Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Viðheldur fáfræði kristninni?

Fæst okkar hafa lesið Biblíuna spjaldanna á milli. Byggir vitneskja okkar á ritinu því yfirleitt á námsefninu sem lagt var fyrir okkur í grunnskóla og fermingarfræðslunni, auk þess sem prestar segja frá í messum. En hversu áreiðanlegt er þetta efni? Í ljósi þess að grunnskólalög kveða svo á um að kristinfræðslan í skólum landsins eigi ekki að vera trúboð getum við þá treyst því að höfundar efnisins, sem yfirleitt eru þjónar kirkjunnar, styðjist við það sem best er vitað í fræðunum? Flest okkar myndu eflaust svara þessari spurningu játandi enda hafa þjónar kirkjunnar margra ára háskólanám að baki. Að undanförnu hef ég hins vegar gluggað í fjórar bækur sem benda til þess að sú sé ekki raunin.

Þrjú þessara alþýðlegu fræðirita eru eftir bandaríska guðfræðiprófessorinn Bart D. Ehrman. Í bókinni Jesus: Apocalyptic Prophet of the New Millenium notar hann stranga aðferðafræði sagnfræðinnar til þess að meta heimildagildi Nýja Testamentisins, sem leiðir í ljós að Jesú var nokkuð líklega til. Ef þessari sömu aðferðafræði er beitt á upprisusöguna kolfellur hún hins vegar á prófinu, en eins og Ehrman bendir á er manni frjálst að trúa þessari sögu en „rökin þín eru guðfræðileg eða persónuleg, ekki sagnfræðileg“. Óvæntasta niðurstaða hans er þó sú að Jesús var nokkuð örugglega heimsendaspámaður, sem trúði því að heimsendir væri yfirvofandi og þó siðaboðskapur hans hafi að mörgu leyti verið róttækur virðist hann vegna þessarar trúar ekkert hafa kært sig um hefðbundin fjölskyldugildi. Þetta er ekki einkaskoðun Ehrmans því hann segir að alla síðustu öld hafi þetta verið sú mynd af Jesú sem líklega meirihluti fræðimanna hafi aðhyllst, „að minnsta kosti í Þýskalandi og Bandaríkjunum“.

Í bókinni Lost Christianities: The Battles for Scripture and the Faiths We Never Knew sýnir Ehrman okkur að fyrstu aldirnar eftir dauða Jesú áttu sér stað miklar deilur um hvers eðlis hann var í raun og veru. Þeir sem unnu þessa deilu á fjórðu öld settu saman Nýja Testamentið og dæmdu allar aðrar skoðanir sem villutrú og eyddu öllum ritum sem þeim tengdust. „Í kjölfar þessa“, segir Ehrman, „sem nokkurs konar náðarhögg, endurskrifuðu sigurvegararnir söguna af deilunni, og létu líta út fyrir að nánast engar deilur hafi átt sér stað“. Ein afleiðing þessara deilna var að biblíuhandritunum var breytt m.a. til þess að þjóna þessum mismunandi skoðunum. Þessum anga sögunnar lýsir Ehrman í bókinni Misquoting Jesus: The Story Behind Who Changed the Bible and Why, sem var ein af metsölubókum ársins 2005 í Bandaríkjunum. Þar bendir hann til að mynda á að síðustu 12 versin í Markúsarguðspjallinu, sem er elst guðspjallanna, eru seinni tíma viðbót við handritin og að ein frægasta saga Biblíunnar, „sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana“, sé einnig seinni tíma viðbót.

Að lokum er rétt að nefna bókina „The Bible Unearthed: Archaeology’s New Vision of Ancient Israel and the Origin of its Sacred Texts, þar sem fornleifafræðingarnir Israel Finkelstein og Neil Asher Silberman greina frá því að nýlegar rannsóknir þeirra og annarra fornleifafræðinga hafi leitt til þess að „alvarlegar efasemdir séu uppi um sögulegan grundvöll frægra biblíusagna eins og brottför gyðinga frá Egyptalandi, hertöku Kanaanlands og hin mikilfenglegu heimsveldi Davíðs og Salómon“.

Ekkert af því sem hér hefur verið greint frá þjónar hagsmunum Þjóðkirkjunnar, sem er í mun að viðhalda sýndarmyndinni sem kirkjan hefur í gegnum aldirnar dregið upp til að viðhalda kristinni trú. Til marks um þetta tjáði einn af sóknarprestum höfuðborgarsvæðisins mér nýlega að þegar hann útskrifaðist úr guðfræðideildinni hafi honum og samnemendum hans verið tjáð að þegar þeir hæfu þjónustu í prestaköllunum ættu þeir ekki að opinbera fyrir almenningi allar þær gagnrýnu hugmyndir sem þeir höfðu lært í námi sínu. Af þessu má ljóst vera að prestar landsins eru í svipaðri stöðu og loftlagsfræðingar sem eru fjármagnaðir af olíufélögum heimsins, því það þjónar ekki hagsmunum þessara einstaklinga að skaða málstað stofnanna sem þeir vinna fyrir. Það má því færa rök fyrir því að kristni hafi að einhverju leyti verið viðhaldið í gegnum aldirnar með vísvitandi blekkingum og virðist þeim blekkingarleik enn haldið áfram í námsefninu sem borið er á borð fyrir börnin okkar. Eins og segir á ensku „Ignorance is a Bliss“.

[Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag og á Vísisvefnum]

Steindór J. Erlingsson 16.07.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birta - 16/07/07 19:56 #

Bart D. Ehrman er mjög áhugaverður höfundur. Sú staðreynd að endirinn í Markúsarguðspjalli, og "sá yðar sem syndlaus er" sagan, sem hann fjallar um í "Misquoting Jesus", séu seinni tíma viðbætur, átti stóran þátt í fráhvarfi mínu frá kristinni trú. Eftir að hafa lesið þetta úr "Misquoting Jesus" (reyndar rilvitnun í "Misquoting Jesus" í annarri bók), var ég enn kristin, en hafnaði í fyrsta skipti þeirri hugmynd að guðspjöllin væru óskeikul - sem var mikilvægt skref í átt að trúleysinu.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 16/07/07 22:25 #

Gaman að heyra Birta. :) Ég á mér svipaða sögu! Það var reyndar bókin "The Jesus Mysteries: Was the "Original Jesus" a Pagan God?" eftir Thimothy Freke -sem ýtti mér endanlega yfir trúarvitleysuna.

Ég hef reyndar alltaf litið á guðspjöllin mjög skeptískum augum. Undrast þversagnirnar í þeim, goðsögulíkindin og endatímakenningarnar. það var svo síðar að ég uppgötvaði að ljótustu glæpir mannanna gegn hvor öðrum eru yfirleitt innblásnir af trúarritum hverskonar. Ekki síst biblíunni. Ef guð er svona frábær og leiðbeiningar hans til mannana eru svona frábær líka. Hversvegna er alltaf verið að drepa, pína og misþyrma í skjóli bibíunnar?

Nóg um það. Mér þykir gaman að heyra að þú ert komin í góða liðið. :)

Nú þarftu bara að ganga í Vantrúnna góðu!


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 16/07/07 22:40 #

Góður pistill.

Ég er ein af þeim sem las biblíusögurnar sem barn og fannst þær mjög fallegar margar en var voða leið yfir hvað fólkið var vont við Jesú og grét sáran yfir örlögum hans.

Síðan eru auðvitað liðin mörg ár :) og ég hef lesið biblíuna alla og finnst hún mætti missa sín. Hrikalegt að það skuli enn vera svona mikið af fólki sem lítur á hana sem lagabók skrifaða af Guði en ekki trúarrit skrifað af mönnum fyrir þúsundum ára. Skrítið hvað fólk er blint og bara hrætt við að snúa frá því að vera njörvað niður í trúarrit til að geta lifað lífinu. Eins og heimurinn farist og allt fari úr böndunum ef biblíunni eða öðrum trúarritum er sleppt. Þetta eru bara fjötrar.

Síðan er fólkið sem telur sig trúað, en les aldrei biblíuna en tekur góðar og gildar þær túlkanir sem ýmsir guðsmenn hafa komið með á henni og fordóma í skjóli ritningarinnar. Þetta fólk þarf að vitkast og fara að taka sjálfstæðar ákvarðanir ekkert síður en bókstafstrúarfólkið sem les biblíuna daglega.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 16/07/07 23:02 #

Síðan er fólkið sem telur sig trúað, en les aldrei biblíuna en tekur góðar og gildar þær túlkanir sem ýmsir guðsmenn hafa komið með á henni og fordóma í skjóli ritningarinnar. Þetta fólk þarf að vitkast og fara að taka sjálfstæðar ákvarðanir ekkert síður en bókstafstrúarfólkið sem les biblíuna daglega.

Ég segi enn og aftur. Besta leiðin til að gerast trúleysingi er að lesa biblíuna.

PS Þetta er flott grein hjá Steindóri. -Hann kemur alltaf sterkur inn.


Gimbi - 16/07/07 23:28 #

Ég vil líka þakka Steindóri fyrir þessa grein.

Ég vona að einhver prestanna sem kíkja hér komi fram með andmæli.

Það er þeirra að svara fyrir hvort þeir séu aðeins keyptir leiguliðar aldagamallar stofnunar. Þ.e.a.s. atvinnu BÍP-góðmenni að rétta bragðbestu molana að þjóðinni.

BÍP = bland í poka...


