðeins heyra í mér. Það er rangt hjá Guðjóni að halda því fram að með þessari grein sé ég að halda því fram að Þjóðkirkjan leggi ofuráherslu á yfirvofandi heimsendi. Ég er einungis að benda almenningi á að heimsendatrú, eins fáránleg og hún hljómar í eyrum skynsams fólks, sé hluti af heimsmynd Þjóðkirkjunnar. Þetta auglýsir kirkjan ekki oft nú til dags.


mofi - 24/07/07 17:15 #

Vona að Mofi fá bestu sæti.

Vá, takk :)

En Biblían boðar miklu frekar nýjann himinn og nýja jörð þar sem engin þjáning eða dauði er til. Það er ekki heimsendir að mínu mati, aðeins endir illskunnar og allra þeirra sem henni tilheyra.


Steindór J. Erlingsson - 24/07/07 17:32 #

Vantrúarmenn, er það ekki einsdæmi að Mofi sé sammála efni greinar sem birtist á vantrú?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 25/07/07 04:38 #

Reyndar hefur Mofi tekið undir það að trúboð eigi ekki heima í opinberum skólum. Gallinn er sá að líffræðikennsla fellur undir trúboð í hans orðabók.


mofi - 25/07/07 11:26 #

Steindór Vantrúarmenn, er það ekki einsdæmi að Mofi sé sammála efni greinar sem birtist á vantrú?

Ég missti alveg af því að ég hafði verið sammála þessari grein :/

En ég hef alveg verið sammála Vantrú og fundist margt mjög gott sem hefur verið birt hérna eins og QLink hálsmen, miðlar, áhrif hugsana á vatn, græðara skírteinin, eyrnakerti, bowen tækni og DNA heilun og margt fleira. Mér finnst vantrú vera til mikillar fyrirmyndir í mjög mörgum málefnum og hefur oft látið mig skammast mín fyrir mína kirkju fyrir að standa ekki upp á móti mörgu af þessu bulli. Væri t.d. gaman að hún myndi gagnrýna vinaleiðina og alls konar trúboð í skólum, þar á meðal auðvitað guðleysi og efnishyggju.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.