Guðjón - 17/07/07 14:22 #

Bart D. Ehrman er fyrirverandi bókstafstruarmaður sem varð fyrir áfalli þegar hann fór að rannsaka nýjatestamenntið.

Ef menn lita á nýjateksta menntið sem vitisburð um krist fremur en bóksarflega rétta frásögn um hann horfi málið öðruvísi við.

Bart D. Ehrman er ekki eini guðfræðingurinn sem hefur rannsakað nýjatestamenntið og margir þeirra eru trúmenn áfram þó þeir rannsakað það með sama hætti og hann hefur gert.

Trú þarf ekki endilega að byggja á vanþekkingu.


Kári Rafn Karlsson - 17/07/07 16:57 #

Nei, hún getur líka byggst á þvermóðsku ;)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/07/07 17:02 #

Ef menn lita á nýjateksta menntið sem vitisburð um krist fremur en bóksarflega rétta frásögn um hann horfi málið öðruvísi við.

Nú væri gaman að fá að vita hvað þú átt við með orðunum "vitnisburð um krist". Þýðir þetta: "rit sem fjalla um Jesú"? Ef ekki, hvað þá?


Guðjón - 17/07/07 18:06 #

Varðandi það að trú byggist á þrjósku, þá er það að vissu leyti alveg rétt.

Það segir ekki alla söguna vegna þess að gagnrýi Ehmann beinist að atriðum sem eru engar fréttir fyir mig. Ég hef aldrei litið svo á að NT væri óskeikul frásögn um Jessús. Ég hef mjög lengi talið að það innihéldi misáreiðanlega frásagnir um Krist.

Já NT er bók þar sem fylgendur Krist fjalla um líf hans.

Trúmenn verð eins og aðrir að vera menn til þess horfast í augu við veruleikan eins og hann er. Í tilfelli Ehmann er bara ekki um neitt nýtt að ræða og þar sem ég hef aldrei verðið bókstafstrúarmaður eins og hann var valda uppgötvanir hans mér ekki neinum trúarlegum vanda.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/07/07 21:00 #

Það segir ekki alla söguna vegna þess að gagnrýi Ehmann beinist að atriðum sem eru engar fréttir fyir mig. Ég hef aldrei litið svo á að NT væri óskeikul frásögn um Jessús.

Þú verður að athuga það að hann er ekki eingöngu að benda á það, ertu til dæmis sáttur við það að Jesús hafi líklega verið misheppnaður heimsendaspámaður? Veldur það þér ekki "neinum trúarlegum vanda"?


Guðjón - 18/07/07 09:30 #

Ég hef ekki lesið bók Ehman -Þess vegna get ég ekki farið út í rökræðu um þetta atriði

Hvernig getur þú haldið því fram að Jésús hafi verið misheppnaður heimsendaspámaður.

Jésús tókst að koma á fót hreyfingu sem átti eftir að breyta veröldini.

Það er kraftverk sem verður ekki tekið frá honum að mínu mati

Efsemdamaðurinn getur haldið því fram að það hafi verið hrein tilviljun að kristnin sló í gegn, en því verður ekki á móti mælt að líkurnar á því að spámaður á borð við Jesús tækist slíkt voru hverfandi

Það er misskilingur að það hafi ekki orðið heimsendi- sá heimur sem Jesús kom ínní leið undir lok og nýir tímar runnu upp ekki síst fyrri áhrif frá þeirri trúarhreyfingu sem hann kom á fót.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 18/07/07 14:29 #

Jésús tókst að koma á fót hreyfingu sem átti eftir að breyta veröldini. Það er kraftverk sem verður ekki tekið frá honum að mínu mati Efsemdamaðurinn getur haldið því fram að það hafi verið hrein tilviljun að kristnin sló í gegn, en því verður ekki á móti mælt að líkurnar á því að spámaður á borð við Jesús tækist slíkt voru hverfandi

Hvað á það að sanna að kristnin hafi slegið í gegn? Að Jesús sé the real thing?


Guðjón - 18/07/07 15:10 #

Það að krisni sló í gegn er merkilegt. Auðvita er hægt að halda fram að það hafi verið algjör tilviljun. En það er líka hægt að halda því fram að það hafi verið eitthvða við kenningu Jesús sem tryggði það.

Þetta er ein af þeim spurningum sem hver og einnn verður að svara sjálfur.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 18/07/07 15:26 #

Ég hef ekki lesið bók Ehman -Þess vegna get ég ekki farið út í rökræðu um þetta atriði

Þannig að það er ekki rétt að þessi gagnrýni séu engar fréttir fyrir þig. Annars mæli ég eindregið með Jesus: Apocalyptic Prophet of the New Millenium sem Steindór fjallar um. Hún er til á Landsbókasafninu.

Hvernig getur þú haldið því fram að Jésús hafi verið misheppnaður heimsendaspámaður.

Þegar ég segi að hann sé misheppnaður á ég við að heimurninn endaði ekki. Ég var ekki að halda neinu fram um vinsældir trúarhreyfinga sem gera tilkall til þess að vera arftakar hans.

Það er misskilingur að það hafi ekki orðið heimsendi- sá heimur sem Jesús kom ínní leið undir lok og nýir tímar runnu upp ekki síst fyrri áhrif frá þeirri trúarhreyfingu sem hann kom á fót.

Ef þú lest lýsingar Jesú á heimsendi (sbr. Mt 13) þá hefur heimsendir augljóslega ekki komið. Það er mjög algengt hjá heimsendaköltum að breyta misheppnuðum heimsendaspám í "andlega" hluti þegar þeir rætast ekki (t.d. hjá aðventistum og vottum)


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 18/07/07 15:36 #

Það væri gaman að setja annað nafn í staðinn fyrir Jesú:

„Múhameð tókst að koma á fót hreyfingu sem átti eftir að breyta veröldinni.

Það er kraftverk sem verður ekki tekið frá honum að mínu mati.

Efsemdamaðurinn getur haldið því fram að það hafi verið hrein tilviljun að íslam sló í gegn, en því verður ekki á móti mælt að líkurnar á því að spámaður á borð við Múhameð tækist slíkt voru hverfandi.“


siggi - 18/07/07 16:14 #

[Athugasemd færð á spjallið - Hjalti]


Guðjón - 18/07/07 20:24 #

Ég er sammála því Áseir.


Guðjón - 18/07/07 20:35 #

Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki talað skýrar Hjalti og ég þakka þér fyrir ábendinguna um hvar hægt er að nálgast þessa bók sem þú talar um.

Það breytir þvi ekki að hvað sem maðurinn segir þá er það ekki nýtt fyrir mér að NT er ekki endilega áreiðanleg heimild.

Það er akveg rétt hjá þér að túlkun mín er mjög umdeilanleg en þú verður að athuga að hún er fyrst og fremst fyri mig sjálfan og ég hef endanlegt úrskurðavald yfir eigin skoðunum sem verður ekki áfríjað en ég geri mér jafnfram vel ljóst að úrskurður min gildir fyrir mig einan


Guðjón - 18/07/07 20:39 #

Ég biðst afsökunar þetta átti auðvita að vera Ásgeir. Það er alveg ljóst að saga Muhameds er ekki síður ævintýraleg en saga Jesús.


Valur Bjarnason - 19/07/07 09:20 #

Ég er sammála því að besta leiðin til að sannfærast í trúleysi sé að lesa biblíuna. Þar sem hún er ekki alltof skemmtileg lesning þá setti ég mér fyrir 50 bls í einu, og þegar ég hafði lokið við þær þá setti ég mér aðrar 50 til viðbótar og svo koll af kolli þar til yfir lauk. Þversagnir og ævintýrastíllinn leyndi sér ekki og það frá fyrstu blaðsíðu. Trú ef einhver var áður en ég las bókina stóru þá er hún ekki til staðar lengur. Ég er einnig sammála því að það er hreint út sagt óþolandi að þessari vitleysu skuli enn þann dag í dag vera haldið fram, og það er einnig óþolandi að börnunum okkar séu kenndar 2000 ára gamlar lygasögur í skólum landsins og allt með stuðningi skólastjórnenda. Burt með allann kristinn áróður úr skólunum! Kennum börnunum okkar frekar eitthvað nytsamlegt.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 19/07/07 13:40 #

Ágæti Valur. Gaman að heyra áð nú notaðir sama hjálpartæki og ég til þess að gerast trúleysingi. Fannst þér ekki gaman af 2. mósebók? Þar kemur fram að það sé andstætt guði að borða humar (og allan annan skelfisk) Nú svo má minnast á hvað skal gera við stúkur sem eru ekki hreinar meyjar á brúðkaupsnóttinni. Það á að grýta þær og draga líkið af dyrastaf föður hennar.....

Þvílíkur guð....


Andri - 19/07/07 14:20 #

Hjá mér var það sambland af eigin menntun og fáfræði annarra sem varð til þess að ég varð trúlaus...

Áhugi minn á fornleifafræði og risaeðlum stangaðist bara svo hroðalega mikið á Adam og Evu sögurnar sem vinur minn hékk í að ég hreinlega komst ekki hjá því að komast að einarðri niðurstöðu í þessum málum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/07/07 08:36 #

Sigurður Pálsson svarar þessari grein í Fréttablaðinu í dag.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/07/07 09:42 #

Í Fréttablaðinu í dag er önnur svargrein, í þetta skipti er það Ágúst Valgarð Ólafsson tölvunarfræðingur sem svarar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.